Umhverfisvernd í ólestri

Yfirvöld umhverfisverndar og umhverfisverndarsamtök hafa sofið á verðinum gagnvart helzta vágesti íslenzkrar náttúru, ferðamanninum.  Ferðaþjónustan sjálf hefur stungið hausnum í sandinn. Landvernd og önnur náttúruverndarsamtök bera fyrir brjósti hagsmuni ferðamannaiðnaðarins og ota þeim fram gegn orkuiðnaðinum. Þessir aðilar og stjórnarandstaðan á Alþingi eru valdir að stórfelldum kostnaðarauka alls almennings og fyrirtækja hérlendis vegna raforkuverðshækkana, sem fóðraðar eru með orkuskorti. Þá hafa miklar tekjur tapazt vegna þess, að flutningskerfi raforku annar ekki þörfinni fyrir núverandi notkun, hvað þá fyrir nýtt álag, sem spurn er eftir.  Allt er þetta í boði afturhaldsins í landinu, sem á þó ekki bót fyrir rassinn á sér. Núverandi ríkisstjórn braut blað á vorþinginu  varðandi mótvægisaðgerðir til að hamla gegn afleiðingum "engisprettufaraldursins" með samþykkt sinni á MISK 850 fjárveitingu af aukafjárlögum 26. maí 2015, þó að slík aðferð sé neyðarbrauð, enda náttúrupassinn þá farinn veg allrar veraldar, og farið hefur fé betra, segja sumir. 

Það koma stinningstekjur í ríkissjóð frá ferðaþjónustunni, þó að ekki sé þar um að ræða beysna virðisaukaskattheimtu, og er löngu óþarft af ríkisvaldinu að hygla ferðaþjónustunni umfram aðrar atvinnugreinar með vægri skattheimtu.  Munu þessi mál nú í endurskoðun í Fjármálaráðuneytinu. Væri nær að leggja á ferðaþjónustuna auðlindagjald, sem rynni til verndar viðkvæmri náttúru gegn "homo sapiens", sem í of miklum mæli verður að plágu í íslenzkri náttúru.  Af hverju á náttúran ekki að njóta vafans, nema orkugeirinn eigi í hlut ? Það er þó skýr og yfirvofandi hætta af ferðamönnum, en hættan af orkugeiranum er öll orðum aukin og einkennist af tilfinningahlöðnum upphrópunum, sem oft eru staðlausir stafir.

Ferðaþjónustan ætti að auki sjálf að standa  undir fjármögnun verndaraðgerða á náttúrunni gagnvart gríðarlegum ferðamannafjölda.  Er þá grundvallaratriði, að þeir greiði, sem njóta, t.d. með sérstakri skattheimtu á fyrirtæki, sem gera beint út á náttúruna.  Þetta væri til samræmis við það að láta útgerðirnar greiða gjald í sjóð fyrir aðgang að miðunum, sem standa mundi straum af fjárfestingum stuðningsstofnana útgerðar á borð við Hafrannsóknarstofnun og Landhelgisgæzlu, en höfundur er fylgjandi slíkri breytingu. 

Það er hneykslanlegt, hversu lítinn gaum baráttusamtök umhverfisverndarsinna á borð við Landvernd og Náttúruverndarsamtökin hafa gefið að þessu mesta umhverfisverndarvandamáli samtímans á Íslandi, þegar uppblástur landsins er frá talinn.  Virðist allt púður þessara samtaka fara í öfgakennda baráttu við Landsvirkjun og önnur virkjunarfyrirtæki að ógleymdri illvígri viðureign við Landsnet.  Það er þó viðurkennt og er til um það staðfesting frá dósent við Háskóla Íslands, að allar vatnsaflsvirkjanir landsins hingað til hafa verið sjálfbærar og afturkræfar, svo að ekki sé nú minnzt á loftlínurnar.  Það er þess vegna einvörðungu þjóðhagslegt val, hvort menn vilja virkja með viðeigandi miðlunarlónum og reisa háspennulínur eða leyfa vatninu að falla áfram óbeizluðu um sínar flúðir og fossa, eins og það hefur gert í um 10 þúsund ár. Þessi samtök eru afturhaldssamtök í þeim skilningi, að þau vilja engu breyta, sem er hláleg afstaða á Íslandi, þar sem stöðug landmótun á sér stað.

Rödd hrópandans í eyðimörkinni er hins vegar rödd Andrésar Arnalds, fagstjóra hjá Landgræðslu ríkisins. Það er óhætt að taka fullt mark á varnaðarorðum þessa reynsluríka sérfræðings hjá Landgræðslunni.  Svavar Hávarðsson birti þann 22. maí 2015 fréttaskýringu í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni:

"Lifum tímabil stórfelldra skemmda":

Landvernd og Landgræðslan héldu fund 20. maí 2015 undir heitinu:

"Stígum varlega til jarðar-Áhrif ferðamanna á náttúru Íslands". 

Þar sagði Andrés Arnalds m.a.:

"Verkefnið er gríðarstórt, en við erum gjörsamlega vanmáttug að takast á við þetta.  Stofnanakerfið er afar veikt, sundurlaust, og lítil samstaða innan þess.  Þá er fjármagn af afar skornum skammti", "sagði Andrés og bætti við áleitnum spurningum um, hversu tilbúin við erum sem þjóð að takast á við viðfangsefnið, sem blasir við: að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir frekari skemmdir og fyrirbyggja, að orðstír Íslands sem ferðamannaland glatist."

Hér segir hlutlægur kunnáttumaður á sviði umhverfisverndar þá skoðun sína umbúðalaust, að hömlulaus ágangur mígrúts ferðamanna valdi nú stórtjóni á landinu, sem langan tíma taki að bæta, og að viðkomandi stjórnvöld setji kíkinn fyrir blinda augað.

  Það verður að taka hér í taumana, fylgja ráðleggingum manna á borð við Andrés Arnalds, takmarka aðgang, þar sem slíkt er metið nauðsynlegt, og láta ferðamenn standa fjárhagslega undir viðgerðum og vernd.  Frá ferðaþjónustunni sjálfri hafa ekki sézt neinar tillögur til úrbóta, hvað þá frá Landvernd og Náttúruverndarsamtökunum.  Þessir aðilar eru uppteknir af einhverju allt öðru, sem þau setja í hærri forgang, og fljóta sofandi að feigðarósi, þegar raunveruleg umhverfisvernd er annars vegar. Andóf þessara samtaka gegn bráðnauðsynlegum framkvæmdum í landinu er ekki lengur hægt að skoða í ljósi náttúruverndar. Þar liggur fiskur undir steini.

Andrés gerði að umræðuefni setu sína í nefnd um úrbætur á fjölsóttum ferðamannastöðum á vegum samgönguráðherra árin 1994-1995 eða fyrir tveimur áratugum.  Nefndin samdi skýrslu og við lestur hennar sést, að allt situr enn við hið sama.  Þetta er gríðarlegur áfellisdómur yfir Stjórnarráðinu, einkum Umhverfisráðuneytinu, og Umhverfisstofnun. Dæmi úr tvítugri skýrslu:

"Þrátt fyrir mikla þenslu í ferðaþjónustu er enn lítið gert til að hlúa að ferðamannastöðum á landinu. ... Víða er þegar komið í óefni vegna aðstöðuleysis. ... Ríkið og ferðaþjónustuaðilar verða að bregðast skjótt við til að leysa úr þessum vanda."

Sjónir höfunda þessara orða beindust að spá um fjölda ferðamanna árið 2000 upp á 322´000 manns.  Sem kunnugt er, er viðfangsefnið nú ferfalt að stærð, og það er orðið erfiðara viðfangs vegna skemmda á náttúrunni, einnig á s.k. friðlöndum, sem nú spanna um 20 % af yfirborði landsins. 

Svo kallaðir umhverfisverndarsinnar vilja auka enn við þessi friðlönd, þó að ljóst sé, að viðkomandi ábyrgðaraðilar friðlandanna og fjárveitingavaldið hafa sofið Þyrnirósarsvefni fram að þessu. Umhverfisverndaráhuginn og friðunaráhuginn virðist í mörgum tilvikum hverfast um það að koma í veg fyrir framkvæmdir, t.d. á hálendinu, vegagerð, virkjanir og háspennulínur.  Þetta er þröngt sjónarhorn, sem hefur afvegaleitt umhverfisverndarfólk, svo að það hefur ekki beitt sér í neinum þeim mæli, að gagnast megi, gegn hinni raunverulegu umhverfisvá, sem Andrés Arnalds aftur á móti er óþreytandi við að vekja athygli á, en talar því miður fyrir daufum eyrum.

Afturhaldssinnar hafa lagt dauða hönd á umhverfisvernd, sem tengist ferðamennsku, og þeir virðast setja jafnaðarmerki á milli þess að leggjast þversum gegn öllum framkvæmdum, sem tengjast auðlindanýtingu utan alfaravegar, og almennrar umhverfisverndar.  Þess vegna vantar þrýstihóp fyrir málaflokkinn ferðatengd umhverfisvernd, þó að málaflokkinn iðnaðartengd umhverfisvernd skorti ekki athygli.  Svipaða sögu er að segja úr stjórnsýslunni.  Þess vegna varpaði Andrés Arnalds því fram á téðri ráðstefnu, hvort tímabært væri að stofna Ráðuneyti umhverfis- og ferðamála.  Þetta þarf ekki að hafa í för með sér fjölgun ráðherra í ríkisstjórn.  Hann færði þau rök fyrir jákvæðu svari við spurningunni, að náttúran væri meginundirstaða ferðaþjónustunnar, og því yrði þetta tvennt vart rætt, nema í samhengi. Ferðaþjónustan væri farin að afla mestra gjaldeyristekna allra atvinnugreina, og málaflokkurinn hefði afar veika stöðu í stjórnsýslunni miðað við mikilvægi.

Hér skal taka undir sjónarmið hins mæta umhverfisverndarfrömuðar, Andrésar Arnalds, í einu og öllu. Það þarf jafnframt að stokka upp og straumlínulaga alla starfsemi ríkisins á þessum tveimur sviðum, ferðaþjónustu og umhverfisvernd, ekki sízt Umhverfisstofnun, og þá gæti þessi skipulagsbreyting orðið til hagræðingar og einhverrar minnkunar á ríkisbákninu í heild, sem ekki veitir af.    

     

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband