13.8.2015 | 17:08
Brauðmolaþvættingurinn
Það er alveg makalaust, að enn skuli á árinu 2015 eima af kenningum um óhjákvæmileg stéttaátök og sögulega þróun í átt til Þúsund ára ríkis sameignarstefnunnar.
Nýjasta dæmið um hrakfallasögu sameignarstefnunnar er Venezúela. Þar notaði vinstri sósíalistinn Hugo Chavez tekjurnar af þjóðnýttum olíuiðnaði til að greiða niður verð á nauðþurftum almennings. Þetta inngrip í markaðshagkerfið endaði með ósköpum, svo að nú er sami almenningur á vonarvöl.
Ekki einasta er nú þessi þjóðnýtti olíuiðnaður fallinn að fótum fram, heldur gjörvallt hagkerfi Venezúela. Chavez hafði tekið markaðsöflin úr sambandi með þeim afleiðingum, að skortur myndaðist á flestum vörum og þjónustu, og svarti markaðurinn einn blómstrar með gengi á bólívar í mesta lagi 1 % af skráðu opinberu gengi bandaríkjadals. Greiðsluþrot ríkisins blasir við eigi síðar en árið 2016 og félagsleg og fjárhagsleg upplausn við endastöð jafnaðarstefnunnar í þessu landi, sem svo ríkt er af náttúrulegum auðlindum. Tær jafnaðarstefna hefur hvarvetna leitt til eymdar og volæðis, þar sem hún hefur verið iðkuð, og hægagangs útblásins opinbers rekstrar með ofsköttun og skuldasöfnun, þar sem gruggugri útgáfur hennar hafa verið reyndar.
Að fela stjórnmálamönnum öll ráð yfir samfélagi þýðir í raun að taka markaðsöflin úr sambandi. Hinar öfgarnar; að leyfa markaðsöflunum að leika lausum hala kann heldur ekki góðri lukku að stýra, því að slíkt getur auðveldlega leitt til fákeppni og jafnvel einokunar í litlum samfélögum. Bezt er að virkja atorku markaðsaflanna til að skapa "hagsæld handa öllum" í anda "Markaðshagkerfis með félagslegu ívafi", þar sem eindrægni ríkir á vinnumarkaðinum í andstöðu við stéttastríðshugmyndafræði jafnaðarmanna af ýmsum toga.
Í nýlegri skýrsla AGS-Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um orsakir og afleiðingar fjárhagslegs ójafnaðar er komizt að þeirri niðurstöðu, að mikill tekjumunur í samfélagi hafi neikvæð áhrif á hagvöxt og að árangursríkara sé, til að efla hagvöxt, að auka ráðstöfunartekjur hinna tekjulægstu og millitekjuhópa en hinna tekjuhæstu.
Þessi niðurstaða hefur fólki á vinstri væng stjórnmálanna þótt afsanna svo kallaða "brauðmolakenningu" eða "trickle-down economics", sem það heldur fram, að snúist um að mylja undir hina tekjuhæstu og auðugustu, því að það hafi jákvæð áhrif á samfélagið allt. Af málflutningi þeirra að dæma mætti ætla, að hópur hægri sinnaðra hagfræðinga gerði fátt annað en að hvetja stjórnmálamenn til að hlaða undir auðmenn á grundvelli "brauðmolakenningarinnar".
Hinn virti hagfræðingur, Thomas Sowell, sem kenndi áður við Cornell og UCLA-háskólana, en starfar nú einkum fyrir Hoover-stofnunina við Stanford, hefur skrifað um þessa meintu kenningu og komizt að þeirri niðurstöðu, að hún sé hugarburður vinstri sinnaðra andstæðinga einstaklingshyggju og aukins frelsis efnahagslífsins.
Thomas Sowell hefur ekki fundið neinn hagfræðing, sem á eitthvað undir sér og mælir fyrir "brauðmolakenningunni". Hana er ekki að finna í neinum af mest lesnu almennu kennslubókunum í hagfræði, og fyrir nokkrum árum bað hann fólk um að benda sér á slíkan "brauðmolahagfræðing". Engin ábending kom. Þetta er dæmigert fyrir sýndarveruleikann, sem vinstri sinnað fólk lifir í. Það spinnur upp kenningar og málar svo skrattann á vegginn. Veruleikafirring kallast það, og fólk með þetta heilkenni sat að völdum í Stjórnarráðinu 2009-2013 og stýrði þjóðarskútunni eftir áttavita með vinstri skekkju, sem leiddi að sjálfsögðu til ófara. Afstaða pírata til "brauðmolakenningarinnar", er ekki þekkt, þó að í sýndarveruleika sé, enda er afstaða þeirra meira að segja á reiki til "deilihagkerfisins".
Ein af vinstri skekkjunum er sú, að skattakerfið eigi miskunnarlaust að nota til að auka jöfnuð í þjóðfélaginu og það verði gert með skattahækkunum. Þetta er bæði hagfræðilega og siðferðilega röng aðferðafræði við að auka jöfnuð. Ef gengið er of langt í að mismuna fólki eftir efnahag með skattheimtu, þá hverfur hvatinn til að leggja hart að sér, standa sig vel og auka tekjur sínar. Þjóðarkakan vex þá hægar eða minnkar, og allir tapa á slíku. Bezta ráðið til að auka jöfnuðinn er að hámarka verðmætasköpunina og tryggja með kjarasamningum sanngjarna skiptingu auðsins á milli fjármagnseigenda og launamanna.
Sjómenn fá um 35 % aflahlut, og aðrir launamenn um 65 % af verðmætasköpun fyrirtækjanna á Íslandi. Það er á meðal hin hæsta, sem þekkist. Arður af eigin fé fyrirtækjanna á bilinu 5 % - 15 % þykir eðlilegur m.v. aðra ávöxtun og áhættu, sem féð er lagt í.
Þegar borgaraleg öfl viðra og framkvæma skattalækkanir, sama hvaða nafni nefnast, hefst jafnan spangól vinstrisins með tilvísunum í "brauðmolakenninguna" um , að nú eigi að framkvæma "skattalækkanir fyrir hina ríku". Þetta er rökleysa, því að í mörgum tilvikum lækka skattar hlutfallslega meira á þá tekjulægstu en þá tekjuhæstu.
Fyrrnefndur Sowell segir, að vissulega hvetji margir hagfræðingar með rökstuddum hætti til lækkunar skatta á fyrirtæki og fólk. Þeir sýna fræðilega fram á, og reynslan staðfestir fræðin, að lækkun skattheimtu hækkar skatttekjur hins opinbera, því að lækkun örvar skattþolann til að stækka skattstofninn. Stefna núverandi stjórnvalda um afnám vörugjalda af flestum vörum og lækkun virðisaukaskatts hefur leitt til vaxandi viðskipta og aukinna skatttekna hérlendis.
Vinstra megin við miðju (miðjan er fljótandi) hafa menn á borð við John Maynard Keynes, Woodrow Wilson og John F. Kennedy viðurkennt þessa staðreynd. Til tekjuöflunar fyrir hið opinbera eru skattalækkanir öflugt tæki, en þá kemur sem sagt "brauðmolakenning" vinstri manna til skjalanna. Þeir gleyma því þá, að hið opinbera verður í betri færum til að fjármagna sjálft (án lántöku) útgjöld sín til stuðnings hinum lakar settu til kjarajöfnunar.
Það, sem gerist alls staðar, þar sem þungar skattbyrðar, eins og á Íslandi, eru gerðar léttbærari, er, að framleiðsla vex, atvinnuleysi minnkar, ráðstöfunartekjur launafólks hækka (launagreiðslugeta fyrirtækja vex og útgjöld almennings lækka). Hinir tekjuhæstu greiða ekki aðeins hærri skatta í krónum talið, heldur eykst jafnframt hlutur þeirra af heildarskattgreiðslum. Lýðskrum vinstra liðsins um "skattalækkanir fyrir hina ríku" er innistæðulaust fjas fólks, sem smitað er af hinni óhugnanlegu kenningu um, að tekjur og eignir einstaklinga séu í raun eign ríkisins og að lækkun skattheimtu sé þess vegna "eftirgjöf á réttmætum ríkistekjum".
Enn reyna vinstri menn að viðhalda áróðri sínum um ójöfnuð á Íslandi. Um þann skollaleik skrifar Óðinn í Viðskiptablaðið 25. júní 2015:
"Kaldhæðnin verður því vart meiri, þegar stjórnarandstæðingar kvarta nú sem aldrei fyrr undan efnahagslegum ójöfnuði, þegar jöfnuðurinn hefur aldrei verið meiri. Kannski er ójöfnuðurinn að fara að taka við af brauðmolakenningunni sem uppáhaldsstrámaður vinstrimanna ?
Sérkennilegast er að heyra þessa kenningasmíð frá manni [Gunnari Smára Egilssyni - innsk. BJo], sem auðgaðist einna mest, hlutfallslega, á þeirri efnahagsbólu (svo að notað sé orð hans og hans líkra), sem myndaðist á árunum fyrir fall bankanna. Og hvaðan kom auðurinn. Jú, hann var tekinn að láni í viðskiptabönkunum, sem féllu."
Önnur illvíg árátta vinstra liðsins er að hallmæla atvinnuvegunum og atvinnuveitendum, einkum útgerðinni. Orkukræfum iðnaði er hallmælt með rakalausum fullyrðingum um óarðbæra raforkusölu til hans. Hver étur þessa fullyrðingu upp eftir öðrum, en enginn hefur tekið sér fyrir hendur að sýna fram á þetta, enda er það ekki hægt. Almenningur nýtur góðs af hagkvæmni orkusölusamninga við málmiðnaðinn með nánast lægsta raforkuverði á byggðu bóli. Sjá menn ekki þversögnina í aróðrinum um óhagkvæma orkusölu til stóriðju og samtímis hagkvæmni raforkuviðskipta almennings ? Ef flugufótur væri fyrir þessum áróðri, sem reyndar kemur úr ýmsum áttum, væri Landsvirkjun væntanlega á vonarveli. Svo er hins vegar alls ekki, og gæti markaðsvirði hennar numið um ISK 500 milljörðum um þessar mundir.
Það hefur verið leiðarstef Samfylkingarinnar að hnýta í landbúnaðinn. Það er afar ósanngjarnt að gagnrýna bændur, því að bændastéttin hefur náð gríðarlegum árangri í sínum rekstri, aukið framleiðnina meira en flestir aðrir, aukið fjölbreytni framleiðslunnar og síðast en ekki sízt aukið gæðin mikið.
Þeir vinna við erfið skilyrði norðlægrar legu og eyjaloftslags, en hreinleikinn og heilnæmnin er þess vegna meiri en þessi blekbóndi þekkir annars staðar. Draga þarf úr ríkisstyrkjum við bændur, og að sama skapi eiga þeir að hækka afurðaverð sitt með það að markmiði að verða markaðsdrifinn atvinnurekstur með aðgang að útflutningsmörkuðum á grundvelli gagnkvæmra tollaívilnana og mikilla vörugæða.
Kaupmenn verða að kappkosta að upplýsa neytendur um uppruna landbúnaðarvaranna, einkum kjötsins í afgreiðsluborðunum. Það á ekki að vera leyfilegt að flytja inn matvæli í samkeppni við íslenzk matvæli, nema þau standist gæðasamanburð við þau íslenzku. Þar eru ýmsar viðmiðanir hafðar til hliðsjónar, s.s. sýklalyf, steragjöf, hormónagjöf, skordýraeitur og áburður.
"Það er útbreiddur misskilningur, að hægt sé að umgangast sjávarútveg á annan hátt en en aðrar atvinnugreinar."
Þetta sagði í forystugrein Morgunblaðsins þann 20. júní 2015 og er hverju orði sannara. Öfugmæli um útveginn hafa valdið miklum úlfaþyt í samfélaginu, sem mál er að linni. Það er vinstri vella og rætinn áróður fólks með meint óréttlæti gildandi fiskveiðistjórnunarkerfis, kvótakerfisins, á heilanum, og mætti kannski nefna "sóknarheilkennið", að íslenzki sjávarútvegurinn hlunnfari íslenzka alþýðu með því að greiða minna en sanngjarnt er fyrir leyfi til veiðanna.
Hér er um tilfinningahlaðinn þvætting að ræða. Sanngirnisviðmið í þessum efnum er, að útgerðirnar greiði í sameiginlegan, sjálfstæðan sjóð, sem standi straum af fjárfestingum og rekstri, eftir atvikum, stofnana á vegum ríkisins, sem annast þjónustu við sjávarútveginn, t.d. Hafrannsóknarstofnunar, Landhelgisgæzlunnar og Hafnarsjóðs. Árlegt framlag gæti verið 4,5 % verðs upp úr sjó, sem er um helmingur núverandi gjaldtöku.
Gjaldtakan 2015 er á bilinu 4,5 % - 23,0 % af verði upp úr sjó með miðgildið 9 % (jafnmargar tegundir neðan við og ofan við). Ljóst er, að þessi gjaldtaka er hóflaus í sumum tilvikum. Keyrði um þverbak í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur 2009-2013 með þeim afleiðingum, að útgerðum fækkaði óvenju hratt. Arðsemi hinna jókst við fækkunina. Var það ætlun vinstri stjórnarinnar ? Hvað sagði í téðri forystugrein Morgunblaðsins um þennan óeðlilega og ósanngjarna málatilbúnað á hendur sjávarútveginum ?:
"Útreikningar endurskoðunarfyrirtækisins KPMG á skattaspori HB Granda sýna til að mynda, að tekjur ríkis og sveitarfélaga vegna verðmætasköpunar fyrirtækisins námu 6,6 milljörðum króna árið 2013. Þriðjungur þessarar miklu skattbyrði er vegna veiðigjaldanna, og skattsporið er hærri upphæð en kom í hlut eigenda fyrirtækisins."
Það nær náttúrulega engri átt, að veiðigjöldin hækki skattgreiðslurnar um helming, 50 %, eins og í þessu tilviki, og að tekjur hins opinbera nemi hærri upphæð en tekjur eigendanna af þessari fjárfestingu sinni.
Þessari tímabæru forystugrein Morgunblaðsins lauk þannig:
"En til að útgerðir geti þrifizt og endurnýjað tækjabúnað á eðlilegan hátt, ekki sízt minni útgerðir, sem hafa farið verst út úr ofursköttunum, sem ættaðir eru frá fyrri ríkisstjórn, er nauðsynlegt, að þingmenn fari að sýna því aukinn skilning, að stöðugt rekstrarumhverfi og hófleg skattheimta eru forsenda velgengni til framtíðar. Meðferð makrílfrumvarpsins og umræður um það að undanförnu sýna því miður, að langt er í land í þessum efnum."
Við þetta er engu að bæta varðandi sjávarútveginn, en í lokin er rétt að benda á, að enn andar köldu til verksmiðjueigenda, sem hug hafa á að reisa verksmiðjur á Íslandi. Í þeim efnum er nýjasta dæmið ISK 120 milljarða fjárfesting Hudson Clean Energy Partners, bandarísks fjárfestingarsjóðs, sem starfar undir Verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna (SEC). Sjóðurinn leggur áherzlu á "grænar" fjárfestingar, og norrænir lífeyrissjóðir eiga um þriðjung þessa sjóðs. Engu að síður hafa skotið upp kollinum úrtölumenn úr ýmsum áttum, og yrði það miður, ef slíkir næðu að setja skít í tannhjólin.
Hér er um að ræða hreinkísilverksmiðju Silicor á Grundartanga. Nú er hins vegar að koma fram á sjónarsviðið nýtt efni, methylammonium blýjoðíð, og kalla menn þetta efni og skyld efni perovskía. Þeir munu veita kíslinum samkeppni sem grunnefni í sólarhlöðurnar. Nýtni perovskía er um þessar mundir 20 %, og vísindamenn telja unnt innan tíðar að ná 25 % nýtni (fjórðungur sólarorkunnar, sem fellur á efnið, verður breytanlegur í raforku) og vinnslukostnaður verður að öllum líkindum lægri. Þetta gæti sett þróun kísiliðnaðar í heiminum, og þar með á Íslandi, í uppnám, svo að tryggilega þarf að búa um hnúta orkusamninganna, að orkuseljandi eigi forgangsrétt í þrotabú við hugsanlegt gjaldþrot viðkomandi fyrirtækis vegna orkukaupaskuldbindinga fram í tímann, sem jafnan eru ákvæði um í slíkum samningum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.