17.10.2013 | 21:10
Ríkisbúskapur í járnum
Loksins virðist vitræn yfirstjórn vera komin á ríkisfjármál og efnahagsmál, ef Svörtuloftin við Arnarhól eru frátalin, en þar ríkir enn Trotzkyistinn, fyrrverandi, sem stóð í harðri eigin kjarabaráttu við bankaráðið sitt, af því að Jóhanna, fyrrverandi forsætisráðherra (ekki in spe), virtist hafa lokkað hann frá Basel með gylliboðum. Seðlabankasaga landsins hefur enn ekki verið rituð, en verður áreiðanlega hryllingur (thriller).
Nú skiptir öllu máli að lækka vaxtabyrði ríkissjóðs, sem fór stöðugt vaxandi undir vinstri stjórninni, Axarskaptinu, enda vann hún hrein skemmdarverk á hagkerfinu, svo að aldrei var von á viðsnúningi úr þeim ranni, hvorki fyrir heimilin, fyrirtækin, sveitarfélögin né ríkissjóð.
Meginskýringin á langvinnri kreppu og síðan stöðnun í landinu er skattpíningarárátta vinstri mannanna í axarskaptastjórninni 2009-2013. Hún drap allan hvata til fjárfestinga, neyzlu, sparnaðar og ráðninga nýs starfsfólks. Nú er svo komið, að Laugarvatnsstjórnin verður að feta einstigi til baka og hefur ekki bolmagn til snöggra og verulegra skattalækkana, en þær verða að koma, ef hagkerfið á að ranka úr rotinu. Vegna ládeyðu í hagkerfi heimsins verður erfitt að ná hagvexti hérlendis á strik (yfir 3,0 %) á næstunni, og þetta mun gera Laugarvatnsstjórninni afar erfitt um vik. T.d. er nú talið (AGS), að hagvöxtur hérlendis verði ekki 2,7 % árið 2014, eins og Hagstofan spáir, heldur fremur 1,7 %. 1,0 % jafngildir um 18 milljörðum kr, sem gæti þýtt tekjutap fyrir ríkið um 7 milljarða kr. Það verður að vega upp á móti þessu tekjutapi ríkissjóðs með samdrætti útgjalda. Aukin skattheimta mundi aðeins draga enn meira úr hagvexti, svo að sú leið vinstri manna er ófær við núverandi aðstæður.
Vaxtakostnaður ríkissjóðs nemur nú tvöföldum sjúkrahúsakostnaði í landinu og mun fara hækkandi vegna hækkandi verðs í fjármagni, sem spáð er á næstunni, nema ríkisstjórnin grípi í taumana, sem hún reynir að gera. Þegar tekizt hefur að helminga þennan vaxtakostnað ríkissjóðs með því að vinna á skuldastabbanum, mun myndast svigrúm til framkvæmda við nýtt húsnæði Landspítala - Háskólasjúkrahúss og fjölmargt fleira nytsamlegt, en þangað til hefur sparnaður í ríkisrekstri algeran forgang. Þetta er ekki séríslenzk stefna; þetta er línan frá Berlín, Lundúnum og víðar í norðanverðri Evrópu. Ekki er hægt að segja, að þetta sé línan úr Hvíta húsinu í Washington, því að þar ríkir greiðslustöðvun hjá alríkinu, þegar þetta er skrifað, vegna ágreinings um útgjaldahlið fjárlaganna. Vinstri mennirnir í Axarskaptinu skáru niður fé til sjúkrageirans og fækkuðu þar starfsfólki, en röðuðu gæludýrum sínum á ríkisjötuna og stofnuðu til margvíslegra, fánýtra gæluverkefna. Slík er forgangsröðun vinstri manna á Alþingi þá og nú.
Téð helmingun vaxtakostnaðar þarf að gerast sem hraðast. Þess vegna er jafnvægisstefnan í fjárlagafrumvarpinu skynsamleg. Fjármálaráðherra fetar sig hægt inn á braut skattalækkana. Vendipunktur hefur orðið, sem vonandi mun hafa örvandi áhrif á landsmenn til fjárfestinga. Það er tóm vitleysa hjá stjórnarandstöðunni að setja jafnaðarmerki á milli áætlaðrar upphæðar skattalækkunarinnar og tekjutaps ríkissjóðs. Stjórnarandstaðan í einfeldni sinni talar, eins og breyting á skattheimtu hafi engin áhrif á skattstofnana. Þetta er ofur þröngsýnt sjónarmið. Skattahækkun í háskattalandi, eins og hér, minnkar skattstofnana og eyðir störfum. Skattalækkun virkar öfugt. Skattgreiðendur munu ekki stinga fé sínu, sem annars færi til ríkisins, undir kodda. Sumt af þessu fé fer til aukins sparnaðar og verður þannig til ráðstöfunar fyrir fjárfesta og er andlag fjármagnstekjuskatts, en megnið mun fara í aukna neyzlu og fjárfestingar, sem annars hefðu ekki farið af stað og eru andlag alls konar skattheimtu. Féð mun þannig streyma um hagkerfið og að miklu leyti lenda hjá hinu opinbera aftur. Þetta vilja vinstri menn ekki skilja.
Lilja Rafney, þingmaður VG, kórónar vitleysuna. Hún, sem í 4 ár lyfti ekki litla fingri til stuðnings sjúkrageiranum við skiptingu skattfjár, leggur nú til, að lagður verði viðbótar skattur á sjávarútveginn og féð eyrnamerkt sjúkrageiranum.
Eins og framast verður talið hagkvæmt fyrir ríkið, þarf að selja ríkiseignir til að flýta fyrir niðurgreiðslum skulda. Þar má nefna u.þ.b. þriðjung í Landsvirkjun, alla smáhluti í fjármálastofnunum og a.m.k. þriðjung í Landsbankanum. Bankakerfið makar krókinn og heimili og fyrirtæki stynja undan fjármagnskostnaðinum. Allt bendir til, að raunveruleg samkeppni sé af skornum skammti. Erlendir eignaraðilar með reynslu af bankarekstri og meiri langtímahagsmuni hérlendis en kröfuhafar bankanna gætu e.t.v. hresst upp á ástandið.
Eignarhaldið á bönkunum nú er annarlegt, enda undan rifjum hins gifturúna, þreytta og óhæfa fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingríms Jóhanns Sigfússonar, runnið. Hann færði kröfuhöfum föllnu bankanna bróðurpartinn í nýju bönkunum, Íslandsbanka og Aríon, ásamt skuldabréfi í Landsbankanum að andvirði ISK 300 milljörðum í erlendri mynt. Hér var um þvílík embættisafglöp að ræða að hálfu téðs ráðherra, sem hafa grafalvarleg áhrif á stöðu íslenzka þjóðarbúsins, eins og kunnugt er, að vart verður við unað án rannsóknar á refsiábyrgð. Grafalvarleg mistök þessa annarlega ráðherra voru legíó, og gjörningar hans gagnvart fjármálakerfinu kalla ekki síður á Landsdóm en rannsóknarskýrsla Alþingis á sinni tíð kallaði á Landsdóm yfir Geir Hilmari. Hvers vegna þvingaði Steingrímur ekki slitastjórnirnar í slitameðferð á Kaupþingi, Glitni og Landsbankanum, og hvers vegna knúði hann ekki fram gjaldþrot Íbúðalánasjóðs ? Ef þetta hefði verið gert og hreinsað ærlega til í fjármálageiranum, þá væri öðru vísi umhorfs í íslenzka hagkerfinu, og þá væru ekki lengur neinar forsendur fyrir gjaldeyrishöftum.
Laugarvatnsstjórnin hefur hækkað skattheimtu af fjármálastofnunum um 14 milljarða kr, breytt óframkvæmanlegri, ólögmætri og afar íþyngjandi skattheimtu af sjávarútveginum og lækkað hann í fyrsta áfanga um 3 milljarða. Þá hefur hún hafið vegferð lækkunar tryggingagjalds og tekjuskatts af flestum launþegum. Allar skattalækkanirnar eiga að örva atvinnuvegina, fjölga launþegum í vinnu og auka fjárfestingar, nokkuð sem vinstra liðið skilur ekki og beitir sér gegn. Vinstra liðið er æft yfir því, að snúið hefur verið af braut skattahækkana, en skattaáþján sligar enn hagkerfið, svo að lítill hvati er enn til að fjölga störfum. Fjöldi fólks á vinnumarkaði er enn óeðlilega lágur, enda margir án vinnu og án réttar til atvinnuleysisbóta eða enn búsettir erlendis. Hvatinn núna er meir fólginn í sinnaskiptum stjórnvalda og nýrri stefnumörkun í anda einkaframtaks en afnámi áþjánarinnar. Atgervisflóttinn hefur ekki verið stöðvaður, eins og hryllingssögur af læknastéttinni bera vitni um.
Þrátt fyrir lækkanirnar eiga skattheimtubreytingar að skila ríkissjóði 7 milljarða kr tekjuauka. Munar þar mest um breikkun skattstofns bankaskattsins, sem nú spannar slitastjórnir föllnu bankanna. Icesave-forkólfur nýfallinnar vinstri stjórnar, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Steingrímur Jóhann Sigfússon, SJS, dekraði fjármálageirann, eins og gjörningar hans í Icesave, SpKef, Byr, Sjóvá, VBS, skuldabréf Landsbanka í gjaldeyri og rándýr og óþörf lántaka hjá AGS, o.fl. mál sýna. SJS hefur verið hafður að ginningarfífli af fjármálaöflunum og talin trú um, að ekki væri hægt að skattleggja þrotabúin. Nú reynir hann að bera í bætifláka fyrir dáðleysi sitt og og segir:
"var þetta skoðað og lagt til hliðar sem algerlega óframkvæmanlegt á árunum 2009 og 2010 vegna þess, að skattaandlagið var ekki til".
Þetta er einhver aumasti kattarþvottur, sem sézt hefur. Þrotabú bankanna þriggja hafa af skrýtnum ástæðum verið undanþegin bankasköttum þrátt fyrir eignir upp á um ISK 2700 milljarða og tekjur af eignum kröfuhafa gömlu bankanna í nýju bönkunum upp á nokkur hundruð milljarða íslenzkra króna. Skatturinn, sem nú er lagður á féð, sem slitastjórnirnar sýsla með, er 0,145 %, en til samanburðar getur fasteignaskattur lögaðila numið 1,65 %. Í ljósi þess, að kröfuhafarnir hafa stórtekjur af nýju bönkunum, er þessi skattheimta hreint smáræði. Samt heyktist "sameignarsinninn" ,Steingrímur J., algerlega á þessu viðfangsefni, en hafði í þess stað unun af að leggja íslenzka alþýðu í einelti sem skattheimtuberserkur. Steingrímur Jóhann Sigfússon hafði ekki úr háum söðli að detta, þegar hann missti ráðherradóm, sem hann réði aldrei neitt við. Ekki vantaði samt kveinstafina undan álaginu.
Nýr og sókndjarfur fjármála- og efnahagsráðherra lætur ekki telja sér trú um einhverja vitleysu hagsmunapotara, t.d. í slitastjórnum föllnu bankanna, heldur lætur eigin dómgreind, þekkingu og reynslu, ráða för með hagsmuni Íslands að leiðarljósi. Þess vegna gerir frumvarp hans ráð fyrir 11,3 milljörðum kr frá þrotabúunum, sem áður greiddu ekkert í ríkissjóð, en þeim mun meira til slitastjórnanna, sem nú hafa risið upp á afturlappirnar, en verða barðar niður, enda verður ekki séð, að þessi aukna skattheimta muni hafa nein neikvæð áhrif á vinnuframboð og fjárfestingar, nema e.t.v. styttist í veru slitastjórnanna við ótrúlega gjöfula kjötkatlana. Það þarf að knýja þrotabú bankanna til gjaldþrotaskipta hið fyrsta. Slíkt mun flýta fyrir losun gjaldeyrishaftanna, sem eru að verða að illkynja æxli í þjóðarlíkamanum.
Núna horfir mjög óbjörgulega í þjóðarbúskapnum vegna langvarandi stöðnunar í hagkerfinu og versnandi viðskiptakjara. Í nýjasta riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika, sem reyndar er ekki mjög fínn pappír nú um stundir, gætir mikillar svartsýni:
"Þróun viðskiptakjara er mjög óheppileg, sérstaklega vegna þess, að hún þýðir, að við erum að fá mun minna fyrir vörur og þjónustu, sem við flytjum út, einmitt þegar við þurfum á sem mestum viðskiptaafgangi að halda til að geta staðið undir greiðslubyrði skulda. Þessi rýrnun á viðskiptakjörum, bæði sú sem þegar hefur átt sér stað og sú, sem búizt er við í spám okkar hjá Seðlabankanum, þýðir að öðru óbreyttu, að lífskjörin verða lakari en ella, úrlausn greiðslujafnaðarvandans verður erfiðari og annað slíkt."
Í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms var haldið kolrangt á spilunum, svo að hér varð sáralítill hagvöxtur, og þess vegna erum við mjög illa búin til að takast á við verðlækkanir á mörkuðum erlendis. Það gerir illt verra, að búið er að draga bitið úr sjávarútvegsfyrirtækjunum í samkeppninni á erlendum mörkuðum með ofurskattlagningu, sem nær engri átt.
Það verður að draga úr innflutningi, úr því að útflutningsandvirðið dregst saman, og slíkur samdráttur ógnar hagvexti, sem verður þá líklega minni en 2,7 % spá Hagstofunnar 2014, sem er forsenda fjárlaga. Þá verður að skera ríkisútgjöldin enn frekar niður. Fækkun ríkisstarfsmanna verður að eiga sér stað, og kratískum bótum og millifærslum verður að linna. Sala á RÚV/Stöð 2 og fækkun í ráðuneytum, eftirlitsstofnunum og öðrum undirstofnunum Umhverfisráðuneytis, ásamt sölu á hluta af Landsvirkjun og Landsbankanum kemur vel til greina. Þetta mun spara milljarðatugi árlega og gefa hundruði milljarða einu sinni. Allt er hey í harðindum.
Stærsti útgjaldaflokkur ríkissjóðs eru tryggingamál. Útgjöld til þeirra munu nema um 120 milljörðum. M.v. rannsóknir erlendis er líklega hægt að spara um 10 milljarða kr með því að skera upp herör gegn tryggingasvikum. Útgjöld til Velferðarráðuneytisins aukast um 17 milljarða kr samkvæmt frumvarpinu, og mætti þá bæta við þá upphæð til sjúkrahúsa, heilsugæzlu og annarra sjúkrastofnana sem sparnaði til tryggingamála næmi.
Í Viðskiptablaðinu 3. október 2013 birtist lærdómsríkt viðtal Bjarna Ólafssonar við Odd Steinarsson, heimilislækni, sem rekur heilsugæzlustöð í einkaeigu í Svíþjóð. Oddur kveður samkeppni í sjúkrakerfi Svíþjóðar hafa aukið heildarframleiðni og gæði og lækkað heildarkostnað kerfisins. Hann mælir með, að Íslendingar innleiði svipað kerfi.
Hinn eyfirzki og yfirvegaði heilbrigðisráðherra ætti strax að fá Odd og fleiri góða menn til að gera áætlun um að bylta íslenzka sjúkrageiranum með gæðaaukningu og framleiðniaukningu að leiðarljósi. Með bættri heilsugæzlu er hægt að draga úr álagi á dýrasta hluta sjúkrakerfisins, Landspítala-Háskólasjúkrahús, og slíkt er hagkvæmt fyrir ríkissjóð og kæmi sér vel í bágindum sjúkrahússins, sem sameignarsinnarnir tættu niður á síðasta kjörtímabili og langan tíma mun taka að endurreisa.
Hér verður gripið niður í viðtalið við Odd Steinarsson, heimilislækni, þar sem hann lýsir nýju, sænsku kerfi:
"Grundvallarreglan er sú, að hið opinbera fjármagnar heilsugæzluna, en skjólstæðingurinn er settur í ökumannssætið, ef svo má að orði komast. Hann velur sér sína heilsugæzlustöð, og peningurinn fylgir honum. Heilsugæzlustöðvum er bannað að neita að taka við sjúklingi, þannig að valdið er sjúklingsins. Þetta þýðir, að heilsugæzlustöðvarnar eru í samkeppni hver við aðra um skjólstæðinga. Leikreglurnar eru ólíkar eftir svæðum, því að svæðisstjórnunum var falin útfærsla á kerfinu, en eftirlitið er strangt alls staðar. Sjálfstæðar og opinberar stöðvar sitja við sama borð, og gjaldskráin er sú sama."
Síðan kemur stórmerkilegt innlegg í lyfjaumræðuna, en hér skal fullyrða, að með upptöku sænska kerfisins gæti ríkissjóður sparað stórfé til lyfjakaupa, því að íslenzka kerfið vantar alla hvata til aðhalds og sparnaðar, og þess vegna tútnar það stjórnlaust út. Hver er í hlutverki púkans á fjósbitanum ?
"Lyfjaniðurgreiðslan, sem fer í gegnum Tryggingastofnun á Íslandi, fer í gegnum okkur, og við þurfum að vera meðvituð um lyfjakostnaðinn að því gefnu, að sjúklingurinn fái beztu hugsanlegu meðferð. Á Íslandi hafa læknar ekki sama hvata til að halda lyfjakostnaði niðri. Okkar hagur er sá, að sjúklingurinn þurfi sem minnst á lyfjum að halda, en þeir, sem þurfa á lyfjum að halda, fái sem beztu lyfin, þannig að fylgikvillarnir séu sem minnstir og árangurinn til lengdar betri. ... Árangurinn af "gæzluvalinu" í Svíþjóð hefur verið góður. Afköst hafa aukizt töluvert umfram kostnað. Í Stokkhólmi jukust afköstin um 28 % fyrstu tvö árin á meðan kostnaðurinn jókst um 2,8 %, sem er undir vísitölu neyzluverðs, þannig að raunkostnaðurinn af heilsugæzlunni hefur minnkað, frá því að kerfið var tekið upp."
Þá kveður Oddur gæðakannanir sýna vaxandi ánægju skjólstæðinganna og aukið traust þeirra til heilsugæzlunnar og að einkareknu stöðvarnar komi betur út en opinberu stöðvarnar í ánægjukönnunum á meðal skjólstæðinga. Hins vegar hefur ánægjan með sumar opinberu stöðvarnar aukizt líka, svo að samkeppnin lyftir greinilega gæðum veittrar þjónustu almennt upp.
Hér er komin forskrift að kerfi, sem fellur vel að boðskapi Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra, undanfarið. Ef hann er ekki orðinn samdauna ráðuneytisfólkinu, sem sagan sýnir um tíðina, að stórhætta er á, sker hann nú upp herör með aðstoð manna á borð við Odd Steinarsson, heimilislækni, byltir kerfinu og virkjar læknana með sama hætti og sænsk heilbrigðisyfirvöld gerðu fyrir fáeinum árum. Ef hann honum tekst að skipuleggja heilsugæzlustöðvar um allt land að sænskum hætti á þessu kjörtímabili, er björninn unninn í sjúkrageiranum, og hægt að einbeita sér að uppbyggingu Landspítala-Háskólasjúkrahúss í víðum skilningi.
Það getur vel verið, að þessi uppstokkun í heilbrigðiskerfinu krefjist nokkurs stofnkostnaðar, en slíkur er fjárfesting, sem skilar sér á fáeinum árum. Hér skal benda fjármála- og efnahagsráðherra á, hvernig hann getur fjármagnað umbyltingu sjúkrageirans án lántaka og án skattahækkana:
Hann getur dregið úr kratískum og hræsnisfullum millifærslum úr ríkissjóði til fólks í fimm efstu tekjutíundum skattgreiðenda. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar fyrir árið 2012 lækkuðu vaxta- og barnabætur fólks skattgreiðslur þess alls um 18 milljarða kr. Þar af lækkuðu skattgreiðslur fólks í 5 efstu tekjutíundunum um 79 % eða 14 milljarða kr. Á þremur árum ætti að afnema þessar sértæku skattalækkanir hinna tekjuhærri og beina þessum 14 milljörðum kr til enduruppbyggingar sjúkrageirans, en þó aðeins eftir skipulagsbreytingar, sem spara til lengri tíma litið. Hér er um að ræða svipaða upphæð og hinn galvaski, einelti þingmaður, Vigdís Hauksdóttir, nefndi í kosningabaráttunni, að setja ætti strax í sjúkrageirann, og það er ekki eftir neinu að bíða með téðar umbætur, hæstvirtur Kristján Þór.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Heilbrigðismál, Kjaramál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.