11.12.2013 | 18:26
PISAPRÓF-2012
OECD, Efnahags- og framfarastofnunin í París, lætur þriðja hvert ár fara fram stöðumat á kunnáttu 15 ára unglinga um allan heim. Birtingu niðurstaðna fylgir urgur í löndum, sem hallar á. Prófað er í stærðfræði, lestri og náttúrufræði.
Kunnáttu íslenzku nemendanna hrakaði frá stöðumati 2009, ef borinn er saman árangur nemendanna árin 2009 og 2012. Verður að segja, að þessi þróun mála er ekki rós í hnappagat fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, núverandi formanns Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, enda verður ekki sagt um hana, að hún hafi staðið sig vel í starfi; var óttalega verklítil og virtist líta á það sem meginhlutverk sitt að viðhalda flatneskju og miðstýringu, sem óhjákvæmilega dregur úr fjölbreytni skólakerfisins og sveigjanleika, svo og að leggja stein í götu einkaframtaks á sviði skólamála. Með svo steinrunnin viðhorf í æðsta sessi menntamálanna var von á hlutfallslegri hnignun, eins og raun varð á, enda jókst brottfall nemenda úr námi á dögum téðrar Katrínar. Hún lét viðvörunarorð sem vind um eyru þjóta, enda virtist sem henni væri einhvers konar stéttavarðstaða hugleiknari en hagur nemenda. Er það gamla sagan með sameignarsinnana, að kerfið er þeim mikilvægara en enstaklingurinn.
Stór orð hafa verið látin falla um frammistöðu íslenzku nemendanna, en slíkur málflutningur er líklegast stormur í vatnsglasi og óréttmætur. Miðað við þá beztu, sem voru nemendur í kínversku risaborginni Shanghai, náðu íslenzku nemendurnir 80 % árangri að meðaltali. Það er ekki slæmt og hefur aldrei verið talið slæmt að fá 8,0 í einkunn, þó að einhver hafi fengið 10. Það þarf enginn að fara á límingunum út af þessu. Við viljum ekki það skipulag, sem útheimtir árangur ungviðisins í Shanghai. Við vinnum að líkindum forskot þeirra upp síðar á ævinni með frjóari huga og meiri dugnaði.
Það er óþarfi að kollsteypa íslenzka skólakerfinu eða að fara út í stórkarlalegar ásakanir á hendur íslenzku kennarastéttinni þrátt fyrir síðustu PISA-niðurstöður. Til að auka líkur á hlutfallslega bættri frammistöðu íslenzkra nemenda og þar með að bæta kunnáttu þeirra og færni til að takast á við viðfangsefni framtíðarinnar þarf aðeins að sníða nokkra agnúa af kerfinu til að beina því inn á árangursmiðaðri braut en vinstri vellingurinn hefur lagt upp með:
- Það þarf að gefa skólastjórunum og kennurunum lausari tauminn við að velja námsefni og kennsluaðferðir. Það má bjóða upp á samræmd próf í t.d. íslenzku, reikningi, eðlisfræði, náttúrufræði og erlendu tungumáli á grundvelli staðlaðrar námskráar, en skólunum ætti að vera frjálst að velja eitthvað eða ekkert af þessu fyrir hvern árgang. Það verður þó augljóslega að gæta samræmis yfir landið með lokapróf upp úr grunnskólum, nema framhaldsskólarnir taki upp inntökupróf.
- Rekstrarform skólanna verða að vera frjáls, og hverjum nemanda ætti að fylgja sama upphæð frá hinu opinbera. Foreldrar eru lykilatriði í velgengni barna sinna í lífinu, og ef þeir kjósa að velja einhvern skóla fyrir barn sitt eða börn, sem er dýrari en svo, að opinbera upphæðin hrökkvi til, þá á að leyfa þeim að leggja fram þá viðbót, sem skólinn setur upp. Stuðningur og þátttaka foreldranna í skólastarfinu er barninu ómetanlegur. Það á ekki að draga úr valfrelsi þeirra, sem geta og vilja njóta þess, þó að einhverjir annaðhvort ekki geti né vilji leggja fram viðbótar fé í menntun barna sinna. Slík þröngsýni og/eða öfund dregur úr framþróunarhraða þjóðfélagsins sem heildar, kemur öllum í koll og má þess vegna vel nefna jafnaðarstefnu andskotans.
- Það á að hafa kennsluna meira einstaklingsmiðaða en nú er. Þetta þýðir einfaldlega það, að veita ber skólum frelsi til að raða nemendum saman í deildir, eins og skólunum þykir árangursríkast. Hvers vegna á að skapa hjá nemendum skólaleiða, af því að þeir fá ekki viðfangsefni við sitt hæfi ? Það er enginn bættari með því.
- Verklega námið er vanrækt, og við svo búið má ekki standa. Nemendur eiga að fá tækifæri til að þróa alhliða hæfileika sína, og áhugasvið sumra er aðallega á sviði bóklegrar kunnáttu, en annarra á verklegum sviðum. Hvoru tveggja á að gera jafnhátt undir höfði, því að markmið grunnskólans á ekki að vera einhvers konar síun hafra frá sauðum, heldur að veita æskunni nútímaleg tækifæri til að þroska hæfileika sína og þróa kunnáttuna samkvæmt eigin áhugasviðum. Ef kerfið er niður njörvað, minnkar námsáhugi flestra, árangur skólanna verður lakari og fleiri tæpir nemendur falla úr námi.
- Brottfall úr skóla er helzti ljóður á ráði skólakerfisins nú um stundir og gefur til kynna, að það mæti ekki þörfum æskunnar, viðskiptavina sinna, með viðeigandi hætti. Upp úr grunnskóla þurfa þess vegna að liggja a.m.k. 2 samræmdar leiðir, sem í grundvallaratriðum má kalla bóklegu leiðina og verklegu leiðina. Fábreytnin eykur spennu á meðal kennara og nemenda, sem jafngildir sóun hæfileika. Skólakerfið verður að sníða að nemendunum til að forðast sóun, en Katrín Jakobsdóttir og hennar nótar eru grunaðir um öfuga hugmyndafræði í anda hugmyndarinnar um "homo sovieticus", þar sem laga átti einstaklinginn að kerfinu. "Nómenklatúran" er með allt á hreinu og sýnir enga miskunn. Þess vegna setti Katrín jafnan kíkinn fyrir blinda augað, þegar kom að því að leysa vandamál á borð við brottfallið.
Almenningur um heim allan upplifir nú örar breytingar, sem knúnar eru áfram af tækniframförum á sviði tölvukerfa, bæði hugbúnaðar og vélbúnaðar. Þetta er að vísu mjög tvíeggjað vopn, þegar kemur að börnunum, og tölvubúnaður er því miður á Vesturlöndum notaður þannig í uppeldinu, að fallið er til að spilla fyrir alhliða þroska barnanna, gera þau veruleikafirrt, hugmyndasnauð og jafnvel taugaveikluð. Ábyrgðarhluti foreldranna er stór í þessum efnum, og vandrataður er hinn gullni meðalvegur.
Að mörgu leyti leiða Asíuþjóðir skynsamlega hagnýtingu hinnar nýju tækni við uppeldið, sem endurspeglast í staðgóðum þekkingargrunni 15 ára nemenda þessara landa. Þar leiðir hin nýja tækni ekki til forheimskunar æskulýðsins, að því er virðist.
Kína er þarna leiðandi, en því fer þó fjarri, að við ættum að leita fyrirmynda þar í landi, enda hefur gæðastig framleiðslu Kínverja alls ekki enn náð gæðastigi á Vesturlöndum, yfirleitt. Einnig er athyglivert að sjá, hversu vel Singapúr gengur og yfir langt tímabil. Singapúr er borgríki, þar sem auðvaldsskipulag ríkir, og þar er samkeppni á milli skóla um hylli nemenda og foreldra, sem greiða þurfa til skólanna, sem þeir velja.
Finnar hafa um hríð þótt vera til fyrirmyndar í menntamálum, mennta kennara sína vel, og þeir munu vera á tiltölulega góðum launum. Þá þykir kennarastéttin njóta óskoraðrar virðingar í Finnlandi, líkt og hér var á árum áður og vert er. Finnar hafa komið vel út úr PISA-prófum í um tvo áratugi. Nú bregður hins vegar svo við, að þeir gefa eftir fyrir Asíubúum og árangur Finna versnar að tiltölu. Þetta er í samræmi við þá þróun, að Asía skákar Vesturlöndum, þ.e. Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, aftur fyrir sig á mörgum sviðum. Sennilega eru skipuleg vinnubrögð og agi bæði kennara og nemenda stór þáttur í sókn Asíubúa.
Við Íslendingar þurfum ekki að una okkar hlut illa með 80 % árangur á við hina beztu og eigum einfaldlega að halda þá leið í menntamálunum, sem við teljum henta okkur bezt. Það er óskynsamlegt að reyna að apa menntunarfyrirkomulag og hegðun upp eftir öðrum, sem sniðið er við aðrar menningarlegar aðstæður, þó að hollt sé að hafa kerfi til hliðsjónar, sem skilað hafa góðum árangri. Aðalatriðið er, að skólarnir líti á nemendur sem viðskiptavini, sem komnir eru í skólana til að þroska hæfileika sína á einstaklingsgrunni til að verða sem nýtastir þegnar í þjóðfélaginu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag, Tölvur og tækni | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.