19.8.2013 | 16:42
Trússhestar ESB
Þeir eru til hérlendis, sem binda vilja trúss sitt traustum böndum við Evrópusambandið, ESB, þó að lítið fari nú fyrir röksemdafærslunni, og líkist þessi afstaða núna meir nauðhyggju en nokkru öðru.
Þó að sjónarmið þessarar nauðhyggju hafi orðið eftirminnilega undir í Alþingiskosningunum í apríl 2013, er fólk þessarar hyggju nú síðsumars komið á kreik og virðist nú sem fyrst vilja framkalla þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn að ESB. Sumarið 2009 hafnaði þó ríkisstjórn umsóknarinnar þjóðaratkvæðagreiðslu um hana, og staðfesti þingmeirihluti hennar þá afstöðu. Var þó ólíkt meira tilefni til slíkrar atkvæðagreiðslu þá við þau vatnaskil í utanríkismálastefnu Íslands að sækja um aðild að ESB en er nú, þegar málið er í biðstöðu, og önnur brýnni úrlausnarefni ættu að njóta forgangs.
Í samræmi við stefnu beggja stjórnarflokkanna í þingkosningunum í vor hefur hlé verið gert á viðræðum. Með því er stórfé sparað fyrir tóman ríkiskassann. Það lá á því að stöðva þetta ferli, af því að það var allt rekið á röngum forsendum. Alþingi hefur aldrei heimilað aðlögun þjóðfélagsins að ESB umfram það, sem nauðsynlegt er vegna aðildarinnar að EES. Það var hins vegar hafin kostnaðarsöm aðlögun í algeru heimildarleysi af fyrrverandi utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni. Nú vilja trússhestar ESB, hérlendir, fá þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort ganga eigi þessa braut til enda eða slíta viðræðunum !
Það er óskiljanlegt, hvernig téðum trússhestum dettur í hug að setja þetta mál á oddinn nú. Ísland á í harðvítugri auðlindabaráttu við ESB, sem hefur krystallað hagsmunaárekstra okkar við ESB, sem ekki er unnt að leysa með inngöngu. Þvert á móti er flestum ljóst, að innan veggja Berlaymont yrðum við strax ofurliði borin og kefluð á höndum og fótum, ef svo má að orði komast. Við hefðum þá engin tök á að gera bandalag við þjóðir utan ESB né að neyta réttar okkar fyrir alþjóðlegum stofnunum sem sjálfstætt strandríki að alþjóðalögum.
Ástandið innan ESB er í raun þannig nú, að framtíð þess er meiri óvissu undirorpin en nokkru sinni fyrr. Enginn veit, hvað ESB mun standa fyrir eftir 2-3 ár. Allir þekkja vandamál evrusvæðisins, þar sem gjaldþrot blasir við nokkrum þjóðum, þrátt fyrir stórfelldar millifærslur úr neyðarsjóðum, sem mikil óánægja er með hjá greiðsluþjóðunum. Að vilja nú hefja baráttu fyrir aðlögun að þessu "apparati" er ótrúlegt stjórnmálalegt glappaskot og með ólíkindum og býður ekki upp á neitt annað en niðurlægjandi útreið aðildarsinna, svo svakalega, að líklega mun enginn framar voga sér að leggja slíkt aðildarferli aftur til. Hvers vegna þessi ásókn eftir afhroði ?
Svo virðist sem illa farin stjórnarandstaðan sé í örvæntingu að reyna að koma höggi á stjórnarflokkana með þessu athæfi og að draga athyglina frá ömurlegum viðskilnaði sínum og gjaldþrot vinstri stefnunnar. Það er þó borin von, að stjórnarandstaðan eigi erindi sem erfiði. Stjórnarandstaðan mun væntanlega á haustþinginu leggja til, að aðlögunarferlinu verði fram haldið. E.t.v. verður hún tekin á orðinu, og kosningar látnar fara fram samhliða sveitarstjórnarkosningum 2014, þó að það sé ruddalegt gagnvart sveitarstjórnarmönnum, og þess vegna slæmur kostur. Mun betra er að kjósa um þetta samhliða Alþingiskosningum, en í sparnaðarskyni ætti að forðast að halda um þetta sérkosningar.
Formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hefur talið sér sæma að tala um misvísandi skilaboð frá stjórnarflokkunum um þetta mál. Þarna er hún enn eins og álfur út úr hól í stjórnmálunum. 16. júlí 2009 greiddi hún atkvæði á Alþingi með umsókn um aðild að ESB, en lofaði því samtímis að framfylgja stefnu flokks sins og berjast gegn aðild landsins að ESB. Hvar hefur gætt meiri ruglanda hjá stjórnmálamönnum en einmitt þarna ? Forysta flokksins, þar sem þáverandi menntamálaráðherra var, glataði við þetta öllum trúverðugleika. Um þetta skrifaði Héraðsgoðinn, Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi ráðherra Alþýðubandalagsins, grein í Morgunblaðið 16. ágúst 2013, "Evrópulest að nálgast leiðarenda". Í stuttu máli verður forysta VG, þ.m.t. Katrín Jakobsdóttir, formaður,ekki snupruð með faglegri hætti en gert er í þessari grein. Réttara væri þó að segja, að hirtingin hafi jafnast á við flokkslega flengingu:
"Með þessu var afhjúpuð sú blekking (átt er við IPA, innsk. BJo), sem íslensk stjórnvöld höfðu haldið að almenningi, að hér væru á ferðinni samningaviðræður eða áþreifingar, án breytinga á íslenskri stjórnsýslu. Samt var reynt í lengstu lög af talsmönnum fyrrverandi ríkisstjórnar, ekki síst af forystu VG, að afneita aðlögunarferlinu, sem síðan hefur verið á fullri ferð sem hluti af undirbúningi fyrir aðild Íslands að ESB. Pólitískar afleiðingar þessarar leikfléttu birtust m.a. í hörðum átökum innan VG, þar sem Jóni Bjarnasyni var vísað á dyr sem ráðherra. ... Núverandi ríkisstjórn gerir rétt í að stöðva það ólánsferli, sem staðið hefur yfir í 4 ár og sem frá upphafi hefur verið rekið á fölskum forsendum, þ.e. að vilji Íslendinga stæði til aðildar að ESB. Þess í stað þarf að rækta góð samskipti Íslands við ESB og aðildarríkja þess og taka fljótlega EES-samninginn til löngu tímabærrar endurskoðunar. VG, sem til þessa hefur í orði lýst sig andvígt aðild að Evrópusambandinu á enn þann kost að losa sig úr faðmlagi Samfylkingarinnar. En þá þarf VG líka að kasta fyrir róða leiðarvísinum frá síðasta landsfundi, sem segir, að sem fyrst beri að semja um aðild. Fyrir stjórnmálahreyfingu er erfitt að glíma lengi við geðrof, sem ekki getur endað, nema með ósköpum."
"Geðrof" skal hún heita, stefna VG undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Ætlar hún að losa sig úr bænvænu stjórnmálalegu faðmlagi eða verða áfram stjórnmálalegur "álfur út úr hól" ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Fjölmiðlar | Facebook
Athugasemdir
Hvað olli að Katrín komst í forystu flokksins? Og Steingrímur? Ekki neitt að marka neitt sem þau segja, ekki frekar en Jóhönnu og Össur. Hvað á jörðinni vill fólk í fullvalda ríki og ekki á meginlandinu, inn í þetta gerræðislega ríkjasamband? Trojuhestar og hinir sem skilja ekki hættuna.
Elle_, 20.8.2013 kl. 18:22
Sæl, Elle;
Ég hallast að geðrofskenningu Hjörleifs. Þau eru kamelljón, bera kápuna á báðum öxlum, og er þess vegna ekki treystandi fyrir horn. Katrín virðist enga pólitíska sannfæringu hafa, en ryður upp úr sér utanað lærðum tuggum. Í huga slíks fólks er allt falt fyrir völdin. Það er rétt hjá þér að mínu mati, að áhangendur aðildar Íslands að ESB skiptast í Trójuhesta og þá, sem hefur orðið á í messunni við sína áhættugreiningu fyrir landið, þ.e. talið gallana of léttvæga og e.t.v. miklað fyrir sér kostina. "Kalt mat" gefur aðra niðurstöðu.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 20.8.2013 kl. 18:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.