10.6.2016 | 14:41
Auðlindaafnot
Nú hefur Eftirlitsstofnun EFTA - ESA birt úrskurð um, að virkjanafyrirtæki á Íslandi skuli greiða fyrir nýtingu orkulinda í almannaeigu, og skuli það vera markaðsverð. Þessi merkilegi úrskurður hefur litlar umræður vakið hérlendis, e.t.v. vegna þess, að Hæstiréttur Íslands kvað í vetur upp úrskurð, sem gefur tóninn í þessum efnum.
Þessi úrskurður ESA er eðlilegur og góð viðmiðun við lagasetningu um þessi efni, en í raun er þó ekki um neina grundvallarbreytingu hérlendis að ræða, því að Hæstiréttur Íslands hefur þegar dæmt, að vatnsréttindi Landsvirkjunar í Jökulsá á Brú og í Jökulsá í Fljótsdal og þar af leiðandi í Lagarfljóti skuli mynda stofn til fasteignagjalds til sveitarfélaganna, sem áin rennur um. Eina óleysta ágreiningsefnið er, hvaða fasteignaflokk vatnsréttindin fylla.
Vatnsréttindin hafa verið metin til fjár og orkuvinnslugetan í GWh/ár er þekkt. Þar með er komið fordæmi til auðlindargjaldtöku af öllum virkjuðum vatnsföllum í landinu, sem ekki eru í einkaeigu, t.d. bæjarlækir. Þessi gjaldtaka í opinbera þágu hlýtur að fullnægja úrskurði ESA um auðlindargjald af virkjunum í vatnsföllum, sem renna um margar landaeignir.
Um jarðgufuvirkjanir hlýtur með sama hætti að gilda, að auðlindagjaldið fellur landeigandanum í skaut, þar sem borholurnar eru staðsettar. Séu þær í þjóðlendu, lendir gjaldið hjá ríkissjóði, og séu þær á landeign sveitarfélags, fær það auðlindargjaldið. Það er hægt að reikna auðlindargjald af jarðgufu með ýmsum hætti, en eðlilegast er að reikna orkuinnihald gufunnar á einu ári og bera saman við orkuna í Fljótsdalsvirkjun og miða við sama gjald per GWh/a í gufuorku. Nýtnin er gjörólík í vatnsaflsvirkjun og jarðgufuvirkjun, en með þessu móti væri myndaður hvati til bættrar nýtingar á jarðgufu, sem hefur verið ábótavant hérlendis hingað til. Að nýta jarðgufu einvörðungu til raforkuvinnslu hefur sætt gagnrýni, af því að áhöld eru um sjálfbærni nýtingarinnar, þegar niðurdráttur í holu er 3 % ári, eins og dæmi er um, a.m.k. tímabundið.
Fram að téðum dómi Hæstaréttar hefur hérlendis ríkt ójafnræði með atvinnugreinum, þegar kemur að álagningu auðlindargjalds. Sjávarútvegurinn hefur einn borið þessar byrðar hingað til og reyndar mjög miklar, og hvorki ferðaþjónustan né landbúnaðurinn hafa borið þær. Sá síðar nefndi nýtir afréttir í þjóðlendum, og ferðaþjónustan geysist með fjölmenni upp um fjöll og firnindi. Allt eru þetta takmarkaðar auðlindir, en eru alþjóðlega viðurkennd skilyrði til myndunar auðlindarentu í þeim öllum ? Myndun auðlindarentu í atvinnugrein er forsenda opinberrar gjaldtöku fyrir afnotarétt af takmarkaðri auðlind. Um þetta verður fjallað í næstu vefgrein.
Hin augljósa leið landeigenda til varnar náttúrunni og til að koma á sjálfbærri nýtingu hennar af ferðamönnum er gjaldtaka af ferðamönnum á staðnum. Fyrir andvirðið má viðhalda og auka við þjónustu við ferðamenn á viðkomandi stað, en ferðamenn verða að fá þjónustu fyrir gjaldtöku frá fyrsta degi. Þar með mundu tekjur landsins af hverjum ferðamanni hækka, sem er nauðsynlegt til að vega upp á móti lítilli framleiðni í ferðaþjónustu og stóru kolefnisspori ferðaþjónustunnar m.v. tekjur af henni.
Íslenzkt lambakjöt er lúxusvara, bæði innanlands og utan, sem yrði að bera auðlindargjaldið af þjóðlenduafnotum bænda, og sama máli gegnir um hrossabændur, ef í ljós kemur, að auðlindarrenta finnst í þessari starfsemi. Það er tiltölulega einfalt að sannreyna það.
Það er grundvallaratriði, að allir, sem nýta náttúruauðlindir í almannaeigu, sitji við sama borð, eins og framast er kostur. Þá þarf fyrst að líta til þess, hvort skilyrði fyrir auðlindarrentu í viðkomandi starfsgrein eru uppfyllt og síðan að leggja á samræmt og sanngjarnt auðlindargjald, sem má ekki verða íþyngjandi m.v. alþjóðlega samkeppni og meðalhófs skal gæta við álagninguna, þ.e. sá, sem leggur gjaldið á, verður fyrst að sýna fram á, að það sé ekki hærra en auðlindarentan. Þá duga engar hundakúnstir, því að eignarrétturinn er varinn af Stjórnarskrá, og hægt er að höfða mál vegna þess, sem virðist ósvífin og illa ígrunduð gjaldtaka. Það er heldur ekki víst, að í öllum tilvikum reynist unnt að sýna fram á rentusækni atvinnugreinar, þó að hún eigi afnotarétt af auðlind "í þjóðareign". Um þetta mun blekbóndi fjalla frekar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
ég held í lögum séu jarðir með afnotarétt af afrétti skv. hefð.
En auðvitað á að bjóða upp afnotaréttin á þessari auðlind eins og öðrum. Þannig næst mesta hagkvæmnin.
Sá sem býður hæðst vinnur. Það á líka að gilda um sjávarútveginn.
Jón Þór Helgason, 11.6.2016 kl. 09:02
Sæll, Jón Þór;
Lögbýli eiga afnotarétt af afrétt samkvæmt Grágás, og var það ekki í Jónsbók, sem ítalan var sett ? Með kvótakerfinu 1983-1984 var sett ítala á almenning hafsins. Í báðum tilvikum gildir afnotaréttur, sem er einn angi eignarréttarins. Hvorki ríkið né nokkur annar getur boðið upp þann rétt, þó að hann geti gengið kaupum og sölum, því að eignarrétturinn er löghelgaður réttur. Öll slík umræða er út í loftið, enda virðist að mestu vera um séríslenzka sérvizku að ræða. Ríkið getur aðeins boðið upp afnot af eignum, sem það á lögum samkvæmt, eins og t.d. óráðstafaðar fjarskiptarásir.
Gerum nú, umræðunnar vegna, ráð fyrir, að ríkið hafi eignazt allar aflahlutdeildirnar. Þá væri algerlega ábyrgðarlaust annað en að framkvæma nákvæma áhættugreiningu á árlegu uppboði aflahlutdeilda. Þar þarf að greina hættuna á veikari samkeppnistöðu íslenzks sjávarútvegs á erlendum mörkuðum í samkeppni við ríkisstyrktan sjávarútveg, hættuna á enn frekari samþjöppun aflahlutdeilda á útgerðir og hættuna á, að litlir staðir verði hornrekur, ef fjársterkir aðilar ákveða að sölsa undir sig miklar heimildir, e.t.v. með leppum, svo að fátt eitt sé nefnt.
Það væri hjálplegt í þessu sambandi, að boðberar uppboðsfagnaðarerindisins mundu nefna nothæf dæmi frá útlöndum um uppboð á afnotarétti náttúruauðlinda í undirstöðuatvinnugreinum fyrir útflutningsgreinar annarra þjóða.
Bjarni Jónsson, 11.6.2016 kl. 13:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.