Kaupahéðinn ógnar ímynd

Margt er skrýtið í kýrhausnum.  Á Innri markaði EES (Evrópska efnahagssvæðisins) hefur verið stofnað til sýndarveruleika með viðskiptum með upprunavottorð raforku.  Samkvæmt Baksviðsfrétt í Morgunblaðinu 30. júní 2015 var svo komið árið 2014 eftir sölu íslenzkra virkjunarfyrirtækja utan á vottorðum um endurnýjanlega orku, að opinber samsetning íslenzkrar raforkuvinnslu var þannig:

  • endurnýjanleg 45 %
  • jarðefnaeldsneyti 32 %
  • kjarnorka 23 %

Össur Skarphéðinsson, ESB-frömuður, lagði örlagaárið 2008 fram frumvarp á Alþingi um innleiðingu tilskipunar ESB um þennan sýndarveruleika, og var það samþykkt sem lög nr 30/2008 með öllum greiddum atkvæðum, 48, en 15 voru fjarverandi. Má ætla, að sumir þingmenn hafi ekki gert sér skýra grein fyrir afleiðingum þessarar lagasetningar fyrir ímynd Íslands sem land hreinnar raforkuvinnslu, því að margháttaður efi um það getur sótt á, ef svipaðar upplýsingar og ofangreindar standa á rafmagnsreikningunum.

Það er alvarlegt mál, að fyrirtæki á Íslandi, stór og smá, ásamt heimilunum, mega nú ekki halda því fram út á við, að þau noti einvörðungu endurnýjanlega orku.  Með þessu er komið aftan að fyrirtækjum, sem gerðu langtímasamninga um orkukaup fyrir gildistíma téðra laga og vegið að grundvelli þessara samninga um kaup á raforku, sem unnin væri með sjálfbærum hætti.  Í orkusamningunum er meira að segja tíundað, hvaðan orkan á að koma, og hvenær á að afhenda hana í tilteknu magni. Að banna þessum fyrirtækjum, viðskiptavinum virkjanafyrirtækjanna, nú að halda því fram, t.d. gagnvart sínum viðskiptavinum, að álið frá fyrirtæki þeirra á Íslandi sé framleitt fyrir tilstuðlan raforku, sem unnin er úr endurnýjanlegum orkulindum, vitnar um óboðlegt viðskiptasiðferði.

Fyrir vikið er nú ímynd Íslands sem land sjálfbærrar raforkuvinnslu, þeirrar langmestu í heiminum á hvern íbúa, í uppnámi.  Fulltrúar eigendanna, innri endurskoðendur og aðrir, sjá það svart á hvítu, að þeir hafa verið ginntir af viðsemjendum sínum, Landsvirkjun o.fl., til að kaupa umhverfisvæna vöru, en opinberlega er hins vegar verið að farga hér geislavirkum úrgangi, sem enginn veit, hvað gert er við, og spúa svo miklu koltvíildi út í andrúmsloftið, auk brennisteinstvíildis, sóts og annars viðbjóðs, að Ísland er fyrir löngu komið út fyrir losunarheimildir sínar. 

Ef Ísland væri nú tengt Bretlandi um tvíátta sæstreng, væri ekki lengur hægt að halda því fram, að meira en 99,9 % raforku á Íslandi komi frá rafölum, sem knúnir eru með sjálfbærum hætti.  Hér er verið að tefla í tvísýnu gríðarlegum hagsmunum fyrir tiltölulega lítinn ávinning, og þess vegna ætti ríkisfyrirtækið Landsvirkjun að ríða á vaðið og steinhætta þessum viðskiptum.  Ef nauðsyn krefur, verður eigandinn að koma vitinu fyrir stjórn fyrirtækisins, eins og Iðnaðarráðherra ýjar að í viðtali við Morgunblaðið í dag, 1. júlí 2015, á afmælisdegi Landsvirkjunar, sem á sér glæsta sögu, en hefur villzt af leið.

Þessi viðskipti við íslenzk orkufyrirtæki eiga ekki við.  Viðskiptunum er ætlað að beina orkufyrirtækjunum í endurnýjanlegar orkulindir, en það er megnasti óþarfi á Íslandi, því að ekki hvarflar að eigendum íslenzkra virkjunarfyrirtækja að virkja neitt annað en endurnýjanlegar orkulindir, þ.e. fallvötn, jarðgufu, vind og e.t.v. öldur eða sjávarföll í tilraunaskyni.  Sólarorka er virkjuð í minna mæli, einkum af fjölskyldum, t.d. í sumarhúsum.  Það orkar tvímælis að kalla jarðgufuna endurnýjanlega í sumum tilvikum, en á alþjóðlega vísu er hún skilgreind endurnýjanleg.

Hér skal fullyrða, að Landsvirkjun er með sölu sinni á upprunarvottorðum, eins og hér hefur verið rakið, að kasta perlu fyrir svín.  Verð fyrir vottun á endurnýjanlegri orku hefur "undanfarin ár" verið á bilinu 0,07-0,30 EUR/MWh samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar til Morgunblaðsins þann 30.06.2015 á bls 12.  Miðgildið er 0,18 EUR/MWh. Miðað við gengi þann dag jafngildir þetta 0,20 USD/MWh eða 0,6 % af meðalverði Landsvirkjunar. Í Morgunblaðsfréttinni segir, að aðeins 45 % íslenzkrar raforku sé úr endurnýjanlegum lindum.  Þá hafa verið seld vottorð fyrir um 55 % af orkuvinnslu Landsvirkjunar eða 7,2 TWh.  Þetta eru aðeins um MUSD 1,44 eða MISK 200. Upphæðin er smáræði hjá því viðbótar verði, sem erlend fyrirtæki eru fús til að greiða fyrir sjálfbæra orkuvinnslu.  Viðskipti orkufyrirtækja hérlendis með upprunavottorð endurnýjanlegarar orku eru viðskiptalegt glapræði og ber að afleggja hið snarasta til að varðveita hreina ímynd Íslands í rafmagnslegum efnum.

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Bjarni

Alveg er ég hjartanlega sammála því sem þú skrifar. Það rifjast upp hvað ég var hissa fyrir 3 árum þegar ég áttaði mig á þessari endemis vitleysu. 
http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1269838/

Ágúst H Bjarnason, 1.7.2015 kl. 10:43

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

 Þetta finnst mér alveg makalaust og kóróna vitleysuna:

 

Úr Bændablaðinu: 

http://www.bbl.is/frettir/frettir/islendingar-greida-fyrir-kjarnorku--kola--og-oliuframleidda-raforku/11443/

„Vegna þessarar útlistunar á samsetningu orkunnar er útilokað að t.d. íslensk gróðurhús geti fengið það vottað að þau séu að nota 100% endurnýjanlega orku við sína framleiðslu – nema þá gegn umtalsverðri þóknun.

Sveinn A. Sæland, fyrrverandi formaður Sambands garðyrkjubænda, sem rekur garðyrkjustöðina Espiflöt í Reykholti með fjölskyldu sinni, staðfesti þetta í samtali við Bændablaðið. Hann segist hafa fengið tilboð frá Orku náttúrunnar, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur, um að garðyrkjubændur sem þar eiga viðskipti gætu keypt sig frá þessari óhreinu orku og fengið stimpil um að þeir notuðu aðeins hreina orku.

„Okkur var boðið að kaupa okkur frá þessari vitleysu fyrir sem nemur 5,1 eyri á kílówattstund. Þannig gætum við keypt kjarnorku og jarðefnaeldsneytið út af reikningum hjá okkur og fengið rafrænt „lógó“ inn á heimasíðuna sem segir að við séum að kaupa hreina orku. Ég var bara ekki tilbúinn að taka þátt í svona skrípaleik.““

Ágúst H Bjarnason, 1.7.2015 kl. 10:50

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Einmitt.  Þessi viðskipti orkuvinnslufyrirtækjanna með upprunavottorð koma viðskiptavinum þeirra í koll.  Sennilega hafa þingmenn, fæstir, séð það fyrir.  Fyrir ári tók mig um eina klukkustund að útskýra og sanna fyrir endurskoðanda frá Rio Tinto Alcan, að ISAL notaði ekki orku frá kjarnorkuveri eða eldsneytisorkuveri.  Hann var úr Vesturheimi, og þar er þessi sýndarveruleiki ekki vel þekktur.  Ef sæstrengur mundi tengja Ísland núna við Meginlandið eða Bretland, væri ekki lengur hægt að halda því fram, að 99,9 % raforku, hið minnsta, væri úr sjálfbærum orkulindum. 

Bjarni Jónsson, 1.7.2015 kl. 13:28

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Allir gleyma því í þessu tali, að raforkuvinnsla háhitasvæðanna er ekki sjálfbær og felur ekki í sér endurnýjanlega orku. Semm dæmi má nefna að afl Hellisheiðarvirkjunar hefur fallið úr 303 meggavöttum niður í 260 á nokkrum árum því að rányrkja er stunduð á svæðinu á nákvæmlega sama hátt og þetta væru veiðar á fiskistofni, sem væru ofveiddir, og vegna orkusölusamninga verður að halda áfram að virkja á nýum og nýjum svæðum stanslaust á meðan samningurinn gildir. 

Tveir af fremstu sérfræðingum okkar á þessu sviði, Ólafur Flóvenz og Guðni Axelsson lýstu því í greinaflokki í Morgunblaðinu hvað þyrfti til að nýtingin væri sjálfbær, og það sýndi að þessar jarðvarmavirkjanir eru óraveg frá því að gefa endurnýjanlega orku.

Allir helstu vísindamenn okkar hafa viðurkennt þetta og þetta er enginn sýndarveruleiki heldur bláköld staðreynd.  

Ómar Ragnarsson, 1.7.2015 kl. 23:47

5 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Góð grein Bjarni. Hvet síðan alla til að lesa ákaflega kjarnyrta grein um þetta mál í Bændablaðinu dags 25 júní, síðastliðinn.

Ómar, ESB og Kyoto er slétt sama um hvort orkuvinnsla sé sjálfbær eða ekki. Því er skilgreiningin þar einungis upp á þrjá kosti; orka framleidd með kjarnorku, orka framleidd með jarðefnaeldsneyti og síðan öll önnur orka, sem telst þá hrein. Engu skiptir hvernig hún er framleidd eða hugsanlegar afleiðingar þeirrar framleiðslu á nær eða fjær umhverfi.

Þetta er í fullu samræmi við flestar tilskipanir sem koma frá ESB um orkumál og markmið Kyoto samkomulagsins og í fullu samræmi við þá stefnu sem umhverfissamtök vítt um heiminn aðhyllast.

Þar mætti t.d. taka rafbílavæðinguna. Engum dylst að slíkir bílar eiga heima á götum Íslands, jafnvel þó enn sé nokkuð í land með að rafgeymarnir og framleiðsluferli bílanna geti talist samkeppnishæft við hefðbundna bíla, bæði fjárhagslega og ekki síður mengunnarlega. En þar sem orkan sem hér er framleidd er raunverulega hrein, sama hvað einhverjar tilskipanir ESB segja, þá er mjög vel réttlætanlegt að rafvæða bílaflotann hér á landi.

En hvaða vit er í að framleiða bíla sem kosta nær helmingi meira í framleiðslu, mengun við framleiðsluna meiri og mengun við eyðingu bílsins mun meiri og keyra þá síðan á rafmagni sem framleitt er með kjarnorku, jarðefnaeldsneyti, nú eða  orkuframleiðslu sem hefur veruleg áhrif á umhverfið. Þar er kannski nærtækast að taka vindorkuna, en varla er hægt að finna óhreinni orkuframleiðslu en hana, þegar tillit er tekið til umhverfssjónarmiða. Í vígi rafbílanna, Kaliforníu, eru vindmillufrumskógarnir kannski einna þéttastr og ókræsilegastir, en víða annar staðar er lýtið af þessum skógum verulegt, ekki síst í mörgum löndum Evrópu.

Og nýjast sigur "umhverfisverndarsinna" hér á landi er að setja í hættu áform um sólarkísilverksmiðju á Grundartanga.

Þar er verið að tala um verksmiðju sem framleiðir kísil til framleiðslu á sólhlöðum, með aðferð sem mengar nánast ekkert, eða eins og 60 kúa bú. Er það mikil framför frá þeim aðferðum sem annars eru notaðar við framleiðslu á þessum kísil. Sem sagt verið að stuðla að minnkun menngunnar í heiminum. Þessi verksmiðja notar tiltölulega lítið rafmagn, á mælikvarða stóriðju. Þó er það stefna fyrirtækisins að það rafmagn skuli vera eins hreint og hægt er. Enn meiri stuðlun að minnkun mengunnar í heiminum. Þessi verksmiðja mun skaffa um 450 störf, þegar hún fer í gang. Og svo kannski rúsínan úr pilsuendanum, þá eru uppi áform annarra aðila að setja á stofn aðra verksmiðju á svæðinu. Ekki orkufreka og ekki stóriðju, heldur verksmiðju sem sækti sér hráefni til Silicor Matreal til fullvinnslu á sólhlöðum. Enn fleiri störf og kannski sú nýlunda að þarna er verið að skila út úr landinu fullunninni vöru, ekki hrávöru eins og stóriðjan hefur gert til þessa.

Það er sama hvað hver segir, verksmiðja Silicor Matreal á Grundartanga mun skila minnkun á heimsmengun. Sjált framleiðsluferlið skilar minni mengun og afurðin leiðir til frekari sólarorkuframleiðslu.

En íslenskir "umhverfisverndarsinnar" horfa ekki á heildarmyndina, þeir sjá bara þúfuna við hlið sér. Og nú hefur þeim að öllum líkindum tekist að útiloka þetta framlag til minnkunnar á heimmengun.

Til hamingju!!

Gunnar Heiðarsson, 2.7.2015 kl. 06:40

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er hárrétt, Ómar, að jarðgufuvirkjanir eru ekki sjálfbærar, ef of geist er farið í að virkja gufuna.  Ef varlega er farið, er e.t.v. hægt að kalla orkuna endurnýjanlega, þó sennilega aðeins um takmarkaðan tíma.  Fylgikvillar jarðgufuvirkjana eru og fjölmargir, s.s. H2S, SO2 og CO2.  Við skulum segja, að nýtingin sé enn í þróun, en endurnýjanleikanum án viðhaldshola verður seint fyrir að fara.  Ég hef samt fyrir satt, að þessi orkulind sé skilgreind endurnýjanleg á alþjóðavettvangi, sem orkar tvímælis.

Bjarni Jónsson, 2.7.2015 kl. 13:22

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Við skulum, Gunnar, vona, að afturhaldsöflum takist ekki að bregða fæti fyrir þá samninga, sem virðist vera búið að landa um fjárfestingar í sólarkisilverksmiðjum í Helguvík og á Grundartanga.  Við verðum sennilega að bíta í skjaldarrendurnar og storma niður á Austurvöll í haust.  Þingviljinn verður að fá að koma fram við atkvæðagreiðslu.  Annað er aðför að lýðræðinu. Umræddar virkjanir voru komnar í nýtingarflokk í Ramma #2, en voru fjarlægðar þaðan með hrossakaupum í vinstri stjórninni, eins og Ár drekans (2012) vitnar um.

Bjarni Jónsson, 2.7.2015 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband