Orkumálin skipta sköpum

Ísland hefur algera sérstöðu á Vesturlöndum, og þó að víðar væri leitað, um orkukerfi landsins.  Raforkuvinnslan á hvern íbúa er líklega sú mesta í heimi, eða um 55 MWh/íb, og hún er öll sjálfbær og afturkræf samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum þar um.  Þessi aðstaða er gulls ígildi og miklu meira virði en aðstaða Norðmanna sem olíufursta Norðursins, þegar til lengdar er litið.  Það hefur sannazt nú við verðhrun olíunnar, að hagkerfi Noregs stendur á brauðfótum, af því að olían hefur veikt alla aðra atvinnuvegi landsins, nema þá, sem á honum lifa beinlínis. 

Raforkukerfi Íslands hefur verið byggt upp með hagkvæmasta hætti, sem hugsazt getur, þ.e.a.s. síðan 1967, að ákveðið var að ráðast í Búrfellsvirkjun, í tiltölulega stórum einingum, sem þó hafa hratt náð fullnýtingu á grundvelli langtíma (25-45 ára) orkusölusamninga með mikilli kaupskyldu viðskiptavina orkufyrirtækjanna.  Fyrir vikið hafa orkuvinnslufyrirtækin náð hagstæðustu bankalánum, sem völ var á, og tekjurnar hafa streymt hratt inn.  Allt hefur þetta komið Jóni og Gunnu svo vel, að þau borga miklu lægra verð fyrir kílówattstundina en Ola og Kari í Noregi, svo að ekki sé nú minnzt á Sörensen-hjónin í Danmörku og Helgu og Fritz í Þyzkalandi.  Gallarnir framleiða nú 80 % raforku sinnar með kjarnorku, en þeir hafa engu að síður tekið þá ákvörðun, eða ESB hefur tekið hana fyrir þá, að afleggja öll uraníum-knúin kjarnorkuver árið 2040.  Þeir hafa ekki hugmynd um, hvað taka muni við og standa undir raforkuvinnslunni.  Á meðan valkosturinn við kjarnorkuverin eru kolakynt raforkuver, eins og í Þýzkalandi, er þetta afar óábyrg stefnumörkun. Hún knýr á um þróun nýrrar tækni, og hér skal spá því, að þar verði Þóríum-kjarnorkuverin ofan á.   

Þessi uppbyggingarstefna hefur sannað gildi sitt með þeirri einföldu staðreynd, að markaðsverð raforku til almennings er líklega hvergi á jörðunni lægra en á Íslandi.  Verðið kann að vera sums staðar lægra, t.d. í sjeikaveldum við Persaflóann, en þá er það niðurgreitt af hinu opinbera.

Fyrir samkeppnihæfni atvinnulífsins skiptir orkuverð, ekki sízt raforkuverðið, sköpum. Þetta er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að hafa í huga, þegar reynt er að telja þeim trú um, að aflsæstrengur á milli Íslands og Skotlands mundi hafa í för með sér gull og græna skóga fyrir íbúa Íslands.  Það er fullkomlega órökstudd fullyrðing, og útreikningar benda reyndar til, að flutningskostnaður mundi verða svo hár, 140 USD/MWh, að tap yrði á orkusölu frá Íslandi um sæstreng.  

Að orkuverðið skipti sköpum fyrir lífskjör almennings og samkeppnihæfni útflutningsatvinnuveganna vita Evrópumenn, sem sumir hverjir búa við hæsta orkuverð í heimi, hvort sem um er að ræða eldsneyti eða raforku.  Nú eru teikn á lofti um, að Evrópusambandinu (ESB) sé að takast að brjóta Rússa á bak aftur með efnahagsþvingunum, því að þeir eru hættir við að leggja s.k. Suðurstraum (South Stream) gaslögn, sem þykir vera ósigur fyrir þá og bera vott um, að tekið sé sneyðast um gjaldeyrisbirgðir Rússa, sem enda kunni með greiðsluþroti rússneska ríkisins 2015-2016.

Í Bandaríkjunum (BNA) er allt annað uppi á teninginum.  Bandaríkjamenn stunda nú vaxandi vinnslu á jarðgasi með bergbroti eða setlagasundrun (e. Hydraulic Fracturing), sem frá árinu 2008 hefur aukið gasvinnslu þeirra að jafngildi um 2 milljónir olíutunna á sólarhring eða frá 9 til 11 milljón olíutunna eða um 22 % og olíuvinnsluna sömuleiðis eða frá 5 til 7 milljóna tunna á sólarhring eða 40 %. Þetta hefur leitt til lækkunar á gasverði í BNA um 2/3, sem er líklega 50 % meiri lækkun en kostnaðarstig vinnslunnar yfir allan endingartíma brunnanna leyfir, og aukna eldsneytisframboðið af völdum þessarar nýju tækni hefur lækkað heimsmarkaðsverð olíu úr 115 USD/tunnu í um 70 USD/tu eða um 40 %, og vegna efnahagslegrar ládeyðu í heiminum og efnahagsátaka við Rússa gæti þetta verð lækkað um hríð niður í 50 USD/tunnu og kollsiglt einhæfu efnahagslífi Rússa, þó að Bandaríkjamenn þurfi 80 USD/tunnu til að spanna kostnað olíuvinnslunnar yfir allan endingartíma brunnsins.  Stjórnmálaleg átök á milli Rússa og Írana annars vegar og BNA og Sádi-Araba hins vegar eiga hér hlut að máli.  Menn velta fyrir sér, hvers vegna eldsneytisverð á Íslandi lækkar ekki meira en raun ber vitni um.  Það er aðallega vegna þess, að álögur ríkisins eru stór þáttur í eldsneytisverði til Íslendinga, og þær eru föst krónutala, þegar virðisaukaskattur er frá talinn.

Í nýrri bók, "The Frackers", skrifar Gregory Zuckerman um George Mitchell, heitinn, sem var frumkvöðull bergbrotsaðferðarinnar við vinnslu á olíu og eldsneytisgasi, að framlag hans gæti jafnvel nálgast framlag Henrys Ford og Alexanders Graham Bell" til iðnsögunnar og hagsældar almennings.   

Þessi aðferð Mitchells hefur nú breytt valdahlutföllunum í heiminum með snöggum hætti, og sýnir sú staðreynd í hnotskurn mátt orkunnar.  Bandaríkjamenn eru nánast orðnir sjálfum sér nógir um jarðefnaeldsneyti fyrir vikið, og eldsneytisverð fer m.a. af þeim orsökum hríðlækkandi í heiminum.  Fyrir vikið losna um USD 100 milljarðar á mánuði úr læðingi hjá olíu- og gaskaupendum í heiminum, sem geta þá notað þetta gríðarfé  til fjárfestinga heima fyrir, en eldsneytisseljendur missa að sama skapi spón úr aski sínum, og hefur þetta tap þegar valdið miklum usla hjá værukærum og feitum valdhöfum þessara ríkja.

Á meðal hinna síðar nefndu eru Rússar, sem aflað hafa 60 % gjaldeyristekna sinna með slíkum útflutningi.  Nú hefur sá tekjustofn minnkað um 40 %, sem þýðir um fjórðungssamdrátt í gjaldeyristekjum Rússa, sem er reiðarslag.  Á tímum harðnandi efnahagsþvingana gegn Rússum, sem ekki gefa eftir fyrr en í fulla hnefana, mun þetta áfall ríða þeim fjárhagslega að fullu 2015-2016.  Við þær aðstæður er dæmigert fyrir jafnaðarmenn í Evrópu, með utanríkisráðherra Þýzkalands í broddi fylkingar, að vilja slaka á klónni nú gagnvart Rússum, þegar vopnið er farið að bíta.  Slíkt væri glapræði og mundi aðeins leiða til enn langvinnari átaka við rússneska björninn en ella. Rússneski björninn mun ekki láta af áreitninni við nágranna sína, þó að Vesturveldin færi honum aukið fóður.  Friðkaup heitir slík strútshegðun og hefur alltaf gefizt bölvanlega gagnvart valdaklíkum.

Árið 2014 er búizt við, að BNA fari fram úr bæði Rússum og Sádi-Aröbum í heildarframleiðslu á gasi og olíu.  Starfafjöldi í orkugeiranum hefur nærri tvöfaldazt í BNA síðan 2005.  Síðan í bankakreppunni 2008 hefur þessi geiri vaxið hraðast allrar atvinnustarfsemi í Norður-Ameríku, BNA og Kanada.  Norður-Dakóta, þar sem býr fjöldi fólks af norrænu bergi brotnu, þ.á.m. íslenzku, býr að hinu risastóra Bakken olíu- og gassvæði, er með aðeins 3 % atvinnuleysi, sem er hið lægsta, sem þekkist í BNA.  Af þessu má ráða, að bergbrotsvinnsla gass og olíu á mestan hlut í að rífa BNA upp úr fjármálakreppunni og setja þau í fremstu röð þjóða heims í hagvexti talið um þessar mundir.  Á meðan hjakkar Evrópa í fari 0 hagvaxtar á barmi verðhjöðnunar, og Mario Draghi, hinn ítalski formaður bankastjórnar ECB-seðlabankans, berst ljóst og leynt við Þjóðverja innan og utan bankans um að fá að stunda peningaprentun (quantitative easing), sem Þjóðverjar telja mundu leiða til verðbólgu í Þýzkalandi og þar með bruna á sparifé Helgu og Fritz, hinnar nægjusömu, iðnu og sparsömu þýzku þjóðar.  Þjóðverjar telja orkuverðslækkunina á heimsvísu aftur á móti muni duga til að koma hjólunum aftur í gang.  Eftir stendur gríðarlegur munur á kostnaðarstigi á evru-svæðinu, sem er Suður-Evrópu mjög í óhag.   

Heimsmarkaðsverð á jarðefnaeldsneyti hefur lækkað mikið fyrir tilstuðlan Bandaríkjamanna og niður í um 70 USD á olíutunnuna, en 80 USD/tunnu er talið lágmarksverð fyrir heildarnýtingartíma olíu- og gassvæða með bergbroti í Norður-Ameríku.   Vinnslukostnaðurinn er lægri í upphafi, e.t.v. 60 USD/tunnu, en hækkar í 90 - 100 USD/tunnu, þegar nær dregur endalokum nýtingar á viðkomandi svæði. Þess vegna er búizt við gjaldþrotum fjölmargra bergbrotsfyrirtækja á næsta ári, ef verðið hækkar þá ekki yfir 80 USD/tunnu.  Þetta þarf þó ekki endilega að draga úr bergbrotinu, því að starfsemin mun halda áfram, en á færri höndum.  Arabar geta ekki þröngvað þessari starfsemi út af markaðinum í krafti stærðar sinnar á þessum markaði.  Þvert á móti er ljóst, að einokunarsamtökin OPEC eru í upplausn og hafa enga burði lengur til að ráðskast með verðið.  Verðlækkunin mun ekki einvörðungu áð líkindum knýja Rússa í greiðsluþrot, heldur knýja fram þjóðfélagsbreytingar í olíusöluríkjum, sem ekki hafa safnað digrum sjóðum að hætti frænda vorra, Norðmanna.    

Það virðist vera, að núverandi lága olíuverðið, um 70 USD/tunnu, sé vegna offramboðs af völdum aðila með lægri framleiðslukostnað, t.d. Sádi-Arabanna og smáríkjanna við Persaflóann.  Endalok OPEC og olíumarkaðarins sem seljendamarkaðar eftir 40 ára streð Araba, Persa og annarra ósamstæðra aðila við heiftarlegt okur á kaupendum olíu og gass blasir við.  Afleiðingin er góð fyrir flest Vesturlönd, góð fyrir hagkerfi olíukaupandi ríkja og að sama skapi slæm fyrir olíuseljandi ríki á borð við Noreg, Rússland, Persa og marga Araba.                            


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Það má ekki gerast að Draghi fái að brenna upp sparifé nöfnu minnar og Fritz.

Helga Kristjánsdóttir, 12.12.2014 kl. 04:30

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Helga;

Það mun aldrei gerast.  Die Bundesbank er með áætlun um að koma í veg fyrir verðbólgumyndandi peningaprentun í Þýzkalandi.

Meðgóðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 12.12.2014 kl. 15:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband