11.9.2015 | 10:40
Baráttan við báknið
Framlagt fjárlagafrumvarp lofar góðu um viðsnúning í ríkisrekstrinum, þar sem vaxtagjöld árið 2016 munu lækka um meira en 8 mia (milljarða) kr, og afgangur verður af rekstri ríkissjóðs u.þ.b. 2 % af tekjum hans. Boðaðar eru löngu tímabærar tollalækkanir og tekjuskattslækkanir ásamt lækkun fjármagnstekjuskatts, sem auka munu ráðstöfunartekjur heimila á árunum 2016-2017 um 1,4 %, þegar allt verður komið til framkvæmda. Þetta svarar til þess, að ríkið skili til almennings 17 miö kr, en ríkissjóður mun fá drjúgan hluta þeirrar upphæðar bættan upp með hærri tekjum af virðisaukaskatti o.fl.
Formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs lét ekki á sér standa með að taka afstöðu gegn þessari kaupmáttaraukningu almennings og með bákninu, sem hún telur hér missa af fé, sem því beri síðan að endurdreifa um þjóðfélagið eftir smekk stjórnlyndra stjórnmálamanna. Þetta eru stjórnmál af gamla skólanum, sem sífellt fjarar undan. Hún sagði það beint út, að almenningur færi nú að verzla meira, og formaður VG óttaðist þenslu í hagkerfinu þess vegna. Vinstra heimatrúboðið er samt við sig og sér skrattann í hverju horni, ef almenningur getur farið að veita sér meira af fatnaði eða öðru. Hvernig vesalings Katrín Jakobsdóttir getur fengið það út, að verðlækkanir og skattalækkanir valdi þenslu út af fyrir sig, er ekki boðlegur málflutningur, nema fyrir áhangendur villta vinstrisins. Heldur hún virkilega, að ríkisútgjöld geti ekki valdið þenslu ? Þessi gamla og ryðgaða plata villta vinstrisins gengur í raun út á, að fólkið sé til fyrir ríkið, en ekki öfugt, og að ríkisreksturinn eigi að vaxa stöðugt að umfangi, þar til sælustigi sameignarstefnunnar sé náð. Þess vegna megi aldrei skila neinu til almennings, sem ríkið hefur einu sinni komið höndum yfir. Skattalækkanir, hverju nafni, sem þær nefnast, eru eins og guðlast í huga vinstra heimatrúboðsins.
Hugarheimur Katrínar Jakobsdóttur er mengaður af stéttastríðshugmyndum, þar sem tilgangurinn helgar meðalið, og tilgangur allra aðgerða er að koma höggi á "stéttaróvininn", vinnuveitandann. Þannig er alltaf hvatt til sem mestra nafnlaunahækkana í viðleitni til að draga úr hagnaði auðvaldsins, en hagur verkalýðs og borgara er algert aukaatriði í huga vinstra heimatrúboðsins. Af þessum sökum berst það ætíð gegn kaupmáttaraukningu, sem ekki er sótt í vasa vinnuveitenda. Þetta er eins andfélagslegt viðhorf og hugsazt getur.
Því miður hefur þessi sjúklegi hugsunarháttur smitað út frá sér, t.d. til embættismannakerfisins, sem iðulega setur sig á háan hest gagnvart einstaklingum og einkafyrirtækjum, og þykist vera yfir almenning hafið. Þetta er alþekkt, og Orson Wells gerði þessu sjúklega atferli, yfirlæti, drambsemi og kúgunartilburðum, skil að sínu leyti í bók sinni, 1984.
Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritaði um þetta þarfa ádrepu í Morgunblaðið 9. september 2015, undir fyrirsögninni:
"Röng, letjandi og rotin skilaboð".
Um hroka og yfirgang embættismannastéttarinnar gagnvart einstaklingum og einkafyrirtækjum nefnir Óli Björn seðlabankahneykslið síðasta og skrifar:
"Það hefur verið búið til andrúmsloft stjórnlyndis, þar sem það þykir ekki óeðlilegt, að stjórnkerfið gangi fram af fullkominni hörku gagnvart framtaksmönnum, sem hafa skarað fram úr. Að undirlagi Seðlabankans var gerð innrás í skrifstofur Samherja fyrir fjórum árum vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum."
Þessi ófyrirleitna framkoma er ólíðandi. Nú hefur fjármála-og efnahagsráðherra boðað framlagningu frumvarps um breytta skipan Seðlabanka Íslands. M.a. á að hverfa aftur til baka til bankastjórnar þriggja jafnsettra bankastjóra, þó að einn þeirra gegni formennsku bankastjórnar. Er þá vonandi, að ákvarðanataka á vegum bankans verði yfirvegaðri og betur ígrunduð, lögfræðilega og hagfræðilega, en hún hefur verið frá skipulagsbreytingu og ráðningu Jóhönnustjórnarinnar á núverandi húsbónda í Svörtuloftum.
Hið endurupptekna fyrirkomulag tryggir jafnframt betri samfellu í æðstu stjórn bankans, því að til undantekninga heyrir, að öll bankastjórnin hverfi í einu, eins og Jóhanna Sigurðardóttir varð þó valdur að á sínum tíma og fékk þá norskan krata til að stýra fleyinu þar til hún réð núverandi gallagrip, sem síðan reyndi að fara dómstólaleiðina til að hremma laun, sem hann taldi téða Jóhönnu hafa lofað sér.
Peningamálastjórnun landsins er að nokkru leyti valdur að miklum fjármagnskostnaði við húsbyggingar og aðrar fjárfestingar í landinu. Þessi mikli fjármagnskostnaður vegna húsbygginga er miklu hærri en á hinum Norðurlöndunum, svo að munar 1,5-2,5 milljónum kr á ári af 30 milljón kr láni, og er ein meginskýringin á skorti á trausti í garð hefðbundnu stjórnmálaflokkanna og flótta til sjóræningjanna að mati blekbónda. Hér eiga bæði verðtrygging og háir vextir sök. Það er verkefni ríkisstjórnarinnar að varða veginn til lausnar á þessu vandamáli, og fjármála- og efnahagsráðherra lét á sér skilja í ræðu sinni í umræðum á þingi um stefnuræðu forsætisráðherra, að hann gerði sér grein fyrir vandamálinu og mikilvægi góðrar lausnar á því. Líklega er pólitískur og hagfræðilegur þjóðfélagsstöðugleiki lykilatriði til lausnar.
Um skuldir unga fólksins ritar Óli Björn Kárason í téðri grein:
"Þúsundir ungmenna eru skuldum vafin eftir að hafa fleytt sér í gegnum langt nám með dýrum lánum auk atvinnutekna á sumrin, og þegar færi hefur gefist með námi. Engu skiptir, þótt í boði séu ágætlega launuð störf. Unga fólkið sér, að það á litla eða enga möguleika á því að eignast eigin íbúð í náinni framtíð. Það er búið að takmarka möguleika þess - skerða valfrelsið. Nauðugt á það ekki annan kost en að halda áfram að vera leigjendur. Engu virðist skipta, að afborganir af láni vegna þokkalegrar íbúðar séu lægri en það, sem greitt er í leigu. Kerfið er búið að loka á lánamöguleika."
Óli Björn tengir þessa alvarlegu stöðu ungs fólks, sem auðvitað smitar um allt þjóðfélagið, við lítið fylgi hefðbundinna stjórnmálaflokka. Það stendur borgaralegu stjórnmálaflokkunum næst að lagfæra þetta. Það er stefna Sjálfstæðisflokksins að gera fólki kleift að búa í eigin húsnæði sem lengst á æviskeiðinu, og 90 % landsmanna kjósa það helzt. Þess vegna standa úrbætur Sjálfstæðisflokkinum næst, og fyrr getur hann varla vænzt verulegrar fylgisleiðréttingar en hann leggur fram trúverðuga áætlun um að skapa forsendur svipaðs fjármagnskostnaðar við húsbyggingar og á hinum Norðurlöndunum. Þar er reyndar minna um, að fólk búi í eigin húsnæði en á Íslandi. Um þetta viðfangsefni skrifar Óli Björn og er hægt að taka heils hugar undir með honum:
"Svo undrast margir, að ungt fólk sé afhuga hefðbundnum stjórnmálaflokkum ! Á meðan borgaralegir stjórnmálaflokkar leggja litla eða enga áherslu á að skapa ungu fólki a.m.k. ekki síðri tækifæri en foreldrar þess fengu til að eignast eigið húsnæði, munu þeir aldrei ná eyrum yngri kjósenda."
Að lokum er herhvöt til borgaralegra afla, ekki sízt Sjálfstæðisflokksins, um að bretta upp ermarnar í þágu ungu kynslóðarinnar og húsnæðisvanda hennar. Það er ónógt framboð húsnæðis vegna eftirspurnarleysis, sem stafar af háum fjármagnskostnaði við byggingar og að nokkru of háum byggingarkostnaði. Óli Björn:
"Stjórnmálamenn, sem vilja tryggja fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinganna, geta ekki setið aðgerðarlausir. Þeir geta ekki sætt sig við, að aðeins þeir, sem eiga fjárhagslega sterka bakhjarla eigi raunverulegt valfrelsi í húsnæðismálum að loknu námi. En með aðgerðaleysi senda þeir þau skilaboð, að helsta forsenda þess að eignast eigið húsnæði sé fjárhagslegur styrkur foreldra eða afa og ömmu."
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hafa skattalækkanir einhverntíma skilað ser í lægra vöruverði ?
Og á þá að stefna að einhliða innflutningi en engri framleiðslu í landinu ?
Þetta er þvert á það sem aðrar þjóðir gera- þar sem innflutt fullunnin vara er sköttuð en stutt með skattalækkunum við fyrirtæki sem vilja fraleiðni og skapa atvinnu.
En ef Íslendingar einir þjóða geta lifað á innflutningi er það hið besta mál.
Erla Magna Alexandersdóttir, 11.9.2015 kl. 11:32
Sæl, Erla Magna;
Ég hygg, að nýlegar vörugjaldslækkanir sýni, að verzlunin skilar þessum gjaldalækkunum ríkissjóðs til neytenda. Það er einmitt rétti tíminn núna, þegar bráðnauðsynlegt er öllum landslýð að berjast gegn verðhækkunum, að fá komandi tollalækkanir til að endurspeglast í verðlækkunum, eins og tilefni gefast til. Þessar tollalækkanir munu styrkja íslenzka framleiðslu, því að efni til hennar lækkar í verði.
Tollum verður ekki breytt á innfluttum matvælum. Það verður ekki gert einhliða af Íslandi, heldur samkvæmt samningum við önnur ríki.
Til að hér geti ríkt efnahagslegur stöðugleiki, verður að vera dágóður jákvæður viðskiptajöfnuður við útlönd. Hann næst ekki með því að girða landið af með tollmúrum.
Bjarni Jónsson, 11.9.2015 kl. 13:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.