Þvættingur aðildarsinna

Ekki ríður nú heimatrúboð ESB feitum hesti frá viðureigninni við þá, sem aldrei hafa fundið eða hafa þegar losað sig við "kraftbirtingarhljóm" inngöngu Íslands í Evrópusambandið. 

Einn þvættingurinn úr heimatrúboðinu er, að þeir, sem ekki finna "kraftbirtingarhljóminn" séu einangrunarsinnar, og hinir ofstækisfyllstu halda því fram, að Ísland sé einangrað.  Ekkert er fjær sanni, því að við viljum, að landið hafi frelsi til samninga og samskipta við þær þjóðir, sem við höfum hug á að efla tengsli við, en séum ekki bundin á klafa Berlaymont innan viðskiptamúra ESB.  Það hefur að vísu komið í ljós í utanríkissamskiptum landsins, að ekki eru allir viðhlæjendur vinir, en hvernig það á að breytast við inngöngu í ESB er óútskýrt.   

Damanaki og aðrir, sem mótuðu samningsafstöðu ESB um nýtingu á makríl í Edinborg í marz 2014, opinberuðu hentistefnu sína og skilningsleysi á hagsmunamálum Íslendinga.  Jafnframt sýndu þeir í verki, hvers vegna 80 % nytjastofna í lögsögu ESB eru ofnýttir og sumum liggur við útrýmingu.  Það er vegna þess, að sjálfbær nýting auðlinda er einvörðungu í nösunum á þeim, og ætíð er látið undan þrýstingi hagsmunaaðila, þó að slíkt stríði algerlega gegn ráðleggingum vísindamanna.  Hvernig halda menn nú, að málum yrði skipað, ef Berlaymont yrði hleypt að ákvarðanatöku um nytjar íslenzku lögsögunnar ?  Það eru ótrúlegir einfeldningar, sem enn trúa því, að innganga í ESB geti átt sér stað á forsendum Íslendinga og að allt verði nánast óbreytt varðandi fiskveiðistjórnun og eignarhald á sjávarútveginum.  Sjá menn ekki skriftina á veggnum í Edínaborg ?

Það hefur verið sýnt fram á, að umsóknin um aðild Íslands sigldi í strand í marz 2011, fyrir þremur árum, þegar Frakkar, Spánverjar og Portúgalir komu í veg fyrir birtingu rýniskýrslu ESB á sjávarútvegskafla aðlögunarferlisins á þeim forsendum, að skilyrði meirihlutans í utanríkismálanefnd Alþingis væru ósamrýmanleg sjávarútvegsstefnu ESB.  Þetta fóru Össur og Þorsteinn með sem mannsmorð, og ríkisstjórn Jóhönnu heimtaði trúnað um upplýsingar, sem fram komu í utanríkismálanefnd um þetta.  Þess vegna var þjóðin leynd sannleikanum, og Össur hélt því blákalt fram gegn betri vitund, að vel gengi. 

Að kröfu Jóhönnu rak Steingrímur Jón Bjarnason úr stóli sjávarútvegsráðherra og tók sjálfur við embættinu 31. desember 2011.  Það gat hins vegar engu breytt um viðræðurnar, því að vandamálið lá í utanríkismálanefnd Alþingis, sem Össur fékk ekki haggað.  Steingrímur hélt utan til Brüssel í ársbyrjun 2012 og ætlaði að binda endi á viðræðurnar með því að þröngva Füle til að birta rýniskýrsluna.  Við slíka birtingu hefði orðið stjórnmálaleg sprenging á Íslandi, umsóknin orðið sjálfdauð og Steingrímur verið skorinn úr snörunni.  Í stað þess veslaðist hann upp, pólitískt, og missti formannsembættið í flokkinum sínum, VG. 

Þvættingurinn nú um, að kjósa verði úm framhald inngönguferlisins, sem Össur frestaði fram yfir kosningar 2013 og Gunnar Bragi stöðvaði strax eftir stjórnarmyndun, er algerlega úr lausu lofti gripinn, og frá bæjardyrum Berlaymont hlýtur hann að virka sem út úr kú, því að hvað svo ?  ESB birtir ekki rýniskýrslu sína, nema utanríkismálanefnd Alþingis lagi skilyrði sín að hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu ESB.  Á því eru hins vegar engar líkur.  Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna er þess vegna fíflagangur, þar sem kjósendur yrðu hafðir að erkifíflum, því að niðurstaðan mundi engu breyta.  Sá skrípaleikur yrði auðvitað í boði Samfylkingar og Bjartrar framtíðar, og því miður hefur Vinstri hreyfingin grænt framboð misstigið sig illilega og klofið samstöðu andstæðinga aðildar að ESB með því að boða þingsályktunartillögu um að leggja umsóknina á ís og kjósa um framhaldið í lok kjörtímabilsins.  Katrín gerir sig seka um að draga kjósendur á asnaeyrunum með ákvarðanafælni sinni.  Að kjósa um steindautt mál, fortíð, sem enginn fær breytt, er fáránlegt og viðbjóðsleg blekkingarstarfsemi, svo að ekki sé nú minnzt á sóunina.   

 

  Við stöndum nú frammi fyrir nauðsyn kalds hagsmunamats í utanríkismálum og verðum að hafna tilfinningaþrungnum þvættingi um, að við eigum heima í ríkjasambandi Evrópumanna.  Þar eru þau vatnaskil að verða núna, að til að vegna vel þar, verður að ganga í takti við Berlínarbændur.  Gæsagangur er hefðbundið göngulag Prússa og alls ekki bundið við Þriðja ríkið, en ekki er víst, að það henti eyjarskeggjum norður í Atlantshafi alls kostar, þó að sumir kunni því vel.

Íslendingar hafa frá fornu fari átt góð og oftast vinsamleg samskipti við Þjóðverja, þó að verulegan skugga bæri á í heimsstyrjöldinni síðari, er við lögðum okkur í framkróka við að þjóna brezka heimsveldinu, fóðra Breta með fiski, enda hernumin þjóð af Bretum, og urðum fyrir miklum mannskaða á hafinu af völdum þýzka flotans, sem reyndi að vinna upp, það sem Luftwaffe tapaði óvænt sumarið og haustið 1940 í orrustunni um Bretland, þar sem ný tækni Bretanna reið baggamuninn. 

Enn á ný horfa Þjóðverjar til austurs.  Það hafa þeir gert, frá því að þeir réttu úr kútnum eftir 30 ára stríðið, 1618-1648, sem fór mjög illa með þá, og raunar löngu áður með Junkerum á 15. öld.  Þangað hafa þeir sótt "Lebensraum" fyrir vaxandi mannfjölda.  Nú er slíkri þörf ekki lengur til að dreifa, af því að þeim fækkar, og hið sama gildir um Rússa, sem hafa verið meðspilarar Þjóðverja frá því á tíma Gorbatsjoffs, sem leyfði járnkrumlu kommúnista utan um Austur-Þýzkaland að leysast upp árið 1989.  Í kjölfarið unnu Þjóðverjar afrek við sameiningu hernámssvæðis Rússa við Vestur-Þýzkaland og bera nú um stundir ægishjálm yfir önnur ríki Evrópu vestan Rússlands vegna dugnaðar síns, skipulagningar, iðni og nákvæmni.   

Nú mun reyna gríðarlega á ríkisstjórnina í Berlín og viðskiptajöfra Þýzkalands við að sigla á milli skers og báru, nú þegar rússneski björninn lyftir hrömmunum og gerir sig líklegan til landvinninga í vesturátt.  Af þeim atburðum í Úkraínu, sem þegar hafa orðið, svo og auknum hernaðarumsvifum í Rússlandi, má ráða, að í Evrópu sé aftur að myndast mikil spenna á milli þjóða.  

Lykilatriði um þróun mála verður afstaða ríkisstjórnarinnar í Berlín.  Þýzkaland er auðvitað mjög tengt hagsmunaböndum til vesturs, en einnig til austurs, og Rússar geta í einu vetfangi lamað hið öfluga hagkerfi Þýzkalands með því að orkusvelta það.  Svo að segja með einu handtaki geta þeir skrúfað fyrir lífæð hagkerfisins, gaslagnir um Úkraínu og á botni Eystrasalts.Til lengdar mun það vopn hins vegar snúast í höndum Rússa, því að Þjóðverjar munu afla sér eldsneytisgass eftir öðrum leiðum, en það tekur fáein ár.  

Í kjölfar aðgerða af þessu tagi yrði Rússland einangrað, eins og var á ráðstjórnartímanum, og veldi Pútíns mun þá hrynja.  Þá munu Þjóðverjar stíga inn á sviðið sem hjálparhellur, því að markmið þeirra er og hefur lengi verið lýðræðislegt réttarríki í Rússlandi, þar sem þeir geta fjárfest í auðlindum og markaðssett sínar vörur og tækniþekkingu.  Það er alls ekki ólíklegt, að Evrópu verði á fyrri hluta 21. aldarinnar stjórnað af öxlinum Berlín-Moskva, en öxullinn Berlín-París muni tærast í sundur, enda þegar orðinn feyskinn.  

Við þessar aðstæður munu ekki öll aðildarlönd ESB telja sér vært þar, svo að núverandi ESB mun klofna.  Hvaða utanríkispólitísku greiningar lágu eiginlega að baki þeirri hugmynd, að Ísland ætti heima í ESB ?  Engar.  Hugmyndin var reist á tilfinningalífi nokkurra jafnaðarmanna og peningamanna á Íslandi.  Hvílíkur Jón í Hvammi, var sagt, þegar mönnum blöskraði.  Álpast var út í forarvilpuna algerlega hugsunarlaust.     

Hvar liggja þá meginhagsmunir Íslands ?  Það getur hugsazt, að Washington fái meiri áhuga fyrir Evrópu og vilji endurnýja fótfestu sína þar, að breyttu breytanda, þegar viðsjár fara þar vaxandi, eins og nú eru horfur á.  Í Moskvu ríkir forseti, sem er umhugað að reisa við stolt Rússa, sem beið hnekki við upplausn Ráðstjórnarríkjanna, og að víkka út landamæri ríkisns til að fleiri Rússar fái notið dásemda Kremlarstjórnvaldsins.  Slíkt fellur í kramið heima fyrir. 

Þetta minnir á það, þegar austurríski áhugaarkitektinn frá Linz, sem lét kjósa sig arftaka Hindenburgs 1934 og varð þar með bæði kanzlari og forseti Þýzkalands, der Führer Deutschlands, sópaði þýzkumælandi fólki undir sinn verndarvæng með myndun Stór-Þýzkalands. 

Það er gríðarlega eldfimt að breyta landamærum einhliða í Evrópu, og ESB og NATO verða strax að brýna klærnar.  Fyrstu viðbrögð að neita nokkrum rússneskum pótintátum um vegabréfsáritun eru hláleg, og betur má, ef duga skal.  Rússlandsforseti er kominn með "blod på tanden", nákvæmlega eins og Þýzkalandsforsetinn 1936, skömmu eftir vel heppnaða Olympíuleika í Berlín, er hann sendi lítt búna Wehrmacht-liða og endursameinaði Rínarlönd Þýzkalandi.  Þar hefði verið útlátalítið að veita karli viðnám og hrekja hann úr valdasessi.  Tannlaust og klóalaust tígrisdýr getur hins vegar ekki stöðvað Rússlandsforseta.  Eins og Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák, hefur bent á, eru til viðskiptalegar aðferðir, sem duga gegn þeim karli.  Nú er spurningin, hvort silkihanzkar forseta íslenzka lýðveldisins í Bodö og ofanígjöf við norskan ráðuneytisstjóra þar eru rétta aðferð okkar Íslendinga gagnvart yfirgangi Kremlverja.   

Eins og fyrir 100 árum, árið 1914, getur lítill neisti fljótt orðið að miklu báli árið 2014.  Það er erfitt að finna rök fyrir því, að við þessar aðstæður sé Íslendingum hollast að binda trúss sitt enn traustari böndum við ESB, sem er gerandi í átökunum við Rússa. Skynsamlegra er fyrir okkur, sem erum á jaðri Evrópu, að horfa nú til vesturs en austurs og suðurs í stjórnmálalegu og viðskiptalegu tilliti, þó að við reynum að halda í horfinu þar í viðskiptalegu tilliti.  

Ef svo fer fram sem horfir með verðhjöðnun í Evrópu, þá mun markaðsverð fyrir afurðir okkar fara lækkandi, svo að markaður fyrir vörur frá Íslandi verður þar ófýsilegur.  Þá er ekki ráð, nema í tíma sé tekið, að horfa til annarra átta. 

Hið ískyggilega við þessa þróun mála í Evrópu er, að á sama tíma aukast viðsjár með þjóðum Austur-Asíu, t.d. á milli Kínverja og Japana.  Þar er á yfirborðinu um að ræða deilur um yfirráð yfir ákveðnum eyjaklasa, en deilurnar snúast í raun um forystuhlutverk í þessum heimshluta.  Báðar þjóðirnar efla nú mjög vígbúnað sinn, einkum flotann. 

Þessi neikvæða þróun heimsmálanna er slæm fyrir Íslendinga, sem þrífast bezt með jákvæðum samskiptum og frjálsum viðskiptum. Heimurinn mun þó afram hafa þörf fyrir aðalafurðir okkar, heilnæmar sjávarafurðir og gæðaál.  Ástand af þessu tagi er líklegt til að gera orkulindirnar enn verðmætari en áður.  Það er bráðnauðsynlegt fyrir hagkerfið og lífskjörin í landinu að auka enn nýtingu þeirra með gerð nýrra miðlunarlóna og vatnsaflsvirkjana.  Að standa gegn slíku er að leggjast þversum gegn framförum, sem eru forsendur bættrar afkomu almennings, sem sterkt ákall er eftir.

Ákvarðanafælni hefur einkennt orkumálin hérlendis undanfarin ár með þeim afleiðingum, að alvarlegur raforkuskortur vofir nú yfir landsmönnum, enda hefur miðlunargetan ekkert aukizt frá tilkomu Hálslóns og landshlutatenging raforkukerfis landsins er til vanza, og stendur þróun atvinnulífsins fyrir þrifum.  Fyrirhyggjuleysi þeirra, sem hér hafa um vélað, er nú aldeilis að koma landsmönnum í koll með margmilljarða króna tjóni af völdum vatnsskorts. Einkennileg gæluverkefni hafa drepið orkumálaumræðunni á dreif, og tímabært er að fást við gagnleg verkefni í stað sýndarmennsku og hégómaskapar.  Eru vonir bundnar við, að ný stjórn Landsvirkjunar, sem væntanleg er í næsta mánuði, brjóti blað í þessum efnum, t.d. með því að landa samningum, sem eitthvað kveður að, og kalla á umtalsverðar beinar erlendar fjárfestingar í landinu. 

Neyðarástand verður í landinu, ef miðlunarlón á borð við Þórisvatn tæmist í vor, en á því er hætta.  Það verður strax að bregðast við með markvissum aðgerðum.  Bent hefur verið á breytt tíðarfar, og þá er að bregðast við því, en ekki bara sitja prúð(ur) með hendur í skauti.  Eitt ráðið er að bæta vatnsnýtinguna með því að fjölga virkjunum í Þjórsá.  Annað er að virkja stórt fyrir norðan, t.d. í Jökulsá á Fjöllum.  Þriðja að auka miðlunargetu sunnan heiða, t.d. með Hágöngumiðlun, og fjórða að auðvelda miðlunargetu á milli landshluta með öflugri Sprengisandslínu.  Það er hægt að milda umhverfisáhrif af henni með nýrri gerð stólpa og axla (brúa), sem lítið ber á, og grafa hana í jörðu á 25 km kafla, sem gerir hana ósýnilega frá um 70 % af veginum, sem þarna kemur.    

 

  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Alltaf jafn skýr, takk Bjarni fyrir pistilinn og alla hina.  Eftirfarandi er algerlega lýsandi fyrir þessa Brusselfara: Það eru ótrúlegir einfeldningar, sem enn trúa því, að innganga í ESB geti átt sér stað á forsendum Íslendinga og að allt verði nánast óbreytt varðandi fiskveiðistjórnun og eignarhald á sjávarútveginum.

Elle_, 20.3.2014 kl. 22:03

2 Smámynd: Bjarni Jons

Mikill meirihluti þjóðarinnar vill fá að kjósa um næstu skref í þessu máli - er þetta mjög flókið?

Bjarni Jons, 20.3.2014 kl. 22:08

3 Smámynd: Elle_

Mikill meirihluti þjóðarinnar vildi líka fá að kjósa í þessu máli í júlí 09 og var ítrekað neitað um það.  Var það flókið?  Það var ólýðræði (og níðingsskapur) og á að stoppa þetta ofbeldi frá 09.  OG, eins og Bjarni skrifaði: Að kjósa um steindautt mál, fortíð, sem enginn fær breytt, er fáránlegt og viðbjóðsleg blekkingarstarfsemi, svo að ekki sé nú minnzt á sóunina.  

Elle_, 20.3.2014 kl. 22:29

4 Smámynd: Elle_

Heitir þú ekki annars Fannar Helgi Steinsson?

Elle_, 20.3.2014 kl. 22:30

5 Smámynd: Bjarni Jons

Er það ekki nafnið sem kemur upp þegar þú klikkað á bloggið mitt?

Ég lærði það einusinni að rangt væri ekki réttlætt með röngu - þjóðin vildi kjósa um þetta þá og hún vill kjósa um þetta núna

Bjarni Jons, 20.3.2014 kl. 22:39

6 Smámynd: Elle_

ÞJÓÐIN vildi það einu sinni með yfir 76% vilja og var meinað af Jóhönnu og Össuri og co.  Það verður að stoppa það ranglæti fyrst.  Vilji ríkisstjórnin og ÞJÓÐIN (ekki bara samfylkingar og Steingrímur) þangað inn seinna, getum við haldið þjóðaratkvæði.

Elle_, 20.3.2014 kl. 23:17

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kjósa um hvað Bjarni málari aka Fannar Helgi?

Segðu okkur nú nákvæmlega hvað þú vilt kjosa um?

Viltu kjósa um hvort umsóknin verði afturkölluð eða liggi salti áfram?

Viltu kjosa um að reka Gunnar Braga til Brussel til að halda áfram viðræðum sem eru tvöfalt stopp vegna krafna ESB um algert framsal á öllum sviðum?

Viltu kjósa um það að núverandi ríkistjórn kyngi því sem síðasta ríkistjórn gat ekki kyngt og stjórnarskráin bannar? Fulla aðlögun og kjósa svo nei?

Hvern fjandann vill verkefnasnauði málarinn í Garðabæ? Hver fajandinn er að plaga þig í málinu? Fáfræði eða bara þessi kratíska þvermóðska sem meinar þer að viðurkenna að þú hafi haft rangt fyrir þér svo mikið og lengi?

Jón Steinar Ragnarsson, 20.3.2014 kl. 23:42

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Upphlaupið og krafan um þjóðaratkvæði vaknaði við tilkomu þessa frumvarps. Verði kosið, þá skal kosið um þetta frumvarp. Aturköllun eða status quo. Það er hinsvegar ekki svo sjálfgefið að gengisfella þau mannréttindi með að kjosa um hvaða frumvörp þingið leggur fram eða hvernig það starfar.

Svo vil ég benda þér á Fannar að gera það að venju að lesa pistlana, sem þú klastrar þráhyggjulegum athugasemdum þínum við. Það er lágmarks krafa um málefnalegheit og kurteysi, auk þess sem þú yrðir máske einhvers vísari, sem ég hef þó á tilfinningunni að þú viljir ekki.

Jón Steinar Ragnarsson, 20.3.2014 kl. 23:49

9 Smámynd: Rafn Guðmundsson

tl;dr en best og það eina rétta er að klára samninginn og kjósa svo um hann. allt annað eru bara vangaveltur

Rafn Guðmundsson, 21.3.2014 kl. 00:12

10 Smámynd: Elle_

Klára hvaða samning, Rafn?  Það var aldrei ALDREI um neinn samning að ræða.  Þú hlýtur að fara að skilja það. 

Elle_, 21.3.2014 kl. 00:18

11 Smámynd: Jón Logi Þorsteinsson

Mikið rétt. "Samningurinn snýst um aðlögunartíma". Aftur: "Samningurinn snýst um aðlögunartíma""Samningurinn snýst um aðlögunartíma""Samningurinn snýst um aðlögunartíma""Samningurinn snýst um aðlögunartíma""Samningurinn snýst um aðlögunartíma""Samningurinn snýst um aðlögunartíma""Samningurinn snýst um aðlögunartíma""Samningurinn snýst um aðlögunartíma""Samningurinn snýst um aðlögunartíma"

Jón Logi Þorsteinsson, 21.3.2014 kl. 21:00

12 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er ólíku saman að jafna umbeðnu þjóðaratkvæði 2009 um kúvendingu í utanríkismálum með umsókn um aðild að ríkjasambandi eða þjóðaratkvæði 2014 um leiðréttingu á gjörningi með hæpnu lögmæti m.v. kröfu Stjórnarskráar okkar um, að þingmenn fylgi samvizku sinni og sannfæringu, en láti ekki teyma sig til atkvæðagreiðslu með flokksaga.  Þá var valið skýrt fyrir kjósendur, þ.e. senda inn umsókn eða hafna slíku.  Nú er valið í hæsta máta óskýrt.  Það hvílir svo mikil þoka yfir kosningum um spurninguna, hvort halda eigi umsókninni til streitu - já eða nei - að hún er ófullkomlega óboðleg.  Hvort heldur já eða nei verður ofan á, mun nákvæmlega ekkert gerast, því að umsóknin strandaði í höndum Össurar og Þorsteins, og það er ekki á valdi ríkisstjórnarinnar að fá ESB til að birta rýniskýrsluna frægu um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál.  Frakkar vilja Íslendinga ekki inn. Það er lýðskrum og loddaraháttur af versta tagi að æsa til kosninga um ekki neitt.  Eins og fram hefur komið hér að ofan, er eina vitræna spurningin, hvort þú viljir afturkalla umsóknina.  Ef meirihlutinn vill það ekki, heldur hléið hans Össurar áfram. 

Það er kominn tími til að hætta hugtakaruglingi í sambandi við umsóknina.  Það eru engar hefðbundnar samningaviðræður í gangi, þegar ríki sækir um aðild að ESB.  Síðan 1994 hefur umsóknarríkjum verið gert að laga stjórnkerfi sitt að ESB.  Þar stendur hnífurinn í kúnni, og þess vegna er umsóknin strönduð.  Þetta er einfalt, en virðist þvælast fyrir allmörgum.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 21.3.2014 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband