15.2.2014 | 17:44
Stjórnlagadómstóll Þýzkalands brýtur blað
Þann 7. febrúar 2014 brutu rauðhempurnar, ekki þó rauðhetturnar, í Karlsruhe, blað í sögu evrusamstarfsins. Þá kvað Stjórnlagadómstóll Sambandslýðveldisins Þýzkalands upp úrskurð um lögmæti þess að skuldbinda þýzka skattgreiðendur fyrir lánveitingum til evruríkja í fjárhagsvanda. Þetta var athygliverður úrskurður, sem sýnir í hnotskurn umbrotin í Þýzkalandi út af þeirri braut æ nánari samruna, sem ESB er á. Er þar komið að leiðarlokum ?
Úrskurðurinn var á þá leið, að þetta væri óheimilt og bryti líklega í bága við sáttmála ESB, t.d. Lissabonsáttmálann. Rauðhempurnar þekkja vel valdmörk sín og kváðu Evrópudómstólinn einan hafa lögsögu í málum, er vörðuðu sáttmála ESB. Það er þó augljóst, að með úrskurði sínum setja rauðhempurnar starfsemi björgunarsjóðs evrunnar, svo og skuldabréfakaup evrubankans af bönkum evrusvæðisins, hvers andvirði hefur síðan gengið til kaupa á ríkisskuldabréfum viðkomandi ríkis, í algert uppnám. Þeir, sem héldu, að vandi evrunnar væri leystur, vaða augljóslega í villu og svíma. Það er uppi lögfræðilegur ágreiningur um lögmæti samþykkta ESB í einstökum ríkjum, og það er uppi mikil fjárhagsleg spenna, jafnvel togstreita, á milli lántökulanda og lánveitendalanda innan evrusvæðisins. Evran gengur vel á meðan allt leikur í lyndi, en þegar eitthvað bjátar á, koma veikleikar þessa hugarfósturs Frakka í ljós. Gallinn við evruna var, að hún var hugsuð út frá stjórnmálalegum forsendum, en síður hagfræðilegum. Hún rændi Þjóðverja þýzka markinu, sem Frakkar óttuðust, að bera mundi ægishjálm yfir aðrar myntir Evrópu. Frakkar hugsuðu málið ekki til enda. Með því að lækka verðbólguna í Þýzkalandi í krafti þýzks aga niður í lágmark á evrusvæðinu, varð þýzk framleiðsla sú samkeppnihæfasta á evrusvæðinu og þó víðar væri leitað. Þjóðverjar búa nú við veikan gjaldmiðil m.v. DEM, en firnasterka útflutningsatvinnuvegi. Frakkar sitja með bjúgverpil í fanginu, eða þeir sitja með skeggið í póstkassanum, eins og Norðmenn taka til orða.
Enn eru þeir menn á Íslandi, sem telja hagsmunum Íslands bezt borgið innan ESB, við framkvæmdastjórnarborðið, eins og þeir stundum minnast á. Þeir hinir sömu skulda þjóðinni beinhörð rök fyrir aðild Íslands. Hvaða hagsmunum yrði betur borgið ? Þá dugar ekki hlandvolgt japl um, að Íslendingar séu Evrópuþjóð og eigi samleið með þeim þjóðum Evrópu, sem gengið hafa í ríkjasamband, þar sem forystan leynt og ljóst stefnir á sambandsríki án þess nokkru sinni að spyrja þjóðirnar, hvort þær hafi hug á því. Kalt hagsmunamat til langrar framtíðar þarf að leggja til grundvallar.
Við erum með fullt aðgengi að Innri markaðinum vegna EES-samningsins og gætum vafalítið náð tvíhliða samningi um slíkt aðgengi, þó að EES hrykki upp af. Ástæðan er sú, að ESB-ríkin hafa sízt minni þörf fyrir vörur okkar en við á að selja þeim helztu vöruflokkana, ál og sjávarafurðir, því að það eru mjög álitlegir markaðir fyrir þessar vörur annars staðar. Svisslendingar gáfu ESB langt nef í þjóðaratkvæðagreiðslu um helgina 8.-9. febrúar 2014. Það var aðallega vegna þess, að Svisslendingar ráða ekki lengur landamærum sínum, og meiri fjöldi fólks streymir til Sviss frá suður- og austurhluta Evrópu en góðu hófi þykir gegna. Brüssel fýldi strax grön, en andstaðan á meðal almennings í Evrópu gegn frjálsu flæði vinnuafls er orðin slík, að viðbrögð Brüssel verða stormur í vatnsglasi.
Hagsmunir Íslands og ESB rekast hvað eftir annað á í sjávarútvegsmálum; nú síðast í makríldeilunni. Ef Ísland væri innan stokks, þá væru fulltrúar þess keflaðir þar og ofurliði bornir með meirihlutavaldi, en nú erum við sem strandríki fullgildir samningsaðilar. Að vera fyrir utan getur hæglega jafngilt 20 milljörðum kr meira í útflutningstekjur á ári í þessari einu fiskitegund.
Samkvæmt reglum ESB má ekki meina fyrirtækjum í öðrum ESB-ríkjum að fjárfesta í íslenzkum fyrirtækjum, einnig í sjávarútvegi, sem mundi breyta íslenzkum sjávarútvegi talsvert, og ekki endilega til bóta m.v. ástandið í evrópskum sjávarútvegi. Þó að gert sé ráð fyrir frjálsu flæði fjármagns, er þá ekki líklegt, að minna af hagnaðinum yrði fjárfest innanlands, ef fjármagnseigendur hafa höfuðstöðvar erlendis ? Þetta getur skipt tugum milljarða kr.
Ekki þarf að orðlengja um ákvörðun aflamarks eða úthlutun veiðiheimilda. Allt yrði það á hverfanda hveli. Líklegt er, að í byrjun yrði þetta óbreytt, nema að forminu er ákvörðunarvaldið í Brüssel, en síðan kynni Spánn eða hvaða aðildarland sem er að kæra fyrirkomulagið til Evrópudómstólsins, sem mundi dæma á grundvelli sáttmála ESB Íslandi í óhag. Þá yrðum við eins og fjárhættuspilari, sem búinn er að spila rassinn úr buxunum. Óþarft er að slá tölu á það fjárhagstjón landsins, sem gæti kippt stoðunum undan getu þess til að bæta hér lífskjörin og greiða upp erlendar skuldir.
Með aðild að ESB skapast möguleiki á gjaldmiðilsskiptum, eins og Lettar framkvæmdu um síðustu áramót. Ekki er víst, að hamingjan verði höndluð með því, eins og lesa má í eftirfarandi frásögn The Economist 1. febrúar 2014. Þá má benda á gríðarlegan kostnað samfara evruþátttökunni og ESB-aðildinni, sem að nokkru fer í björgunarsjóð evrunnar og í að viðhalda djúptækri spillingu í meðferð styrktarfjár frá ESB.
"Í grískri goðafræði er Cerberus þríhöfða hundur, sem gætir hliðanna að Hades. Í nútíma sögu Grikkja er þríeykið þríhöfða skrímsli, sem hefur fest landið í efnahagslegri myrkraveröld. Í fjármálaráðuneytinu í Aþenu hrópa meira að segja ræstingakonurnar "morðingjar" að gestum á vegum þríeykisins. Í Lissabon eru fúkyrði á borð við "Til fjandans með þríeykið". Vinsælt nýyrði á portúgölsku er "entroikado", sem þýðir hagfurða. "
Hver segir, að svipað ástand gæti ekki skapazt á Íslandi ? Íslenzka hagkerfið gengur ekki í takti við hagkerfi Evrópu, heldur meira í takti við aflabrögð á Íslandsmiðum og framboð sjávarafla í heiminum. Fastgengi evrunnar gæti stórskaðað gjaldeyrisöflun Íslands og vextir evrubankans gætu ýtt undir þenslu og magnað samdrátt hérlendis vegna misgengis hagsveiflu hér og þar.
Á Spáni hafa laun lækkað um a.m.k. 20 % árin 2011-2013 , og atvinnuleysið er um 25 % að jafnaði, og yfir helmingur ungmenna undir þrítugu gengur atvinnulaus. Evran er þægileg í viðskiptum, en það er skammgóður vermir, því að samfélagslegur fórnarkostnaður af henni er geigvænlegur. Hann er jafnvel meiri en Evrópa getur staðið undir, og þess vegna mun hún að öllum líkindum splundrast. Það er meiri reisn yfir því að reyna að ná stöðugleika á eigin spýtur í sjálfstæðu hagkerfi en að vera hreppsómagi með sterkan gjaldmiðil. Um þetta skrifaði Laxness eitthvað á þá leið, að feitur þjónn væri lítils virði, en barður þræll væri mikill maður, því að í brjósti hans byggi frelsisneistinn. Hér sem oftar veltur afstaða manna til ESB-aðildar á því, hversu mikils þeir meta frelsið, frelsið til áhrifa á samfélag sitt. Augljóslega minnka áhrif landsmanna á skipan þjóðfélagsmála hérlendis, ef þeir ganga í ríkjasamband.
"Evrópuþingið hefur nú hafið rannsókn á vinnubrögðum þríeykisins. Þingmenn á Evrópuþinginu hafa heimsótt lönd, sem þríeykið hefur í meðferð, og hafa stefnt embættismönnum þríeykisins til grillunar. Vinstri menn saka þríeykið um óhæfni, jafnvel um að hunza félagsleg réttindi, sem tryggð eru í sáttmálum ESB, og vilja afnema þríeykið. Hægri menn segja þríeykið vera nauðsynlegt verkfæri, sem hafi sannað verðleika sína, en afnema eigi það með tímanum. Báðir aðilar telja lagagrundvöll þríeykisins hæpinn, og það beri mjög óljósa ábyrgð.
Þríeykið liggur undir harðastri gagnrýni í Grikklandi og ekki að ástæðulausu. Landsframleiðslan hefur rýrnað um fjórðung síðan við upphaf evrukreppunnar, og 27 % vinnuaflsins er atvinnulaust."
Þetta er ljót lesning, sem sýnir, hvílíkum hreðjatökum ESB tekur þá, sem standa höllum fæti á evrusvæðinu og ógna með einhverjum hætti stöðugleikanum þar. Þar er hvorki skeytt um skömm né heiður, heldur vaðið út í miskunnarlausar aðgerðir án þess að kanna, hvort þær njóta lagastoðar eður ei, allt í nafni evrunnar.
Hið kaldranalega fyrir Íslendinga við þennan lestur er, að væru þeir komnir á evrusvæðið, þá gætu þeir hæglega orðið fórnarlömb þríeykisins eða arftaka þess, lent í hakkavél, sem færir þá áratugi til baka í lífskjörum, af því að hagkerfi þeirra er viðkvæmt fyrir ytri áföllum vegna smæðar sinnar.
Af þessari sögu er aðeins hægt að draga einn lærdóm. Alþingi á nú þegar á vorþinginu, þó að stutt verði vegna sveitarstjórnarkosninga, að draga til baka hina fljótfærnislegu og jafnvel skaðlegu umsókn að Evrópusambandinu, ESB. Við höfum fengið smjörþefinn af trakteringum ESB í bankahrunsmálinu, Icesave, í deilum um nýtingu fiskistofna o.fl., og við höfum horft upp á meðferðina á þeim, sem innanbúðar eru í ESB og hafa lent í efnahagslegum vandræðum. Þeir eru eins og flugur fastar í köngulóarvef. Umsóknarferli, sem umvafið var þeim blekkingarvef, að Íslendingar gætu sveigt ESB af leið og fengið sínu framgengt í samningaviðræðum, var reist á dómgreindarleysi og þekkingarleysi og hlaut þess vegna að steyta á skeri. Úr því að eindregnum aðildarsinnum tókst ekki að leiða þetta dæmalausa ferli til lykta, er náttúrulega borin von, að andstæðingum aðildar verði eitthvað ágengt með stækkunarteymi ESB. Umsókn Íslands hefur engu skilað, nema ærnum kostnaði fyrir ríki og sveitarfélög í aðlögun og verður fleygt í glatkistuna árið 2014, eins og tveimur umsóknum Noregs, árið 1972 og 1994.
Það er ekki þar með sagt, að samskiptin við ESB verði lögð í frost. Þvert á móti geta þau nú hafizt á eðlilegum forsendum. Sá sem vill berjast fyrir aðild Íslands að ESB verður að finna málstað sínum betri rök en hingað til hefur verið veifað, og hann verður að sannfæra meirihluta þingheims um það. Þá verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um það, hvort taka skuli upp þráðinn, þar sem frá var horfið, og leiða aðlögunina til lykta. Því mun verða hafnað, nema forsendur gjörbreytist.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.