Makríllinn er mögnuð skepna

Makríllinn er örlagavaldur fyrir Íslendinga, þótt ótrúlegt sé.  Þess er t.d. skemmst að minnast, að fyrrverandi utanríkisráðherra, betur þekktur sem olíumálaráðherra Íslands, bar við deilum um veiðar Íslendinga á makrílnum, þegar hann var inntur eftir skýringum á því, að Evrópusambandið-ESB stöðvaði aðildarviðræður við Ísland með sínum hætti í marz 2011 vegna þess, að það vildi ekkert af inngönguskilyrðum Alþingis vita, enda samrýmdust þau engan veginn sáttmála ESB um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál.  Þarna var makríllinn gerður að blóraböggli af utanríkisráðherra, sem hafði orðið fyrir óskaplegum vonbrigðum með væntanlega kórónu lífsverks síns, inngöngu Íslands í ESB, sem var sokkin í sæ, og önduðu margir léttar.

Sumir hafa jafnvel þakkað makrílnum fyrir tiltölulega hraða viðreisn íslenzka hagkerfisins eftir fall fjármálakerfisins í október 2008.  Árlegar tekjur af makrílnum hafa yfirleitt verið á bilinu ISK 20 - 30 milljarðar síðan 2009.  Þetta hefur sannarlega verið góð búbót, en þó numið aðeins um 3 % af útflutningstekjum landsins, svo að ekki hefur hann skipt sköpum, blessaður, og dýr er hann á fóðrum, því að þessi gestur í íslenzkri lögsögu er talinn éta um 3 milljónir tonna þar árlega.

Makríllinn er skólabókardæmi um nýtingu okkar Íslendinga sem fullvalda strandþjóðar (strandaðrar þjóðar ?) á flökkustofnum í samanburði við, hvernig þeirri nýtingu yrði að öllum líkindum háttað, ef landið gengi í ESB.  Við höfum verið að nýta um 150 kt/a af makríl, en ESB hefur aðeins viljað úthluta okkur um 15 % af því, sem þýðir þá árlegt tekjutap um ISK 20 milljarða á ári.  Deilur eru um kolmunnann við ESB og Færeyinga, þar sem eldri samningur hljóðaði upp á um 17 % hlutdeild Íslands af leyfilegum kolmunnaafla.  Nú vilja ESB og Færeyingar minnka þessa hlutdeild um 2/3, en við höldum okkar striki í krafti fullvalda strandríkis.  Það er svo verkefni fyrir íslenzka utanríkisráðuneytið að mynda hagsmunabandalag Færeyja, Grænlands og Íslands, svo að ESB takist ekki oftar að reka fleyg á milli þessara ríkja við auðlindanýtingu.  

Nú hefur Umboðsmaður Alþingis - UmbAl úrskurðað, að óheimilt sé fyrir stjórnvöld að halda áfram makrílveiðum á þeirri braut, sem fyrrverandi ríkisstjórn markaði, t.d. úthlutun til eins árs, heldur hafi henni borið samkvæmt lögum um stjórnun fiskveiða að kvótasetja makrílinn þegar árið 2011.  Beinast lá þá við fyrir sjávarútvegsráðherra, að hann gæfi út reglugerð á grundvelli gildandi fiskveiðistjórnunarlaga um aflahlutdeild fiskiskipa á grundvelli aflareynslu 2012-2014.  Sú aflahlutdeild er viðurkennt ígildi eignarréttar viðkomandi útgerðar á þeirri aflahlutdeild samkvæmt uppkveðnum dómum, sem er þá veðsetjanleg og framseljanleg, enda er nýtingarréttur eitt form eignarréttar. Þetta er grundvöllur kerfis, sem hefur leitt til gríðarlegrar framleiðniaukningar og mjög bættrar umgengni við auðlindina, þar sem ósjálfbær nýting á viðkvæmri auðlind var stöðvuð.

Enn er þetta fyrirkomulag að þvælast fyrir þeim, sem misskilja hugtakið þjóðareign á sjávarauðlindinni. Ágreiningurinn um stjórnkerfi fiskveiða er reistur annars vegar á grundvallarmisskilningi og hins vegar á vanþekkingu eða vanmati á forsendum verðmætasköpunar fyrirtækja. 

Það er  grundvallarmisskilningur eða vísvitandi rangtúlkun á lagabókstafnum, að einhver eigi óveiddan fisk í sjó, hvort sem er innan efnahagslögsögu Íslands eða utan.  Það á enginn fiskinn í sjónum, hvorki ríkið, útgerðir né íbúar landsins hver um sig sína hlutdeild.  Fiskimiðin eru almenningur, þar sem setja hefur orðið ítölu til að verja stofnana gegn ofveiði.  Það var fyrst gert árið 1983 eftir ítarleg fundahöld, m.a. ráðherra, Hafrannsóknarstofnunar, útgerðarmanna og sjómanna. Þar voru hugsanleg fiskveiðistjórnkerfi til umræðu, og niðurstaðan varð sú, sem Alþingi síðan samþykkti, að innleiða aflahlutdeildarkerfi á grundvelli aflareynslu síðustu þriggja ára á undan.  Á grundvelli rannsókna sinna skyldi Hafrannsóknarstofnun gera tillögu til sjávarútvegsráðherra um leyfilega heildarveiði hverrar tegundar og aðrar verndunaraðgerðir á formi lokunar svæða og vals á veiðarfærum.  Aflahlutdeildin er ótímabundin og myndar eign hjá útgerðunum, sem er andlag veðsetningarheimildar. Úthlutuð aflahlutdeild er ekki gjöf frá ríkinu, enda getur ríkið ekki gefið, það sem það á ekki. Aflahlutdeild er ítala heildaraflamarks, sem sett er á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar. Þar sem ríkið ræður engum eignarheimildum á óveiddum fiski í sjó, hefur það engan lagalegan stuðning til að takmarka þessa úthlutun í tíma með einhvers konar innköllun aflahlutdeilda.

Eðli máls samkvæmt er þetta "lokað" kerfi, enda var hlutverk þess auk verndunarsjónarmiða að snúa viðvarandi rekstrarhalla útgerðarinnar við með fækkun útgerðarmanna, sjómanna og fiskiskipa.  Allt hefur þetta gengið eftir, og 1990 var frjálst framsal aflahlutdeilda heimilað með lögum frá Alþingi, og núverandi "kvótahafar" hafa langflestir eignazt sinn kvóta með kaupum.  Markaðshagkerfið hefur hér virkað prýðilega til að hámarka afrakstur takmarkaðrar auðlindar. Þjóðin öll hefur notið fjárhagslegs ábata mikillar tæknivæðingar og framfara á öllum sviðum sjávarútvegsins, t.d. um sinn ríkissjóð.

Af þessu leiðir, að engum var færð eign annarra á silfurfati, eins og ófyrirleitnir lýðskrumarar þó þrástagast á, annaðhvort vegna vanþekkingar á sögunni og lagaumhverfinu eða af óbilgirni.  Í sumum tilvikum er um að ræða blöndu af þessu tvennu, þar sem viðkomandi hefur króað sjálfan sig af í sjúklegum heimi samsæriskenninga í stað þess að skoða staðreyndir og fagna góðum árangri.   

Þá að hinu umdeilda makrílfrumvarpi.  Helgi Áss Grétarsson, dósent við Lagadeild Háskóla Íslands, skrifaði grein í Fréttablaðið fimmtudaginn 7. maí 2015 undir fyrirsögninni:

"Eignarréttarfyrirvarinn og makrílfrumvarpið"

"Sá munur er þó á fyrirliggjandi frumvarpi og meginreglum "kvótakerfisins", að aflahlutdeildir í makríl eiga að vera tímabundnar, en að mínu mati er auðsýnt, að réttindi, sem eru ótímabundin samkvæmt lögum, veiti betri tryggingu en réttindi, sem búið er að binda fastmælum um, að hægt sé að fella niður með 6 ára umþóttunartíma.  Með öðrum orðum; samkvæmt fyrirliggjandi lagafrumvarpi á að búa til sérstakar aflahlutdeildir í makríl, sem hafa lakari eiginleika en aflahlutdeildir í öðrum tegundum nytjastofna." 

Á grundvelli þess, sem Helgi Áss ritar um "lakari eiginleika" aflahlutdeilda í makríl, skal hér draga í efa, að slík mismunun á atvinnufrelsi útgerðarmanna eftir því, hvaða tegund þeir fiska, stórra sem smárra, standist lög og Stjórnarskrá.  Þar sem ríkið fer alls ekki með eignarhald á makrílstofninum, þó að ríkið eigi samkvæmt lögum að hlutdeildarsetja aflaheimildir í makríl, eins og öðrum stofnum, til að gegna lögbundnu hlutverki sínu við stjórnun á nýtingu takmarkaðrar auðlindar, þá skal hér draga í efa heimild ríkisins til afturköllunar á hluta eða allri úthlutaðri aflahlutdeild, enda sé hún hvorki reist á milliríkjasamkomulagi né fiskverndarsjónarmiðum. 

Lagalega séð virðist þetta frumvarp vera óttalegur hortittur. Á grundvelli laga nr 151/1996, 5. gr., um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og úthlutun aflahlutdeilda í deilistofnum, er eðlilegast fyrir sjávarútvegsráðherra að gefa út reglugerð um ótímabundnar aflahlutdeildir í makríl á grundvelli gildandi fiskveiðistjórnunarlaga í stað þess að flækja lagasafnið um stjórnun fiskveiða Íslendinga með hortitti, sem hætt er við, að endi fyrir dómstólum. Verður ekki séð, að þá skipti máli, hvort samkomulag hefur náðst við önnur ríki um nýtingu þessa deilistofns.

Maður er nefndur Jón Steinsson og kallar sig hagfræðing, en hann hefur nýlega tjáð sig með óábyrgari hætti um stjórnun makrílveiða en hægt er að búast við af hagfræðingi.  Jón, þessi, er þekktur, svo að ekki sé hann sagður alræmdur, af órökstuddum fullyrðingum og sleggjudómum um hin ýmsu málefni, sem á döfinni eru, og hefur mælt með þeirri geggjuðu hugmynd, út frá rekstrarlegum hagsmunum fyrirtækja, að bjóða upp allar aflaheimildir einu sinni á ári og telur að margfalda megi beinar tekjur ríkisins af makrílnum með þeim hætti.  Þessi leið er algerlega ófær, enda er hún hvergi stunduð sem aðalfiskveiðistjórnunarregla, og sýnt hefur verið fram á af góðum hagfræðingum, að þetta fyrirkomulag gengur af fyrirtækjum dauðum á 1-10 árum, háð styrk þeirra.

Vörpum nú ljósi á, hversu fjarstæðukennd þessi hugmynd er með einfaldri og persónugerðri hliðstæðu: Vinnuveitandi Ægis tilkynnir honum, að framvegis verði lækkuð við hann launin um 20 % á ári (væri 100 % í tilviki Jóns Steinssonar), en hann geti endurheimt þetta brottfall launa með því að gangast undir próf og standast það. Sá böggull fylgi þó skammrifi, að standist hann prófið verði hann að greiða prófgjald, sem nemi a.m.k. fernum mánaðarlaunum hans. Fjárhagslegar afleiðingar þessa fyrir Ægi yrðu hrikalegar, því að lánshæfismat hans og fjölskyldu hans mundi lækka strax, og hann gæti ekki gert neinar fjárhagsáætlanir af viti, þar sem hann gæti staðið uppi með 50 % laun að ári liðnu og orðið kauplaus að 5 árum liðnum, ef hann stæðist aldrei prófið. Þetta er óviðunandi aðstaða fyrir Ægi, enda mun hann dragast fljótt aftur úr félögum sínum í lífskjörum, nema skipta um starfsvettvang.

Þessi meðferð á Ægi stenzt hvorki lög né Stjórnarskrá, og hið sama má yfirfæra á útgerðirnar, ef þær yrðu sviptar hluta af aflahlutdeildum sínum á hverju ári, þá yrðu þær með þessu fyrir hrikalegri mismunun og eignaupptöku, sem ríkið hefur enga heimild til, af því að það á ekki óveiddan fisk í sjó og getur þess vegna ómögulega svipt útgerðir aflahlutdeildum til að fá þær öðrum.

Téður Jón hefur slegið því fram, að ríkið sé hlunnfarið um ISK 40-60 milljarða árlega, þar sem ekki hafi verið gengið nægilega hart fram í skattlagningu íslenzks sjávarútvegs.  Hér skal fullyrða, að uppboðsleið Jóns á aflahlutdeildum mundi á fáeinum árum ganga af mjólkurkúnni dauðri, svo að ráðgjöf Jóns Steinssonar er óboðleg og mundi verða stórskaðleg hagsmunum þjóðarinnar, ef farið yrði eftir henni.

Samanlagður hagnaður útgerðarinnar árið 2013, frá smábátum til stærstu fjölveiðiskipa, nam um ISK 28 milljörðum.  Samanlagður hagnaður fiskvinnslunnar nam á sama ári rúmlega ISK 30 milljörðum.  Alls eru þetta tæplega ISK 60 milljarðar, svo að Jón Steinsson virðist telja, að æskilegt sé fyrir þjóðarhag og sjálfbært til lengdar að reka íslenzkan sjávarútveg nokkurn veginn án hagnaðar.  Þar með fjarlægir hann hvata markaðshagkerfisins til rekstrar fyrirtækja,rýrir eigið fé þeirra og veldur fjármagnsflótta úr greininni. Fyrir þessa niðurstöðu sína verðskuldar hann falleinkunn í hagfræði. 

Til samanburðar greiddu íslenzkar útgerðir og vinnslufyrirtæki sjávarfangs tæplega ISK 30 milljarða í ríkissjóð árið 2013, og er þar um að ræða tekjuskatt fyrirtækja, tryggingagjald og veiðigjöld.  Þá eru ótalin hafnargjöld og fasteignagjöld til sveitarfélaganna, svo og útsvar, iðgjöld til lífeyrissjóða og tekjuskattur starfsmanna. 

Nú má spyrja sig, hvort ISK 30 milljarðar sé sanngjörn hlutdeild ríkissjóðs fyrir afnotarétt af "sameign þjóðarinnar". Þetta er rúmlega helmingur af hagnaði sjávarútvegsins.  Ríkið hefur á móti lagt til fiskveiðiráðgjöfina, eftirlits- og björgunarþjónustu og samninga við önnur ríki um hlutdeild í deilistofnum auk innviða í landi á borð við hafnir, menntun sjómanna, svo að nokkuð sé nefnt.  Árleg greiðsla til ríkissjóðs, ISK 30 milljarðar, er a.m.k. tvöfalt hærri en nemur téðum kostnaði, svo að sjávarútvegurinn leggur mikið að mörkum til að standa undir öðrum sameiginlegum kostnaði þjóðarinnar við að halda hér uppi sjálfstæðu ríki.  Það er hins vegar fjarstæða að kalla það arð þjóðarinnar af auðlindinni, því að hvorki hún né nokkur annar á óveiddan fiskinn í sjónum og á því varla tilkall til arðs af honum. Þjóð er ekki lögaðili, og þess vegna geta eignarréttarákvæði Stjórnarskráarinnar ekki átt við um hana.  Ríkið er hins vegar lögaðili, en lögin um fiskveiðistjórnun nefna hins vegar ekki ríkið sem eiganda, enda hefði slíkt þýtt þjóðnýtingu á almenningi hafsins, sem var aldrei ætlun löggjafans og spurning, hvort er lagalega gerleg.

Menn hins mikla misskilnings og rangtúlkunar (MMMR) á eignarhaldi óveidds fiskjar í sjó ásamt hugdettum um stjórnunaraðferðir á auðlindarnýtingunni, sem leiða mundu strax til ófarnaðar og þjóðhagslegs taps við innleiðingu, enda hvergi beitt slíkum aðferðum (uppboði) á byggðu bóli til lengdar, eru gjarna stóryrtir mjög, eins og rétttrúnaðarmönnum, sem lokaðir eru inni í eigin hugarheimi, er tamt.  Einn þessara strigakjafta, Ólafur Arnarson, reit grein um makrílfrumvarpið í Fréttablaðið þann 8. maí 2015 undir fyrirsögninni:

"Stórslysi verður að afstýra". 

Þar gat m.a. að líta eftirfarandi stofustáss:

"Lögfesting þess myndi treysta í sessi þá sovézku virðiskeðju, sem er ríkjandi í íslenzkum sjávarútvegi, þar sem örfáum stórum útgerðarfyrirtækjum eru tryggð fullkomin yfirráð yfir fiskinum allt úr hafi í maga erlendra neytenda - gegn vægu gjaldi eða engu."

Þetta er dæmigert fyrir málflutning þeirra, sem aldrei sjá til sólar, þegar íslenzkan sjávarútveg ber á góma.  Sannleikurinn er sá, að um er að ræða eitt helzta samkeppnisforskot íslenzks sjávarútvegs í matvælaiðnaði samtímans og stjórnunarlega undirstöðu góðrar afkomu hans, sem veldur því, að hann er enn, í breyttum heimi, ein helzta stoð íslenzks efnahagslífs, en ekki baggi, eins og raunin er í flestum löndum, þar sem  sjávarútvegur er stundaður. Þetta kerfi er mótað til að þjóna viðskiptavininum með sem allra skilvirkustum hætti og er talið vera til mikillar fyrirmyndar m.t.t. þjónustustigs, meðferðar hráefnis, framleiðni og arðsemi. 

Þeir, sem eru andvígir þessu kerfi, átta sig illa á forsendum góðs árangurs við nútímalega matvælavinnslu og eru að biðja um afturhvarf til fortíðar, minni framleiðni, lakari gæði og lægri arðsemi, sem óhjákvæmilega kemur þá niður á samfélagslegum afrakstri auðlindarinnar.

Til staðfestingar á þessu er skýrsla McKinsey & Company um íslenzkt efnahagslíf frá 2012.  Þar fær íslenzkur sjávarútvegur hæstu einkunn með þeirri umsögn, að engin þjóð þéni hlutfallslega jafnmikið á sjávarútvegi og Íslendingar og að engin sjálfstæð þjóð eigi jafnmikið undir sjávarútvegi og Íslendingar.  Sem dæmi um skilvirknina má nefna, að Íslendingar fá um 40 % meiri verðmæti úr hverju veiddu kg af þorski en Norðmenn.  Það mælir allt gegn vanhugsaðri tilraunastarfsemi með íslenzkan sjávarútveg.  Hann er um þessar mundir "beztur í bekknum" og á að fá frið til að blómstra. 

Um þetta fer Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri SFS, nokkrum orðum í ágætri grein sinni í Fréttablaðinu, 7. maí 2015:

"Sjávarútvegur á að skila miklu til samfélagsins":

"Mikilvægt er að hafa í huga, að velgengni íslenzks sjávarútvegs byggir á öflugri virðiskeðju, sem nær allt frá veiðum til markaðssetningar og sölu erlendis.  Í þessu ferli felast mestu verðmæti og mesti styrkur íslenzks sjávarútvegs.  Af þessu erum við stolt, ekki sízt í ljósi þess, að íslenzkur sjávarútvegur er sá eini innan ríkja OECD, sem ekki er ríkisstyrktur.

Einna hæstir styrkir til sjávarútvegs eru reyndar veittir í Noregi, en þar eru ekki innheimt veiðigjöld.  Við teljum mikilvægt að varðveita þessa sérstöðu íslenzks sjávarútvegs."

Sjávarútvegurinn er háður duttlungum náttúrunnar, og það ber að hlífa honum við óþarfa viðbótar óvissu af mannavöldum.  Hlutverk stjórnvalda á að vera að sjá honum fyrir traustri starfsumgjörð, því að honum, eins og öðrum atvinnurekstri, er nauðsyn að geta gert langtímaáætlanir, eins og kostur er, til að bezta reksturinn.  Um þetta skrifar Kolbeinn í téðri grein:

"Ein aðalútflutningsgrein þjóðarinnar á ekki að þurfa að búa við óvissu gagnvart stjórnvöldum, sem leggst ofan á óstöðugleika á alþjóðlegum mörkuðum auk þeirrar óvissu, sem felst í því að nýta lifandi auðlind. 

Langtíma sjónarmið hljóta alltaf að vera heillavænlegasta leiðin, þegar kemur að nýtingu auðlinda og fjárfrekum atvinnurekstri, sem samfélagið byggir afkomu sína á."

 

 

 

   

   

 

 

 

 

 

   

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

Alveg stórmerkileg grein. Við íslendingar erum í fári rógs og upphrópanna sem aðeins getur valdið tjóni , engu öðru.

Snorri Hansson, 12.5.2015 kl. 09:27

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Snorri;

Ein af ástæðum mikils ágreinings um sjávarútvegsmál er mjög ómálefnaleg umræða, sem virðist kynt upp með öfund og þrætubókarlist, sem neitar að horfast í augu við þá staðreynd, að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi er þjóðhagslega hagkvæmast af þeim kerfum, sem hér hafa verið í umræðunni.  Nýjasta hugmyndin er uppboð á veiðileyfum.  Þá er spurning, hvort útboðsreglur fyrirskipa ekki að leyfa útgerðum af öllu EES svæðinu að bjóða.  Það er a.m.k. ljóst, að við þetta mundu veiðileyfin færast yfir á innan við 10 fyrirtæki.  Þó að það yrði vissulega hagkvæmara en að dreifa veiðileyfum, eins og nú er gert, þá mundum við með þessu glata "hagkvæmni fjölbreytninnar", og atvinnuástand í mörgum byggðarlögum mundi hríðversna.  Hver vill það ?  Sumir stjórnarandstæðingar styðja þetta og eru hræðilega skammsýnir.

Bjarni Jónsson, 12.5.2015 kl. 18:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband