Makríllinn er messu virði

Furðumikil átök tengjast makrílnum, enda er hann flökkustofn, sem er að vinna sér nýjar lendur í hlýsævi hér norður frá. Þjóðir á borð við Íra og Skota horfa langeygir á eftir honum hingað norður. Hann lét þó standa á sér í sumar, enda hlýnaði sjórinn seint að þessu sinni. Allt lífríki sjávar er óvissu undirorpið, og þekking á því af of skornum skammti miðað við hagsmunina. Nú hafa Rússar aukið við nýtingaróvissu þessarar nýju tegundar í lögsögu Íslands með hótun um innflutningsbann á makríl frá Íslandi.  Það yrði vissulega tilfinnanlegt og visst stílbrot í viðskiptasögu Rússlands og Íslands.

Vinstri stjórnin 2009-2013 heyktist á að kvótasetja makrílinn, eins og henni þó bar samkvæmt lögum, eins og Umboðsmaður Alþingis að eigin frumkvæði hefur bent á.

Sjávarútvegsráðherra núverandi ríkisstjórnar olli miklum úlfaþyt með framlagningu frumvarps um kvótasetningu makríls í stað þess að styðjast við gildandi lög um fiskveiðistjórnun og gefa út reglugerð um varanlegar aflahlutdeildir makríls á grundvelli veiðireynslu áranna 2012-2014. Verður ekki séð, að frágangssök sé í því sambandi, þó að samningur um aflahlutdeild Íslands hafi ekki enn náðst.

Aðferðarfræði ráðherrans varð loddurum tilefni til að fiska í gruggugu vatni og halda því tilefnislaust fram, að "grundvallarbreyting verði á úthlutun veiðiheimilda í makríl, þar sem ekkert ákvæði er í frumvarpinu um þjóðareign kvótans né heldur um það,að úthlutunin myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.   

Þar með festi frumvarpið í sessi, að útgerðarmenn þurfi ekki að greiða eðlilegt leigugjald til þjóðarinnar fyrir afnot af sameigninni sem og, að fordæmi myndist í þá veru að úthluta aflaheimildum til lengri tíma en eins árs, eins og nú er raunin." 

Í gæsalöppunum á undan greinaskilunum hér að ofan er verið að mála skrattann á vegginn, vegna þess að í makrílfrumvarpinu var vísað til gildandi laga um fiskveiðistjórnunina, svo að ráðherrann ætlaði alls ekki út á nýjar brautir, hvað eignarhald kvótans áhrærir. Það er ímyndun Jóns Steinssonar, hagfræðings, eða vísvitandi rangtúlkun hans til að efna til múgæsingar. Þessi hagfræðingur leggur sig hvað eftir annað í framkróka við að blása í glæður tortryggni og vantrausts með vænisýki sinni.  

Eins og fram kemur í gæsalöppunum á eftir greinaskilunum, þá virðist Jón Steinsson haldinn ranghugmyndum um eignarhald fisksins í sjónum.  Óveiddan fisk á enginn, af því að miðin eru almenningur, og svo hefur verið frá öndverðu.  Til að verja stofnana og til að hámarka afraksturinn hefur ríkið hins vegar með réttu tekið sér vald til að stjórna veiðunum.  Það er gert á grundvelli umdeilanlegrar aflareglu og úthlutun ótímabundinna aflahlutdeilda á grundvelli þriggja ára veiðireynslu.  Við þetta myndast nýtingarréttur, sem er eitt form eignarréttar og er veðsetjanlegur og framseljanlegur. Þetta er með öðrum orðum markaðsdrifið stjórnkerfi fiskveiða, sem hefur hámarkað skilvirkni útgerðanna á heimsvísu.  Það, sem er gott fyrir útgerðina, er gott fyrir landið allt, því að útgerðin myndar ekki lokað hagkerfi, heldur nýtir sér þjónustu fjölmargra og greiðir sína skatta, eins og aðrir, og meira til (veiðigjöldin).  Það er eintóm óskhyggja Jóns Steinssonar o.fl., að ríkið eigi óveiddan fisk í sjónum og geti þess vegna ráðstafað honum að eigin vild.

Varðandi makrílinn ætlaði ráðherrann hins vegar illu heilli að hafa nýtingarréttinn takmarkaðan til 6 ára, en Jón vill hafa hann til eins árs og helzt bjóða veiðiréttindin upp á markaði árlega. 

Þetta er alveg arfaslök hagfræði, því að hvaða fjárfestir vill festa fé í skipi, búnaði og mannskap til eins árs, hafandi enga vissu um, hvort hann fái nokkuð að veiða að ári ? Hér vantar hvatann til athafna, og eignarrétturinn er fótum troðinn.  Kenningin fellur þess vegna vinstri mönnum í gerð, en það er ekki heil brú í henni fremur en í sameignarstefnu Karls Marx.

Aðgerðin er ólögleg, því að það getur enginn boðið upp það, sem hann á ekki, og ríkið á ekki óveiddan fisk í sjó, eins og Jón Steinsson, hagfræðingur, gefur sér og reisir falskenningu sína á. Hann er þess vegna eins konar falsspámaður, sem nokkrir hafa þó tekið trú á.

Það hefur myndazt mikill múgæsingur um grundvallarmisskilning Jóns á eðli fiskveiðistjórnunarkerfisins, og hann leiddi til undirskriftasöfnunar, þar sem skorað var á forseta lýðveldisins að synja öllum lögum staðfestingar, þar sem kveðið væri á um lengri úthlutun aflahlutdeildar en til eins árs. 

Með þessu er verið að heimta, að framvegis verði útgerðarmönnum mismunað alveg herfilega, því að þeir sem munu gera út á nýjar tegundir, fá þá aðeins úthlutað til eins árs, en hinir hafa ótímatakmarkaða úthlutun.  Þetta væri skýlaust brot á atvinnuréttindum og þess vegna Stjórnarskrárbrot.  Forseti lýðveldisins mun áreiðanlega sjá þessa alvarlegu meinbugi ásamt hinu hagfræðilega glapræði, sem í þessu felst, og haga staðfestingu slíkra laga samkvæmt því.

Um hið hagfræðilega glapræði hefur hinn kunni prófessor í hagfræði, Ragnar Árnason, þessi orð:

"Að mínu mati ber að úthluta aflaheimildum í makríl varanlega - annað er í raun lögbrot."

Það verður í raun og veru ekki séð, hvers vegna ríkið ætti að hafa úthlutun tímabundna, þegar horft er til hinna hagfræðilegu kosta ótímabundinnar úthlutunar og jafnræðis útgerðarmanna og sjómanna við aðrar atvinnugreinar. Hvers vegna að fórna meiri hagsmunum fyrir minni ?

Í helgarblaði DV 25.-29. júní 2015 undir fyrirsögninni: 

" Þessi arður mun sjálfvirkt dreifast um allt hagkerfið",

segir Ragnar um hugmyndir Jóns Steinssonar um uppboð aflaheimilda:

"Ég skil eiginlega ekkert í Jóni að halda þessu fram.  Það er óumdeilt á meðal hagfræðinga, að aflamarkskerfi sé efnahagslega hagkvæmt.  Það er ríkjandi kerfi hjá vestrænum þjóðum og fleirum.  25 % af heildaraflanum á heimsvísu eru veidd innan þess kerfis, og þróun er í þá átt, að það hlutfall vaxi.  Kerfið gefur af sér góða efnahagslega reynslu, og það sem er ekki síður mikilvægt er, að það viðheldur og styrkir fiskistofna", segir Ragnar og bendir á, að erfitt sé að reka útgerð, ef óvissa er fyrir hendi, hver kvótinn verður. Því sé það hans skoðun, að úthluta beri aflaheimildum til eins langs tíma og hægt er.

Fjárfestingar í greininni eru til langs tíma; sá sem fjárfestir í skipi gerir það til 30 ára eða meira og í fiskvinnslu, svo að ekki sé minnzt á, að markaðsþróun er fjárfesting til enn lengri tíma.  Það að ætlast til þess, að sjávarútvegsfyrirtæki séu í sífelldri óvissu um aflarétt, er eins og að reyna að reka áliðnað, þar sem álfyrirtækin hafa aðeins framleiðslurétt til árs eða fárra ára í senn."

Ekkert álfyrirtæki gæti þrifizt við þessar afkáralegu aðstæður, og hér er um að ræða einhvers konar "útúrboruhagfræði", sem stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og enginn alvöru hagfræðingur mundi skrifa skilmálalaust undir.  Orð hagfræðiprófessorsins, Ragnars, ættu hins vegar að vera hverjum manni auðskilin.  Öll hagfræðileg og þjóðhagsleg rök hníga að því, að Íslendingar hafi þróað bezta fáanlega fiskveiðistjórnunarkerfið fyrir sínar aðstæður, sem eru verðmæt efnahagslögsaga og veiðigeta, sem er langt umfram veiðiþol nytjastofnanna í þessari lögsögu.

  Íslenzkar útgerðir og fiskvinnslufyrirtæki standa í harðri samkeppni við norska kollega og aðra, og stjórnmálamenn geta auðveldlega stórskaðað samkeppnisstöðu Íslendinga á erlendum mörkuðum, t.d. með álagningu verulega íþyngjandi veiðigjalda (þau eru núna líklega tvöfalt of há miðað við það, að þau tíðkast ekki hjá samkeppnisaðilunum). 

Í þessu sambandi er rétt að vísa í gagnorða forystugrein í Morgunblaðinu 23.05.2015 undir heitinu "Öfugmælaumræða á Alþingi",

en þar sagði m.a.:

"Það er mikið alvörumál, að þingmenn skuli ítrekað með ábyrgðarlausu tali grafa undan helzta undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og halda rekstri hans í stöðugri óvissu.  Og það er ekki síður áhyggjuefni, að þeir virðast ekki átta sig á helztu kostum þess fiskveiðistjórnarkerfis, sem verið hefur við lýði í um aldarfjórðung, varanleika og framseljanleika aflaheimilda." 

Þá er augljóst, að fíflagangur á borð við kenningar Jóns Steinssonar, hagfræðings, um úthlutun aflahlutdeilda til eins árs í senn eða jafnvel árlegt uppboð aflahlutdeilda mun fæla fjárfesta frá greininni, sem mundi strax leiða til þess, að greinin koðni niður og hætti að greiða hluthöfum arð og hætti að hafa nokkurt bolmagn til að greiða í sameiginlega sjóði landsmanna. Hver er eiginlega bættari með slíkri breytingu ?  Fyrir ríkissjóð væri þetta eins og að míga í skóinn sinn.

Hinn virti og kunni hagfræðiprófessor, RÁ, þvertekur fyrir órökstuddar og óskiljanlegar fullyrðingar Jóns Steinssonar, hagfræðings, um, að með núverandi framkvæmd kvótakerfisins sé í raun verið að hlunnfara íslenzku þjóðina: 

"Nánari athuganir sýna, að þorri arðsins rennur beint til þjóðarinnar.  Aflakvótakerfi sparar kostnað við fiskveiðar og hækkar verðmæti aflans, sem landað er, þannig að nettó útflutningsframleiðsla úr sjávarútvegi verður hærri en áður.  Innflutningurinn til sjávarútvegsins minnkar, þ.e.a.s. olía og annað, og útflutningsverðmæti verður hærra.  Það þýðir hærra gengi krónunnar að öðru óbreyttu.  Hærra gengi krónunnar þýðir, að kaupmáttur ráðstöfunartekna verður þeim mun hærri.  Helmingur þess, sem íslenzk heimili kaupa, er innflutningur, þannig að 1 % hækkun á gengi þýðir einfaldlega 0,5 % kjarabót fyrir fólkið í landinu. Þetta er gríðarlega stórt atriði", sagði Ragnar.

Í grein í Morgunblaðinu 24. júlí 2015,

"Makríll utan ESB - uppgjöf Grikklands",

notaði Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, makrílinn til að varpa ljósi á meðferð valdsins í Berlaymont á smáríkjum, en ein af firrum ESB-aðildarsinna á Íslandi hefur löngum verið, að hagsmunum smáríkja sé betur borgið innan múra ESB ("Festung Europa") en utan.

Hann telur útflutningsverðmæti frysts makríls og mjöls undanfarinn áratug hafa numið a.m.k. ISK 120 milljörðum.  Í ár verði Íslendingum heimilt að veiða meira en nokkru sinni fyrr eða um 172 kt í íslenzkri lögsögu, og að við ákvörðun afla miði sjávarútvegsráðherra við 17 % af ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins, eins og verið hefur. 

ESB og Norðmenn vildu hins vegar búa svo um hnútana, að 90 % veiðiheimildanna féllu þeim í skaut og að Íslendingar, Færeyingar og Rússar skiptu með sér 10 %. Þannig yrði hlutdeild Íslands e.t.v. 3,5 % í stað 17 %, og ofangreindar útflutningstekjur hefðu þá orðið um ISK 100 milljörðum lægri.  Þetta er bara sýnishorn af þeim kostnaði, sem fullveldisframsal Íslands til ESB hefði í för með sér.  

Til að gera sér grein fyrir þeim fjandskap, sem Ísland mundi mæta innan ESB, þar sem hagsmunaárekstrar yrðu, verður aftur vitnað í grein Björns Bjarnasonar:

"ESB-menn, einkum Skotar, sýndu mikla andstöðu við makrílveiðar íslenzkra skipa. Skozki ESB-þingmaðurinn, Struan Stevenson, sneri sér t.d. sumarið 2010 að Maríu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, á málþingi á vegum ESB-þingsins í Brussel og spurði:

"Ég er undrandi á því, að Íslendingar biðji okkur um að draga fram rauða dregilinn og fagna sér sem aðilum að ESB; þakkir þeirra felast í því að neita að greiða [Icesave-] skuldir sínar, loka loftrými okkar vikum saman með eldfjallaösku og reyna nú að eyðileggja makrílveiðar okkar.

Þetta er fyrir neðan allar hellur, og ég treysti því, að framkvæmdastjórnin segi þeim afdráttarlaust, að ESB láti ekki undan í þessu máli og að við samþykkjum ekki svo ábyrgðarlausa framkomu."

Þarna opnaðist Íslendingum sýn inn í hugarheim ESB-manna og viðtekin viðhorf í Berlaymont til Íslands og hagsmuna þess.  Í stuttu máli geta Íslendingar étið það, sem úti frýs fyrir ESB-mönnum, og hagsmunir lítillar þjóðar norður í Atlantshafi kemur ekki mál við þá. Það er gamla sagan með óðalið og kotið. Íslendingar verða í fjárhagslegum efnum sem þjóð og hver og einn að reiða sig á sjálfa sig.  

Þetta er í algerri mótsögn við málflutning umsóknarráðherrans (olíumálaráðherrans, eins og hann gjarna kallaði sig), Össurar Skarphéðinssonar, og smáþjóðafræðingana í hópi stjórnmálafræðinga við Háskóla Íslands, en þeir hafa löngum fimbulfambað fótalaust um öryggið, sem fælist í því að vera aðili að "smáþjóðasambandinu" ESB. Þetta er í bezta tilviki lágkúruleg pilsfaldapólitík, en í raun stórhættuleg tálsýn. Ekkert er fjær sanni en stórþjóðirnar láti hagsmuni smáþjóða njóta forgangs.  Það færði makríllinn okkur heim sanninn um, og það hefur Grikklandsfárið sýnt okkur í hnotskurn upp á síðkastið.  

Í hvorugu tilvikinu eru sjónarmið lítilmagnans nokkurs metin.  Stóru ríkin í ESB ráða algerlega ferðinni, og þau framfylgja sáttmálum Evrópusambandsins, t.d. hinni sameiginlegu landbúnaðar- og fiskveiðistefnu ESB, og bera mjög fyrir brjósti varðveizlu evru-samstarfsins, sem nú er í hers höndum; nema hvað ?  Barnaskapurinn ríður ekki við einteyming.

Toppurinn á þeim ísjaka er Grikkland, en ekkert evruland Suður-Evrópu þrífst með sama gjaldmiðil og Þýzkaland.  Raunar er hvergi hamingja með þann gjaldmiðil, enda var undirstaðan ranglega fundin og er nú orðin feyskin.     

 

 

 

 

   

 

 

 

 

 

  

 

   

 

   

 

    


 

 

 

 

     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er sem fyrri daginn ánægjulga upplýsandi uppljómun að lesa þín skrif, Bjarni Jónsson. Er kominn yfir megnið af þessari miklu grein, fæ mér nú hressingu og kem svo aftur.

Jón Valur Jensson, 31.7.2015 kl. 22:26

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Valur;

Ég hygg, að við höfum sömu undirstöðuna, þegar við svipumst um, og þess vegna lítum við málefni líðandi stundar svipuðum augum.

Þakka þér fyrir að láta í ljós ánægju með skrif þessa blekbónda.  Það hvetur hann í ræktunarstörfunum.

Með góðri helgarkveðju /

Bjarni Jónsson, 1.8.2015 kl. 10:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband