Sæstrengssóttin á undanhaldi

Eljusamir riddarar í baráttu fyrir fánýtri viðskiptahugmynd um raforkuviðskipti á milli Íslands og Bretlands um sæstreng frá suð-austurströnd Íslands til norðurstrandar Skotlands hafa enn ekki lagt niður vopnin, þó að öll rök hnigi í þá átt, að um tálsýn, eins og í kastilíönsku sögunni af don Kíkóta, sé að ræða.  Mörgum þykir málið afar annarlegt.

Þessir valinkunnu riddarar annarlegra hagsmuna hafa raunar farið illa að ráði sínu í baráttu sinni fyrir slæmum málstað, svo að erfitt er að henda reiður á þjóðhagslegu gildi slíkrar tengingar við Bretland.  Þeir hafa engin rök fært fram opinberlega fyrir málstað sínum, sem nokkur alvöru fjárfestir gæti tekið minnsta mark á.  Þvert á móti svífa þeir skýjum ofar með fullyrðingaflaumi um gríðarlegan auð, sem af slíkum viðskiptum gæti leitt.  Augljóslega er þessi fjárfesting gríðarlega áhættusöm, nema ríkisábyrgð eigi rétt einu sinni að bregða á króann.  Fordæmi eru fyrir því, eins og síðar verður getið, að flutningsfyrirtæki, sem samkvæmt ESB-tilskipun eru einokunarfyrirtæki, oft að miklu leyti í opinberri eigu, á borð við Landsnet á Íslandi, eigi og reki slíkar millilandatengingar. 

Samt er búið að reka téða vindmylluriddara út í kaðlana með því að reikna fyrir þá með hefðbundnum núvirðisreikningum, hvert orkuverðið þyrfti að vera, svo að einhver von væri um arð af slíkri fjárfestingu.  Flutningskostnaðurinn, 140 USD/MWh, að viðbættum jaðarkostnaði vatnsorkuvera á Íslandi, um 25 USD/MWh, alls 165 USD/MWh, er mun hærri en nokkur von er til að unnt sé að gera langtíma viðskiptasamning um við Breta.  Samningur um viðskipti út afskriftarrtíma strengsins, um 20 ár, er forsenda fyrir því, að lánveitendur fáist til að veita fé til sæstrengs.  Þegar botn fæst ekki í röksemdafærslu, er talað um, að einhvers staðar liggi fiskur undir steini, og það á vissulega við í þessu tilviki.  Spákaupmenn og fylgifiskar þeirra, þeir, sem vilja breyta íslenzkum orkulindum í farveg fyrir gróðabrall í stað þess að nota þær til atvinnusköpunar innanlands og til að efla samkeppnihæfni atvinnuvega á Íslandi og eðlilega verðmætasköpun með huga og hönd, standa að baki áróðrinum fyrir raforkutengingu við útlönd. 

Í sumarhefti tímaritsins Þjóðmála gerði einn riddara Landsvirkjunar gagnsókn úr þröngri stöðu og varpaði þar fram nýrri hugmynd í tilraun til að klæða keisarann í föt, en búið var að benda á, að hann væri aðeins í hýjalíni.  Hugmynd riddarans hugumstóra var að flytja brezka raforku, sem aðeins að 10 % er unnin með sjálfbærum hætti, til Íslands,t.d. til að framleiða með henni ál á nóttunni, en setja svo hverfla, rafala og spenna í vatnsaflsvirkjunum á Íslandi á full afköst á daginn þann tíma, sem brezk orkuvinnslufyrirtæki ættu fullt í fangi við að anna hámarks aflþörf Bretlands.

Þessi hugmynd riddara nýstárleikans stendur tæknilega og viðskiptalega á brauðfótum, og tók höfundur þessa pistils að sér að sýna fram á það í andmælagrein í hausthefti tímaritsins Þjóðmála.  Segja má, að hugmyndafræði riddarans lúti að því að senda orku frá Bretlandi um 1200 km leið og upp í miðlunarlón á Íslandi á lágálagstíma á Bretlandi og senda hana til baka 1200 km leið á háálagstíma Bretlands.  Hugmyndin er þá sú, að miðlunarþörf úr lónum breytist ekki við þetta, en augljóslega þarf að auka við afkastagetu vatnsaflsvirkjananna til að þetta sé mögulegt.  Meginhluti kostnaðar við virkjanirnar er einmitt fólginn í þessum þætti, svo að það er út í hött að halda því fram, að lítið sem ekkert þurfi að fjárfesta í virkjunum á Íslandi til að raungera þessa hugmynd.  Það er stórfurðulegt, að svo fjarstæðukenndur málflutningur skuli hafður í frammi að hálfu ríkisfyrirtækis á Íslandi.  Skúli Jóhannsson, verkfræðingur, hefur einnig bent á þennan alvarlega veikleika í málflutningi Landsvirkjunar, eins og vikið verður að síðar í þessari vefgrein.  Gagnrýnin kemur þess vegna úr tveimur innbyrðis óháðum áttum. 

 Eins og áður segir er kostnaðurinn, að meðreiknuðum afltöpum, um 140 USD/MWh aðra leið, svo að kostnaður þessa tiltækis verður þá 280 USD/MWh, að viðbættu orkuverði á Bretlandi á lágálagstíma, sem ekki er þó undir 50 USD/MWh, hvað sem síðar verður, svo að fást verða a.m.k. 330 USD/MWh fyrir þessa reglunarorku á Bretlandi.  Það er af og frá, að nokkur von sé til þess á næstu árum.  Í téðri Þjóðmálagrein haustheftisins er að auki bent á, hversu tæknilega vanhugsuð þessi hugmynd er.

Bretum mun standa til boða að kaupa jarðgas frá Bandaríkjamönnum á vökvaformi, s.k. LNG, (Liquefied Natural Gas) á vökvaformi á lægra verði en núverandi gasverði, aðallega frá Gazprom, nemur í Evrópu, og Bretar ætla að auki út í gasvinnslu með lóðréttum og láréttum borholum og þrýstivinnslu jarðgass úr jarðlögum gegnum þessar borholur, sem á ensku gengur undir heitinu "Fracking". 

Þá er á Bretlandi verið að dusta rykið af þróun kjarnorkuvera, sem framleiða rafmagn í gufuhverflum, sem knúnir eru af hita frá Þóríum kjarnakljúfi, sem er mun ódýrari, öruggari og skilur eftir minna af geislavirkum úrgangi en úraníum-kljúfurinn.  Allt bendir þess vegna til raunlækkunar raforkuverðs á næstu árum og áratugum á Bretlandi vegna tækniþróunar orkugeirans, enda ber athafnalífið ekki heildsöluverð á raforku yfir 80 USD/MWh án þess að eitthvað láti undan, t.d. framboð atvinnutækifæra.  Evrópa verður ósamkeppnihæf við Bandaríkin með tvöfalt hærra heildsöluverð á rafmagni en þar tíðkast. 

Riddarar sæstrengsskýjaborganna hafa verið fámálir um tæknilega þætti sæstrengsins, gerð strengs og endamannvirkja, rekstrarspennu, fjölda leiðara, ætlaða bilanatíðni og viðgerðartíma, o.s.frv.  Sumir sæstrengseigendur spara sér annan leiðarann og nota sjóinn til að leiða strauminn aðra leiðina.  Slíkt er stórhættulegt öllu lífi í grennd landtökustaðanna. 

Gríðarleg endamannvirki þarf við ströndina og línumannvirki þangað.  Ef bilun kemur upp í einhverjum hluta þessara flóknu flutningsmannvirkja, sem reikna má með a.m.k. einu sinni á ári, og flutningur stendur þá sem hæst, þá verða ægilegar spennu-, afl- og tíðnisveiflur í hinu litla íslenzka stofnkerfi, sem geta leitt til myrkvunar stórs hluta Íslands.  Þetta er hægt að reikna í hermilíkönum.  Riddararnir hafa skautað léttilega yfir þennan alvarlega annmarka, en vaðið út í fenið með dollaraglýju í augum.  Þetta er óafsakanleg strútshegðun að hálfu Landsvirkjunar og ótrúlega ófagmannlega að verki verið. 

Strengbrúður héldu fund í Hörpu þriðjudaginn 9. september 2014.  Var hann (auðvitað) á vegum Verðbréfadeildar Íslandsbanka, og var sá um "arðsemi orkuútflutnings".  Var hann þó aðeins að litlu leyti um orkuútflutning frá Íslandi, heldur snerist fundurinn aðallega um orkuútflutning frá Noregi, enda var gestur fundarins Ola Borten Moe, fyrrverandi olíu- og orkumálaráðherra Noregs.

Þann 7. október 2014 gerði Skúli Jóhannsson, verkfræðingur, þennan fund að viðfangsefni greinar sinnar í Morgunblaðinu, "Arðsemi orkuútflutnings".

Skúli hefur sýnt fram á, að samsetning vatnsorkukerfa Íslands og Noregs sé gjörólík, og þar af leiðandi sé út í hött að bera saman sæstrengstengingar við raforkukerfi þessara landa.  Hann hefur reiknað út, að aflgeta virkjana í Noregi sé fimmföld á við aflgetu virkjana á Íslandi sem hlutfall af grunnafli í hvoru landi, þ.e. forgangsafli.  

Ástæðan fyrir þessu er ólík álagssamsetning í þessum tveimur löndum.  Á Íslandi er um 80 % af álaginu stóriðjuálag, en hlutfallslega um helmingi minna í Noregi. Aðeins um 5 % húsnæðis á Íslandi er hitað upp með með rafmagnsofnum, en í Noregi er líklega um 90 % upphitaðs húsnæðis hitað með rafmagnsofnum.  Í hitunarálaginu eru dægursveiflur og árstíðasveiflur, og  kerfið þarf að anna toppunum.  Þá getur verið hagstætt fyrir virkjanaeigendur að fylla upp í dældir álagsins til að bæta nýtingu mannvirkjanna, ef þeir eiga til þess orku í miðlunarlónunum.  Strengbrúðurnar á Íslandi virðast ekki hafa áttað sig á því, að kennistærðir íslenzka raforkukerfisins eru með þeim hætti, að það er ekki eftir neinu að slægjast með sæstrengstengingu, hvað nýtnina varðar.  Þetta liggur þó í augum uppi fyrir þá, sem málið gaumgæfa.     

Því miður leggur núverandi iðnaðarráðherra nafn sitt við skýjaglópahátt strengbrúðanna, en er þó vonandi ekki strengjabrúða, þó að hún hafi sett téðan fund og haldið því fram í setningarávarpi, að téður sæstrengur "væri orðinn tæknilega raunhæfur og jafnframt hagkvæmur".  Hvaðan í ósköpunum hefur iðnaðarráðuneytið þessa speki ?  Hefur það undir höndum óbirt gögn, sem gefa ráðherranum svigrúm til að slá fram digurbarkalegri fullyrðingu á borð við þessa ?  Á það skal bera brigður þar til annað sannast, og er annars ástæðulaust fyrir ráðuneytið að lúra á þeim gögnum.  Á að trúa því, að iðnaðarráðuneytið gleypi áróður strengbrúðanna hráan og geri að sínum ? Something is rotten in the State of Danemark."

Það var ótrúlegt, að téður norskur ráðherra ræddi um umhverfisverndarsinna sem "bófa í hlekkjum" (gangs in chains).  Á Íslandi tíðkast ekki slíkur málflutningur.  Fólk á fullan rétt á þeirri skoðun, að nóg sé komið af virkjunum, tengivirkjum og línum.  Höfundur þessa pistils gerir greinarmun á mannvirkjum eftir hlutverki þeirra.  Orkumannvirki, sem reist eru til eflingar innviða og atvinnustarfsemi í landinu, styður hann, ef notagildið er metið meira en verndargildið, að beztu manna yfirsýn, en mannvirki fyrirtækja, sem annaðhvort hafa litla þjóðhagslega hagkvæmni eða styrkja ekki innviði athafnalífsins, þarf að skoða með Argusaraugum áður en slík eru samþykkt.  Dæmi um þetta eru viðskipti með raforku um sæstreng til útlanda, sem aðeins geta leitt til verulegrar hækkunar á raforku á Íslandi og verri samkeppnistöðu fyrirtækja á Íslandi en ella.  Slíkt framferði er ekkert annað en spákaupmennska með orkuna, sem getur haft alvarlega fjárhagslega kollsteypu í för með sér í svipuðum dúr og bankahrunið haustið 2008, og ber þess vegna að berjast gegn með kjafti og klóm.  Þá gætu myndazt kynleg bandalög undir forskriftinni: óvinur óvinar þíns er vinur þinn. 

Eðli "hráefnisútflutnings" af þessu tagi er að gera hina ríku enn ríkari, en þeir, sem hafa ofan í sig með striti hugar og/eða handar, þeir bera skarðan hlut frá borði.  Meðaltekjur í þjóðfélaginu hækka við þetta, en miðtekjurnar ekki.  Miðtekjur eru tekjur, þar sem jafnmargir á atvinnualdri eru neðan við og ofan við.  Viðskipti af þessu tagi ýta með öðrum orðum óverðskuldað undir vaxandi tekjuskiptingu, sem endað getur með mikilli þjóðfélagsspennu, eins og Bandaríkjamenn eru að upplifa núna.  Meðaltekjur hafa þar vaxið, en miðstéttin verður ekki vör við það, af því að miðtekjurnar hafa ekki vaxið.  Þó að sæstrengur á milli Íslands og Skotlands yrði arðsamur, sem hann hefur enga möguleika á að verða vegna lítils orkuflutnings, mikillar vegalengdar og dýpis, þá bætir hann litlu við innviði landsins og nánast einvörðungu á byggingarskeiði mannvirkja.  Fjármálakerfið kynni hins vegar að fitna.  

Skúli Jóhannsson kveður fram hafa komið á téðum fundi, að NORNED, en svo er sæstrengurinn á milli Noregs og Hollands nefndur, sé í eigu raforkuflutningsfyrirtækja landanna og eigi Statnett 50 % og Tennet 50 %.  Það yrðu dálagleg tíðindi, ef sama fyrirkomulagið yrði viðhaft með Íslandsstrenginn, og Landsnet mundi þá eiga 50 % af a.m.k. 600 milljarða kr fjárfestingu.  Íslenzkir raforkunotendur sætu þá í súpunni, og íslenzkir skattgreiðendur sætu uppi með ábyrgðina.  Áður hefur verið látið í veðri vaka, að Landsvirkjun mundi ekki eiga strenginn, heldur ótilgreindir, áhugasamir fjárfestar, en Landsvirkjun á meirihlutann í Landsneti.   

Þetta minnir mest á feigðarflan fyrri ríkisstjórnar, þegar hún reyndi að smeygja Icesave-skuldinni um háls skattborgara á Íslandi.  Einn þeirra, sem mjög mælti með því, hét Hörður Arnarson og var þá orðinn forstjóri Landsvirkjunar.  Hvað gengur manninum til að láta eins og hann lætur ?  Mistök á mistök ofan.

Það er eins og blindur leiði haltan í þessu endemis sæstrengsmáli, og nytsamir sakleysingjar bíta enn á agnið.  Til marks um fíflaganginn á fundinum skrifaði Skúli Jóhannsson eftirfarandi undir lok greinar sinnar:

"Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, kvað upp úr með, að hagkvæmni sæstrengs til Bretlands væri gríðarleg og það væri hægt að keyra sæstrenginn að miklu leyti á umframorku, sem þó er ekki fyrir hendi í orkuöflunarkerfinu á Íslandi, alla vega ekki í þeim mæli, sem forstjórinn hefur haldið fram."

Segja má, að Skúli Jóhansson og höfundur þessa pistils séu báðir í hlutverki barnsins í ævintýrinu um keisarann, sem hafði gaman af að koma fram í nýjum, fínum fötum, og lét að lokum klæðskera sína gera sér föt úr svo fínu hýjalíni, að það sást ekki, enda varð neyðarúrræði klæðskeranna að vefa úr engu og hafa keisarann að fífli.  Barnið hrópaði: "Keisarinn er ekki í neinu".  Þetta á núna við tiltekinn forstjóra. 

Hvað veldur því, að ráðherrann ætlar að dansa þennan menúett við Hörð ?  Hún verður að svara flokksstofnunum Sjálfstæðisflokksins því ásamt kjósendum hans, ef ekki verður snarlega söðlað um.  Eða hvað segja menn um eftirfarandi, sem tekið er úr grein Skúla ?:

"Í tölu sinni tilkynnti iðnaðarráðherra, að á vegum ráðuneytisins hefðu verið sett í gang a.m.k. sex sérverkefni: áhrif sæstrengsins á iðnfyrirtæki á Íslandi, umhverfisáhrif og kostnaður vegna þeirra, framboð á virkjunum á Íslandi, þróun raforkumarkaðar í Evrópu, mat á tæknilausnum og reynsla Norðmanna af sæstrengjum til raforkuflutnings.  Fleiri verkefni verða sett í gang á næstunni."

Maður veit ekki, hvaðan á mann stendur veðrið við þessa lesningu.  Hvers konar verkstjórn er eiginlega í þessu ráðuneyti, að þannig skuli vera forgangsraðað verkefnum þar og bruðlað með fé skattborgaranna við umfjöllun um "futile" eða gagnslaus verkefni.  Væntanlega er ætlun ráðherrans að safna gögnum til undirbúnings upplýstri ákvarðanatöku stjórnvalda um aflstreng til Skotlands.  Aðferðarfræði ráðherrans er hins vegar umdeilanleg, því að nóg er af gögnum fyrir hendi til að taka upplýsta ákvörðun um að leggja allar opinberar vangaveltur um slíkan streng á hilluna og beina frekar kröftunum að því að fleiri atvinnugreinar fái notið heildsölukjara á orku og áframhaldandi iðnvæðingu landsins. Annað er ævintýramennska. 

Þessi umfjöllun iðnaðarráðuneytisins er með öllu ótímabær og á engan rétt á sér á þessu kjörtímabili.  Er ekki rétt að Landsfundur Sjálfstæðisflokksins álykti um þetta mál áður en ráðherra flokksins veður fram með þessum hætti í mjög umdeildu máli og gefur í skyn, að hún hafi hug á raftengingu við Skotland, sé þess nokkur kostur ?

isal_winter

   

   

 

 

     

   

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú ættir að sjá Moggann í dag, fimmtudag!

Falla menn þá fyrir málatilbúnaði útlendra?

En þakka þér þína elju, yfirsýn og fórnfýsi vegna þessa máls og annarra.

Jón Valur Jensson, 16.10.2014 kl. 05:12

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Takk fyrir ítarlega grein, Bjarni.

Ívar Pálsson, 16.10.2014 kl. 08:41

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Góðan dag Bjarni.

Takk fyrir fróðlega grein.

Hér er grein á vef Landsbankans sem fróðlegt væri að fá átit þitt á:


"Rafstrengur yrði umfangsmikið verkefni"

http://www.landsbankinn.is/Uploads/Documents/Hagsja/2014-10-13-Saestrengur-umfang.pdf

Ágúst H Bjarnason, 16.10.2014 kl. 08:58

4 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Hér er fréttin í Mogganum í dag.  Hvert er álit þitt?  Hefur þú skoðað þessa greiningu ENTSO-E sem vitnað er til?

 

65 milljarða ábati af sæstreng

Árlegur ábati af lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands gæti numið allt að 420 milljónum evra, jafnvirði um 65 milljarða íslenskra króna. Þetta... [Millifyrirsögn]


Framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun segir næsta skref að ræða við Breta. [Texti við mynd].

 

Árlegur ábati af lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands gæti numið allt að 420 milljónum evra, jafnvirði um 65 milljarða íslenskra króna.

 

Þetta er niðurstaða kostnaðar- og ábatagreiningar sem ENTSO-E, Evrópusamtök fyrirtækja á sviði raforkuflutninga, hafa framkvæmt. Í tæplega 500 blaðsíðna skýrslu samtakanna eru útlistuð yfir hundrað verkefni sem koma helst til álita við uppbyggingu raforkukerfa í Evrópu á næstu tíu árum. Samkvæmt greiningu ENTSO-E myndi efnahags- og samfélagslegur ábati af lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands nema á bilinu 290 til 420 milljónum evra miðað við fjórar ólíkar sviðsmyndir. Er sæstrengurinn talinn einn sá hagkvæmasti á slíkum mælikvarða af öllum þeim orkuverkefnum sem ENTSO-E hefur skoðað.

 

Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, segir að niðurstaðan sýni fram á öfundsverða stöðu Íslands. »Hún gefur sterklega til kynna að við gætum náð enn meiri arðsemi af orkuauðlindum okkar í framtíðinni.«

Björgvin bendir á að í greiningu ENTSO-E sé ekki lagt mat á það hvernig ábatanum yrði skipt á milli þeirra sem kæmu að slíku verkefni. »Hagsmunir Landsvirkjunar og Íslands eru því augljóslega þeir að meta hversu mikils virði okkar orkuvinnslustöðvar eru - bæði núverandi og framtíðarvirkjunarkostir - og tryggja að stærstur hluti þess ábata sem slíkur sæstrengur hefði í för með sér myndi fara til Íslands.«

 

Hann segir að næstu skref hljóti að vera að fá svör við nokkrum grundvallarspurningum. »Það sem liggur fyrir núna er að hefja viðræður við bresk stjórnvöld um hvort þau hafi áhuga á slíkum sæstreng. Ef svo er, sem margt bendir til, þá hver aðkoma þeirra yrði - einkum hvort Bretar séu reiðubúnir að taka stóran hluta þeirrar fjárhagslegu áhættu sem fylgir slíku verkefni.«

 

Í skýrslu ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu, sem var kynnt í júní 2013, sagði að afla þyrfti frekari upplýsinga áður en hægt væri að fullyrða um þjóðhagslega hagkvæmni verkefnisins. Í því skyni ætti að hefja viðræður við bresk stjórnvöld. Meira en ári síðar er staðan hins vegar óbreytt og enn hafa engar viðræður átt sér stað við Breta.

 

Ætla má að orka í gegnum sæstreng yrði seld á margfalt hærra verði miðað við núgildandi samninga Landsvirkjunar. Eru bresk yfirvöld með stuðningskerfi sem þau hafa notað við byggingu á nýju kjarnorkuveri. Þar ábyrgjast þau 65% af kostnaði við framkvæmdir og tryggja raforkuverð sem samsvarar 150 Bandaríkjadölum á hverja megawattstund til 35 ára. Samskonar stuðningskerfi er fyrir hendi fyrir vindorkugarða og þar fer raforkuverðið upp í allt að 200 dali.

 

 

Ágúst H Bjarnason, 16.10.2014 kl. 09:12

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú hefur svör við þessu, Bjarni, veit ég.

Jón Valur Jensson, 16.10.2014 kl. 14:50

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sælir, allir saman, og þakkir fyrir að doka við á síðunni;

Ég hef ekki kynnt mér þessa löngu skýrslu ENTSO-E, en sýnist af lýsingu Morgunblaðsins í dag, að "65 milljarða árlegur ábati af sæstreng" sé ekki ábati sæstrengseigandans einvörðungu, heldur allra birgjanna, sem að verkinu koma, eigandans, og kaupendanna líka.  Þetta eru fullkomlega óraunhæfir útreikningar, því að ávinningur birgjanna er aðeins yfir framleiðslu- og framkvæmdatímabilið, og ávinningur strengeiganda og kaupenda er háður verði, sem engan veginn er í hendi.  Ef ég reikna með verðinu 150 USD/MWh, sem Landsvirkjun miðar stundum við, þá verða árlegar tekjur 76 milljarðar kr, en árlegur kostnaður strengsins nemur hins vegar 72 milljörðum kr.  Þá eru eftir 4 milljarðar kr upp í kostnað virkjunar, sem þýðir, að orkan frá orkuveri á Íslandi verður seld langt undir kostnaðarverði.  Þessir útreikningar ENTSO-E eru mjög villandi, svo að vægt sé til orða tekið, og engan veginn treystandi.

Bjarni Jónsson, 16.10.2014 kl. 18:48

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ágúst;

Ég renndi yfir glænýja skýrslu Hagfræðideildar Landsbankans - HDL.  Hún er glæfraleg og stenzt illa gagnrýni.

1) Reiknað er með 2-6 TWh/a í nýtilega afgangsorku í vatnsorkuverum.  Þetta er út úr korti.  Skúli Jóhannsson, verkfr., hefur komizt að því, að uppsett afl þar væri 14 % umfram grunnafl, sem þýðir 280 MW.  Vegna viðhaldsþarfar og bilana er óráðlegt að reikna með hærri nýtingartíma umframafls en 4000 klst/a.  Þetta gefur aðeins 1,1 TWh/a.

2) HDL reiknar með 8 % afltöpum.  Þetta er að mínu mati of lágt.  Ég reiknaði með 10 % í mínum arðsemiútreikningum, þ.e. 5 % í endabúnaði og 5 % í streng.

3) Kostnaðaráætlun HDL er lág, þ.e. aðeins ISK 278 mia með endabúnaði.  Ég reiknaði með USD 4,0 mia eða um ISK 4,8 mia, enda var kostnaðaráætlun HHÍ ISK 288-553 mia í júní 2013, og Baldri Elíassyni þótti hún vera allt of lág, þegar Mogginn átti við hann viðtal í júní 2014.

Samandregið: enginn fjárfestir ætti að lesa þessa skýrslu Landsbankans gagnrýnilaust og án þess að bera hana saman við önnur gögn.  Það eru engin efni til að gera svo óvarlega kostnaðaráætlun.  Hana þarf líklega að margfalda með PÍ.

Bjarni Jónsson, 16.10.2014 kl. 21:31

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Leiðrétting: kostnaðaráætlun mín fyrir línur og tengivirki á Íslandi ásamt streng og tengivirki í Skotlandi:

ISK 480 milljarðar m.v. 1 USD = 120 ISK.  Þetta er 87 % af efri mörkum hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands - HHÍ.

Bjarni Jónsson, 16.10.2014 kl. 21:40

9 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir svörin Bjarni.

ENTSO-E greinargerðin er á þessari síðu:

https://www.entsoe.eu/major-projects/ten-year-network-development-plan/tyndp-2014/Pages/default.aspx

Þar sem þú þekkir þessi mál manna best væri fengur í að lesa álit þitt á því sem þar kemur fram.

Með kveðju,

Ágúst H Bjarnason, 17.10.2014 kl. 11:27

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ágúst;

Samtökin ENTSO-E hafa að markmiði að styðja við allar stofnkerfissamtengingar í Evrópu, sem mönnum dettur í hug.  Það er þá í hverju tilviki reynt með almennum hætti að reikna út einhvers konar virðisauka af hverri tengingu fyrir heildarkerfið.  Þetta snertir ekkert arðsemi viðkomandi tengingar fyrir eiganda hennar.  Það er alger rangtúlkun á skýrslunni að gefa í skyn, að eigandi sæstrengs á milli Íslands og Bretlands, seljandi orkunnar eða kaupandi hennar, njóti árlega 65 milljarða kr ávinnings.  Þessi skýrsla á ekkert erindi inn í sæstrengsumræðuna á Íslandi.

Bjarni Jónsson, 17.10.2014 kl. 20:43

11 Smámynd: Bjarni Jónsson

Mér er ljúft og skylt að geta þess hér, að rannsóknir og skýrslugerðir Iðnaðarráðuneytisins tengdar sæstreng á milli Íslands og Skotlands eru gerðar að undirlagi Alþingis, nánar tiltekið Atvinnuveganefnd þingsins, sem fól ráðuneytinu tiltekin verkefni.  Upplýsingaöflun er ekki skaðleg, en hún kostar, og ef litlar líkur eru á, að hún verði almenningi á Íslandi að gagni, á hiklaust að hætta við hana.  Jón Gunnarsson ætti þakkir skyldar, ef hann tæki frumkvæði að því, að þingið mundi losa ráðuneytið undan téðu viðfangsefni. 

Bjarni Jónsson, 20.10.2014 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband