14.3.2014 | 22:49
Landhelgin er í húfi
Á mæli sumra má skilja, að þeir séu haldnir vantrú á mynt landsmanna, en ofurtrú á hagkerfinu íslenzka. Þetta samrýmist illa, en lýsir sér þannig, að ýmist lýsa þeir því yfir, að þeir vilji gjarna sjá aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið, ESB, leiddar til lykta, eins og þeir kalla fulla aðlögun, og síðan greiða atkvæði um skilmálana, eða þeir lýsa því blákalt yfir, að þeir vilji skilmálalaust inn í ESB til að landið ætti þess kost að skipta um mynt og innleiða evru í stað krónu. Til að vist á evrusvæðinu leiði ekki til ófarnaðar, verður hagkerfi viðkomandi lands að vera sterkt og samkeppnihæft, mun öflugra en íslenzka hagkerfið er núna, þó að það stefni í rétta átt undir forystu fjármála- og efnahagsráðherra.
Hjá ESB-trúboðinu og hælbítum krónunnar rekst hvað á annars horn og ber vitni djúpstæðra ranghugmynda og flótta frá staðreyndum, sem nú er hægt að afla sér eftir útkomu skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ. Þá erum við kjósendur ekki lengur ofurseld blekkingavef Össurar Skarphéðinssonar og Þorsteins Pálssonar, en umsóknin um aðild strandaði á þeirra vakt af ástæðum, sem hér verða tíundaðar.
Hér er ekki ætlunin að gera lítið úr samningahæfileikum þeirra félaganna, en hitt er afar gagnrýnivert við þá að leggja sig allan tímann í líma við að telja þjóðinni trú um allt aðra samningsstöðu en uppi er í raun og jafnframt að klappa þann steininn, að Össur hafi gert hlé á viðræðunum í ársbyrjun 2013 vegna Alþingiskosninganna sama ár, þegar staðreyndin er sú, að umsóknin hafði steytt á skeri þá fyrir löngu, og skerið var vegarnesti Alþingis til Össurar, sem var ósamrýmanlegt stjórnkerfi ESB á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Það þarf að velta Össuri upp úr tvöfeldni hans á Alþingi.
Það er hafið yfir vafa, að til að myntskipti, þ.e. í raun upptaka fastgengisstefnu, geti orðið hagkerfinu til styrktar, þ.e. aukið langtíma hagvöxt í landinu, verður hagkerfið að standa traustum fótum. Ef myntin er evra, eins og ýmsa virðist dreyma um, þá þarf að greiða ríkisskuldir hratt niður, því að þær mega ekki vera hærri en 60 % af VLF í evrulandi. Til að þetta gangi eftir þarf að verða hár viðskiptajöfnuður við útlönd, t.d. ISK 100 milljarðar á ári, sem verður aðeins í góðæri og með lítilli aukningu á einkaneyzlu. Þetta útheimtir að sjálfsögðu góðan aga á ríkisfjármálunum, svo að skuldasöfnun hætti og við taki hár greiðslujöfnuður á fjárlögum.
Verðbólgan þarf að verða með því lægsta, sem gerist í Evrópu. Ekki er víst, að það verði eftirsóknarvert á næstunni, því að evrusvæðið er að falla í verðhjöðnun, en hún er mikið böl.
Til að samlaga hagkerfi Íslands hagkerfi evrusvæðisins þurfa vextir Seðlabanka Íslands ennfremur að verða mjög nálægt vöxtum Seðlabanka evrunnar, en þeir eru líklega 0,5 % um þessar mundir.
Með öðrum orðum þarf styrkur íslenzka hagkerfisins til lengdar að vera svipaður og þýzka hagkerfisins. Þeir, sem halda, að þetta sé raunhæft, hafa í raun ofurtrú á íslenzka hagkerfinu, og þá er óskiljanlegt, hvers vegna þeir hafa vantrú á íslenzku krónunni, því að hún endurspeglar styrkleika og veikleika hagkerfisins, en lifir ekki sjálfstæðu lífi í frjálsu hagkerfi, eins og allir stefna að, bæði inngöngusinnar og fullveldissinnar. Ef hagkerfið verður svona sterkt, eins og skilyrði myntskiptanna útheimta, þá verður myntin líka sterk. Annað væri alger þversögn.
Með umsókn um aðild að ESB var verið að setja umráðarétt Íslendinga yfir landhelginni, 200 sjómílur frá yztu töngum landsins, í uppnám, og boðskapurinn til ESB er sá á meðan umsóknin er við lýði, að Íslendingar séu til viðræðu við Berlaymont um sameiginleg not af henni með fiskveiðiþjóðum ESB. Þetta er hart aðgöngu fyrir þá, sem "vilja kíkja í pakkann", en á þetta stöðumat er ekki hægt að bera brigður eftir útkomu skýrslu HHÍ um aðildarumsóknina. Verður nú gripið niður í einn höfundinn, Ágúst Þór Árnason, lögfræðing og kennara við lagadeild Háskólans á Akureyri:
"Ekki tókst að opna landbúnaðarkaflann og sjávarútvegskaflann, hann sigldi í strand áður en hann komst á það stig, að hægt væri að ljúka rýniskýrslu um hann, og í kjölfarið að hefja viðræður um kaflann. Ástæðan var sú, að Evrópusambandið vildi setja viðmið um opnun hans, sem hefðu verið óaðgengileg með öllu fyrir Ísland." Þau hefðu falið í sér, að Ísland undirgengist áætlun um aðlögun að sjávarútvegsstefnu ESB áður en viðræður hæfust um kaflann."
Þarf frekari vitnana við um, hvert stefndi, og hvers vegna viðræðurnar eru fyrir löngu strandaður, þó að tveir stjórnmálaflokkar á Íslandi og Þorsteinn Pálsson berji enn hausnum við steininn og haldi uppi blekkingariðju um, að nú sé hægt að bruna af stað í viðræður án þess að slá neitt af kröfum Íslands um óskert íslenzkt fullveldi yfir landhelginni umhverfis Ísland ?
Slíku fullveldi er ESB nú þegar búið að hafna. Íslendingar verða að deila fullveldinu yfir landhelginni með tæplega 30 öðrum þjóðum, þ.á.m. þjóðum með gríðarlegan fiskiskipaflota, sem skortir verkefni, og má þar nefna Spánarflotann til sögunnar. Það er hinn nöturlegi sannleikur, sem felst í texta lögfræðingsins hér að ofan.
Heyra menn ekki, hverjum klukkan glymur nú, þegar ESB hefur sýnt sitt rétta andlit í samskiptunum við okkur á sjávarútvegssviðinu ? Þrátt fyrir fögur fyrirheit í haust um samstöðu gegn Norðmönnum til að tryggja sjálfbærar veiðar á makrílnum, þá snýr Damanaki gjörsamlega við blaðinu nú í marz 2014 og samþykkir stórfelldar veiðar umfram vísindalega ráðgjöf, e.t.v. til að þóknast Norðmönnum, olíusjeikum norðursins, á viðsjárverðum tímum, þegar mál geta þróast með þeim hætti, að Rússar skrúfi fyrir gasflutning til ESB-landa.
Þetta sýnir, að það er ekki vitglóra í því svo mikið sem að gæla við hugmyndina um nánara samband við Berlaymont, að ganga í ríkjasambandið þeirra, eins og suma virðist dreyma um hérlendis, því að hagsmunir okkar munu aldrei verða virtir, ef þessu ríkjasambandi hentar eitthvað annað þá stundina. Fiskistofnum er þá hiklaust fórnað á altari stjórnmálanna, þar sem aðrir hagsmunir eru ríkari. Hvað þurfa menn skýr dæmi fyrir framan sig til að skilja áður en skellur í tönnunum ? "Heiðra skaltu skúrkinn, til að hann skaði þig ekki" má í þessu tilviki alls ekki túlka þannig, að bezt sé að henda mestu verðmætunum, fullveldi landsins, í faðm skúrksins, en það virðist vera einbeitt afstaða Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Þorsteins Pálssonar.
Við, sem erum á öndverðum meiði við þetta fólk um þessi málefni, höfum aldrei verið sannfærðari en nú um réttmæti skoðana okkar. Það er ekki minnsta ástæða til að láta fólk, sem virðist hafa tapað ráði og rænu og er ófært um að halda uppi rökstuddu andófi, en grípur til skrípaláta innan veggja Alþingis og skrílsláta þar utan veggja, setja meirihluta Alþingis í einhvers konar herkví. Það verður að höggva á hnútinn að hætti Alexanders, mikla, og samþykkja þingsályktunartillöguna um afturköllun umsóknar um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Það er þungbært fyrir Noregsvin, sem numið hefur og starfað í Noregi og hefur tengsli þangað, að verða vitni að ótrúlegu framferði þeirra í makrílmálinu. Af einskæru ofstæki í garð Íslendinga fórna þeir orðspori sínu sem fiskveiðiþjóðar, sem setur sjálfbæra nýtingu á vísindalegum grundvelli í öndvegi. Þeir boða rányrkju á makríl og tekst með offorsi og baktjaldamakki að fá aðrar þjóðir í lið með sér. Til hvers eru refirnir skornir ?
Ef sú kenning er rétt, að ætlunin sé að bola Íslendingum út úr makrílveiðum og af makrílmörkuðum með því að minnka svo stofninn, að hann syndi ekki lengur í neinum mæli inn í íslenzka lögsögu, þá er mála sannast, að algert ábyrgðarleysi hefur tekið völdin í Ósló, svo að ekki sé nú kveðið svo fast að orði sem vert væri. Hvaða önnur skýring er í boði ?
Á vettvangi norræns samstarfs verða Íslendingar nú að taka glímu við sína norsku frændur, krefja þá skýringa og núa þeim fjandsemi við "sitt broderfolk der ute i Atlanteren" um nasir á hverjum fundi og á öllum vígstöðvum reyndar. Norska þjóðin metur meir frændsemi Íslendinga en örlítið meiri markaðshlutdeild í makríl.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.