Átök á milli Rússlands og Evrópu

Í sögulegu samhengi virðast hagsmunir Rússa og þjóðanna vestan þeirra ekki fara saman.  Þannig hafa geisað fjölmargar styrjaldir á milli þessara þjóða í tímans rás, þar sem átakaefnin hafa verið land, auðlindir og áhrif vestan og sunnan Rússlands. 

Friðrik mikli, Prússakóngur, stundaði skefjalausa útþenslustefnu, lenti í átökum við Rússakeisara og mátti litlu muna, að Rússum tækist að taka Berlín í 7 ára stríðinu, en með heppni og herkænsku tókst Friðriki að varna því og reka Rússa af höndum sér. 

Þegar Frakkar höfðu seilst til áhrifa um alla Evrópu, nema í Svíþjóð og á Bretlandi undir forystu Korsíkumannsins Napóleons Bonaparte, þar á meðal sigrað austurríska herinn við Austerlitz og náð tökum á flestum öðrum þýzkumælandi svæðum Evrópu, en Þýzkaland hafði þá enn ekki verið sameinað, var lokahnykkurinn að leggja undir sig Rússland. 

Napóleón komst við illan leik til Moskvu 1812, en Rússar skildu eftir sig sviðið land, og rússneski veturinn varð Frökkum að fótakefli, svo að hinum mikla keisaraher Frakklands var nánast útrýmt á steppum Rússlands.  Draumar Frakkakeisara um frönskumælandi Evrópu hurfu þar með ofan í glatkistuna, og það var formsatriði fyrir Breta og Prússa nokkrum árum seinna að ganga frá Frökkum við Waterloo.  Síðan hafa Frakkar ekki borið sitt barr.  

Í Fyrri heimsstyrjöldinni neyddust Þjóðverjar og Austurríkismenn til að berjast á tvennum vígstöðvum, af því að Rússakeisari álpaðist af stað, vanbúinn, og hugði tækifæri fyrir sig til landvinninga í vestri.  Þetta reyndist hans banabiti, því að Þjóðverjar smygluðu kaffihúsasnatanum Vladimir Lenín yfir víglínuna frá Sviss, og hann steypti í kjölfarið Rússakeisara af stóli og samdi frið við Þýzkaland. 

Það var hins vegar of seint fyrir Þýzkaland, Austurríki og bandalagslönd þeirra, því að Bandaríkin og Kanada höfðu þá blandað sér í baráttuna á vesturvígstöðvunum af miklum þunga, og örlög keisarahersins þýzka voru þar með ráðin.   

Stefna kommúnistastjórnarinnar í Moskvu var fjandsamleg Evrópu að því leyti, að hún stundaði alls staðar undirróður, þar sem hún kom því við, með það að markmiði að koma á alræði öreiganna sem víðast, þó að heimsbylting væri ekki á stefnuskránni, eftir að Trotzky varð undir í valdabaráttunni við Stalín.   

Hinn andlýðræðislegi og þjóðernissinnaði stjórnmálaflokkur, NSDAP, náði völdum í Þýzkalandi eftir kosningar í landinu í janúar 1933 með því að skapa glundroða í landinu með ofbeldisfullum brúnstökkum, SA-Sturmabteilung, sem var deild í téðum stjórnmálaflokki.    Flokkurinn var mjög andsnúinn bolsévismanum í Rússlandi, en samt gerði Ribbentrop, utanríkisráðherra Þriðja ríkisins, griðasamning við Jósef Stalín, Molotoff og Kremlarklíkuna í ágúst 1939, og þar með taldi Adolf Hitler sig geta athafnað sig óáreittan í Evrópu án þess að þurfa að berjast á tveimur vígstöðvum í einu.  Það munaði mjóu, að hann kæmist upp með það.  Seigla, herkænska,  tækninýjungar og öflug njósnastarfsemi Breta komu í veg fyrir áform hans. 

Með Breta hart leikna, en ósigraða sumarið 1941, reyndust Þjóðverjar svo algerlega vanbúnir að leggja Rússa að velli, enda skárust Bandaríkin og Kanada í hildarleikinn árið 1942, og mátti hinn öflugi Wehrmacht-her lúta í gras 8. maí 1945 eftir ægilegar blóðfórnir þýzku þjóðarinnar. 

Þýzkaland missti gríðarlegt landflæmi eftir ósigurinn 1945, og landamæri Evrópu eru núna fjarri því að fylgja búsetu þjóðerna, þó að þjóðflutningar ættu sér stað í lok stríðsins. Það hefur hins vegar verið óskrifað lögmál eftir 1945 að hreyfa ekki við landamærum, enda yrði þá fjandinn laus. 

Vladimir Pútín, Rússlandsforseti á 3. kjörtímabili, sá sér leik á borði eftir vetrarólympíuleikana í Sochi 2014 að bregða út af þessu og sölsa Krímskaga frá Úkraínu undir Rússland, þó að þar búi fjölmargir Tatarar og Úkraínumenn, sem óttast Rússa.  Hafa ógnanir Rússa í garð nágrannaríkjanna síðan beinst að því að fá umheiminn til að samþykkja þessa landvinninga sem "fait accompli"-afgreitt mál.  Það á ekki að láta Rússa komast upp með slík bolabrögð gegn "alþjóðasamfélaginu".    

Mikil hernaðaruppbygging hefur átt sér stað í Rússlandi undanfarin ár.  Rússar verja nú 4,2 % af landsframleiðslu sinni eða 88 milljörðum bandaríkjadala árlega til hermála.  Þetta er hlutfallslega meira en hjá Bandaríkjamönnum (3,9 %) og miklu meira hlutfallslega en hjá Þjóðverjum (1,4 %), Kínverjum (2,0 %), Frökkum (2,2 %) og Bretum (2,3 %).  Upphæðin er þó aðeins 14 % af upphæðinni, sem Bandaríkjamenn verja til þessara mála á ári. 

Rússar búa við ýmsa alvarlega veikleika á innviðum sínum, sem gera þá illa í stakk búna fyrir átök við Vesturveldin.  Þar má nefna lága fæðingartíðni og bágborið heilsufar, sem hrjáir rússneska herinn og gerir honum erfitt fyrir að manna allar stöður.  Þeir hafa stefnt á að hafa eina milljón manns undir vopnum, en hafa í raun 700 þúsund manns.  Mikið af hergögnunum er uppfærsla á hergögnum Rauða hers Ráðstjórnarríkjanna.

Nú, þegar NATO hverfur á braut frá Afganistan, blasir við NATO nýtt og þó gamalþekkt hlutverk í Evrópu, sem er að halda Rússlandi í skefjum.  Nágrannar þeirra telja nú fulla þörf á því.  Til þess mun þurfa um hálfa milljón manns undir vopnum frá Eystrasaltslöndunum og suður til Rúmeníu.  Ríður á miklu, að herstjórn NATO takist að sýna þann fælingarmátt, sem dugar.  Það er ekki víst, að lengi verði þörf á svo miklum herstyrk búnum nútímavopnum, án kjarnorkuvopna, við austurlandamæri Evrópusambandsins, ESB, því að ekki er víst, að Rússar hafi efni á að verja vaxandi hluta landsframleiðslu sinnar til hermála.  

Hermálin taka nú yfir fimmtung ríkisútgjalda Rússlands.  Veikt hagkerfi, lækkandi orkuverð og hækkandi meðalaldur mun gera haukunum í Kreml erfitt fyrir.  Á meðan Pútín er í Kreml, munu hermálin þó njóta forgangs.  Vaxandi hernaðarmáttur Rússa leiðir Rússland fram á völlinn á ný sem valdamikið land.  Pútín veðjar á, að þetta láti hinn almenni Rússi sér vel líka.  Til þess eru refirnir skornir að halda honum og hirð hans sem lengst við völd. 

Ef hann hins vegar þarf enn að herða sultarólina, verður hann meðfærilegri.  Þess vegna þurfa Vesturveldin að herða að Rússum á efnahagssviðinu, og ein aðferðin til þess er að draga úr gas- og olíuviðskiptum við þá. 

Rússneska ríkisorkufyrirtækið Gazprom er þegar farið að nota gasviðskiptin í kúgunarskyni við Úkraínu.  Þann 1. apríl 2014 tilkynnti Alexei Miller, forstjóri Gazprom, að gasverð til Úkrínumanna yrði hækkað um 44 % upp í USD 385,5 per þm3 (þúsund rúmmetrar).  Þetta þýðir, að árleg útgjöld Úkraínu til gaskaupa munu aukast úr USD 7,5 milljörðum í USD 10,8 milljarða, nema þeim takist að spara eldsneytisgas og/eða fá gas annars staðar frá.  

Úkraína skuldar Gazprom nú þegar USD 1,7 milljarða fyrir gasnotkun, og Rússar gætu fundið upp á að draga úr flæðinu um lagnir gegnum Úkraínu sem nemur notkun Úkraínu, 28 milljörðum m3 á ári.  Evrópa fær 24 % af sinni gasþörf frá Rússlandi, og helmingurinn, 80 milljarðar m3 á ári, fara eftir lögnum um Úkraínu.  Evrópa gæti þannig við refsiaðgerð Rússa orðið af 18 % af gasþörf sinni. 

Evrópa á fjölmarga valkosti í þessari stöðu, en hún verður þó að segja B, úr því að hún er búin að segja A, þ.e.a.s. ESB verður að standa við bakið á Kænugarðsstjórninni í baráttu hennar gegn ásælni Rússa.  ESB hlýtur þess vegna að veita aðstoð við greiðslu gasreiknings Kænugarðs gegn umbótum í stjórnarháttum þar og orkusparnaði, en vegna niðurgreiðslna á orku í Úkraínu hefur orku verið sóað þar óspart.  Úkraínumegin, þar sem gaslagnir þvera landamærin að Rússlandi, eru enn engir magnmælar, svo að ótæpilega er stolið úr lögninni.  ESB og AGS munu fljótlega láta setja upp mæla þar og við allar greiningar á lögnunum.  Úkraína framleiðir núna um 20 milljarða m3 af jarðgasi og væri hér um bil sjálfri sér næg um gas, ef nýtni væri með sama hætti og í Evrópu vestanverðri. 

Í marz 2014 skipaði Leiðtogaráð ESB Framkvæmdastjórninni að gera áætlun um að draga úr ríkjandi stöðu Gazprom á jarðgasafhendingu til ESB.  Það verður líklega lögð gasleiðsla frá Kákasusríkjunum og Mið-Asíuríkjunum, t.d. hinu gasauðuga Usbekistan, um Tyrkland til ESB.  Þó að vinnsla Norðmanna á olíu hafi allt að því helmingazt frá aldamótum, framleiða þeir enn mikið af jarðgasi og gætu aukið afhendingu til ESB um 10 milljarða m3 á ári.

Bretar eru að feta í fótspor Bandaríkjamanna og hefja vinnslu á jarðgasi úr setlögum með sundrunaraðferðinni (e. fracking).  Austur-Evrópa o.fl. eru sömuleiðis að fara inn á sömu braut, þó að andstaða við þessa aðferð sé enn sums staðar í Vestur-Evrópu.  Alls er áætlað, að vinnanlegt gas í jarðlögum ESB-ríkjanna nemi 11700 milljörðum m3 eða yfir 30 ára forða m.v. núverandi innflutningsþörf.  Þetta er fjórðungur af áætluðum forða Norður-Ameríku.  Núverandi vinnsla setlagagass í Norður-Ameríku nemur 70 milljörðum m3 á ári, en vinnsla ESB-landanna er aðeins talin munu nema 4 milljörðum m3 árið 2020. 

Eldsneytisgas er nú flutt með skipum á vökvaformi sem LNG (Liquefied Natural Gas).  Það hefur verið orkukræft og dýrt að breyta úr gasi í vökva og öfugt, en ný tækni við þetta er að draga stórlega úr þessum kostnaði, og það er líklegt, að Evrópa komi sér upp móttökubúnaði á LNG í ríkari mæli en nú er og muni auka kaup sín frá Persaflóanum og Vesturheimi umtalsvert.  Flutningar á LNG með tankskipum munu stóraukast.   

31 % eða 160 milljarðar m3 á ári af gasnotkun Evrópu fer nú til rafmagnsvinnslu.  200 milljarðar m3 fara til hitunar á húsnæði og eldamennsku og 150 milljarðar m3 til iðnaðarnota.  Með því að auka enn hlutdeild endurnýjanlegra orkulinda og jafnvel kjarnorku má spara allt að 50 milljarða m3 á ári.

Þegar allt þetta er tekið saman, sést, að Evrópa getur orðið óháð Rússum um kaup á eldsneytisgasi, en það getur tekið allt að 15 árum.  Það er líklegt, að þessi stefna verði ofan á, og Rússar eru teknir til við mótvægisaðgerðir með stórfelldum viðskiptasamningi við Kínverja, sem m.a. felur í sér afhendingu á jarðgasi.

Það er líklegt, að til skemmri tíma litið muni árekstrar Rússlands og ESB halda orkuverði í Evrópu háu, en þegar til lengdar lætur mun sú þróun mótvægisaðgerða Vesturveldanna, sem lýst er hér að ofan, hafa áhrif á orkuverð til lækkunar, af því að birgjunum mun stórfjölga, og þar með mun samkeppnin aukast. 

Það er staðreynd, að Gazprom hefur haldið ESB í spennitreyju undanfarin 20 ár og gasverðinu þreföldu á við gasverð í BNA undanfarin 3 ár.  Slíkt gengur ekki til lengdar, og á því hlaut að verða breyting, þó að friðarspillandi framferði Rússa gagnvart nágrönnum sínum hefði ekki komið til.  Ef Vesturveldin með sitt NATO standa í lappirnar, munu Rússar fá að vita, hvar Davíð keypti ölið.

 

  

 

   

 

 

    

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband