17.7.2014 | 20:44
Afnám hafta
Viðreisnarstjórnin, 1959-1971, var ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Með ráðherrum flokksins voru ráðherrar úr Alþýðuflokki í ríkisstjórninni. Hún tók við af minnihlutastjórn Alþýðuflokksins, en þar áður hafði setið vinstri stjórn, 1956-1958, undir forsæti framsóknarmannsins Hermanns Jónassonar. Undir handarjaðri Viðreisnarstjórnarinnar bötnuðu kjör landsmanna mikið, enda hafði hún einstaklingsfrelsi til athafna, virkjun orkulinda í stórum stíl og viðskiptafrelsi, á stefnuskrá sinni.
Árangur Viðreisnarstjórnarinnar mældur í kjörum almennings er lofsöngur til athafnafrelsis. Henni entust þó ekki lífdagar til að afnema fjármagnshöftin. Þau voru afnumin í áföngum á 9. og 10. áratugi 20. aldarinnar eða um tveimur áratugum eftir að Viðreisnarstjórnin sat að völdum. Þann 10. júlí 2014 voru 44 ár liðin frá hinum voveiflega atburði á Þingvöllum, er forsætisráðherra Viðreisnarstjórnarinnar, Bjarni Benediktsson, brann inni ásamt konu sinni og dóttursyni. Þetta er einn af þeim atburðum, þar sem staður og stund, er fréttin barst, greyptist í minni.
Landsmenn hafa nú búið við fjármagnshöft síðan haustið 2008 eða í tæp 6 ár. Frá því að ríkisstjórnarskipti urðu vorið 2013, hefur hagkerfið hins vegar tekið vel við sér, hagvöxtur er líklega sá mesti í Evrópu þessi misserin, og honum er spáð á rólinu 3 %- 6 % næstu árin. Þar með eru landsmenn að sækja til bættra lífskjara eftir afturför 2008-2010 og stöðnun tímabilið 2011-2012. Það er alls ekki sama fyrir hag hins vinnandi manns, hverjir eru við völd í landinu. Það má nú hver finna á eigin skinni.
Það fylgir hins vegar böggull skammrifi. Um þetta skrifar Þorsteinn Víglundsson í Fréttablaðið 8. júlí 2014 undir fyrirsögninni: "Fjármagnshöftin - vernd eða vá":
Fjármagnshöftin eru stærsta ógnin við efnahagslegan stöðugleika hér á landi. Afnám þeirra er því nauðsynleg forsenda heilbrigðs og stöðugs efnahagslífs og batnandi lífskjara hér á landi.".
Þrýstingshvetjandi og bólumyndandi er allt of mikið peningamagn í umferð. Það hefur aukizt frá árinu 1998 úr 40 % af VLF (vergri landsframleiðslu) í um 90 % nú eða meira en tvöfaldazt sem hlutfall af stærð hagkerfisins. Það eru hundruðir milljarða ISK, sem skortir verkefni í lokuðu hagkerfi, og með minnkandi fjármagnsþörf hins opinbera með bættri eignastöðu (minni skuldum) munu þessir peningar sprengja upp eignamarkaðinn og verðlagið í landinu. Það hefur verið spáð öðru hruni árið 2016, ef fjármagnshöftunum verður ekki aflétt.
Lífeyrissjóðirnir eru stærstu leikendur á þessu sviði, og þurfa þeir að fjárfesta fyrir 130 milljarða ISK kr á ári. Það er mikilvægt fyrir framtíðar lífeyri landsmanna, að þetta fé fái verðug verkefni og að fjárfestingar þeirra skili a.m.k. 3,5 % árlegri ávöxtun að jafnaði yfir hvern áratug. Að öðrum kosti kann að þurfa að hækka aldur lífeyrisréttinda og/eða lækka lífeyrinn. Höftin snerta hag allra, þó að með misgreinilegum hætti sé.
Vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms, sem í orði kveðnu vildi uppfylla ákvæði Maastricht-sáttmála ESB-ríkjanna, er snýst um peningamál, gerði ekkert til að losa um fjármagnshöftin, en festi þau fremur í sessi, enda veita þau forsjárhyggjusinnuðum stjórnmálamönnum völd til að deila og drottna. Við sitjum enn uppi með dýrkeypt dekur vinstri stjórnarinnar við kröfuhafa gömlu bankanna og afhendingu á nýju bönkunum til þeirra ásamt mikilli peningalegri eign, sem talin er munu streyma úr landi sem gjaldeyrir, ef höftin verða afnumin núna. Stýrinefnd ríkisstjórnarinnar um afnám hafta mun áhættugreina þetta allt saman. Það er mikilvægt að gæta jafnræðis við afnám hafta í áföngum, og þess vegna er ófýsilegt að opna einvörðungu fyrir fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis. Afnám hafta þarf að verða fyrir tilstilli almennra aðgerða. Nóg er að gert með sértækum aðgerðum misheppnaðs Seðlabankastjóra, sem óneitanlega skekkja samkeppnistöðuna í landinu.
Það þarf að fjármagna "skuldaleiðréttingu" ríkisstjórnarinnar með skattlagningu á þrotabúin, og slíkt mun flýta fyrir uppgjöri þrotabúanna, sem löngu er tímabært. Þessi þrotabú á ekki síður að taka til gjaldþrotaskipta en önnur.
Til að draga úr þrýstingi á gengi krónunnar niður á við við afnám haftanna væri ráð fyrst að efna til lokaðs hlutafjárútboðs á bönkunum og á Landsvirkjun, sem væri skilyrt þannig, að kaupin yrðu að minnka peningamagn í umferð á Íslandi og hlutafjárbinding yrði í t.d. 5 ár. Á því tímabili mættu hinir nýju hluthafar aðeins selja t.d. 1/5 af hlutafé sínu á hverju ári og ríkissjóður ætti forkaupsrétt á þessum hlutabréfum.
Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (AGS) er varðhundur fjármagnseigenda, og í því ljósi verður að skoða ráðleggingar hans um drátt á afnámi hafta til 2016-2018. Slíkur dráttur er allt of dýrkeyptur og algerlega óþarfur. AGS lætur alltaf eins og allt fjármagn í erlendri eigu hér innanlands muni streyma úr landi við afnám hafta. Það eru litlar líkur á slíku, ef ríkisstjórnin og Seðlabankinn undir almennilegri stjórn, búa hér til hagfellt fjárfestingarumhverfi, þau hafa í hendi sér að gera. Á næstu 12 mánuðum á ríkisstjórnin að taka nokkur markviss skref til að draga úr líkum á miklu gengisfalli og síðan að stinga sér til sunds. Hagkerfið verður eins og sundmaður. Það mun fljótlega koma upp aftur og taka traust sundtök. Vilji er allt, sem þarf.
Um vandann af miklu peningamagni í umferð skrifaði Þorsteinn Víglundsson í téðri grein:
"Peningamagn í umferð og eignir lífeyrissjóða hafa nær aldrei verið meiri sem hlutfall af landsframleiðslu. Þetta fjármagn er læst inni í fjármagnshöftum og getur einvörðungu leitað í innlenda fjárfestingarkosti. Nægum fjárfestingarkostum innanlands er ekki til að dreifa fyrir allt þetta fjármagn, og það mun þrýsta eignaverði upp á komandi misserum."
Niðurstaða Þorsteins Víglundssonar er, "að lykilforsenda þess, að hægt verði að koma í veg fyrir ofhitnun hagkerfisins, er hratt afnám fjármagnshafta. Efnahagsleg áhætta afnáms hafta er mun minni en hættan, sem fylgir enn einni rússibanareið íslensks efnahagslífs með kunnuglegri kollsteypu í lok ferðar".
Þessi niðurstaða Þorsteins er að öllum líkindum rétt, og má í því sambandi minnast á snöggt afnám fjármagnshafta dr Ludwigs Erhards, efnahagsmálaráðherra Vestur-Þýzkalands, sem heppnaðist mun betur en aðstoðarmenn Erhards og vestrænu hernámsveldin bjuggust við. Búrókratar hafa tilhneigingu til að vilja viðhalda höftum. Þess vegna þurfa stjórnmálamenn hugrekki til slíkra ákvarðana, og núverandi fjármála- og efnahagsráðherra Íslands hefur það, sem til þarf.
Karlinn í brúnni í Bonn hafði hins vegar skapað forsendur fyrir "Marktwirtschaft" eða markaðshagkerfi í kjölfar stríðshagkerfis Þriðja ríkisins. Markið (DEM) stóðst álagið, af því að almenningur trúði á framtíðarstyrk þess.
Að sama skapi þarf að sýna fram á það, að íslenzka hagkerfið sé svo öflugt, að það geti aflað töluvert (t.d. 10 % á næstu árum) meiri gjaldeyris en neyzlunni nemur. Þá fyrst skapast grundvöllur trausts á styrk íslenzku krónunnar, en það þarf fleira jákvætt til að skapa stöðugleika. Háir vextir eiga að slá á þenslu, en þeir draga að spákaupmenn og valda gengisskráningu, sem er útflutningsatvinnuvegunum erfið. Það verður fróðlegt að hlýða á boðskap nýs Seðlabankastjóra um skilyrði afnáms fjármagnshafta, stöðugleika gengisins og hagvaxtar. Eitt atriði verður þó að vera fyrir hendi, hvernig sem allt veltist, til að hagstjórn fái góða einkunn: agi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.