4.2.2016 | 10:57
Loftmengun er líka umhverfisvá
Mikil athygli hefur undanfarna mánuði beinzt að vánni, sem bíður mannkyns af völdum uppsöfnunar koltvíildis í andrúmsloftinu, en loftmengun hefur þá fallið í skuggann. Þetta eru þó skyld mál, og uppruninn að miklu leyti sá sami: kolakynt raforkuver, en frá þeim koma 2/3 allrar raforku í Kína, þar sem loftmengun er mikið böl.
Þegar 40´000 - 50´000 manns söfnuðust saman í París til að spjalla saman um (daginn og veginn og) loftslagsvandann og til að rífast um, hverjir ættu að bera þyngstu byrðarnar í viðureigninni við téðan vanda, svo gáfulegt sem það nú er, þá lá sótmökkur yfir Peking, og skyggnið var innan við 200 m. Valdhöfunum er orðið órótt, því að ný miðstétt krefst meiri lífsgæða.
Sums staðar í höfuðborg alþýðulýðveldisins var styrkur örryks við þrítugföld heilsuverndarmörk. Afleiðingar gegndarlausrar rafvæðingar og iðnvæðingar án umhverfislegrar fyrirhyggju og umhyggju fyrir náttúru landsins, sem maðurinn á að vera hluti af, hefur nú komið hrottalega niður á lífsgæðum í landinu og er þungur baggi á heilsufari og lífsgæðum í Kína.
Almenningur í Kína hefur í áratug haft þungar áhyggjur af vatnsmengun og loftmengun í landinu, og það er að renna upp fyrir leiðtogum Kommúnistaflokks Kína, að mengun er orðið stórpólitískt mál, sem ógnað getur stöðugleika í landinu og völdum Kommúnistaflokksins. Forystumenn flokksins hafa þess vegna söðlað um og sett umhverfisvernd í öndvegi, en það tekur langan tíma að snúa stóru skipi, og þess vegna tóku Kínverjar ekki á sig neinar skuldbindingar í París í desemberbyrjun 2015, heldur létu duga yfirlýsingu um, að árið 2030 mundi losun Kínverja á gróðurhúsalofttegundum ná hámarki. Margt bendir þó til, að vegna knýjandi þarfar og brýnnar nauðsynjar á að bæta loftgæðin í stórborgum Kína, verði gripið miklu fyrr í taumana og hámarkinu hafi jafnvel þegar verið náð. Kínverska ríkisstjórnin ætlar þó ekki að fórna hagvextinum á altari "græna goðsins", heldur hefur stefnan verið sett á nýja tækni, þóríum-kjarnorkuver, sem sameina eiga hagvöxt og umhverfisvernd. Allt að 1000 vísindamenn vinna nú að þróun þessarar nýju og umhverfisvænu kjarnorkutækni í Kína og munu væntanlega eigi síðar en 2020 koma fram með frumsmíði fyrir venjulegan rekstur. Þá verður dagrenning nýrra og heilnæmari tíma.
Um 2/3 hlutar aukningar á losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum síðan árið 2000 stafar af kínverska hagkerfinu. Síðasta 5-ára plan kínverska kommúnistaflokksins gerir ráð fyrir að draga úr kolefnislosun sem hlutfall af verðmæti þjóðarframleiðslu um fimmtung árið 2020. Það verður gert með því að auka að sama skapi hlutdeild kolefnisfrírrar raforkuvinnslu. Kínverjar eru að þessu leyti á réttri braut, og það skiptir allan heiminn miklu.
Það á að koma á laggirnar viðskiptakerfi með kolefnislosunarheimildir í Kína árið 2017, og það eru umræður í flokkinum um að leggja á kolefnisskatt, og þar með tæki Kína vissa forystu á meðal hinna stærri ríkja heims í þessari viðureign. Hvers vegna var ekki rætt af neinni alvöru um kolefnisskatt í París 30. nóvember til 12. desember 2015 ?
Kína hefur, eins og önnur ríki, haft þá stefnu "að vaxa fyrst og hreinsa upp seinna". Nú hafa stjórnvöld landsins rekið sig á annmarka og hættur samfara þessari stefnu og hefa dengt miklu fjármagni í hreina orkugjafa og þróun nýrrar tækni á sviði mengunarlausra orkugjafa, sem er rétta aðferðin við að fást við þennan brýnan vanda að mati blekbónda.
Stefnubreyting kínverska ríkisins er líkleg til að verða öðrum þróunarríkjum til eftirbreytni, t.d. Indlandi, og þá er ekki loku fyrir það skotið, að hindra megi aukningu koltvíildis í andrúmslofti um 1200 Gt frá 2015, en samkvæmt kenningunni um hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda mun slík aukning hafa í för með sér 1,1°C hlýnun, sem ofan á hlýnun frá 1850 gerir 2,0°C meðalhitastigshækkun á jörðunni.
Samkvæmt rannsóknum á borkjörnum úr Grænlandsjökli er mesta hitastigshækkun á jörðunni síðast liðin 100´000 ár 2,0°C. Þar með er vitað, að slík hækkun er afturkræf. Það veit hins vegar enginn, hvort meiri hækkun, t.d. 3°C, verður afturkræf. Ef ekki koma fram róttækar tæknibreytingar á sviði sjálfbærrar raforkuvinnslu fyrir upphaf næsta áratugar, eru því miður afar litlar líkur á, að viðbótar losun haldist undir 1200 Gt CO2.
Loftgæði í Evrópu eru mun meiri en áður og mun meiri en í Kína. Þó berast fregnir, t.d. nýlega frá Mílanó, um hættulega mikinn styrk örryks í andrúmslofti. Með minni iðnaði og löggjöf um hreinsun útblásturs síðan á 6. áratug 20. aldar hefur tekizt að draga úr styrk mengunarefna á borð við SO2, örryks og níturoxíða. Samt deyja 400´000 Evrópumenn árlega fyrir aldur fram vegna slæmra loftgæða samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar Evrópu. Árið 2010 mat þessi stofnun árlegan heilsufarskostnað vegna mengunar í Evrópu á bilinu miaEUR330 - miaEUR940, sem er 3 % - 7 % af þjóðarframleiðslu ríkjanna, sem í hlut eiga. Þetta er gríðarlegur baggi, og þess vegna er til mikils að vinna. Á Íslandi verða nokkur dauðsföll árlega af völdum ófullnægjandi loftgæða, aðallega vegna umferðar á götum þéttbýlis, en einnig eiga jarðvarmavirkjanir í minna en 40 km fjarlægð frá þéttbýli hlut að máli. Allt stendur þetta þó til bóta.
Á íslenzkan mælikvarða nemur þetta árlegum kostnaði miaISK 60 - miaISK 140, sem sýnir í hnotskurn, hversu gríðarlega alvarlegt vandamál mengun er. Á Íslandi er þó loftmengun minni en víðast hvar í Evrópu, svo að kostnaður af hennar völdum er aðeins brot af umreiknuðum evrópskum kostnaði.
90 % evrópskra borgarbúa verða fyrir mengun yfir hættumörkum, eins og þau eru skilgreind af WHO-Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni. Hæstu níturoxíðgildin eru í London, í Tyrklandi er örrykið PM10 (styrkur örryks, þar sem þvermál rykagna er undir 10 míkrometrum) vandamál í mörgum borgum, en versta mengunin er þó í Austur-Evrópu vegna mikils fjölda úreltra kolakyntra orkuvera þar.
Á Íslandi eru mengunarvarnir í góðu lagi. Styrkleiki örryks frá umferð og H2S frá jarðfufuvirkjunum fer þó stundum yfir ráðlögð heilsufarsmörk. Þegar rafbílum fjölgar á kostnað eldsneytisbíla, einkum dísilbíla, og nagladekkjum fækkar vegna framfara í gerð vetrardekkja, mun draga úr mengun frá bíla- og strætisvagnaumferð. Virkjunarfyrirtækin vinna nú að þróun aðferða til að draga úr losun hættulegra gastegunda út í andrúmsloftið. Heimur batnandi fer.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Heilbrigðismál, Umhverfismál, Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.