19.12.2013 | 21:25
Söguleg átök
Í Asíu minnir vopnaskak Kínverja og Japana út af óbyggðum eyjaklasa suðurundan Japan á argvítug stríð á milli þessara þjóða á öldum áður. Nú hafa Suður-Kóreumenn blandað sér í þessa stöðubaráttu, og í Norður-Kóreu hafa upp hafizt hjaðningavíg, sem kunna að verða upphafið að falli illræmdustu kommúnistastjórnar heimsins nú á tímum. Í forgrunni glittir í baráttu um auðlindir, þar sem eldsneyti er talið vera undir hafsbotni Kínahafs.
Í Evrópu fer einnig fram hörð stöðubarátta, þó að ekki sé sjáanlega um aftökur eða vopnaskak að ræða, nema á austurjaðri ESB, í Úkraínu, sem nú er aðalátakasvæðið í Evrópu og hefur svo áður áður verið. Eftirfarandi tilvitnun í fyrstu ræðu nýskipaðs utanríkisráðherra Þýzkalands, 17. desember 2013, er til vitnis um átök Rússlands og Þýzkalands um Úkraínu:
"Það er hneykslanlegt hvernig Rússar nýta sér efnahagsþrengingar Úkraínumanna til að koma í veg fyrir að þeir skrifi undir samstarfssamning við Evrópusambandið. Framkoma úkraínskra öryggissveita gagnvart friðsömum mótmælendum er þó ekki síður hneykslanleg, sagði Steinmeier. Hann viðurkenndi jafnframt að boð ESB um fjárhagslegan og efnahagslegan stuðning dygði ekki til að tryggja samkeppnishæfni Úkraínu og tengja þjóðina efnahagslega við Evrópu."
Í Evrópu er stunduð umfangsmikil njósnastarfsemi, hleranir og myndatökur, til að komast að fyrirætlunum jafnt bandamanna sem annarra. Sannast þar hið fornkveðna, að enginn er annars bróðir í leik. Er líklegt, að ormétið innbyrðis traust Vesturveldanna grafi undan nánu samstarfi þeirra, eins og við höfum kynnzt því hingað til. Menn hlera ekki og standa á gægjum um vini sína án þess að slettist upp á vinskapinn. Að ræna einstaklinga á Vesturlöndum einkalífi sínu mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir lýðræðisþróunina, hvort sem málstaðurinn er göfugur eður ei.
Það er ekki einleikið, hvernig stríð fortíðarinnar endurspeglast í atburðum samtímans. Enn einu sinni er Úkraína bitbeinið og aðalleikararnir eru hinir sömu, Svíar og Rússar, með Þjóðverja í bakgrunni. Í júní 1709 var háður örlagaríkur bardagi á milli herja Péturs mikla, Rússakeisara, og Karls 12, Svíakonungs, við Poltava, sem er í Úkraínu. Úkraínumenn börðust með báðum aðilum, alveg eins og nú, er þeir skipa sér í sveit með Rússum eða Evrópusambandinu, ESB, hvar Svíar og Þjóðverjar eru öflugir.
Ívan Mazepa, úkraínskur kósakkahöfðingi, hafði tekið afstöðu með Svíum til að berjast fyrir sjálfstæði Úkraínu frá Rússum árið 1709. Hið sama gerist nú með allan vesturhluta Úkraínu, sem Janukovych ræður í raun ekki yfir lengur. Lögreglan þar neitar að berja á mótmælendum. Bardaganum fyrir rúmum þremur öldum lauk með ósigri Svía, þó að þeir legðu hart að sér. Rússar héldu í kjölfarið til vesturs, lögðu undir sig Eystrasaltslöndin og gerðu Pólland að hjálendu. Þessi sigur Rússa varð afdrifaríkur fyrir þróun Evrópu. Sagan má ekki endurtaka sig nú. Pútin má ekki takast ætlunarverk sitt að kaupa gjaldþrota Úkraínu og hrifsa hana þannig undan vestrænum áhrifum beint fyrir framan nefið á ESB, þó að tilburðir ESB séu með eindæmum vesældarlegir og seint á ferðinni. Lafðin, brezka, utanríkismálastjóri ESB, virðist vera úti á þekju.
Síðan 1709 hefur gengið á ýmsu, en í stórum dráttum hafa átökin í Austur-Evrópu einkennzt af því, að hún hefur ýmist verið á áhrifasvæði Berlínar/Vínar eða Moskvu/Pétursborgar. Þau einkennilegu úrslit urðu í hildarleiknum fyrir einni öld, í Heimsstyrjöldinni fyrri, 1914-1918, að bæði Þjóðverjar og Rússar máttu lúta í gras. Báðir hugðu á landvinninga, þegar þeir fóru í stríðið eftir dráp austurríska erkihertogans í Sarajevo. Ástæða uppgjafar keisarans í Berlín og höfuðs Habsborgara í Vín var, að árið 1917 blandaði Norður-Ameríka sér í styrjöldina til stuðnings Bretum og bandamönnum þeirra. Þennan liðsstyrk réðu hersveitir Germana ekki við á Vesturvígstöðvunum. Í Rússlandi var gerð blóðug bylting og aðlinum steypt af stóli haustið 1917. Byltingarforingin Vladimir Lenin gerði friðarsamning við þýzka keisarann í kjölfarið, enda gerður út og fluttur til Rússlands af kaffihúsum í Sviss af Berlín gagngert til að valda usla, og síðan brauzt út borgarastyrjöld í Rússlandi, þar sem Hvítliðar börðust við Rauðliða, svo að Rússland var lamað þar til kommúnistaflokkur Rússlands hóf að byggja upp þungaiðnað, sem ásamt hergagnasendingum Bandaríkjamanna reið baggamuninn í stríðinu mikla á milli Þjóðverja og Rússa 1941-1945.
Habsborgaraveldið leið undir lok og var bútað í sundur við uppgjöfina í nóvember 1918, þó að afkomendur Habsborgarháaðalsins séu enn sterkefnaðir og hafi ítök í fjármálaheiminum. Á rústunum reis fjöldi nýrra ríkja með stuðningi Bandaríkjaforsetans, Woodrow Wilsons. Berlín var niðurlægð, lönd tekin af Þýzkalandi og landið sett í skuldafjötra stríðsskaðabóta til Vesturveldanna, sem hvíldu eins og mara á hagkerfinu og framkölluðu óðaverðbólgu og stjórnmálalegan óstöðugleika í Weimar lýðveldinu. Hinn sjálfmenntaði, tilfinninganæmi og sjálfumglaði listamaður frá Linz í Austurríki, Adolf Hitler, hellti salti í sár Þjóðverja og kynti undir kraumandi óánægju þeirra með hlutskipti sitt.
Þjóðverjar voru í áfalli eftir uppgjöfina 10. nóvember 1918, steyptu aðlinum af stóli og stofnuðu Weimar-lýðveldið. Það var stjórnskipulega og efnahagslega veikt og vék fyrir Þriðja ríkinu, þegar Adolf Hitler var skipaður kanzlari eftir þingkosningar, þar sem flokkur hans, NSDAP, fékk um þriðjung atkvæða, í janúarlok 1933. Rúmu ári síðar lézt Hindenburg, forseti og fyrrverandi hershöfðingi keisarahersins, og eftir það varð Foringinn alvaldur í Þýzkalandi. Hann stefndi á heimsveldi, Imperium des deutschen Volkes, en Luftwaffe mistókst atlagan gegn Englandi sumarið 1940 og framsókn Wehrmacht var stöðvuð í Norður-Afríku og í Rússlandi árið 1942. Eftir það tók við mikil varnarbarátta, sem grundvallaðist á ótrúlegri framleiðslugetu hergagnaiðnaðarins undir forystu ríkisarkitektsins, Albert Speer. Sá samdi afar fróðlega og lipurlega ritaða sjálfsævisögu í fangelsinu í Spandau/Berlín. Talið er, að hann hafi vonazt til svipaðrar meðhöndlunar Bandaríkjamanna og yfirmaður eldflaugarannsókna Þriðja ríkisins, Werner von Braun, en Bandaríkjamenn eyðilögðu öll gögn um aðild hans að NSDAP og gerðu hann að yfirmanni eldflaugarannsókna sinna.
Finnland, Eystrasaltslöndin, Pólland, Tékkland, Slóvakía, Slóvenía og Króatía eru nú gengin í Evrópusambandið. Það þýðir, að austurmörk áhrifasvæðis Þýzkalands eru komin að Hvíta-Rússlandi og Úkraínu, og nú standa átök yfir í Úkraínu um framtíð landsins. Janukovych, forseti landsins, sem hallur er undir Putin, Rússlandsforseta, stöðvaði síðbúið ferli nánari tengsla Úkraínu við ESB, Evrópusambandið, og sigaði lögreglunni á mótmælendur athæfis síns, sem safnazt hafa saman á Maidan-torgi, eða Frelsistorginu í Kænugarði. Óeirðalögreglan sýndi mikla harðýðgi gegn æskulýðnum, sem fjölmennti á stærsta torg Kænugarðs. Æska Úkraínu kærir sig ekki um að búa í leppríki Rússa. Stjórnkerfi Úkraínu er gegnumrotið, og meirihluti íbúanna, með unga fólkið í broddi fylkingar, þráir ekkert heitar en röð og reglu réttarríkisins, þar sem mannréttindi eru virt, og virðing er borin fyrir samborgurunum.
Á fyrrnefndu aðaltorgi í Kænugarði er nú hrópað: "Út með þjófana". Vestur-Úkraína lýtur ekki lengur boðvaldi Janukovych, forseta, og landið er á gjaldþrotsbarmi. Af tvennu illu er nú skárra fyrir almenning í Úkraínu að halla sér til vesturs en austurs, því að ríki Pútíns er óstöðugt, og lýðræðið stendur þar enn höllum fæti. Rússar hafa leikið mótleik með því að bjóða Úkraínu jarðgas á vildarkjörum og boðizt til að kaupa af þeim ríkisskuldabréf, sem AGS (Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn) hafði hafnað kaupum á. Janukovych hefur tekið þá ákvörðun að leggjast á bakið og tifa upp tánum fyrir framan rússneska björninn. Úkraínska þjóðin hefur tekið aðra og gagnstæða ákvörðun. Hún er sú, að Úkraína skuli verða sjálfstætt ríki. Önnur ákvörðunin verður að víkja fyrir hinni, og þó að frelsisandi þjóðarinnar eigi erfitt uppdráttar um sinn, þá er hann sigurstranglegri til lengdar.
Það gæti þess vegna farið að styttast í að áhrifasvæði Þjóðverja teygi sig meðfram endilöngum vesturlandamærum Rússlands, og það er nokkuð, sem valdhafarnir í Pétursborg og Moskvu hafa alltaf barizt gegn. Berlín gæti þess vegna virzt standa uppi með pálmann í höndunum nú um stundir, en það eru váboðar framundan fyrir Berlín, þó að þeir séu öðru vísi en forðum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Mannréttindi, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.