11.2.2014 | 12:13
Hindranir í vegi hagvaxtar
Það hefur gengið hægt að koma af stað bærilegum hagvexti hérlendis. Forsenda hagvaxtar eru fjárfestingar, og þær hafa afar litlar verið í heild frá bankakreppunni haustið 2008, þó að t.d. útflutningsiðnaðurinn hafi fjárfest töluvert.
Fjárfestingar, sem um munar, koma aðallega úr tveimur áttum, þ.e. frá sjávarútveginum og erlendis frá í iðnfyrirtækjum, en ekki skal vanmeta gildi fjárfestinga í hótelum, gistihúsum og ferðamannaaðstöðu.
Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, en varðandi fjárfestingar á öllum þessum sviðum urðu gjörðir fyrrverandi ríkisstjórnar, skaðræðisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, til að draga úr hvatanum til fjárfestinga, hvort sem um einbeittan brotavilja, eins og í Icesave- og bankamálunum, eða meðfæddan klaufaskap var að ræða. Verður nú ymprað á þessum atriðum og síðast en ekki sízt verður drepið á aðra forsendu en fjárfestingar fyrir hagvexti, en hún er þekking og þjálfun á vinnumarkaðinum. Án hins síðast nefnda verða fjárfestingar unnar fyrir gýg.
Ofurskattlagning á sjávarútveginn undir rangnefninu veiðigjöld dregur allan mátt úr útgerðinni til þeirrar endurnýjunar á fiskiskipastólnum, sem nú er aðkallandi. Minni fyrirtækin kikna undan byrðunum og leggja upp laupana, en hin stærri kaupa veiðiheimildirnar, sem losna, en geta ekkert fjárfest í veiðitækjum, sem heitið getur, á meðan stórt skarð er höggvið í framlegðina, sem á að fara til að greiða fastan kostnað og til að fjárfesta. Það er brýnt, að Alþingi og ríkisstjórn vindi ofan af vitlausri skattlagningu, sem sveltir mjölkurkúna, og fælir þess vegna fjárfesta frá greininni. Það er að sama skapi nauðsynlegt, að sjávarútvegurinn fái traustan lagalegan starfsgrundvöll. Að þessu er unnið.
Núverandi ríkisstjórn, Laugarvatnsstjórnin, færði byrðarnar af botnfiskútgerðunum og yfir á uppsjávarútgerðirnar og létti heildarbyrðarnar dálítið, en betur má, ef duga skal. Nú lítur út fyrir, að makríllinn sé búinn að hrekja loðnuna að miklu leyti af Íslandsmiðum, sem þýðir allt að 30 mia kr högg fyrir uppsjávarútgerðir og hagkerfi landsins. Þetta sýnir, hversu varasamt er fyrir skattheimtuvaldið að leggja skatta á útgerðina samkvæmt meðaltalsframlegð í fortíðinni. Þegar vel árar á útgerðin að fá tækifæri til að fjárfesta, og þegar illa árar þarf hú að geta sótt í varasjóði sína.
Til að fá hjólin í gang og til að tryggja sjálfbæra og sanngjarna skattheimtu verður að gjörbreyta um skattlagningu á sjávarútveginn, afnema með öllu eignaupptökuaðferðina og samræma skattheimtuna skattlagningu á önnur fyrirtæki í landinu, þ.e. að leggja tekjuskatt á hagnað, e.t.v. dálítið hærri hlutfallstölu en á önnur fyrirtæki á árum, þegar veiðiheimildir eru auknar. Þetta er sanngirnismál, og að leggja annað til grundvallar en samræmda skattheimtu er ójöfnuður. Vinstri menn eru reyndar alræmdir fyrir að ryðjast fram með ójöfnuði til að hrifsa til hins opinbera fé í endurdreifingu að eigin geðþótta. Slíkt veikir undantekningarlaust tekjuöflun samfélagsins sem heildar.
Hið sama á þá að gilda um orkufyrirtækin, þegar þau hafa hlotið ný virkjunarleyfi skulu þau greiða allt að 10 % hærri hlutfall í tekjuskatt en önnur fyrirtæki næstu 10 árin. Afránsskattheimta á borð við núverandi veiðigjöld rýrir hins vegar skattstofninn, en hófleg skattheimta leyfir skattstofninum að dafna. Á vegum Laugarvatnsstjórnarinnar er vinna í gangi við endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins, og vonandi verður þá undið ofan af þessari vinstri vitleysu. Hvor skattheimtuaðferðin halda menn, að sé betur fallin til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, þegar til lengdar lætur ? Það er engum blöðum um það að fletta, að leið hófsamlegrar og réttlátrar skattheimtu mun bæta hag ríkissjóðs meira en ofurskattheimta og mismunun. Með réttlátri skattheimtu er hér einfaldlega átt við, að jafnræðis sé gætt og að skattheimtan sé óháð því í hvaða atvinnugeira fyrirtækið starfar.
Vinstri stjórnin fór illa með orðspor Íslands gagnvart erlendum fjárfestum. Þar sem traust verður að ríkja, er afleitt að standa ekki við samninga og að svíkja gefin loforð. Siðferði vinstri stjórnarinnar var bágborið, og í ljós kom, það sem margir töldu sig vita fyrirfram, að vinstri mönnum var ekki treystandi til að fara með landstjórnina. Þeir komu aftan að viðsemjendum orkufyrirtækjanna með því að leggja á sérstakan rafskatt, sem nú er orðinn 130 kr/MWh. Þeir lofuðu að hafa hann tímabundinn, en í stað þess að afnema hann á tilsettum tíma, þá hækkuðu þeir hann.
Þetta kemur málmframleiðslufyrirtækjunum, t.d. álverunum, afar illa um þessar mundir, þegar afurðaverðið er mjög lágt og afkoman með versta móti. Þetta kemur þyngst niður á elzta fyrirtækinu í þessum geira, því að orkuverðið til þessa málmframleiðslufyrirtækis er langhæst og ótengt afurðaverðinu. Slíkir skattar á fyrirtæki, ótengdir afkomu þeirra, eru stórhættulegir og hafa víða leitt til, að þau hafa flosnað upp. Verður að treysta Laugarvatnsstjórninni til að lækka þennan skatt og láta hann síðan renna sitt skeið á enda, eins og lögin gera ráð fyrir. Málsmeðferð yfirvalda af þessu tagi er eitt af því, sem grefur undan trausti fjárfesta og gerir þá afhuga fjárfestingum í landinu. Slíkt er landinu miklu dýrkeyptara en þeir milljarðar kr, sem fást inn með þessum rafskatti. Að vega slíkt og meta virðist ekki vera á valdi vinstri manna, því að þeir gera ekki ráð fyrir neinni breyttri hegðun við skattahækkun.
Verðlagning raforkunnar hér innanlands breyttist með vinstri stjórninni í Stjórnarráðinu og afkvæmi hennar í Háaleitinu. Slíkar tilefnislausar snöggar breytingar á heildsöluverði raforku í einu landi auka ekki tiltrú fjárfesta á orkuvinnslufyrirtækjunum og eigendum þeirra. Óhagræði Íslands vegna veiks raforkukerfis og langra fjarlægða frá hráefnum og afurðamarkaði var nóg fyrir, þó að ekki bættist við óvissa um, hvort landið mundi bjóða samkeppnifært verð á raforkunni. Þessum veikleika verður aðeins útrýmt með nýrri stjórn Landsvirkjunar og einarðri stjórn í atvinnuvegaráðuneytinu. Eins og málum er nú háttað er fjárfestum sýnt "listaverð" á raforku frá Landsvirkjun upp á 43 USmill/kWh. Þetta verð er ekki í neinu samræmi við jaðarkostnað virkjana fyrirtækisins, heldur er rökstutt þannig, að leitast sé við að láta verðlagningu raforku á Íslandi fylgja raforkuverðþróun í Evrópu. Sú stefnumörkun er auðvitað algerlega út í hött, af því að orkukerfi Íslands er gjörólíkt orkukerfi meginlands Evrópu, og um það gilda þess vegna önnur lögmál. Aukning á útflutningi orkukræfrar vöru frá Íslandi hefur tilhneigingu til að draga úr gróðurhúsaáhrifum á heimsvísu.
"Röksemdafærsla" Landsvirkjunar í verðlagsmálum er álíka gáfuleg og röksemdafærsla forstjóra fyrirtækisins fyrir samþykkt Icesave-samninganna, alræmdu. Hún er fyrir neðan allar hellur og tekur ekkert mið af því, að raforkukerfi Íslands er algrænt, sjálfbært og stækkanlegt með virkjunum endurnýjanlegra auðlinda, en raforkukerfi Evrópu er dökkbrúnt af jarðefnaeldsneyti og þar er reynt að auka hlut endurnýjanlegra og mjög óhagkvæmra orkulinda með stórfelldum niðurgreiðslum.
Verðlagningarstefna vinstri stjórnanna í Stjórnarráðinu og í Háaleitinu var þess vegna alveg út úr kú miðað við hagsmuni landsmanna af að laða hingað erlenda fjárfesta. Vinstri stjórn Stjórnarráðsins var í Alþingiskosningunum 27. apríl 2013 fleygt á öskuhauga sögunnar, en enn lafir vinstri stjórnin í Háaleitinu sem hver önnur tímaskekkja. Á meðan nást engir umtalsverðir nýir orkusamningar, og gamlir viðskiptavinir hafa jafnvel glatazt og súrnað sambandið við aðra. Neró leikur á fiðlu á meðan Róm brennur, og lýsir þetta sér í hjákátlegum gæluverkefnum á borð við sæstrengi til útlanda og vindmyllum á heiðum uppi.
Margt bendir nú til, að skortur á hæfu starfsfólki sé orðinn hamlandi fyrir hagvöxtinn. Þekkingarstig unga fólksins, þegar það kemur út úr skólakerfinu, er svo bágborið að jafnaði, en með góðum undantekningum þó, að við svo búið má ekki standa. Þekking og færni í meðferð móðurmálsins er í mörgum tilvikum skelfilega léleg, og lesskilningur og skriftargeta í erlendum málum, svo að ekki sé nú minnzt á hæfileikann til að tjá sig á erlendum málum, er algerlega ófullnægjandi. Verklega getan er heldur ekki upp á marga fiska. Verkleg þekking tækni- og verkfræðinga er í mörgum tilvikum skaðlega bágborin.
Þetta er ekki séríslenzkt fyrirbæri, og við þurfum ekki að finna upp hjólið til að bæta úr skák, heldur eigum við að leita í smiðju þeirra, sem bezt hefur tekizt upp í þessum efnum. Eitt slíkra landa er Þýzkaland. Í brezka tímaritinu "The Economist" gaf þann 12. október 2013 að líta eftirfarandi:
"Í iðandi Siemens risaverksmiðjunni í Berlín eru táningar í bláum samfestingum að læra að setja saman rafeindakort sem fyrsta skref í þriggja ára nemasamningi þeirra. Auk fræðslu um tækni, þjarkafræði (robotics) og önnur verkfræðileg svið fá nemarnir, 1350 að tölu í þjálfunarmiðstöð fyrirtækisins, þjálfun í að lesa tæknigögn og að fara með talnagögn. Við útskrift er ætlazt til, að þeir geti gert grein fyrir verkefnum með texta og tölum, og lausn viðfangsefna, á ensku og þýzku. Þegar lönd leita leiða til að bæta þjálfun á vinnumarkaðinum, m.a. til að auka framleiðnina, þá er gerhygli Siemens-vinnubragðanna fyrirmynd margra. Kostnaðurinn per nema nemur um kEUR 100, um MISK 16, svo að hér er um meiri háttar fjárfestingu að ræða. Norbert Giesen, yfirleiðbeinandi, segir, að vegna vaxandi þróunarhraða framleiðsluaðferðanna og hraðari innleiðingar uppfinninga, þá leggi fyrirtækið nú aukna áherzlu á "mjúka" hæfni, t.d. hvernig á að setja saman árangursrík teymi og skipta með sér verkum með sem beztum hætti. Þessi þekking er nytsamleg, hvernig sem allt veltist."
Af þessari hugmyndafræði má margt læra. Samstarf hins opinbera menntakerfis og fyrirtækjanna þarf að efla. Annars er hætt við, að opinbera menntakerfið dragist aftur úr og mennti ungviði fyrir gærdaginn. Í tveimur efstu deildum grunnskólans þarf að aðgreina verknáms- og bóknámsleiðir, þó að nemendur geti síðar skipt um brautir. Með því að koma þannig til móts við ólíkar þarfir nemendanna, verður dregið úr brottfalli, sem jafngildir að minnka sóun hæfileika. Fyrirtækin þurfa að koma í ríkari mæli að gerð námskráa og námsefnis og að koma að þjálfun og kennslu, eins og frásögnin hér að ofan frá Berlín ber með sér, að Þjóðverjar gera.
Þetta er ekki nýtt hjá Þjóðverjum. Hjá þeim er meistarakerfið enn við lýði. Íslenzka menntakerfið þarf að verða mun skilvirkara en það er nú. Það er ekki meira opinbert fé til reiðu í menntakerfið núna, svo að góðar lausnir þurfa að koma fram til að bæta skilvirknina. Námskráin þarfnast endurnýjunar, fjölbreytni og valfrelsi þarf að auka og atvinnulífið þarf bæði tækifæri og hvata til að taka þátt. Þó að upphæðin, sem Siemens ver til þjálfunar hvers nema, 16 milljónir kr, virðist há, þá fá þeir áreiðanlega góða ávöxtun á þá fjárfestingu með vinnuframlagi nemanna og með hæfara starfsfólki, þegar að nýráðningum kemur. Að stokka spilin að nýju í menntakerfinu og víðar er nauðsyn til bættrar afkomu þjóðarbúsins.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.