15.5.2016 | 13:05
Í tilefni forsetakosninga 2016
Ótrúlegur fjöldi fólks lýsti opinberlega yfir áhuga sínum á að taka við embætti af dr Ólafi Ragnari Grímssyni þann 1. ágúst 2016, en nokkrir hafa heltst úr lestinni áður en kom að skiladegi meðmælendalista. Vekur áhugi svo margra grunsemdir um, að einhvers misskilnings gæti um eðli þessa embættis, því að embættinu eiga, eðli þess samkvæmt, ekki að gegna neinir "meðaljónar", heldur afburðamenn, sem landsmenn geta litið til með trausti og stolti.
Við lestur Stjórnarskrárinnar kemur í ljós, að ákvæðin um forsetaembættið bera með sér, að grunnur hennar er frá þeim tíma, er Danakóngur var að missa völd sín í hendur þingsins. Þar eru leifar af orðalagi um, að forsetinn (kóngurinn) skuli hafa hitt og þetta með höndum, sem kóngurinn hafði áður, en annars staðar er klykkt út með, að ráðherrarnir hafi í raun og veru fengið þessi völd í hendur. Þessum ruglingi er brýnt að eyða. Stjórnarskráin á að merkja, það sem þar stendur skrifað, hvorki meira né minna. Hún á að vera auðlesið og auðskilið plagg "hverjum" unglingi um fermingaraldur.
Blekbónda er í minni, að í gagnfræðadeild Laugarnesskóla voru nemendur upp úr 1960 látnir lesa bók, sem hét "Félagsfræði", og þar var m.a. öll Stjórnarskráin, sem hinn frábæri kennari, Pálmi Pétursson, útlistaði á sinn skýra og skemmtilega hátt fyrir nemendunum, 13-14 ára.
Á Íslandi er þingbundin ríkisstjórn. Stjórnmálaleg völd eru hjá Alþingi, og hlutverk forsetans er að staðfesta lög frá Alþingi eða að synja þeim staðfestingar, og falli þingmeirihluti í Alþingiskosningum, þá felur hann eftir atvikum nýjum manni umboð til stjórnarmyndunar; forseti velur þar með næsta forsætisráðherra.
Eins og fram kom 5. apríl 2016, er þingrofsvaldið hjá forseta lýðveldisins og forsætisráðherra í sameiningu, þ.e. báðir þurfa að samþykkja þingrof, og þingrof á ekki að samþykkja, ef á þingi ríkir starfhæfur meirihluti að baki ríkisstjórnar. Þannig er meginreglan, að sama ríkisstjórn skuli sitja út kjörtímabil, nema hún missi starfhæfan meirihluta á þingi.
Á hvort tveggja hefur reynt hjá dr Ólafi. Er þess skemmst að minnast, að eftir kosningarnar vorið 2013 valdi hann að fela Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, umboð til stjórnarmyndunar, en sniðgekk formann stærsta flokksins, Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, þó að hann hefði bæði unnið persónulegan sigur og flokkur hans bætt við sig fylgi og væri stærsti stjórnmálaflokkur landsins.
Þessi ráðstöfun orkaði þess vegna tvímælis, en hefur væntanlega ráðizt af viðhorfum forsetans sjálfs. Það er þó erfitt að rígnegla reglu um þetta val í Stjórnarskrá, því að forseti ber ábyrgð á sínum gjörðum og verður líka að standa þjóðinni reikningsskap á 4 ára fresti og verður þá að axla lýðræðislega ábyrgð.
Þá eru alþekktar 3 synjanir forsetans á lögum frá Alþingi, sem dr Ólafur reið á vaðið með. Sú fyrsta (fjölmiðlalög) var geðþóttaákvörðun hans og orkaði tvímælis, þar sem lögin áttu ekki að öðlast gildi fyrr en á næsta kjörtímabili.
Hinar tvær voru fyllilega réttmætar (Icesave) á þeim grundvelli, að þar var Alþingi að skuldbinda ríkissjóð til greiðslu á skuldum einkaaðila, sem enginn vissi þá, hversu háar yrðu, er upp yrði staðið. Það má þannig segja, að þessi alræmdi gjörningur vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hafi brotið í bága við 21. grein Stjórnarskrárinnar, og þetta voru auðvitað algerlega fráleit lög. Nú vitum við, að þessi skuld hefði numið um miaISK 210, sem fallið hefðu í gjalddaga í júní árið 2016.
Í viðtali Ólafar Skaftadóttur og Viktoríu Hermannsdóttur við forseta lýðveldisins, sem birtist í Fréttablaðinu föstudaginn 13. maí 2016, greinir hann frá þeirri ósvífni og gríðarlega þrýstingi, sem hann varð fyrir í lok árs 2009 og í byrjun árs 2010, í því skyni að sannfæra hann um nauðsyn þess að samþykkja ólögin um Icesave. Í fyrstu útgáfuna voru reyndar sett ströng skilyrði stjórnarandstöðunnar, sem forsetinn samþykkti, en viðsemjendurnir, Bretar og Hollendingar, höfnuðu. Seinni tveimur útgáfunum synjaði forsetinn samþykkis, og fóru lögin þá í þjóðaratkvæði, þar sem þjóðin tók undir orð Davíðs Oddssonar, sem hann hafði viðhaft í sjónvarpsviðtali á RÚV haustið 2008, bresti blekbónda ekki tímaskynið, að við greiðum ekki skuldir óreiðumanna.
Nú hafa verið rifjuð upp orð forsetaframbjóðandans Guðna Th. Jóhannessonar, sagnfræðings, sem hann viðhafði um þetta leyti. Þau sýna, svo að ekki verður um villzt, að hefði hann verið í sporum Ólafs Ragnars, hefði hann samþykkt Svavarssamninginn án skilyrða. Tilfærð orð Guðna, sagnfræðings, og núverandi forsetaframbjóðanda, hjá Tý í Viðskiptablaðinu 12. maí 2016, eru þessi:
"Það getur verið, að okkur líki Icesave-samningurinn illa, en hinn kosturinn er miklu verri, og kannski er þetta það bezta, sem við, eða einhver annar, gæti fengið. Haldið eða sleppið, það eru skilaboðin, sem við fengum.
Ég held, að hver sá, sem gagnrýnir samninganefndina fyrir linkind, sé að horfa, viljandi eða óviljandi, framhjá því, hversu ótrúlega erfið staða íslenzkra stjórnvalda er."
Þessi afstaða fræðimannsins er í samræmi við afstöðu ýmissa annarra fræðimanna, t.d. við Háskóla Íslands, á þessum tíma, þó að nú vilji allir Lilju kveðið hafa. Þeir guggnuðu gagnvart hótunum í garð Íslendinga erlendis frá. Gunguháttur af þessu tagi er þjóðhættulegur og á alls ekki heima á Bessastöðum á Álftanesi. Téður Guðni hefur nú í kosningabaráttunni verið spurður um afstöðu sína til inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB. Er skemmst frá því að segja, að hann virðist fylgja línu Nestors íslenzkra jafnaðarmanna, Jóns Baldvins Hannibalssonar, um, að við "göngum ekki inn í brennandi hús". Forsetaframbjóðandinn hefur hins vegar ekki þá grundvallarafstöðu, að innganga þjóni ekki hagsmunum Íslands, heldur tekur hann aðspurður sér fyrir hendur að tíunda kosti og galla inngöngu. Vingulsháttur af þessu tagi er ótraustvekjandi og sæmir illa leiðtogaefni.
Það er þó alveg út í hött, að forsetaframbjóðendur séu að tjá sig að fyrra bragði, eins og frambjóðendur til Alþingis, um, að þeir muni beita sér fyrir eða stuðla að framgangi alls konar mála, sem stjórnmálalegur ágreiningur er um í landinu, eins og t.d. auknum tekjujöfnuði. Að forsetaframbjóðandi ætli, nái hann embætti, að reyna að breyta tekjuskiptingu, sem þegar er orðin á markaði, er algerlega óviðeigandi málflutningur og sýnir, að slíkir framjóðendur eiga ekkert erindi sem húsbændur á Bessastöðum, því að þeir gera sér ekki grein fyrir eðli embættisins.
Forsetaembættið er þó ekki stjórnskipulega óþarft, en það þarf að auka vægi þess og skilgreina betur hlutverk þess. Landið á samt áfram að vera þingræðisland.
Í 2. gr. Stsk. stendur:
"Alþingi og forseti Íslands fara með löggjafarvaldið."
Einhlítara og eðlilegra væri:
"Alþingi fer með löggjafarvaldið. Forseti lýðveldisins staðfestir gildistöku laga með undirskrift sinni, þegar hann hefur gengið úr skugga um, að þau brjóta ekki í bága við Stjórnarskrá. Ef hann telur vafa leika á um lögmæti nýrra laga, sendir hann þau til Hæstaréttar til úrskurðar um álitaefni. Ef Hæstiréttur telur lögin í lagi, staðfestir forseti þau; annars endursendir hann þinginu þau með rökstuddri höfnun.
Ráðherra má með tilstyrk forseta lýðveldisins setja neyðarlög, en þau falla þá úr gildi 35 dögum frá staðfestingu forseta, nema Alþingi hafi í millitíðinni samþykkt þau með meirihluta greiddra atkvæða."
3. gr. Stsk.: "Forseti og önnur stjórnvöld .... fara með framkvæmdavaldið."
Að blanda forseta inn í framkvæmdavaldið gengur ekki, þar sem skal ríkja þingbundin ríkisstjórn. Alþingi skal samþykkja ráðherraskipanina, og ráðherrar skulu lúta eftirliti Alþingis. Forseti velur í raun aðeins forsætisráðherra og skiptir sér síðan ekki af framkvæmdavaldinu.
11. gr. Stsk.: "Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum."
Bezt væri, að stjórnlagafræðingar fengju það hlutverk að gera endurskoðaða Stjórnarskrá svo skýra úr garði, að þessi texti verði óþarfur.
13. gr. Stsk.: "Forseti lætur ráðherra framkvæma vald sitt."
Forseti á að vera sjálfstæður í stjórnarathöfnum á þeim sviðum, sem honum eru falin til ábyrgðar. Þessi texti ætti að falla út.
15. gr. Stsk.: "Forseti skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim."
Í raun er þetta alls ekki svo. Hér ætti að standa forsætisráðherra í stað forseta.
20. gr. Stsk.: "Forseti getur vikið þeim frá embætti, er hann hefur veitt það."
Ekki verður séð, að þetta ákvæði sé nauðsynlegt í Stjórnarskrá, þar sem þingbundin ríkisstjórn ríkir. Fremur ætti að standa, að Alþingi geti vikið ráðherra eða heilli ríkisstjórn frá með samþykki vantrauststillögu. Hjá forseta lýðveldisins einum ætti hins vegar þingrofsvaldið að vera. Það getur annars orðið að bitbeini í pólitískum hráskinnaleik, sællar minningar frá 5. apríl 2016.
21. gr. St.sk.: "Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til."
Það mundi skapa rugling og togstreitu í stjórnkerfinu, ef forseti stæði í samningum við önnur ríki. Hér ætti að standa utanríkisráðherra í stað forseta, og hnykkja ætti á afsalsvarnaglanum þannig, að afsal eigna eða ríkisábyrgð á skuldsetningu annarra, kvaðir eða breytingar á stjórnarhögum, þarfnist, eftir samþykki Alþingis, staðfestingar í þjóðaratkvæðagreiðslu.
26. gr. St.sk. kveður á um staðfestingu og synjun forseta á lögum frá Alþingi. Hér er forseta veitt geðþóttavald til að synja lögum staðfestingar og ætti að afnema það, enda geti 15 % kosningabærra manna beint tilmælum til forseta lýðveldisins um þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsett lög. 20 % kosningabærra manna geti einnig beint til forseta áskorun um framlagningu lagafrumvarps á Alþingi, og í því eina tilviki geti hann upp á eigin spýtur synjað lögum staðfestingar og endursent þinginu. Þetta geti hann þó einnig gert með tilstyrk Hæstaréttar, sem hafi dæmt, að lög frá Alþingi brjóti í bága við Stjórnarskrá.
Forsetaframbjóðendur 2016 virðast ekki allir gera sér grein fyrir, hvað það þýðir, að á Íslandi ríkir þingbundin ríkisstjórn, og samkvæmt núverandi Stjórnarskrá hefur forsetinn enga aðkomu að stefnumörkun ríkisstjórna né málsmeðferð á Alþingi. Þegar frambjóðendur til forsetaembættisins viðra áhuga sinn á framgangi hinna ýmsu þjóðfélagsmála í því skyni að afla framboði sínu fylgis, er það alveg út í hött með hliðsjón af valdmörkum og hlutverki íslenzka forsetaembættisins.
Forseti lýðveldisins þarf helzt að hafa sannað framúrskarandi hæfileika sína á einhverju sviði, en það er ekki nóg að hafa rétt dratthalazt í vinnuna kl. 0900 og dundað þar við misjafnan orðstír.
Forseti þarf að vera vel að sér um sögu lands og þjóðar og þekkja til helztu afreka landsmanna á vísindasviðum, atvinnusviðum og listasviðum.
Forseti þarf að vera vel ritfær og talfær á móðurmálinu, á öðru Norðurlandamáli og ensku að lágmarki.
Ætli ekki mundi fækka verulega í hópi frambjóðenda, sem þó hefur tekizt að afla tilskilinna meðmælenda, ef þessi einfalda kröfulýsing yrði lögð til grundvallar framboðum ?
Hvað sem því líður, hljóta kjósendur að reyna að gera sér sem bezta grein fyrir þessum og öðrum hæfileikum frambjóðenda til forseta, sem þeim þykja máli skipta við valið. Þá þýðir lítið fyrir frambjóðendur að drekkja umræðunni með málum, sem engu máli skipta fyrir embættisfærslu og framgöngu forseta innanlands eða utan. Landsmenn þurfa að geta litið til forsetans með stolti sem æðsta fulltrúa íslenzka lýðveldisins.
Nú er kominn fram á sviðið í baráttunni um forsetaembættið 2016 nýr frambjóðandi, sem uppfyllir kröfulýsinguna að ofan til forseta. Hann hefur sýnt, svo að ekki verður um villzt, að hann hefur þrek til að standa gegn hagsmunaöflum erlendis og innanlands, sem vilja fórna hagsmunum almennings á Íslandi á altari sérhagsmuna. Hér er t.d. átt við Icesave-baráttuna.
Hann hefur jafnframt sýnt svart á hvítu, að hann velkist ekki í vafa um, hvort þjónar hagsmunum þjóðarinnar betur að halda óskoruðu fullveldi landsins eða að deila því með tæplega 30 öðrum þjóðum í ríkjasambandi.
Þar að auki hefur þessi maður manna beztu þekkinguna á því, hvernig stjórnskipun landsins virkar í raun, og er slíkt mikill styrkur fyrir forseta. Þennan mann, Davíð Oddsson, þarf ekki að kynna frekar til sögunnar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Dægurmál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:38 | Facebook
Athugasemdir
Guðni kaus gegn Svavarssamningum, en taldi skynsamlegt að samþykkja Bucheit samninginn. Komið er á daginn að Icesave er að fullu greitt og rúmlega það. Allt þetta Icesave tal virkar á mig sem þjóðremba sem hentar vel til heimabrúks, en sagan eigi eftir dæma léttvægt. Þegar ég sé svo að þú ert að fagna framboði Davíðs get ég ekki gert annað en að ganga út frá að þú sért að grínast.
Tryggvi L. Skjaldarson, 15.5.2016 kl. 17:35
Aldeilis léttvægt að þurfi Evrópudómstól til þess að dæma okkur saklaus af greiðskudkyldu Icsavereikninganna.
Helga Kristjánsdóttir, 15.5.2016 kl. 21:03
"Gunguháttur af þessu tagi er þjóðhættulegur og á alls ekki heima á Bessastöðum á Álftanesi. "
Punktur.
Elle_, 16.5.2016 kl. 00:59
Hvaða þjóðrembu var maðurinn Tryggvi að tala um? Væri það karlremba hans að borga okkur Helgu ekki fyrir ólögmætar rukkanir okkar ef við ætluðum að kúga hann?
Elle_, 16.5.2016 kl. 01:08
Hverju var bjargað með því að hafna Bucheit samningum? Það er enn verið að bera á borð fyrir okkur sigur hafi unnist með höfnun samningsins. Það er búið að borga. Hetju og gungu tal á ekkert erindi í þessa umræðu og er gott dæmi um þjóðrembu.
Tryggvi L. Skjaldarson, 16.5.2016 kl. 07:55
Enginn var að tala um hetjur að ég sæi.
Tryggvi, VIÐ erum ekki búin að borga ICEsave. ICEsave var ekki skuld ríkissjóðs, en krafa Breta og ESB og Hollendinga var gegn ríkissjóði. Þar liggur hundurinn grafinn. Ýmsir skildu það ekki, voru blekktir af Buchheit og ESB-sinnum. Það var fáfræði eða gunguskapur að samþykkja ólögmæta kröfu, kúgun. Ætla annars ekki að fara út í langar útskýringar um það sem þú getur lesið um sjálfur.
Elle_, 16.5.2016 kl. 10:39
Sæl verið þið, öll.
Það er rétt, Tryggvi, að eignir þrotabús Landsbankans dugðu fyrir forgangskröfunum, kröfum innistæðueigenda, en þú hefur væntanlega séð upplýsingar um, hvað fallið hefði á ríkissjóð, ef s.k. Svavarssamningur, sem þjóðin hafnaði í fyrri atkvæðagreiðslunni, hefði verið staðfestur sem lög frá Alþingi. Það voru 208 milljarðar kr. Ég hef ekki séð því andmælt. Hvernig kemur þetta heim og saman ? Skýringin er sú, að kröfuhafarnir, brezku og hollenzku, heimtuðu vexti af skuldinni frá gjaldþrotinu, og það tók a.m.k. 5 ár að innheimta fyrir þrotabúið. Með svipuðum hætti hefði einnig fallið vaxtakostnaður á ríkissjóð í erlendri mynt, ef Lee Buchheit-samningurinn hefði verið staðfestur í þjóðaratkvæðagreiðslu 2.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 16.5.2016 kl. 17:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.