26.4.2015 | 15:09
Bankarnir og Bankasýslan
Miklar draugasögur eru enn sagðar af lánasöfnum föllnu bankanna þriggja frá október 2008 og haldlagningu þeirra og flutningi yfir í nýju bankana, Aríon banka, Íslandsbanka og Landsbanka. Er undarlegt á upplýsingaöld að halda því fram, að nýju bönkunum hafi verið færðar miklar gjafir, þegar þegar eignasöfn og innlend innlán föllnu bankanna voru færð yfir í nýju bankana.
Nafnvirði lánasafna gömlu bankanna var um 4000 milljarðar kr, og það var haldlagt fyrir um 2000 milljarða kr, sem reyndist góð nálgun á raunveruleg verðmæti eignanna miðað við óvissuástandið árið 2009, því að virðishækkun útlána á árunum 2009-2013, bæði vegna endurmats og uppgreiðslna umfram bókfært virði, reyndist vera 435 milljarðar kr að frátöldum tekjufærslum vaxtatekna, svo að í heildina má búast við eignaaukningu umfram áætlun árið 2009 upp á 500 milljarða kr eða 25 % virðisaukning.
Þar með er þó ekki öll sagan sögð, því að ný virðisrýrnun upp á 292 milljarða kr hefur verið færð til gjalda hjá nýju bönkunum, aðallega vegna dóma um lán til einstaklinga, t.d. gengislánadóma. Mismunurinn, þ.e. virðisaukning eigna frá stofnun bankanna, er þannig um 200 milljarðar kr eða 10 %, sem er eðlilegur bakhjarl bankanna sem eigið fé þeirra.
Nú er hins vegar komið að því að greina frá meintum mistökum vegna dómgreindarbrests stjórnvaldanna 2009-2013, sem rýrir eignastöðu nýju bankanna umtalsvert.
Við stofnun tóku nýju bankarnir yfir innlendar eignir og innistæður gömlu bankanna, og hefði fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra átt að láta þar við sitja, en hann ákvað hins vegar að þóknast kröfuhöfunum af annarlegum ástæðum, og þess vegna voru gefin út skilyrt skuldabréf tengd raunverðmæti lánasafnanna í Landsbankanum og í Aríon-banka til að tryggja hlutdeild kröfuhafa gömlu bankanna, ef innheimta lána yrði umfram áætluð 50 %.
Þetta var algerlega þarflaus aðgerð m.v. Neyðarlögin og heimildir Fjármálaeftirlitsins til virðismats, sem viðreisn bankanna var reist á. Þetta glapræði varð téðum nýjum bönkum dýrkeypt. Þegar Landsbankinn og Aríon-banki hafa fært virðishækkun lánasafna sinna til tekna, hafa þær tekjur ekki skilað sér í afkomubata á eignahlið, þar sem bankarnir hafa þurft að gjaldfæra virðisbreytingar vegna þessara skilyrtu skuldabréfa á móti. Heildaráhrif virðisbreytinga útlána 2009 - 2013 voru af þessum ástæðum neikvæð á tekjur Landsbankans um 7 milljarða kr og á Aríon-banka um 12 milljarða kr að frátöldum vaxtatekjum. Þar sem Íslandsbanki hafði ekki skilyrt skuldabréf á sínum bókum, voru heildaráhrif virðisbreytinga á tekjur hans hins vegar jákvæð um 34 milljarða kr.
Þessi afleikur fyrrverandi stjórnvalda hefur kostað bankakerfið um 143+19=162 milljarða kr á 5 ára tímabili. Undirlægjuháttur við fjármagnseigendur til að friðþægja fyrir Neyðarlögin gagnvart búrókrötum í Berlaymont er dýrkeyptur. Hér eru að sjálfsögðu ótalin meint afglöp Seðlabanka Íslands haustið 2010, en Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur fært fyrir því sannfærandi rök, að undir umsjón Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, hafi bankinn, jafnvel fyrir klaufaskap, en kannski af öðrum ástæðum, glutrað niður allsherjar veði, sem hann hafði tekið í eignum Kaupþings haustið 2008. Hannes skrifar í Morgunblaðið 24. apríl 2015: "Það er því ekkert ofsagt um það, að 60 milljarðar íslenzkra króna hafi tapazt fyrir handvömm Más Guðmundssonar." Það er brýnt að fletta ofan af öllum þeim dýrkeyptu afleikjum og undarlegu fléttum, sem framdar voru á tíma vinstri stjórnarinnar og gengu þvert á hagsmuni íslenzku þjóðarinnar.
Þegar allt ofangreint, nema Seðlabankatapið, er meðtalið, fæst, að hagnaður bankanna af virðishækkun eigna (útlánasafna) nemur aðeins 15 milljörðum kr eða eðeins 0,8 % af upphaflegu verðgildi eigna í nýju bönkunum. Á sama tíma nam hagnaður nýju bankanna þriggja hins vegar 281 milljarði kr. Hagnaður Landsbankans, sem að mestu er í eigu ríkisins, nam á þessu tímabili um 115 milljörðum kr, en hagnaður bankanna, sem Steingrímur Jóhann Sigfússon færði kröfuhöfunum á silfurfati árið 2009, gjörsamlega að þarflausu og í blóra við íslenzka hagsmuni, nam um 166 milljörðum, sem hrægammarnir þá að sjálfsögðu hreppa.
Afleikir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur við stofnun nýju bankanna, sem fólust í þarflausri útgáfu skilyrtra skuldabréfa og yfirfærslu á eignarhaldi tveggja banka frá ríki til kröfuhafa hefur þannig kostað íslenzka skattborgara um kr 162 + 166 = 328 milljarðar á 5 árum eða um 66 milljarðar kr á ári. Það er full ástæða til að endurvekja gamla slagorðið frá kosningunum 1959:
ALDREI AFTUR VINSTRI STJÓRN
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.