29.1.2014 | 21:17
Opið bréf Víglundar
Bréf Víglundar Þorsteinssonar, lögfræðings, til forseta Alþingis, sem hann opinberaði í Morgunblaðinu 24. janúar 2014, sætir stórtíðindum, þó að vinstri menn þykist ekki skilja sakarefnin, sem í bréfinu felast. Lítið hefur farið fyrir umfjöllun þessa grafalvarlega máls í Kastljósi, Speglinum eða fréttatímum Ríkisútvarpsins, en tímanum fremur varið í þröng mál, jafnvel persónulega harmleiki, sem lítið erindi eiga við alþjóð. Bréf Víglundar á hins vegar erindi við alla og ber vitni um harmsögulega óhæfni vinstri flokkanna við stjórnun landsins.
Grafalvarlegar ásakanir á hendur ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur koma fram í þessu bréfi, og þær eru rökstuddar með vísunum til fundargerða stýrinefndar stjórnvalda um samninga við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna. Hér verður gripið niður í hið sögulega bréf. Efni þess er með þeim hætti, að aðalsökudólginum, fyrrverandi fjármálaráðherra, SJS, má ekki takast að komast upp með neitt múður eða belging, eins og hann gerði sig líklegan til í umræðum um málið á Alþingi og eru hans ær og kýr.
"Efni fundargerðanna á erindi við Alþingi. Þær staðfesta, að vorið og sumarið 2009 vann framkvæmdavaldið hörðum höndum að því að fara framhjá reglum neyðarlaga nr 125/2008 um endurreisn íslenzku bankanna og meðferð skulda heimila og fyrirtækja."
Þarna eru nægilega alvarleg sakarefni borin fram fyrir ríkissaksóknara til að fyrirskipa rannsókn.
"Um mánaðamótin febrúar/marz 2009 ákvað ríkisstjórnin að hefja samningaviðræður við erlenda kröfuhafa bankanna um það, hvernig þeir gætu fengið meira í sinn hlut úr nýju bönkunum, sem stofnaðir höfðu verið með setningu neyðarlaganna nr 125/2008, en neyðarlögin sögðu til um. .... Þegar fundargerðirnar eru lesnar í samfellu, verður ekki annað ráðið en frá upphafi hafi ríkisstjórnin haft í huga að afhenda erlendu kröfuhöfunum alla þrjá nýju bankana til að friðþægja þeim."
Eigi þessar hátternislýsingar á stjórnvöldum þessa tíma við rök að styðjast, er ljóst, að þau hafa dregið taum fjármálaafla gegn hagsmunum íslenzka ríkisins og almennings á Íslandi. Slíkt framferði eru landráð, og verður að rannsaka þessi sakarefni á hendur stjórnvalda þessa tilgreinda tímabils í því ljósi.
Í lokakafla bréfs Víglundar stendur eftirfarandi:
"Þetta þarfnast rannsóknar. Þessar ákvarðanir hafa í raun valdið miklu af því stórfellda tjóni, sem varð hér á landi eftir hrun. Hefði neyðarlögunum verið framfylgt eftir efni þeirra og úrskurðum FME haustið 2008, væri okkar þjóðfélag löngu risið úr öskustónni."
Ályktun Víglundar Þorsteinssonar, lögfræðings, er sem sagt sú, að vinstri stjórnin hafi gert illt ástand enn verra, dýpkað kreppuna og lengt í henni. Í stað þess að losa um gjaldeyrishöftin, þegar það var enn tiltölulega viðráðanlegt og snjóhengjan minni en nú, þá bætti vinstri stjórnin hundruðum milljarða kr við þessa hengju. Það verður að fást réttarfarslegur botn í þetta mál, og hinar stjórnmálalegu afleiðingar fyrir Samfylkinguna og Vinstri hreyfinguna grænt framboð þurfa að verða eftir því.
Það var vitað, að ráðherrar vinstri stjórnarinnar voru óhæfir til að forgangsraða af skynsamlegu viti og að stika út leiðir til lausnar á vandamálum, þó að þeir gætu sett á endalausar tölur, algerlega innihaldslausar. Það var grautargerð í mörgum pottum samtímis með mismunandi blæbrigðum, en allt reyndist óætt, þegar til kastanna kom.
Nú eru hins vegar að birtast gögn, sem benda ekki einvörðungu til óhæfni, heldur einbeitts brotavilja gegn hagsmunum íslenzku þjóðarinnar. Þar er með öðrum orðum um að ræða enn alvarlegri meint brot en meint vanræksla Geirs Hilmars Haarde, sem meintir núverandi brotamenn leiddu fyrir Landsdóm á sinni tíð og höfðu skömm fyrir vegna skorts á sakarefnum. Nú skortir ekki sakarefnin. Var í Landsdómsmálinu gegn Geir gefið fordæmi, sem ekki verður undan vikizt að fylgja nú ? Vigdís Hauksdóttir hefur reifað málið á Alþingi af einurð, eins og hennar er von og vísa. Þingmenn þurfa nú margir hverjir að girða sig í brók og ekki að láta deigan síga fyrr en þeir eru vissir um, að erindi Víglundar Þorsteinssonar, lögfræðings, hafi hlotið nauðsynlega umfjöllun og verðuga afgreiðslu. Fáránleg upphlaup stjórnarandstöðunnar á þingi um þessar mundir eru alger hégómi hjá afgreiðslu þessa alvarlega máls.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.