Ójafnvægi á orkumarkaði

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ójafnvægi af ýmsum toga ríkir á orkumarkaði um allan heim. Á heimsmarkaði er ofgnótt jarðolíu af fjórum ástæðum:

Bandaríkjamenn eru orðnir nánast sjálfum sér nógir um olíu og jarðgas eftir að hafa þróað nýja vinnslutækni úr jörðu, bergbrot eða setlagasundrun (e.hydraulic fractioning). Framleiða þeir um þessar mundir 9 Mtu/dag (milljón tunnur (föt) á sólarhring).

Efnahagslægð á heimsvísu hefur dregið úr olíunotkun, einkum í Kína, þar sem samdráttarskeið gæti verið í uppsiglingu, ekki bara minnkun hagvaxtar. 

Þá hafa Arabar af trúflokki sunníta með Sauda í broddi fylkingar ekki þorað að draga úr olíuvinnslu sinni af ótta við að missa við það markaðshlutdeild til fjandmanna sinna,Persanna, sem eru af trúflokki sjíta. Átök og valdabarátta á milli Araba og Persa munu stigmagnast og hindra olíuverðshækkun, nema stórfelld, blóðug átök brjótist út á milli þeirra með skemmdum á olíuvinnslu og ógn við flutningaskip sem afleiðingu. Til lengri tíma litið, 5 ára, mun ný orkutækni ryðja sér til rúms á kostnað jarðefnaeldsneytis.

Það verður líka að telja til ójafnvægis á orkumarkaði, að yfirvöld sums staðar í hinum vestræna heimi hafa greitt niður orkuverð frá vindrafstöðvum og sólarhlöðum. Þetta hefur skekkt samkeppnisstöðuna og ekki haft í för með sér minni losun gróðurhúsalofttegunda, eins og látið var í veðri vaka, heldur þvert á móti.  Önnur raforkuver án kolefnislosunar hafa fyrir vikið átt erfitt uppdráttar og sum hrökklazt út af markaði og verið lokað.  Má þar t.d. nefna kjarnorkuver.

Í ljósi hins stutta nýtingartíma sólarhlaða og vindrafstöðva, 10 % - 30 % (sumar vindmyllur á Íslandi ganga þó á fullum afköstum 40 % af tímanum) er ljóst, að annars konar orkuver þurfa að hlaupa í skarðið 70 % - 90 % af tímanum.  Oftast hafa það verið eldsneytisknúin orkuver, svo að afraksturinn fyrir umhverfið af téðum orkuverum endurnýjanlegra auðlinda er neikvæður m.v. að reisa almennilegt kolefnisfrítt orkuver, t.d. kjarnorkuver, sem getur staðið undir grunnaflsþörfinni. 

Þá hingað heim.  Sagt er, að heimilisbölið sé verst, og þannig er háttað á Íslandi, að orkuvandamálið er skortur á afli og orku í náinni framtíð.  Það hefur verið framkallað með langtímasamningum ON og Landsvirkjunar, aðallega hins síðar nefnda, við 4 kísilfyrirtæki, eins og hér segir:

Kísilver    Heildaraflþörf    Gangsetning   Framl.

United Silicon    140 MW        2016       88 kt/a

PCC Bakki         104 MW        2017       56 kt/a

Silicor-hreinkís.  85 MW        2018       19 kt/a

Thorsil Helguvík  174 MW        2018      108 kt/a

Á Íslandi nam vinnsla raforku árið 2015 18´120 GWh, og má þá ætla m.v. árið áður, að toppurinn hafi numið 2400 MW. Það er sama aflið og gera má ráð fyrir, að ætíð sé tiltækt í kerfinu núna, ef 10 % eru dregin frá heildar uppsettu afli í vatnsafls- og jarðgufuvirkjunum vegna viðhalds og bilana, rennslisvandamála eða gufuleysis. 

Næsta virkjun Landsvirkjunar, Þeistareykir, 90 MW, á að komast í gagnið á hálfu afli 2017.  Hins vegar á fyrra kísilverið í Helguvík að koma inn með fjórðungsálag, 35 MW, árið 2016, svo að Landsvirkjun virðist setja á Guð og gaddinn veturinn 2017.  Ef vatnsbúskapur verður þá undir meðallagi og/eða gufuöflun verður undir væntingum, þá mun líklega koma til aflskerðinga veturinn 2017. 

Mikill hagvöxtur 2016-2017 gerir afl- og orkuskort á þessum tíma enn líklegri en ella, því að búast má við 3 % aukningu afl- og orkuþarfar hvort árið um sig án tillits til hinnar nýju stóriðju. Ástandið, sem skrifa verður á reikning stjórnar Landsvirkjunar, er alvarlegt, því að það mun hafa í för með sér tugmilljarða framlegðartap fyrir atvinnureksturinn í landinu og verða notendum afgangsorku vítt og breitt um landið svipað efnahagsáfall og lokun rússneska markaðarins.  Þetta er hins vegar heimatilbúinn vandi, sem skapazt hefur, af því að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun hefur ekki hirt um að virkja í tæka tíð. Púðrið fór í baunatalningu og raup um mikinn hagnað ásamt lofsöng um væntan gróða af afl- og orkusölu til Bretlands um sæstreng, sem brezka ríkisstjórnin hefur nú kistulagt með stefnubreytingu varðandi fjárhagsstuðning við "græna orku" inn á enska markaðinn. 

Næsta virkjun á eftir Þeistareykjum, Búrfell 2, fer ekki á útboðsstig fyrr en 2016, sem að mati blekbónda er þremur árum of seint. Þetta er óskiljanlegt seinlæti.  Virkjunin á að verða 100 MW, en mun framleiða minni orku fyrst um sinn en efni standa til, af því að miðlunargeta vatnasviðs Þjórsár/Tungnaár er orðin allt of lítil fyrir núverandi orkuþörf, hvað þá stækkandi kerfi. Búrfell 2 á að komast í gagnið árið 2018.  Þar með hafa bætzt við aflgetu kerfisins 190 MW, en leggi menn saman aflþörf kísilveranna, fá menn út 503 MW.  Eitthvað mun þá hafa skilað sér inn af smávirkjunum til að mæta almennri aukningu og niðurdrætti í gufuforðabúrum, en það virðist verða um 300 MW vöntun á afli árin 2018-2020, sem er reginhneyksli í landi ofgnóttar virkjanlegrar frumorku.

Ekkert fæst úr þessu bætt fyrr en Hvammsvirkjun og stækkanir Bjarnarflags, Kröflu og Blöndu, komast í gagnið, Guð veit hvenær, með þessu sleifarlagi, og þær afkasta aðeins 250 MW.  Ætlar Alþingi að taka því með þegjandi þögninni, að hér verði æpandi rafmagnsskortur árum saman ?  Það er flotið sofandi að feigðarósi, enda maðkur í mysunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband