Brennandi hús

Þau undur og stórmerki urðu í ágætum morgunþætti Óðins Jónssonar, fréttamanns, á Gufunni mánudaginn 7. marz 2016, að Nestor íslenzkra jafnaðarmanna, Jón Baldvin Hannibalsson, afneitaði Evrópusambandinu, ESB, og taldi það óalandi og óferjandi um þessar mundir.  Glapræði mundi vera af Íslendingum að sækja þar um aðild, enda ríkti þar óstjórn í þremur mikilvægum málaflokkum hið minnsta. 

"Við göngum ekki inn í brennandi hús", kvað Nestor.  Bætist hér enn við grundvallarmistök í stefnumótun Samfylkingarinnar og íslenzkra jafnaðarmanna.  Leiðsögn þeirra hafði næstum leitt landsmenn til glötunar á síðasta kjörtímabili, og þeim virðast vera mjög mislagðar hendur við allt, sem þeir taka sér fyrir hendur. 

Lesendur virða blekbónda það vonandi til vorkunnar, að hann missti neðri kjálkann niður á bringu við að hlýða á téðan Nestor, sem verið hefur kaþólskari en páfinn í ESB-trúboðinu fram að sinnaskiptunum, sem eru jafnframt eins konar siðskipti þessa höfuðkrata, sem að eigin sögn lærði til forsætisráðherra í Edinborg (Héðinsborg) á Skotlandi á sinni tíð og átti nokkuð glæstan feril sem utanríkisráðherra í Viðeyjarstjórn Davíðs Oddssonar. 

Nestor rökstuddi mál sitt með skýrum hætti, eins og hans var von og vísa og tíundaði einkum þrennt:

Í fyrsta lagi væri evran vitavonlaus gjaldmiðill, enda undirstaðan eigi réttlig fundin, eins og þar stendur.  Við næstu árás á gjaldmiðilinn mundi hann falla og var á Nestor að skilja, að þá mundu ríki EMU-myntbandalagsins hverfa aftur til sinna gömlu gjaldmiðla, enda væri algerlega vonlaust fyrir svo ólík hagkerfi að búa við sömu mynt.  Afleiðingin er stöðnun hagkerfanna, sem aðild eiga að evrunni, sama hvernig evrubankinn í Frankfurt rembist eins og rjúpan við staurinn við peningaprentun og með neikvæðum innlánsvöxtum að örva hagkerfið í baráttu bankans við verðhjöðnun. 

Þá kallaði Nestor Mutter Merkel í Berlín til ábyrgðar á svínslegri framkomu við þjóðir evru-samstarfsins, sem berðust í bökkum með fjallháar skuldabyrðar, en Mutter Merkel heimtaði af þessum suðrænu þjóðum, þ.e. Grikkjum, Kýpverjum, Portúgölum og Spánverjum, auk Íra, að þær greiddu upp skuldir sínar.  Lengt hefði verið í hengingarólinni, en þjóðirnar væru samt að niðurlotum komnar. Þetta hefði skapað spennu á milli Evrópuríkjanna, sem ekki sæi fyrir endann á.

Þriðja áfellisdóminn yfir ESB kvað Nestor vera algert úrræðaleysi gagnvart aðsteðjandi flóttamannavanda.  Viðbrögðin sýndu stjórnleysi, og alla framsýni skorti, því að ráðamenn ESB hrektust af einum neyðarfundinum á annan og aðeins væri reynt að berja í brestina og bregðast við orðnum atburðum. 

Nestor gaf sem sagt ESB falleinkunn, þó að hann hafi hingað til vaðið eld og brennistein til að dásama ESB á alla lund og telja Íslendinga á að sækja um aðild og gerast aðilar, hvað sem það kostaði.  Úr því að sannleikurinn er runninn upp fyrir Nestor kratanna, verður spennandi að sjá, hvort Viðreisn vogar sér áfram að reka áróður fyrir aðild og undirstrika sannfæringu sína um kosti þess að verða framvegis undir pilsfaldi ríkjasambands Evrópu með framboði til Alþingis.  Telja má víst, að slíkur hjáróma áróður fái engan hljómgrunn á meðal þjóðarinnar, enda skiptist hún aðallega í tvær fylkingar til þessa máls, þ.e. þá, sem telja, að aðild yrði allt of dýru verði keypt á öllum tímum, og hina, sem telja aðildarumsókn nú vera tímaskekkju. Nestorinn fyllir seinni flokkinn, en flestir borgaralega þenkjandi menn hérlendir þann fyrri. 

Höfundurinn "Óðinn" ritaði í Viðskiptablaðið 23. marz 2016 greinina:

"Efnahagsleg stöðnun og pólitískur óstöðugleiki":

"Þrír stórir áhættuþættir voma svo yfir evrusvæðinu að mati Moody´s. Þeir eru í fyrsta lagi hættan á hraðari samdrætti hagvaxtar í Kína samhliða aukinni spennu í samskiptum stórra ríkja.  Í öðru lagi er ástæða til að hafa áhyggjur af þróun stjórnmála í mörgum aðildarríkjunum.  Stjórnarkreppa á Spáni og í Portúgal auk hættu á því, að illa fari á ný í Grikklandi getur allt haft neikvæð áhrif á evrusvæðið auk þess sem uppgangur öfgaflokka af ýmsu tagi í Evrópu veldur áhyggjum.  Í þriðja lagi mun langvarandi tímabil mjög lágrar verðbólgu gera evrusvæðið viðkvæmara en ella fyrir efnahagslegum áföllum."

Píratar eru regandi í afstöðu sinni til ESB, eins og í flestum málum, nema fríu niðurhali af netinu gegn höfundarréttinum, og vilja fá þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Alltaf er vandasamt að orða spurningar í slíkum atkvæðagreiðslum, svo að þær séu óhlutdrægar og svarið gefi einhlíta niðurstöðu.  Tvær spurningar á kjörseðlinum gætu t.d. verið á þessa leið:

  • Vilt þú, að umsókn Alþingis frá 16. júlí 2009 um aðildarviðræður við Evrópusambandið verði dregin til baka af ríkisstjórn og sá gjörningur staðfestur af Alþingi, svo að enginn vafi leiki á, að umsóknin sé fallin úr gildi og verði ekki endurvakin án samþykktar þings og þjóðar þar um ? 
  • Vilt þú, að umsókn Alþingis frá 16. júlí 2009 um aðildarviðræður við Evrópusambandið verði endurvakin, að loknum nauðsynlegum breytingum á Stjórnarskrá um leyfi til framsals fullveldis, og viðræður síðan hafnar að nýju um aðildarsamning við Evrópusambandið, sem hljóta þurfi samþykki Alþingis áður en hann verði lagður fyrir þjóðina til samþykkis eða synjunar.  

Þann 8. marz 2016 birtist forystugrein í Morgunblaðinu undir heitinu,

"Það rennur víða upp fyrir mönnum".

Þar er vitnað í fyrrverandi aðalbankastjóra Englandsbanka, Mervyn King, sem gegndi því embætti, þegar fárið gekk yfir fjármálaheim heimsins 2007-2009.  King, lávarður, hefur nú gefið út bók, þar sem hann lýsir yfir áhyggjum af hagkerfi Evrópu og telur það standa veikum fótum. Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, átti í talsverðum samskiptum við aðalbankastjóra Englandsbanka á sinni tíð, og yrði fengur að bók Davíðs, sem gæti heitið: "Árin mín á Svörtuloftum".

Grípum nú niður í téða forystugrein:

"King hefur talað tæpitungulaust í viðtölum að undanförnu.  Í síðustu viku varaði hann við nýrri efnahagskreppu, sem væri fyrirsjáanleg og kæmi líklega fremur fyrr en síðar.  Er King í sínum hugleiðingum mjög á svipuðum slóðum og Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, sem er Íslendingum að góðu kunnur.  Persson er svartsýnn á ástandið í Evrópu og tilveru evrunnar, sem hann hefur lengi stutt, að Svíþjóð verði aðili að, þegar skilyrði skapist til þess."

Það hefur orðið mikið fall hlutabréfa í Evrópu í ár sem og annars staðar í heiminum, nema á Íslandi, þar sem hlutabréfamarkaðurinn er að rétta úr kútnum.  Mjög mikil skuldsetning dregur víða úr hagvexti, minnkandi hagvöxtur og lítil eftirspurn í Kína, hefur miklar verðlækkanir í för með sér ofan á olíu- og gasverðlækkanir, og vaxtahækkun bandaríska seðlabankans hefur dregið kraft úr heimshagkerfinu. 

Á Íslandi er þó rífandi gangur, knúinn áfram af 20-40 % árlegri aukningu (eftir mánuðum) á fjölda erlendra ferðamanna og fjárfestingum í gistirými og kísilverum.  Ef spár Mervyns Kings og Göran Perssons ganga eftir, hverfur vöxtur á Íslandi eins og dögg fyrir sólu, og staðan er viðkvæm, eins og völvan sagði. 

"King sagði, að evrusamstarfið hefði verið, ef ekki efnahagslegt stórslys (e. economic disaster), þá a.m.k. mjög erfitt vandamál, sem bitnað hefði á Bretum. 

Mervyn King bætti svo við:

Þjóðverjar leituðust við að hnýta Þýzkaland svo vel inn í Evrópu, að önnur Evrópuríki þyrftu aldrei aftur að óttast Þýzkaland.  Þessi viðleitni þeirra hefur haft þveröfug áhrif.  Ef skoðuð er afstaða Grikkja nú til Þýzkalands, jafnvel Ítala, þá blasir við, að spenna og tortryggni í garð Þýzkalands er nú meiri en oftast áður. Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir Þýzkaland.  Þjóðverjar ætluðu sízt af öllu að koma sér í þessa stöðu."

Í sögulegu ljósi er þessi skoðun hins vel upplýsta Englendings stórmerkileg og varpar ljósi á það, hvers vegna samkomulag þjóða Evrópu hefur verið afleitt svo lengi sem sögur kunna frá að greina.  Hugsunarháttur, siðfræði og siðferði þjóðanna eru einfaldlega gjörólík og fer ekki betur saman en vatn og olía.  Ef reynt er að sameina þessi efni, verður til grautur (emulsion), og það er einmitt orðið yfir evrusamstarfið.

Látum Mervyn tala:

"En efnahagslegi reikniveruleikinn hefur óhjákvæmilega leitt til þessarar niðurstöðu.  Þess vegna er evran, ekki ESB, heldur evrusvæðið, það, sem við hljótum að hafa mestar áhyggjur af.

Evrusvæðið er víðtækasti viðskiptaaðili okkar og engar horfur á, að það breytist.  Þess vegna skiptir mjög miklu máli, hvað gerist þar.  Ég óttast, að slagurinn muni nú snúast annars vegar um stjórnmálalegan vilja elítunnar, sem skóp efnahagssvæðið og vill ekki kyngja mistökum sínum, og efnahagslegan reikniveruleikann hins vegar, og að sá slagur eigi eftir að skaða okkur öll."

Hér er nýtt hugtak, "efnahagslegur reikniveruleiki",  leitt fram á ritvöllinn, sem blekbóndi skilur sem efnahgslegan raunveruleika.  Staðreyndin er sú, að ríkjandi öfl ESB neita að horfast í augu við staðreyndir, ef þær brjóta í bága við möntruna um "æ nánara samband" eða ógna á einhvern hátt grundvelli ESB, eins og fall myntbandalagsins og endurupptaka eftirlits á innri landamærum Evrópusambandsríkjanna að meðtöldum EFTA-ríkjunum. Þessi afneitun búrókratanna og helztu stjórnmálaleiðtoga ESB á "efnahagslegum reikniveruleika" veldur því, að ESB er á heljarþröm. Við Íslendingum blasir samt, að þeir munu halda áfram viðskiptum sínum við þessar þjóðir, hvernig sem allt veltur. 

Það er stórmerkilegt að lesa hugleiðingar Englendingsins Mervyns King um stöðu Þýzkalands í Evrópu samtímans.  Hún er allt annað en kjörstaða, þó að efnahagslegir yfirburðir Þýzkalands hafi staðið undir kjarabótum Þjóðverjum til handa.  Þeir hafa sumpart þess vegna orðið skotspónn hinna, sem miður hefur gengið, og þeim er auðvitað með réttu kennt um tiltölulega hátt gengi evrunnar, þótt það hafi töluvert gefið eftir síðasta árið. Þetta sundurlyndi Evrópu boðar ekkert gott fyrir íbúa álfunnar og gæti minnt að sumu leyti á árin frá sameiningu Þýzkalands Ottos von Bismarcks, járnkanzlara, til upphafs heimsstyrjaldarinnar fyrri. 

Líklega þýðir þetta allt saman endalok ESB í sinni núverandi mynd, enda eru Bretar vísir til að hafna aðild í júní 2016.  Þá mun hefjast mikið umbrotaskeið, sem gera mun miklar kröfur til íslenzku utanríkisþjónustunnar.  Er hún vandanum vaxin ?

Að lokum koma hér lokaorðin úr tilvitnaðri grein Óðins:

"Óðinn vill ekki mála hlutina í dekkri litum en ástæða er til, og skýrsluhöfundar Moody´s fara varlega í spá sinni.  Það verður hins vegar ekki framhjá því litið, að, þrátt fyrir yfirvegað orðalag, þá er afar fátt, sem ýtir undir bjartsýni, þegar kemur að framtíð evrusvæðisins næstu árin.  Þvert á móti er margt, sem vinnur gegn Evrópusambandinu og hagkerfum álfunnar.  Það er því ekki að undra, að þeim fjölgar í Bretlandi, sem vilja úr sambandinu ganga, og þeim fækkar á Íslandi, sem vilja ganga því á hönd."

 

Evran krosssprungin 

 

   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Ekki treysti ég neinu sem hann segir. Já hann óð eld og brennistein við að sannfæra alla um stóru lygina. Hvað olli að maðurinn vissi ekki neitt?

Lærði hann ekki neitt af ofjörlum hans í málinu eins og Birni Bjarnasyni og Jóni Bjarnasyni, Ragnari Arnalds og Styrmi Gunnarssyni? Og fjölda manns? Vissi hann það ekki og þagði bara viljandi?

Elle_, 25.3.2016 kl. 23:50

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Elle;

Kratar hafa alla sína tíð á Íslandi haft löngun til að tengja Ísland stærri ríkisheild.  Það kom fram í aðdraganda lýðveldisstofnunarinnar 1944, að þeir höfðu efasemdir um, að Ísland stæðist sem sjálfstæð eining. Þeir vildu slá lýðveldisstofnuninni á frest og fóðruðu það með því, að hún væri óviðeigandi, á meðan Danmörk væri hersetin.  Með tilkomu Efnahagsbandalags Evrópu og síðar Evrópusambandsins þótti þeim berast upp í hendurnar kjörið tækifæri til að fella Ísland inn í stóra heild, sem lyti miðstýrðu skrifræðisvaldi.  Þannig töldu þeir hugsjónum sínum bezt borgið á Íslandi. 

Þetta urðu þeirra trúarbrögð, og engin rök hrína á þeim, sem tekið hafa trú.  Það var ekki fyrr en fnykinn af eldunum innan ESB lagði alla leið norður til Íslands, að trúarvíman rann af "biskupi jafnaðarmanna", JBH, og nokkrum fleirum.  Þó hafa ekki orðið sinnaskipti; aðeins er uppstytta í trúarhitanum á meðan verstu eldarnir brenna í Evrópu.  Þeir hafa hörfað af vígvellinum og sleikja nú sárin, en ekki játað sig sigraða.  Engir friðarsamningar eru mögulegir á milli þeirra andstæðu fylkinga, sem hér eigast við.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 26.3.2016 kl. 12:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband