Hafrannsóknir

Það er engum blöðum um það að fletta, að hafrannsóknir Íslendinga hafa gert þeim kleift að nálgast það viðfangsefni með vísindalegum og ábyrgum hætti að nýta fiskimiðin í kringum landið, um 750´000 km2 hafsvæði, til hins ýtrasta, en þó með sjálfbærum hætti.  Nágrannaríkin neyðast til að viðurkenna þetta, þó að þau sýni ríkan vilja til að sniðganga þessa staðreynd og sýni á stundum tilburði til að "valta yfir" landsmenn. 

Það er auk þess staðreynd, að íslenzki sjávarútvegurinn er rekinn með mestu verðmætasköpun á sjómann, sem þekkist um veröld víða, og umgengnin við auðlindina er hér til fyrirmyndar.  

Allt skýtur þetta styrkum stoðum undir siðferðilegan rétt Íslendinga til að stjórna sjálfir veiðunum á þessum gjöfulu og víðfeðmu fiskimiðum, en slíkt er fjarri því að vera sjálfgefið, eins og harðvítug barátta fyrir yfirráðum innan 200 sjómílnanna sýndi, afstaða Evrópusambandsins, ESB, til makrílveiða í íslenzku lögsögunni hefur undirstrikað og sáttmálar ESB og stefna (CAP-Common Fishery Policy) sýna.  Það eru nokkrar ástæður fyrir þessum frábæra árangri landsmanna, en hér verða nefndar þrjár:

  • Hafrannsóknarstofnun
  • Hlutaskiptakerfið
  • Fiskveiðistjórnunarkerfið

Hafrannsóknarstofnun hefur gert kleift að setja aflamark á allar helztu tegundir í lögsögunni með rökum, reistum á mælingum í stað ágizkana og hentistefnu stjórnmálamanna eða embættismanna þeirra.  Það hefur að vísu ríkt óánægja með margar tillögur Hafrannsóknarstofnunar, en eftir því sem þekkingu innan stofnunarinnar vex fiskur um hrygg með rannsóknum og reynslu, þá fer minna fyrir gagnrýninni, enda hefur hún síður en svo alltaf verið málefnaleg.  Það er skiljanlegt, þegar miklir hagsmunir eru í húfi, og þar sem stefna Hafrannsóknarstofnunar er sú, að ráðgjöf hennar miði að hámörkun afrakstrar auðlindanna til langs tíma, en ekki til skamms tíma. 

Nú er árangur verndarstefnunnar, sem sumir höfðu litla trú á, að koma í ljós í þorskveiðunum, þó að sumar aðrar tegundir hafi hörfað um hríð.  Makríllinn er gott dæmi um góðan árangur Hafrannsóknarstofnunar.  Þar er ný tegund í lögsögunni, sem rannsaka varð frá grunni.  Fiskimálastjóri Evrópusambandsins (ESB) hélt því blákalt fram og var studdur af öðrum pótintátum þar og á Írlandi, Noregi og víðar, að Íslendingar stunduðu rányrkju á makrílstofninum.  Hafrannsóknarstofnun hafði ráðlagt um 130´000 tonna veiði á ári, en hugmyndir innan ESB lutu að 1/10 þessa magns, og þess vegna hafði ESB í hótunum um löndunarbann og viðskiptabann á ýmsar vörur, svo sem síld og veiðarfæri.  Miðað við stofnmat Hafrannsóknarstofnunar nemur makrílmassinn í lögsögunni um 1,5 milljón tonnum, hann tvöfaldar þyngd sína í lögsögunni og étur 3 milljónir tonna af átu.  Það ætti að vera sjálfbært að veiða 200 kt/a af makríl í íslenzku lögsögunni m.v. þetta.   

Í fyrra játuðu stjórnvöld þessara ríkja og ESB mistök sín við ákvörðun stofnstærðar makríls, en engu að síður setti hinn misheppnaði sjávarútvegsráðherra, sem reyndar hafði annan og stærri titil án þess að valda honum, Steingrímur J. Sigfússon, lægra aflamark á makríl en forveri hans.  Það var stjórnmálalegur geðþótti, sem dró dám af undirlægjuhætti, fremur en vísindaleg rök, sem þar réðu ferð.  Vinstri stjórnin lagðist jafnan í duftið fyrir ESB, ef hún átti þess kost og ef hana grunaði, að slíkt mundi geta leitt til undansláttar frá sáttmálum ESB.  Allt bar það keim af eindæma dómgreindarskorti og barnaskap.  Fleðulæti eru hegðunarmynztur hundingja, en venjulega uppskera slíkir aðeins fyrirlitningu, enda gekk hvorki né rak með erfiðu kaflana, sem kratana brast þor til að setja í aðlögun.  Árangurinn af "viðræðunum" við stækkunarteymi ESB virðist hafa verið dapurlega lélegur m.v. allar fórnirnar, sem Berlaymont voru færðar og kostnaðinn, sem þetta dæmalausa inngönguferli hafði í för með sér fyrir landsmenn.  Ef á að ræða við ESB, þarf úthugsaða hernaðaráætlun, en Össur mundi ganga beint í snöru ESB, ef hann teldi það stækkunarstjóra ESB þóknanlegt.  Stefan Füle átti ekki í höggi við verðugan andstæðing, þar sem Össur Skarphéðinsson var, heldur sjálfhælinn og sjálflægan svíra án sóknarkrafts á hendur klúbbinum, sem hann sér ekki sólina fyrir.  

Nú hefur Hafrannsóknarstofnun fest sig í sessi, en þá bregður svo við, að hún verður að draga saman seglin vegna fjárskorts.  Þetta er ótækt á sama tíma og ríkið innheimtir ofurskatt af útgerðinni, eins og kunnugt er, undir dulnefninu "veiðigjald".  

Þessi ofurskattlagning er landsbyggðarskattur, sem dregur fé til höfuðborgarsvæðisins á röngum forsendum.  Að verja fénu til að styrkja landsbyggðina réttlætir þó ekki þessa skattheimtu, en það ætti samt að vera lágmarkstillitssemi að veita þessu skattfé í Hafrannsóknarstofnun og hafnir, svo að nokkuð sé nefnt af því, sem tengist beinum hagsmunum útgerðarfyrirtækjanna, stórra og smárra.  

Það er hins vegar örugglega ekki lausn á vandanum að hækka þessa skattheimtu til að auka fjárveitingu til Hafrannsóknarstofnunar, því að skattheimta af framlegð er glórulaus eignaupptaka, ríður minni fyrirtækjum að fullu og dregur úr fjárfestingargetu hinna stærri.  Skattstofninn rýrnar mjög hratt, og þjóðnýtingunni mundi líklega hafa lokið á um 5 árum.  Það er nokkuð vel að verki verið hjá sameignarsinnunum, sem annars klúðruðu flestu, sem þeir tóku sér fyrir hendur, hvort sem það var á Ári drekans eða í annan tíma.  Vinstri menn þola ekki velgengni, heldur bíða ekki boðanna, þegar þeir krafsa til sín völdin, að klófesta umbunina, sem markaðurinn hefur veitt fyrir eljusemi, frumkvæði, áræðni og annað, sem veitir hinum betri forskot á þá lakari.   

Það er þjóðhagslega óhagkvæmt að svelta Hafrannsóknarstofnun, því að hún verður þá að fækka rannsóknarleiðöngrum, en hver leiðangur dregur úr óvissu ráðgjafarinnar, og ráðgjöf um aflamark hefur yfirleitt getað hækkað af þessum sökum.  Þetta heitir að skjóta sig í fótinn og er háttur sameignarsinna, en nú heldur vitleysan áfram, þó að þeir hafi verið settir til hliðar (um langa hríð). Hafrannsóknarstofnun vantar um hálfan milljarð kr, og það er áreiðanlega hægt að selja ríkiseign fyrir þessa upphæð eða að  draga úr framlögum til hinnar botnlausu hítar Íbúðalánasjóðs, sem réttast væri að aflétta ríkisábyrgð á og láta standa á eigin fótum eða falla ella.  Stjórnun þeirrar stofnunar hefur farið í handaskolum og batnaði alls ekki, þegar Árni Páll Árnason veitti henni ráðgjöf sem verktaki. 

Olíukostnaður Hafrannsóknarstofnunar var í fyrra um 8 % af rekstrarkostnaði hennar eða um ISK 200 milljónir.  Þar sem olíuverðið verður vafalítið lægra í ár, skapast hér aukið svigrúm til að halda rannsóknarskipunum úti.  Árið 2011 námu sértekjur stofnunarinnar 44 % af heildartekjum, sem að mestu komu frá Verkefnasjóði sjávarútvegsins, sem sjávarútvegurinn fjármagnar.  Árið 2011 var, að forgöngu vinstri stjórnarinnar, þessi sjóður veiktur stórlega með lögum frá Alþingi, sem fyrirsjáanlega mun stórskerða tekjur Hafrannsóknarstofnunar árið 2014.  Vinstri stjórnin veikti þannig stórlega hagnýtar rannsóknir hins opinbera, sem þó voru kostaðar af hagsmunaaðilum, en kastaði hins vegar úr ríkissjóði auknu fé í metnaðarlitlar og í raun að töluverðum hluta lítils metnar og að sumra mati gagnslausar rannsóknir í Háskóla Íslands, eins og fram kom í grein í tímaritinu Þjóðmálum í desember 2013 og gerð var grein fyrir í greininni Háskólarnir hér á vefsetrinu:

  http://bjarnijonsson.blog.is/admin/blog/?entry_id=1340739    

Fjárveiting úr ríkissjóði árið 2014 til Hafrannsóknarstofnunar mun nema um ISK 1,4 milljarði, og tekjur hennar eru þá áætlaðar ISK 2,5 milljarðar, sem er smáræði í hlutfalli við afraksturinn af starfsemi stofnunarinnar.  Það er alveg ótækt, að starfsemi hennar sé svelt, og Alþingi ætti á vorþinginu 2014 að gera ráðstafanir til að gera Hafrannsóknarstofnun kleift að afla sér meiri sértekna, t.d. með því að bæta úr mistökum þingsins frá 2011 varðandi Verkefnasjóð sjávarútvegsins. 

Hafrannsóknarstofnun þarf um 20 % tekjuaukningu eða um ISK 0,5 milljarð til að geta sómasamlega sinnt rannsóknum í lögsögu Íslands, þar sem lífríkið er nú miklum breytingum undirorpið vegna hlýnunar sjávar.  Dæmi um þessar breytingar er innreið makrílsins í íslenzku lögsöguna, sem étur þar um 3 milljónir tonna úr lífkeðjunni, en ESB vill skammta okkur smánarlegar veiðiheimildir á sem skít úr hnefa án haldbærs vísindalegs rökstuðnings.  Rannsóknir Hafrannsóknarstofnunar eru haldbezti rökstuðningur Íslands í viðureigninni við Noreg og ESB á þessu sviði.

      Íslendingar hafa haldið fornu hlutaskiptakerfi að breyttu breytanda.  Þar með öðlast sjómenn hlut í kvóta útgerðarinnar, verða með vissum hætti meðeigendur, sem hefur áhrif til ábyrgrar umgengni við auðlindina, til betri meðhöndlunar á aflanum og til aukinna afkasta.  Niðurstaðan er sú, að útgerðarmenn geta valið úr dugnaðarforkum og hæfu starfsfólki til sjós og að engar útgerðir í víðri veröld standa þeim íslenzku á sporði hvað framleiðni starfsfólks og fjármagns varðar.  Meðalhásetahlutur er eftir þessu yfir ISK 20 milljarðar, sem í öllum tilvikum er dreift á fleiri en einn starfsmann, stundum tvo.

Þetta afkastahvetjandi launakerfi og góð stjórnun til sjós og lands mynda undirstöðu velgengninnar.  Samt er kerfið umdeilt, og hlutaskiptingin sjálf veldur deilum nú á milli útgerðarmanna og sjómanna.  Hin dæmalausa ofurskattlagning á framlegð fyrirtækjanna í stað hagnaðar þeirra kemur auðvitað við hvikuna og er fallin til að veikja burði starfseminnar og valda deilum um hlutaskiptin.  Þess vegna ber að breyta eðli þessarar skattheimtu og færa hana í venjulegt horf, sem er skattlagning hagnaðar fyrirtækjanna.  Að öðrum kosti er viðhaldið stjórnarskráarbroti Jóhönnustjórnarinnar á atvinnufrelsi útgerðarmanna, stórra sem smárra, því að téð skattlagning á sér hvorki hliðstæðu á Íslandi né í okkar samkeppnilöndum, og hún skekkir (veikir) þess vegna mjög samkeppnistöðu íslenzka sjávarútvegsins, sem er nokkurn veginn það síðasta, sem íslenzk sjórnvöld ættu að gera sig sek um.  Það heitir að saga í sundur greinina, sem þjóðin situr á.   

Þessi skattlagning á að vera almenn, en að auki mætti hugsa sér auðlindargjald, sem kæmi sem 5 % - 10 % viðbót við tekjuskattheimtuna.  Til að veikja ekki um of stöðu sjávarútvegsins hér innanlands verður slíkt auðlindagjald að vera vel skilgreint og ýmsar auðlindir að falla undir það.  Það er fleira auðlind en syndandi fiskur í sjó, t.d. ferðamaðurinn.  Munurinn er samt þar, að engin lög slá eign þjóðarinnar á ferðamanninn.   

Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur valdið djúpstæðum deilum í þau 30 ár, sem það hefur verið við lýði.  Sumpart er það vegna rangtúlkunar á hugtakinu þjóðareign í fiskveiðistjórnunarlögunum, sem valdið hefur hugarangri, og sumpart vegna annmarka á lögunum og reglugerðum tengdum þeim, en því miður hefur verið of mikið um bútasaum að hálfu ringlaðra stjórnmálamanna. 

Þjóðareign í skilningi laganna er ekki ríkiseign og veitir landsmönnum engar eignarréttarlegar heimildir, heldur tryggja lögin fullveldisrétt Íslendinga yfir miðunum.  Þetta þýðir, að Alþingi og ríkisstjórn í umboði þess fer með óskoraðan rétt til að stjórna nýtingu miðanna.  Nýtingarrétturinn er háður þessum stjórnunarrétti, sem er yfirréttur.  Stjórnunarrétturinn var erfiðasta hindrunin á leið Íslands inn í Evrópusambandið, af því að téður fullveldisréttur flyzt óhjákvæmilega til ráðherraráðs Evrópusambandsins, sem mundi kosta lagabreytingu á Íslandi, sem seint verður samþykkt.  

Þetta þýðir, að aflamarksákvörðun um hverja tegund flyzt til Brüssel eftir ákveðinn aðlögunartíma frá inngöngu, og framkvæmdastjórn ESB mun áreiðanlega ekki sætta sig við formlegar hindranir á kaupum fyrirtækja á Innri markaðinum á hlutum í íslenzkum útgerðum.  Össur Skarphéðinsson hefur fimbulfambað um úthýsingu þessa valds frá Berlaymont, en það eru einvörðungu hugarórar hans sjálfs, sem stangast á við sáttmála ESB, fordæmi og fullyrðingar kunnáttumanna innanhúss í Berlaymont og utan.  Jafnvel þó að ákvæði um slíka úthýsingu til Reykjavíkur mundi rata í samning, er ekki á vísan að róa með framhaldið, því að Spánverjar eða hvaða aðildarþjóð sem er getur kært allt, sem þeir telja fara í bága við Lissabonsáttmálann eða aðra sáttmála ESB fyrir Evrópudómstólinum.  Hver vill setja fjöregg þjóðarinnar í hendur Evrópudómstólinum ?  Aðeins ómerkingar.  

Annað mál er, hvort núverandi fjárfestingarhindranir eru þjóðhagslega hagkvæmar eður ei.  Viðfangsefnið er að hámarka arðinn af auðlindinni.  Þegar gjaldeyrishöft verða afnumin, munu íslenzkar útgerðir aftur geta fjárfest erlendis.  Þar sem hér er um fjöregg þjóðarinnar að tefla, má telja eðlilegt að beita varúðarsjónarmiðum gagnvart eignarhaldinu, þó að létta mætti á fjárfestingartakmörkunum til reynslu.  Aðalatriðið er alltaf, hver fer með fullveldisréttinn.

Fiskveiðistjórnunarkerfið er ekki gallalaust, og það þarf að sníða af því annmarka, sem draga úr þjóðhagslegri hagkvæmni, en það er ekki hægt að benda á neitt kerfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind, sem er þjóðinni hagfelldara í bráð og lengd, gefur betri nýtingu á miðum og fjárfestingum, sem liggja að baki tækjum og búnaði til nýtingar auðlindarinnar.  Sóknarkerfið er t.d. úrelt, vegna þess að nú stýra markaðirnir veiðunum, og þannig fæst hámörkun afurðaverðs.  Sóknarkerfið er barn síns tíma, sem fólk haldið fortíðarþrá hefur hampað, en í þessu kerfi er sjómönnum þrælað út og þeir jafnvel settir í stórhættu í heimskulegu kapphlaupi um fiskinn.     

         

 

 

 

 

 

 

 

  

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

Þetta er alveg ótrúleg þvæla að lesa Bjarni. formúlan fyrir friðuninni er vitlaus.  Fæðan bíður ekki eftir því að þorskurinn sé látinn í friði.

Hér er dæmi:

  Stofninn er 1031 þús Tn 1999 og á að stækka í 1150 þús tn 2002.  Árið 2001 finnst ekki nema   577 þúsund tonn  þarna týndust um 600 þúsund tonn á tveim árum. Vaxtarhraði hefur alltaf fallið  og dánarstuðull hækkað við þessar þvinguðu aðgerðir til að láta náttúruna hlýða vitlausri reikniformúlu þar sem fæðan er konstant stærð - sem er villa .   Svona er búið að týna 1.596 þúsund tonn um frá 1984-2005 (21 ár) ég get sýnt þér þetta upp á tonn í Exel frá Hafró. 

Vitleysan er að nota aðferðina "árlegt endurmat" þar ef tilefnislaus fölsun á áður mældum og skráðum stofnstærðum (svörtu tölurnar í myndinni) Það breytir enginn mældum og skráðum frumgögnum aftur í tímann - nema falsarar.   Aðferðarfræðin "árlegt endurmat" ( sjá texta ofan við mynd) er plat.  Aðferðarfræðin á að vera leit að RAUNDÁNARSTUÐUL.  ef það er gert þarna - er dánarstuðullinn fyrir árin 1999-2001 - 43,5" í stað áætlunar 18%.  Til að einfalda þetta má segja að dánartíðni hækki sjálfkrafa við aukna friðun.

Breyting síðustu ár - er að makríll og Norsk Íslensk síld koma sem ábót í fæðuframboð handa stórþorski. Þess vegna dafnar stórþorskur - en ekki vegna friðunar.   Ég er búinn að kynna þér þetta rækilega síðan 1988 og niðurstaðan er að það hafi verið allt of mikið dregið úr veiði og svo skapast keðjuverkandi villa og vanmat á stofnunum með þessu "árlega endurmati".  Vinsamlega reyn að setja þig inn í staðreyndir.  kv KP 

Kristinn Pétursson, 24.1.2014 kl. 17:10

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Kristinn Pétursson;

Alræmd um land allt er andúð þín á Hafró, svo að athugasemd frá þér í ofangreindum stíl kemur ekki á óvart.  Ef rétt er skilið, básúnar þú jafnan þann mótsagnakennda boðskap, að til eflingar þorskstofninum sé réttast að auka sóknina í hann.  Þú virðist ímynda þér, að fækkun í stofninum skilji meiri átu eftir handa hinum þorskunum.  Þetta eru nú í meira lagi ótraust vísindi í opnu lífkerfi, eins og í hafinu, þar sem fjölmargar tegundir berjast um sömu átuna.  Þessi aðferðarfræði til eflingar einum stofni á vel við í lokuðu lífkerfi, eins og í stöðuvötnum, þar sem grisjun hefur sannað gildi sitt, en engan veginn í hafinu.  Fiskistofnum við Ísland lá við hruni vegna ofveiði, og til að laga sóknina að mjög skertum stofnum var kvótakerfið sett á.  Fiskveiðar um allan heim fara minnkandi vegna ofveiði.  Við þessar aðstæður er ekki nóg fyrir þig að birta töfluna þína, sem spannar allt of stutt tímabil til víðtækra ályktana, og slá vindhögg með henni í átt til hinnar íslenzku Hafrannsóknarstofnunar.  Hún starfar undir gæðarýni Alþjóða hafrannsóknarráðsins og hefur fengið háa einkunn þar.  Þú gefur víst minna fyrir slíka alþjóðlega gæðastimpla en bévaðan belginginn úr sjálfum þér.

Bjarni Jónsson, 25.1.2014 kl. 13:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband