4.8.2015 | 18:48
Joschka Fischer og vondi Þjóðverjinn
Joschka Fischer, utanríkisráðherra endursameinaðs Þýzkalands og varakanzlari 1998-2005, hefur ritað grein í kjölfar kistulagningar sjálfstæðs Grikklands aðfararnótt 13. júlí 2015, og birti Morgunblaðið hana þann 28. júlí 2015. Fyrirsögn greinarinnar boðar að vonum váleg tíðindi:
"Vondi Þjóðverjinn snýr aftur".
Greinin hefst þannig:
"Það brast nokkuð mikilvægur þáttur Evrópusambandsins hina löngu aðfararnótt 13. júlí, þegar samið var um örlög Grikklands. Síðan þá hafa Evrópubúar lifað í öðruvísi Evrópusambandi.
Það, sem breyttist þessa nótt, var það Þýzkaland, sem Evrópubúar hafa þekkt frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Á yfirborðinu snerust viðræðurnar um að koma í veg fyrir, að Grikkir yfirgæfu evrusvæðið (hið svonefnda "Grexit") og þær grimmu afleiðingar, sem því myndu fylgja fyrir Grikki og hina sameiginlegu mynt. Undirniðri var hins vegar verið að ræða það, hvaða hlutverki fjölmennasta land og mesta efnahagsveldi álfunnar myndi gegna í Evrópu."
Ekki er efni til að bera brigður á næmni "græningjans" JF fyrir þróun stjórnmálanna í Evrópu og sérstaklega í heimalandi hans, Þýzkalandi. Við horfum nú á "pólariseringu" Evrópu. Annars vegar eru skuldunautar, og hins vegar eru lánadrottnar. Francois Hollande, Frakklandsforseti, hefur nýlega talað fyrir stofnun Evruríkis með myndun ríkisstjórnar og þings Evruríkisins. Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, og fjármálaráðherra hans, hafa tekið í sama streng. Þetta eru fulltrúar stórskuldugra landa, sem ekki ná sér efnahagslega á strik með evruna sem gjaldmiðil. Hún er enn of sterk fyrir rómönsku ríkin.
Það, sem Joschka Fischer er að segja, er, að Þjóðverjar eru nú leynt og ljóst andvígir þessum samruna ("ever closer union"). Ástæðan er auðvitað sú, að við stofnun ríkis evrulandanna mundu lánadrottnaríkin þurfa að axla byrðar skuldunautanna, og til þess eru þau ekki tilbúin, enda hefur Angela Merkel, CDU, nýlega hafnað þessum samrunahugmyndum. CSU í Bæjaralandi og fjármálaráðherrann, Wofgang Schaeuble, CDU, hafa þar með orðið ofan á innan ríkisstjórnarinnar í Berlín. Sá meirihluti endurspeglar vilja meirihluta þýzku þjóðarinnar eftir öllum sólarmerkjum að dæma.
Angela Merkel fylgir þar almenningsálitinu í Þýzkalandi og stjórnmálastöðunni þar í landi. CDU, flokkur hennar, mundi hrynja, ef hún féllist á slíka stofnun ríkis. Komnir eru fram á sjónarsviðið í Þýzkalandi stjórnmálaflokkar, t.d. AfD og hreyingin Junge Freiheit, sem hirða mundu mikið fylgi af CDU, og reyndar líka af SPD (jafnaðarmönnum), ef horfið væri inn á braut ríkjasameiningar.
Hjá hinum almenna Þjóðverja ræður ekki endilega þjóðerniskennd þessari afstöðu, heldur réttmæt vissa um, að lífskjörum í Þýzkalandi mundi hraka mikið við slíka stofnsetningu rikis. Það eru töluverðar áhyggjur núna hjá almenningi í Þýzkalandi út af kostnaði við móttöku flóttamannaflóðs. Þjóðverjar vita sem er, að þeir standa núna á hátindi efnislegrar velmegunar og stjórnmálalegra áhrifa í álfunni, en Þýzkalandi mun óhjákvæmilega hraka, eins og reyndar flestum öðrum ríkjum í Evrópu, vegna hækkandi meðalaldurs og mikillar fækkunar á vinnumarkaði. Talið er, að Stóra-Bretland með sitt sterlingspund muni að aldarfjórðungi liðnum hafa farið fram úr Þýzkalandi, hvað mannfjölda og landsframleiðslu snertir. Hins vegar eru miklar blikur á lofti hjá Bretum líka, því að ríki þeirra kann senn að sundrast og þeir (flestir) að lenda utan Innri markaðar Evrópu. Af öllum þessum fjárhagslegu ástæðum er hinn almenni Þjóðverji fullur efasemda um sjálfbærni sameiningar evrusvæðisins í eitt ríki. Hann sér fram á, að unga kynslóðin muni ekki með góðu móti geta risið undir öllum þessum byrðum.
Joschka Fischer hélt greiningu sinni áfram:
"En í Þýzkalandi í dag eru slíkar hugmyndir [stjórnmálaleg sameining Evrópu] taldar vonlausar og "Evrópu-rómantískar"; tími þeirra er liðinn. Þar sem Evrópa er annars vegar, mun Þýzkaland upp frá þessu aðallega fylgja sínum eigin þjóðarhagsmunum, alveg eins og allir aðrir.
En slík hugsun byggist á falskri forsendu. Sú leið, sem Þýzkaland mun velja á 21. öld - til "evrópsks Þýzkalands" eða "þýzkrar Evrópu" - hefur verið mesta grundvallarspurningin í sögu landsins og utanríkisstefnu þess síðustu tvær aldirnar. Og henni var svarað á þessari löngu nótt í Brussel, og þýzk Evrópa hafði betur gagnvart evrópsku Þýzkalandi."
Joschka Fischer setur stöðu Þýzkalands hér í sögulegt ljós og "dramatíserar" nokkuð til að vekja athygli á þeim vatnaskilum, sem eru að verða í utanríkismálastefnu Þýzkalands. Þá vaknar spurningin um, hvernig þessi vatnaskil snerta stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.
Þá er þar fyrst til að taka, að setji Þjóðverjar hagsmuni sína framar hagsmunum Evrópu, eins og JF boðar, þá mun evrusamstarfið splundrast. Þjóðirnar munu aftur hverfa til sinna gömlu mynta með einum eða öðrum hætti, hugsanlega með einhvers konar myntbandalögum, t.d. Norður-Evrópu annars vegar og Suður-Evrópu hins vegar. Sterlingspundssvæðið gæti orðið þriðja myntsvæðið.
Öxullinn Berlín-París mun brotna, en við taka tveir aðrir öxlar, Berlín-London og París-Róm. Ísland mun augljóslega lenda innan áhrifasvæðis þess fyrrnefnda.
Evran mun lækka enn meir en orðið er áður en hún splundrast, og þess vegna verður ekki eins hagkvæmt fyrir Ísland að selja vörur inn á evru-svæðið og verið hefur, t.d. ál og fisk. Kína er á sama tíma í hnignun, og stjórnvöld í Peking kunna bráðlega að standa frammi fyrir gífurlegum efnahagsvanda, mengunarvanda og uppþotum. Bandaríkin (BNA) standa við þessar aðstæður uppi með pálmann í höndunum, og vöruútflutningur mun af þessum sökum aukast frá Íslandi til BNA.
Upplausn í Evrópu og átök við Rússland munu á ný auka hernaðarlegt mikilvægi Íslands fyrir NATO. Við þessar aðstæður getum við ekki sýnt hálfvelgju gagnvart Rússum, nema sýna bandamönnum okkar fingurinn um leið. Það yrði örlagaríkt, og allar greiningar, sem yrðu að vera undanfari slíkrar ákvörðunar, vantar. Ferðum flugsveita, herskipa og kafbáta hingað mun þess vegna fjölga, þó að herstöð verði ekki endurnýjuð, nema hitni enn frekar í kolunum.
Við þessar aðstæður munu ESB-áhangendur á Íslandi missa fótanna, og stjórnmálaflokkar þeirra, Samfylking og Björt framtíð, gufa smám saman upp. Sú uppgufun er þegar hafin, eins og skoðanakannanir gefa til kynna. Í tvísýnu ástandi, eins og hér hefur verið lýst, er stjórnleysingjum og andstæðingum höfundarréttar, sem nú kalla sig sjóræningja eða "pírata", ekki treystandi fyrir horn.
Svikurunum, Vinstri hreyfingunni grænu framboði, sem sat í ríkisstjórn, sem barðist fyrir innlimun Íslands í stórríkið, Evrópusambandið, ESB, mun verða refsað. Trúverðugleiki flokksins er enginn. Honum er ekki treystandi fyrir horn heldur. Flokkurinn skuldbatt sig með stefnumörkun fyrir kosningar um að styðja ekki umsókn um aðild að ESB, og allir vita um hrossakaup hans við Samfylkinguna eftir kosningarnar 2009.
Núna er minna atvinnuleysi á Íslandi en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu, og líklega verður hagvöxturinn hvergi meiri í Evrópu en á Íslandi árið 2015. Kaupmáttaraukning ráðstöfunartekna virðist jafnframt ætla að verða mest á Íslandi 2015. Fjárfestingar kunna að nema 25 % af landsframleiðslu 2015, og þannig er lagður traustur grunnur að framtíðinni með sjálfbærri nýtingu auðlinda.
Markmið Íslands ætti að vera að fullnægja Maastricht-skilyrðum hagstjórnar á þessu kjörtímabili; að sjálfsögðu ekki til að taka upp evru, heldur til að treysta gengi gjaldmiðils landsins, hækka lánshæfismatið umtalsvert til að lækka vaxtakostnað og treysta stöðugleika hagkerfisins í sessi. Með þessu móti styttist í, að Ísland skáki þeim þremur Evrópuþjóðum, sem lengi hafa státað af hæstu landsframleiðsluverðmætum á mann.
Það verður ekki betur séð en Íslandi vegni nú bezt allra Evrópuþjóða á batabrautinni eftir fjármálakreppuna 2008. Svo er reyndar fyrir að þakka miklum fjölda innflytjenda, sem halda atvinnulífi landsins gangandi og fara yfirleitt vel með fé, sem þeim áskotnast. Núverandi ríkisstjórn og þingmeirihluti hennar á hrós skilið, en þessi sami þingmeirihluti verður að sýna himpigimpum stjórnarandstöðunnar vígtennurnar, svo að þingræðið virki, eins og mælt er um í Stjórnarskrá. Minnihlutinn hefur ekkert af viti fram að færa. Hann á rétt á því að fá að sýna kjósendum á spilin sín (hundana), en hann á engan rétt á því að þvælast fyrir og jafnvel hindra, að vilji meirihluta þingsins fái framgang og verði eftir atvikum að lögum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Kjaramál, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.