10.7.2014 | 18:42
"Bréf til Ögmundar og Brynjars"
Ögmundi Jónassyni, fyrrverandi ráðherra Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, í vinstri stjórninni 2009-2013, hefur borizt bréf. Það fékk hann sem formaður Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Sama bréf var stílað á Brynjar Níelsson, lögfræðing og þingmann sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem situr í sömu nefnd og er formaður undirnefndar téðrar þingnefndar.
Höfundur bréfsins er hinn vígreifi Víglundur Þorsteinsson, sem einnig er lögfræðingur, og þekktur úr athafnalífinu. Bréfið var birt í Morgunblaðinu 2. júlí 2014, og er fyrirsögn þessa pistils fengin að láni frá Morgunblaðsgreininni.
Það er reyfarakenndur bragur á bréfinu og ljóst, að söguleg uppljóstrun um myrkraverk ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er í farvatninu, enda nefnir Víglundur "nýjan lítinn símamann" til sögunnar.
Formlega fjallar bréfið um "stofnúrskurð FME (Fjármálaeftirlitsins, innsk. höf.) um stofnefnahag nýju ríkisbankanna frá október 2008", en efnislega er um stórpólitískt mál að ræða, þar sem flett er ofan af vinnubrögðum ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem taka út yfir allan þjófabálk og hljóta að sæta sakamálarannsókn. Landsdómur hefur verið kvaddur saman að minna tilefni, og var það einmitt gert að frumkvæði aðalsögupersónu þessa furðulega sorgarleiks. Það er einboðið, að Alþingi fái öll gögn tengd þessu máli til umfjöllunar. Það er t.d. nauðsynlegt að upplýsa, hvers vegna þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sá sér þann kost vænstan að stofna til "stýrinefndar", hverrar hlutverk virðist aðallega hafa verið að finna leiðir til að ganga á svig við Neyðarlögin og til þess að ganga að ýmsum kröfum kröfuhafa bankanna. Má ekki kalla slíka sök landráð, ef sönn reynist ?
Víglundur dregur eftirfarandi ályktun eftir að hafa kynnt sér gögnin:
"Þegar þessir úrskurðir eru virtir og horft til þeirrar vinnu, sem fyrrverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, setti af stað um samninga við erlendu kröfuhafana, svo og þeir samningar, sem hann gerði við þá í framhaldi af vinnu hinnar sérstöku stýrinefndar og það, sem í kjölfarið fylgdi í öllum þremur bönkunum - aðgerðirnar við að breyta niðurstöðum þessara stofnúrskurða til ábata fyrir erlendu kröfuhafana - fer ekki á milli mála, að upp vakna sterkar og rökstuddar grunsemdir um, að sú vinna hafi verið eitt stórfellt samræmt atferli fjársvika og misneytingar."
Á grundvelli gagna, sem Víglundi hafa borizt eftir duldum leiðum, getur hann ekki orða bundizt, heldur sendir tveimur Alþingismönnum áskorun um að setja af stað rannsókn á máli, þar sem að forgöngu fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, fyrrverandi formanns Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Steingríms Jóhanns Sigfússonar, virðist hafa verið unnið gegn hagsmunum íslenzku þjóðarinnar á bak við tjöldin.
Rannsaka þarf, hvað vakað hefur fyrir vinstri stjórninni með slíkri þjónkun við erlent bankaauðvald. Það virðist fullt tilefni til sakamálarannsóknar, og þar sem spjótin í þessu tilviki beinast aðallega að aðalhvatamanni að kvaðningu Landsdóms til starfa á dögum vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, kemur til greina að láta kauða smakka á þeim meðulum, sem hann bruggaði öðrum sjálfur.
Upplýsingar Víglundar um fjárflutning til kröfuhafanna að frumkvæði ráðherra í ríkisstjórninni 2009-2013 snúast ekki um neinar smáupphæðir:
"Umfang þessarar vinnu/svika/misneytingar er orðið slíkt, að hún hefur fært hinum erlendu kröfuhöfum allt að 400 milljarða kr í ábata umfram Neyðarlögin og úrskurði FME. Sýnist mér í ljósi þessara nýju upplýsinga, að skoða verði allt þetta mál hjá Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni. Ef skoðun leiðir til þeirrar niðurstöðu, að rétt sé að kæra allt þetta atferli, er eðlilegast í ljósi umfangs hinna meintu brota og þess, hversu margir þolendurnir eru, að nefndin hafi að því frumkvæði."
Ekki verður öðru trúað, en Brynjar og félagar hans í Sjálfstæðisflokki á Alþingi geri að því gangskör að afla téðra gagna og hafa að því nokkurt frumkvæði að leiða sannleikann í ljós. Hvort Ögmundur verði gagnlegur við þá vinnu, skal láta ósagt að svo stöddu. Nægir að vitna til orðtaksins: "lengi skal manninn reyna", en hann kann að eiga óhægt um vik innan VG, gangi hann nú veg sannleikans. Hér skal gizka á, að þríeykið Jóhanna, Steingrímur og Össur hafi samið umburðarbréf til téðrar stýrinefndar um að þóknast kröfuhöfum í hvívetna í þeirri von, að slíkt mætti greiða fyrir umsókninni um aðild að Evrópusambandinu, og kæmi það upp úr dúrnum, er það enn ein staðfestingin á, hversu mikil óþurftarför sú vegferð öll hefur verið frá upphafi til enda.
RÚV hefur ekki eytt miklu púðri á þetta mál, og er þó alls enginn sparðatíningur hér á ferð á borð við ýmislegt það, sem landsmönnum er endalaust velt upp úr á vettvangi þessa ríkisfjölmiðils. Fréttastofa RÚV hefur hingað til reynt að þegja þetta eldfima mál í hel, og ber það rannsóknarblaðamennskunni á þeim bæ ófagurt vitni.
Það minnir á annað mál, sem hlotið hefur miklu minni umfjöllun RÚV en efni standa til, en það er stóra launadeilumál Seðlabankastjóra. Þar véluðu fyrrverandi formaður bankaráðs Seðlabankans og Seðlabankastjóri um það að láta bankann borga málskostnað bankans og bankastjórans, þó að í málatilbúnaði bankans fyrir Héraðsdómi og Hæstarétti hafi verið krafizt greiðslu málskostnaðar að hálfu sóknaraðilans.
Bæði eru þau skötuhjúin talin vera verulega tengd Samfylkingunni, og bæði sýna þau af sér alvarlegt dómgreindarleysi í starfi og beinlínis brot í starfi, að því er virðist. Bankaráð Seðlabankans er fjölskipað stjórnvald, þar sem formaðurinn má ekki hlaupa með reikninga bankastjórans til gjaldkera bankans og óska eftir greiðslu. Þessi lögfræðingur og Samfylkingarkona traðkaði þarna heldur betur í salatbeðinu og braut reglur bankans. Heilög elítan lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna.
Hvers vegna hefur fréttastofa RÚV ekki gert sér neitt far um að rannsaka þetta mál, nú þegar sá, sem taldi sig hlunnfarinn, vill endilega fá að halda áfram, þó að við blasi eftir 5 ára feril, að nauðsynlegt er að skipta um æðsta stjórnanda Seðlabankans. Núverandi Seðlabankastjóri er trausti rúinn á Íslandi, hvað sem þau segja í Basel.
Kapítuli út af fyrir sig er svo "rannsókn" Ríkisendurskoðunar á ferlinu, sem leiddi til þess, að reikningurinn, sem Seðlabankastjóri fékk sendan með pósti heim til sín, var greiddur í algeru heimildarleysi af Seðlabankanum. Innra eftirlit bankans setti kíkinn fyrir blinda augað og Ríkisendurskoðandi var vanhæfur í málinu vegna venzla við Innri endurskoðandann. Eftirlitsiðnaðurinn sýnir hvað eftir annað tannleysi sitt og óhæfni. "Something is rotten in the State of Danemark", var einu sinni skrifað, en hér eru rotnu eplin á hverju strái.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Fjölmiðlar, Löggæsla | Facebook
Athugasemdir
Góður, góður, draga þetta fólk sem fyrst fyrir dómstólana, minna hefur verið tilefnið.
Örn Johnson, 10.7.2014 kl. 22:20
Þistilfjarðarkúvendingurinn situr enn á þingi og hreykir sér enn af langri þingsetu. Kjarnorkumaður mikill í heimasveit, en svíðingur á landsvísu, enda sósíalisti .......ans, þegar því er að skipta.
Halldór Egill Guðnason, 11.7.2014 kl. 03:29
Ljótt ef satt er. En kemur samt ekki á óvart.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.7.2014 kl. 17:14
Ég hef ekki séð umrædd gögn, en lýsing Víglundar á þeim fer væntanlega nærri lagi, og þá er hér komin meiriháttar uppljóstrun um glæpsamlegt atferli. "Hinar talandi stéttir" eru slegnar blindu og heyrnarleysi, þegar að þessu stórmáli kemur. Þar með gjaldfella þær trúverðugleika sinn niður að núllinu. Skipta málefni og atferli engu máli, ef orðlagðir vinstri menn verða uppvísir að siðblindu ? Þetta heitir "Samsæri þagnarinnar".
Bjarni Jónsson, 11.7.2014 kl. 18:21
Fjórflokkurinn passar upp á sitt, hvaða flokki sem þeir tilheyra, því þeir vita sem er að í framtíðinni þurfa þeir að fá "greiða" sálfir. Spillingin er algjör hjá þessu fólki.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.7.2014 kl. 18:54
Sæl, Ásthildur Cesil;
Það verður fróðlegt að fylgjast með málatilbúnaði þingsins í þessu sambandi, því að segja má, að þessi kaleikur sé þar núna fyrir tilstilli Víglundar. Ef málið koðnar niður í meðförum Alþingis, þá neyðist ég til að samþykkja alhæfingu þína um stjórnmálaflokkana. Gættu að því, að slík strútshegðun er ekki áhættulaus fyrir flokkana. Þann dag, sem þeir sýna fram á bitleysi sitt, að ekki sé nú minnzt á samsæri gegn almenningi, þann dag verða dagar þeirra taldir, því að nýja stjórnmálaflokka er hægt að stofna, eins og dæmin sanna, og þeir munu skjóta rótum, ef hinir rotna.
Bjarni Jónsson, 11.7.2014 kl. 20:18
Já Bjarni, ég hef mínar grunsemdir, og ekki bara grunsemdir ég hef fylgst með málum sem ættu í raun að fara í rannsóknarferli, en þetta fólk sem er hvað þaulsetnast á alþingi ver hvort annað fram í rauðan dauðan, þó þau opni kjaftinn upp á gátt og rífist eins og ég veit ekki hvað, þá klappar þetta fólk "óvinum" sínum á bakið og klórar til að fá klór. Vittu bara til.
Þeir treysta nefnilega á að fá sín atkvæði hvað sem þeir gera, því miður.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.7.2014 kl. 23:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.