Brezku þingkosningarnar í maí 2015

Margir hérlendis fylgjast með stjórnmálum á Bretlandseyjum. Framundan eru tvísýnni kosningar en menn rekur minni til. Kosið er um 650 þingsæti, og samkvæmt spámeðaltali undanfarið mun Íhaldsflokkurinn fá 280 þingmenn, Verkamannaflokkurinn 273, Skozki þjóðarflokkurinn (SNP) 46, Frjálslyndi flokkurinn 25, UKIP (Sjálfstæðisflokkurinn) 4 og aðrir 22.  Þetta er meiri fylgisdreifing en menn rekur minni til á Bretlandi, og fara Bretar ekki varhluta af evrópskri tilhneigingu að flýja stóru flokkana.

Frjálslyndir tapa svo miklu, að sitjandi ríkisstjórn þeirra og íhaldsmanna mun falla.  Tölulega séð gætu Íhaldsflokkur og SNP myndað meirihlutastjórn, en SNP hefur hafnað slíkum möguleika.  Ekki eru taldar vera pólitískar forsendur fyrir "stórsamsteypu" íhaldsmanna og jafnaðarmanna, eins og nú er við lýði í Berlín, en í ljósi erfiðrar efnahagsstöðu Bretlands skyldi þó ekki útiloka þá niðurstöðu. Verður það sjón í sólskini.

Brezki ríkissjóðurinn hefur undanfarin ár verið rekinn með töluverðum halla og hafa þess vegna safnazt upp miklar ríkisskuldir.  Þá er líka mikill halli á viðskiptunum við útlönd, svo að rekstur brezka þjóðarheimilisins er fjármagnaður með erlendu lánsfé.  Samsteypustjórn Íhalds og Frjálslyndra hefur beitt aðhaldsaðgerðum og orðið nokkuð ágengt, eins og sést hér að neðan, þar sem tölur eru hlutfall af VLF:

                         2010  2011 2012  2013  2014  2015

Halli á ríkisbúskapi     8 %   6 %  5 %   5 %   4 %   3 %

Viðskiptahalli           3 %   1 %  4 %   5 %   5 %   4 %

Alex Salmond, skozki þjóðernissinninn, sem leiða mun þingflokk SNP, hefur lýst því yfir, að hann muni greiða atkvæði gegn öllum lagafrumvörpum íhaldsmanna.  Minnihlutastjórn íhaldsmanna yrði þess vegna líklega skammlíf.  Miliband, formaður Verkamannaflokksins, hefur hins vegar hafnað stjórnarsamvinnu við Alex Salmond, því að Alex hefur rústað stöðu jafnaðarmanna á Skotlandi.  Alex Salmond vill hætta aðhaldi í ríkisrekstri um sinn og leggja hraðlest á milli London og Edinborgar að hætti Frakka og Þjóðverja.  Segja má, að Skotinn Alex Salmond og flokkur hans, SNP, verði fulltrúi upplausnar og ábyrgðarleysis í brezka þinginu.  Ætla Skotar að verða Englendingum erfiður ljár í þúfu og stefnir nú enn í aðskilnað þjóðanna, sem yrðu stórpólitísk tíðindi fyrir Evrópu og mundi hafa áhrif á norrænt samstarf.

Það er sammerkt flestum Evrópulöndum, að hefðbundnir stórflokkar þar á stjórnmálasviðinu eiga undir högg að sækja, og jaðarflokkar sækja í sig veðrið.  Dæmi frá Íslandi eru "Píratar", "som glimrer med sit fravær", svo að notað sé norskt orðatiltæki, þ.e. þeir blómstra með afstöðuleysi sínu og sigla þar með í raun undir fölsku flaggi, enda mun þeim ekki haldast á fylgi, sem þeir mælast með í skoðanakönnunum um þessar mundir, heldur eru dæmdir undir 10 % með fátæklegri stefnumörkun sinni, sem ekki getur höfðað til fjöldans, þegar nær dregur kosningum. Spurning er, hvort s.k. Viðreisn lætur verða af hótunum um þingframboð, og hvort klofningur verður á vinstri vængnum, en þar er mikil gerjun núna, ef marka má átökin á landsfundi Samfylkingar nú á útmánuðum.

Brezka kosningakerfið er hannað fyrir hreinar línur í pólitík og eins flokks meirihlutastjórnir.  Þar geta flokkar náð meirihluta á þingi með aðeins þriðjungsfylgi á landsvísu.  Nú er sundrungin svo mikil á meðal kjósenda, að meirihlutastjórnir og stöðugleiki í stjórnmálum virðist vera liðin tíð á Bretlandi, en það gæti breytzt til fyrra horfs við klofning Sameinaða konungdæmisins, UK.  Hugsanlega á mikill fjöldi innflytjenda þátt í þessari þróun, því að þeir eru ekki háðir neinum flokkspólitískum hefðum á Bretlandi og líklegir til að leita út fyrir viðtekna meginstrauma, því að margir þeirra eiga erfitt með að fóta sig í samfélaginu, þar sem þeir hafa kosið að setjast að. Ekki má heldur gleyma því, að "frumbyggjarnir" eru áhyggjufullir vegna mikils fjölda innflytjenda og mótmæla stefnu gömlu flokkanna þriggja í innflytjendamálum með því að kjósa jaðarflokka, sem vara eindregið við þjóðfélagsvandamálum, sem af þessari stefnu eða stefnuleysi geta leitt. 

Fjárfestar fylgjast með þróuninni.  Þeir vita, að vinni Íhaldsflokkurinn meirihluta, hefur hann skuldbundið sig til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2017 um veru Bretlands í Evrópusambandinu, ESB.  Flest bendir nú til, að Bretar hafi nú fengið sig fullsadda af valdaframsalinu frá Westminster til Berlaymont, og muni meirihluti kjósenda gefa Brüssel langt nef og leggja fyrir ríkisstjórnina að segja upp aðildarsamningi Bretlands við ESB.  Það verða meiri tíðindi en úrsögn Grikklands úr myntsamstarfi ESB og mun hafa áhrif á utanríkisstefnu Íslands, sem þá gæti hneigzt til nánara samstarfs við Westminster og Englandsbanka en verið hefur. 

Allt sýnir þetta, eitt með öðru, að framtíð ESB er í uppnámi og enginn veit, hvert stefnir.  Við þessar óljósu aðstæður gaspra nokkrir svefngenglar í hópi stjórnmálamanna á Íslandi og aðrir fylgismenn aðildar Íslands að ESB, að nú sé mála brýnast, að þjóðin fái að tjá sig um það, hvort halda eigi áfram "að kíkja í pakkann", þó að viðræðurnar hafi árið 2011 náð "dead end", þ.e. lent í blindgötu, þar sem ljóst var, að skilyrði Alþingis og sjávarútvegs- og landbúnaðarstefna ESB eru ósamrýmanleg. Þar að auki er búið að ógilda allar skuldbindingar Íslands úr aðildarviðræðum Össurar, svo að hefja yrði nýja vegferð á byrjunarreit. Hegðun aðildarsinna í kjölfar afturköllunarinnar sýnir, að þeir hafa tekið trú.  Þetta er reyndar Mammonstrú, því að viðurkennt er, að ESB gagnast mest stórfyrirtækjum og fjármagnseigendum.  Á Íslandi er pólitíski drifkrafturinn fyrir inngöngu í ESB með þyngdarpunkt vinstra megin við miðju stjórnmálanna.  Það hefði mönnum á borð við Magnús Kjartansson, fyrrverandi ráðherra og ritfæran ritstjóra Þjóðviljans, og Lúðvík Jósefsson, frækinn þingmann Austfirðinga, þótt saga til næsta bæjar. Nú eru breyttir tímar, frá því að þessir miklu vinstri menn voru á dögum.  Hér skal fullyrða, að þeir hefðu sem þingmenn aldrei samþykkt "að kíkja í pakkann".

Fjármálamarkaðirnir á Bretlandi virðast nokkuð afslappaðir enn sem komið er þrátt fyrir hina óvenju miklu stjórnmálalegu óvissu, enda er tiltölulega góður hagvöxtur á Bretlandi á evrópskan mælikvarða um þessar mundir.  Hann var 2,6 % árið 2014, en lág framleiðni er vandamál á Bretlandi, eins og á Íslandi.  Hún lækkaði um 2 % frá 2007, og talsmaður Englandsbanka hefur gefið vaxtalækkun í skyn fyrir næstu vaxtaákvörðun.  Hlutabréfavísitalan brezka, FTSE 100, fór nýlega yfir söguleg 7000 stig, og skuldabréfaálag er í sögulegu lágmarki, 1,5 %. Allt er þetta rós í hnappagat ríkisstjórnarinnar og efnahagsstefnu hennar.  Sterlingspundið er reyndar nálægt sögulegu lágmarki gagnvart bandaríkjadal, en hefur þó enn haldizt uppi gagnvart helztu myntum heimsins að jafnaði vegna bágborinnar stöðu evru, jens og rúblu.  Allt þetta getur breytzt í skyndi við kosningar til brezka þingsins 7. maí 2015, ef niðurstaðan verður stjórnarkreppa eða stjórnmálalegur óstöðugleiki, sem alltaf kemur niður á efnahagsstjórnuninni.  Bretar þurfa þó ekki að glíma við óöld, óraunsæi og óbilgirni á vinnumarkaði, eins og Íslendingar mega búa við, en lafði Tatcher losaði þá undan þeirri skelfingu.  

Á Íslandi er nú allt í hers höndum vegna vinnudeilna, þar sem boginn er spenntur langt umfram getu atvinnuveganna, og útflutningsatvinnuvegirnir eru settir í uppnám, svo að hætta er á tapi markaða vegna óöruggrar afhendingar og óásættanlegra verðhækkana.  Í fákeppnisamfélaginu innanlands munu fyrirtæki og neytendur verða fyrir barðinu á verðhækkunum eftir miklar launahækkanir, sem hækka munu verðlagsvísitöluna og þar með lungann af skuldastabba fyrirtækja og fjölskyldna.  Verðtryggðar fasteignaskuldir nema um ISK 1200 milljörðum, svo að 10 % verðlagshækkun í eitt ár hækkar þessa skuldabyrði um ISK 120 milljarða, sem er meira en nemur skuldaleiðréttingunni.  Þetta er gjörsamlega glórulaust ástand, en hver getur komið vitinu fyrir stjórnir stéttarfélaganna, sem eru greinilega alveg forystulausar ?  Hver er eiginlega bættari með þessa vitlausu launastefnu ? 

Ef Ísland væri nú í myntbandalagi við Bretland, þá skylli einfaldlega á fjöldaatvinnuleysi í kjölfar kjarasamninga að kröfu launþegafélaganna.  Vilja menn hafa þann háttinn á ?  Það kann að verða nauðsynlegt til að hemja Miðgarðsorminn, þ.e. víxlverkun kaupgjalds og verðlags, að festa krónuna við aðra mynt til að menn skilji, hvað það þýðir að fórna efnahagslegum stöðugleika.

Gleðilegt sumar !     

   icelandfoods         

 

 

                        


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

Ég er einn af þessum áhugamönnum. Bíð spenntur og vona að UKIP komi betur út í kosningunum sjálfum en skoðanakönnunum (Eins og Framsókn).

En þessi einmennings kjördæmi eru fáránleg.

Snorri Hansson, 23.4.2015 kl. 03:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband