6.11.2014 | 20:41
Samband Íslands við Evrópusambandið
Hagsmunatengsl og menningartengsl á milli Íslands og Evrópusambandsins (ESB) eru mikil og meiri en á milli Íslands og annarra landsvæða, eins og nú standa sakir.
Þess vegna er hætt við, að slæmt efnahagsástand í ESB á næstu misserum, einkum á evru-svæðinu, muni hafa neikvæð áhrif á viðskiptakjör Íslands í Evrópu. Lítið framboð fiskimjöls vegna brests í ansjósunni frá Perú og minna framboð þorsks frá Rússum og Norðmönnum kann þó að bæta úr skák, en ládeyða og jafnvel verðhjöðnun í Evrópu mun tefja viðreisn álmarkaðarins. Hvað verður um kísilmarkaðinn, ef áherzlan flyzt frá vindrafstöðvum og sólarhlöðum til Þóríum-kjarnorkuvera og jarðvarma er ekki gott að segja.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að vandi evru-svæðisins er misgengi hagkerfa aðildarlanda myntbandalagsins. Þjóðverjar hertu sultarólina upp úr aldamótunum síðustu, þegar þenslan í kjölfar endursameiningar Þýzkalands var tekin að grafa undan samkeppnihæfni þeirra eftir upptöku evrunnar. Á meðan gömnuðu aðrir sér við innistæðulausar launahækkanir og hafa nú fengið þær margfaldar í hausinn sem bjúgverpil, því að evran er miskunnarlaus húsbóndi, sem refsar fyrir slíkt ábyrgðarleysi með því að gera viðkomandi þjóðfélög ósamkeppnihæf.
Aðhaldsaðgerðir Þjóðverja hrifu að sjálfsögðu, svo að verðlag hjá þeim hækkaði minna en annars staðar á evru-svæðinu. Afleiðingin varð sú, að ríki með minni aga í ríkisfjármálum og í samningum um kaup og kjör fengu yfir sig hærri verðbólgu og verri viðskiptakjör við útlönd, sem þau geta ekki staðið undir, atvinnuleysið hefur þar orðið geigvænlegt, jafnvel yfir 20 %, og lífskjaraskerðing, þegar veizlunni lauk. Sígandi lukka er bezt.
Þessi óþolinmóðu ríki hafa ekki upp á nægilega mikið af vörum og þjónustu að bjóða, sem þau geta selt á hærra verði en keppinautarnir. Þessi ríki stefna nú til efnahagslegrar Heljar og eru öðrum víti til varnaðar um það, sem gerist, þegar veikt hagkerfi gengur í myntbandalag við sterkt hagkerfi. Mikil efnahagsleg vá steðjar nú að þessu myntsamstarfi vegna lítils hagvaxtar alls staðar á myntsvæðinu og verðhjöðnunar víða. Fyrir myntsamstarf þjóða er ástand af þessu tagi eins og krabbamein í líkama.
Um myntsamstarf fóru fram fróðlegar umræður á Bretlandi í aðdraganda atkvæðagreiðslu Skota um sjálfstæði. Aðskilnaðarsinnar sögðust ætla að halda áfram með sterlingspundið, hvað sem tautaði og raulaði. Það þótti sambandssinnum afleit hugmynd, og bankastjóri Englandsbanka, Mark Carney, kvað aðild Skota að sterlingspundinu vera ósamrýmanlega við fullveldi (e."incompatible with sovereignty"). Þessu lýsti seðlabankastjórinn yfir að vel yfirlögðu ráði. Þetta var niðurstaða rannsókna Englandsbanka.
Menn gæti að því, að yfirlýsing bankastjórans var ekki stjórnmálalegs eðlis, heldur niðurstaða hagfræðilegra rannsókna, sem saga evrunnar staðfestir.
Þegar kemur að peningum og bankastarfsemi, á engin þjóð merkilegri sögu en Skotar, nema vera skyldi Gyðingaþjóðin. David Hume var Skoti, sem árið 1748 setti fram fræðikenningu um samband peninga, verðbólgu og vaxtar.
Myntbandalaginu, sem SNP, skozki þjóðarflokkurinn, sá fyrir sér um sterlingspundið að fullveldi fengnu, hefði svipað mjög til EMU, þ.e. evrópska myntbandalagsins um evruna. Pundið héldi áfram sem mynt Skota, og Englandsbanki mundi ákvarða peningamagn í umferð og eitt vaxtastig fyrir bæði löndin og verða til þrautavara á krepputímum. Slíkt myntbandalag mundi vissulega eyða skiptigengisáhættu og myntkostnaði í viðskiptum á milli landanna, sem virkar viðskiptaörvandi. Viðskipti Skota við hin lönd Bretlands námu um 2/3 af VLF Skotlands árið 2013 eða GBP 110 milljörðum, svo að miklir hagsmunir eru í húfi.
Viðskipti eru þó ekki hið eina, sem þarf að beina sjónum að, þegar um myntsamstarf er að ræða. Í þekktri ritgerð setti Robert Mundell við Columbia-háskólann árið 1961 fram próf fyrir vel heppnaðan samruna mynta. Á kjörsvæði sameiginlegrar myntar verða framleiðsla - fjármagn og vinnuafl - að geta flutzt frjálst á milli án tillits til landamæra. Núverandi sterlingsvæði fullnægir þessu vegna sameiginlegrar tungu og margra, sem flytjast á milli. Fjármagn flyzt líka óheft á milli, svo að sparendur og lántakendur tengjast yfir landamæri um bankakerfið.
Myntbandalag sterlings, án sambandsríkis, mundi hins vegar standa frammi fyrir mörgum vandamálum. Hagsveiflur ríkjanna eru þokkalega vel samstiga, en ekki þó í fasa. Það hefur óhjákvæmilega í för með sér, að peningamálastjórnunin er oft of strekkt öðrum megin við landamærin og of slök hinum megin við. Þessi misleitni mundi líklega fara vaxandi, því að fjárstreymi inn og út úr sameiginlegum ríkissjóði hættir við upplausn ríkisins. SNP flokkurinn í Skotlandi ætlar að auka útgjöld skozks ríkissjóðs um 3 % á ári, en Íhaldsstjórn Bretlands ætlar að ná jöfnuði á rekstri ríkissjóðs árið 2019. Samt er hallinn á rekstri skozka ríkissjóðsins núna meiri en þess brezka, og tekjustofninn minnkar með hækkandi meðalaldri Skota og minna streymi úr eldsneytislindum Norðursjávar.
Ef sameiginlega stefnu vantar varðandi ríkissjóðina, getur sterling-svæði hæglega orðið smá evru-svæði með Skotland í hlutverki Grikklands. Þetta er ógæfulegt og útskýrir, hvers vegna allir sambandsflokkarnir eru andvígir myntbandalagi, ef til sambandsslita kæmi, og hvers vegna bankastjóri Englandsbanka, Mark Carney, kallaði myntbandalag "ósamrýmanlegt fullveldi" eða "incompatible with sovereignty" í ræðu 9. september 2014.
Þetta er lærdómsríkt fyrir Íslendinga. Bankastjóri Englandsbanka segir fullum fetum, að þátttaka ríkis í myntbandalagi og fullveldi þess sama ríkis fari engan veginn saman.
Þó að núverandi stefna í ríkisfjármálum á Íslandi sé mun ábyrgari en sú skozka er um þessar mundir, er auðvelt að setja sér fyrir hugskotssjónir, að um Ísland mundu svipuð rök gilda og fyrir sjálfstætt Skotland innan sterlingsvæðis. Íslendingar yrðu með öðrum orðum að vera viðbúnir því að leggja sig í framkróka við að líkja eftir hagsveiflu, sem ríkjandi er á myntsvæði, sem þeir hygðust fá aðild að, en slíkt tækist aldrei almennilega, af því að samsetning íslenzka hagkerfisins er einstök. Við yrðum dæmd til að vera nánast aldrei í fasa við ástand, sem viðkomandi seðlabanki tæki mið af við sínar ákvarðanir, hvort sem það væri evrubankinn, Englandsbanki, Seðlabanki BNA eða einhver annar. Afleiðingin yrði sú, að hagkerfið á Íslandi mundi sveiflast á milli þenslu með töluverðri verðbólgu og samdráttar með töluverðu atvinnuleysi. Það er þá vissulega hætt við, að gjaldeyrishagræðið yrði of dýru verði keypt, eins og nú er að koma á daginn á evru-svæðinu. Eru ekki vítin til að varast þau ? Samt ber möntrufólk hausnum við steininn, og batnar sá haus ekki við það. Hann mun aldrei láta sér segjast, af því að jafnaðarmennirnir á Íslandi hafa alltaf talið Ísland of litla einingu til að standa sjálfstæða. Það er engin ástæða fyrir kjósendur á Íslandi að velja slíkt fólk til valda, sem hefur slíka vantrú á þjóðinni, að hún geti ekki staðið á eigin fótum, og þess vegna verði að afhenda ríkjasambandi stjórnartaumana.
SNP-aðskilnaðarflokkur Skota lýsti því yfir í kosningabaráttunni fyrir 18. september 2014, að samþykktu Skotar aðskilnað, mundi SNP beita sér fyrir því, að Skotar héldu áfram að nota sterlingspundið. Þessi valkostur - sterlingvæðing - er vissulega möguleg: samkvæmt nýlegri rannsókn AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðsins nota 11 ríki annarra þjóða mynt óformlega. Kiribati, eyjaklasi í Kyrrahafinu, hefur notað ástralska dalinn síðan 1979. Svartfjallaland, Kosovo og Andorra nota öll evruna án þess að vera í ESB eða EES. Ekvador og El Salvador nota bandaríkjadal.
Það eru hins vegar tvö stór vandamál tengd þessari sterlingvæðingu Skota. Ef Englandsbanki mundi ekki lengur bera neina ábyrgð á peningamálum Skotlands, þá verður peningamálastefna hans ákveðin alfarið á grundvelli hagsmuna ríkjanna, sem eftir verða í Sameinaða konungdæminu, þ.e. Englands, Wales og Norður-Írlands.
Sem dæmi er núverandi munur á vaxtastigi Seðlabanka Íslands og Seðlabanka evrunnar um 5 %. Hefði Seðlabanki Íslands verið með vexti niðri við 0 í meira en eitt ár, þá er anzi hætt við, að verðbólgan væri hér ríflega yfir viðmiðun Seðlabankans, 2,5 %, en hún er nú undir 2,0 %, enda var Peningastefnunefnd að lækka vextina um 0,25 %.
Ef þensla eða samdráttur hæfist á Skotlandi, en Bretland sigldi lygnan sjó, þá mundi Englandsbanki ekkert aðhafast. Áhrifin á skozkt fjármálakerfi gætu varla orðið verri. Skotland hýsir stórt fjármálakerfi, sem stendur undir 12,5 % af þjóðarframleiðslu Skotlands. Ef enginn seðlabanki styddi við bakið á þessum fjármálageira, mundi verða litið á hann sem áhættusamari fjárfestingarkost, og lántökukostnaður hans mundi hækka. Mörg þessara fjármálafyrirtækja mundu flytja höfuðstöðvar sínar til Englands og taka hálaunafólk og feita skattstofna með sér þangað. Af þessum sökum er ekki raunhæfur kostur að fara leið Svartfjallalands o.fl. og evru-, pund- eða dollarvæða peningakerfið á Íslandi í blóra við viðkomandi seðlabanka eða án hans sem bakhjarls.
Bezti valkostur Skotlands eftir aðskilnað samkvæmt greiningu vikuritsins The Economist hljómar róttækastur: nýr gjaldmiðill og nýr seðlabanki. Þetta er reyndar afar algengt skref: 28 nýir seðlabankar hafa verið stofnsettir á síðasta aldarfjórðungi.
Greining Bretanna á því, hvað sjálfstæðu Skotlandi væri fyrir beztu í peningalegum efnum fer ekkert á milli mála. Íslendingar geta nýtt sér greiningar af þessu tagi, því að sambærileg greining virðist ekki hafa farið fram fyrir Ísland, þó að Seðlabanki Íslands hafi reyndar gefið út greiningu um valkosti Íslands í gjaldmiðilsmálum.
Þess vegna yfirgnæfa flautaþyrlar umræðuna hérlendis með gildishlöðnum fullyrðingum, sem eiga sér engan stuðning í rannsóknum. Það er heimskulega áhættusöm stefnumótun að taka upp mynt annarrar þjóðar eða ríkjasambands, eins og ofangreind rannsókn Bretanna sýnir og dæmin frá evru-svæðinu sanna.
Það er raunar dýrt fyrir fámenna þjóð að halda úti eigin gjaldmiðli, en séu réttar forsendur ekki fyrir hendi, verður að öllum líkindum mun dýrara að fórna eigin gjaldmiðli og taka upp erlenda mynt. Hvernig sem við snúum okkur, með eigin mynt eða aðra, komumst við aldrei framhjá lögmálum peningalegs stöðugleika og sjálfbærs hagvaxtar, sem í stuttu máli felst í ströngum aga ríkisrekstrar, peningamagns í umferð og í samningum aðila vinnumarkaðarins. Ef launþegar ríkis, sveitarfélaga eða einkageirans þvinga með einhverjum ráðum viðsemjendur sína til snöggrar hækkunar launa, sem engin innistæða er fyrir, þá fer stöðugleikinn veg allrar veraldar, og versti óvinur allra launþega, verðbólgan, veður fram og gleypir allar heimskulegar prósentuhækkanir launa. Menn verða að sýna biðlund og þolinmæði og leyfa hagkerfinu að vaxa fiskur um hrygg áður en tekið er út úr "Gleðibankanum".
Það er meiri fylgni á milli hagsveiflna Skotlands og Englands en á milli hagsveiflna Íslands og Englands, Þýzkalands, Bandaríkjanna eða Kanada. Vegna smæðar íslenzka hagkerfisins mundu seðlabankar þessara myntsvæða ekki taka minnsta tillit til þarfa og hugsanlegra vandræða íslenzka hagkerfisins, þó að við værum í myntbandalagi undir þeirra stjórn.
Gjörðir viðkomandi seðlabanka mundu þess vegna ekki einasta verða gagnslausar á Íslandi, heldur gætu þær hæglega orðið stórskaðlegar íslenzka hagkerfinu. Það liggur í augum uppi, að íslenzka hagkerfið yrði eins og bátskæna í stórsjó, sem ræki stjórnlaus fyrir veðri og vindum, ef enginn væri seðlabankinn til að lægja öldurnar.
Það vekur samt athygli við málatilbúnað ótrúlega margra hérlendis, sem tjá sig opinberlega, að þeir eru í hlutverki námuhestsins, sem var með blöðkur við augun, svo að sjónarhornið varð þröngt til að hann fældist síður. Menn tala um eða rita um stórt viðfangsefni, sem þeir reyna að lýsa, en þeir einblína á einn þátt aðeins, t.d. eina löpp á fíl, og lýsa fílnum út frá löppinni. Þeir bíta í sig, að þeirra lýsing sé sú rétta og verða hinir verstu, ef þeim er andmælt og bent á villur síns vegar.
Þetta er engan veginn bundið við Ísland eða okkar tíma og nægir í því sambandi að minna á meðferð páfastóls á Galileo Galilei, sem hélt því fram, að jörðin væri hnöttótt og snerist um sólina, en kirkjan, að jörðin væri flöt og miðdepill alheims. Í öllum málum er affarasælla að rannsaka og draga síðan ályktanir en að sleppa hinu fyrr nefnda og halda sig við sleggjudóma í stað hins síðar nefnda.
Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, að þröngsýni er ljóður á ráði vinstri manna, en þeim virðist fyrirmunað að meta málefni heildstætt, heldur einblína á afmarkaða þætti í stað heildarmyndarinnar og fimbulfamba út frá því endalaust út í loftið.
Það er því miður að koma í ljós núna, að evran var reist á sandi. Hún hefur hangið uppi á styrk Þýzkalands, en nú er komið í ljós, að ójafnræðið er of mikið á milli ríkjanna í EMU-evrópska myntbandalaginu, ríkisbúskapur þeirra er of ólíkur og hagsveiflur þeirra of fjarri því að vera í takti. Vinnuaflið á evru-svæðinu er ekki nógu hreyfanlegt á milli landanna, m.a. vegna tungumálaerfiðleika, svo að kostir Innri markaðarins nýtast ekki fullkomnlega til að jafna atvinnustigið. Angela Merkel, kanzlari Þýzkalands, hefur sagt við landsmenn sína, að Þýzkaland ætti sér enga aðra kosti en að hlaupa undir bagga með bágstöddum evruþjóðum. Þetta hefur fallið í grýttan jarðveg hjá þjóð, sem þykir þrengt að sér úr öllum áttum, og ekki í fyrsta skipti.
Það hefur nú runnið upp fyrir æ fleiri landsmönnum hennar, að þessi svo kallaði efnahagsstuðningur við bágstaddar evru-þjóðir gerir aðeins illt verra, og almannarómur í þessum bágstöddu löndum úthúðar Þjóðverjum fyrir aðhaldsstefnu sína í fjármálum heima og hjá ECB-seðlabanka evrunnar, sem er í raun og veru stefna hinnar hagsýnu húsmóður, sem veit, að peningamál eru ekki vúdú, peningar vaxa ekki á trjánum, og það mun koma niður á börnunum að eyða um efni fram.
Jafnaðarmenn í mörgum löndum eru þessu marki brenndir í ríkisfjármálum að slá lán og senda næstu kynslóð reikninginn. Það tekur Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýzkalands, ekki í mál. Hann vill heldur ekki prenta peninga, sem engin verðmætasköpun er að baki, því að hann veit, að versti óvinur fátækra fjölskyldna er verðbólgan.
Nú er kominn fram stjórnmálaflokkur í Þýzkalandi, sem andmælir viðteknum viðhorfum til ESB og evrunnar þar í landi og nýtur 10 % og vaxandi fylgis. Með skírskotun til orðanotkunar frú Merkel kallar þessi stjórnmálaflokkur sig einmitt Alternative für Deutschland - AfD - valkostir fyrir Þýzkaland. Boðskapurinn er sjálfstætt Þýzkaland, sem kasti evrunni og taki upp þýzka markið að nýju - DEM. Merkel, kanzlari, hefur aftur á móti sagt við þýzka þingið, að Þjóðverjar eigi ekki annarra kosta völ en að styðja evruna og ESB með ráðum og dáð.
Það er að renna upp fyrir mörgum, að slík stefna mun verða Þýzkalandi æ dýrkeyptari í tímans ráð, og mun örugglega hamla hagvexti og lífskjörum þar í landi hjá þjóð, þar sem meðalaldur íbúanna hækkar ískyggilega vegna viðkomu, sem er svo lítil, að íbúafjöldinn mun hrapa um tugi milljóna á fyrri hluta þessarar 21. aldar, nema Þjóðverjar taki aftur að fjölga sér, hraustlega.
Þessum flokki, AfD, vex nú fiskur um hrygg í fylkiskosningum og þrengir hann að kanzlaranum. Hún mun þess vegna ekki geta beitt sér fyrir björgun evrunnar í sama mæli og áður, af ótta við kjósendur, sem mun hafa grafalvarlegar afleiðingar í yfirvofandi evrukrísu á hagsvæði í bullandi vandræðum með verðhjöðnun og samdrátt hagkerfis. Hillir nú undir stórtíðindi af Evrópuvígstöðvunum, og er þá léttir fyrir Ísland að hafa ekki rígbundið trúss sitt við þessa truntu, heldur hafa fleiri valkosti. Við þurfum sem betur fer ekki að leyfa þessari truntu að rótnaga heimatúnið, en getum notað hana sem fuglahræðu, og munum þá gauka að henni tuggu og brynna eftir þörfum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.