Köttur að Bessastöðum ?

Margir virðast vera ginnkeyptir fyrir því að kaupa köttinn í sekknum, þegar kemur að því að velja lýðveldinu nýjan forseta.  Þeir hinir sömu kunna að telja forsetaembættið vera léttvægt, svo að þangað þurfi ekki að velja þungavigtarmann. Meirihluti þjóðarinnar reyndist samt nýlega telja embættið nauðsynlegt eða mikilvægt. 

Helgi Hrafn, þingmaður pírata, virðist vera þeirrar skoðunar, að hlutverk forseta lýðveldisins sé léttvægt, og sé það aðallega fólgið í veizlustjórnun.  Þetta er af og frá og sýnir bjagaða sýn þessa skrýtna þingmanns á þjóðfélagið.  Til sannindamerkis um þá storma, sem leikið geta um bóndann á Bessastöðum, þegar miklir atburðir verða, og þeir verða óhjákvæmilega, er áhrifamikil lýsing fráfarandi forseta á átökunum um Icesave-ólögin, sem hann viðhafði í viðtali við Ólöfu Skaftadóttur og Viktoríu Hermannsdóttur í Fréttablaðinu 13. maí 2016:

"Þegar reynt var að brjóta okkur á bak aftur.  Íslenzka markið stóð opið, og hver sem er gat sparkað boltanum í það, og enginn var til varnar.  Þá taldi ég nauðsynlegt að stíga það skref, sem er mjög óvenjulegt, og sumir hefðu getað sagt með nokkrum rökum óeðlilegt fyrir forseta.  Það var bara enginn annar.  Að fara í alla helztu fjölmiðla heimsins og verja Ísland, og færa fram okkar rök og málstað."

Þessi framganga forsetans á sinni tíð var einstæð og var eingöngu á færi hins æfða skylmingamanns.  Forsetinn brá hér skildi yfir umkomulausa og varnarlitla þjóð í losti og með handónýta ríkisstjórn til slíkra og annarra góðra verka. 

Ríkisstjórn Jóhönnu spilaði reyndar á eigið mark með undirlægjuhætti sínum við erlenda kröfuhafa; forsetinn hirti knöttinn áður en hann lenti í íslenzka markinu og spilaði einn með hann upp allan völlinn og skaut óverjandi skoti á mark andstæðinganna.  Fyrir þetta voru margir landsmenn tilbúnir til að styðja hann til embættis í enn eitt kjörtímabil 2016, ef hann gæfi kost á því, en af því varð ekki.  Hann hefur þegar tryggt sér virðulegan sess á spjöldum sögunnar.

"Erfiðast á ferlinum segir hann ákvarðanirnar um Icesave. 

Varstu beittur þrýstingi ? 

"Það er vægt til orða tekið." 

Var þér hótað ?

"Það fer eftir því, hvað þið kallið hótanir, en förum aftur í tímann. Það var umsátur um Ísland, öll Norðurlönd, allar ríkisstjórnir í ESB voru á móti okkar málstað.  Vildu knýja okkur til að semja við Breta og Hollendinga.  Í stjórn AGS var því valdi Evrópuþjóðanna beitt, að við fengum ekki fyrirgreiðslu, sem við áttum rétt á, nema við beygðum okkur undir nauðasamninga við þessar þjóðir.  Jafnframt voru margir fremstu sérfræðingar og álitsgjafar þessa lands, sem sögðu, að ef ég leyfði þjóðinni að kjósa um þetta mál, væri ég að dæma Ísland til eilífrar útskúfunar úr fjármálakerfi heimsins.  Merkimiðinn Kúba norðursins varð þekkt í þeirri umræðu.  Ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn voru ekki bara á móti mér - heldur harkalega á móti mér. 

Í þessari stöðu var erfitt að taka þá ákvörðun að færa þetta vald til fólksins.  Þessi kraftur erlendra ríkja og innlendra afla var slíkur, að ég held ég geti fullyrt, að það hafi ekki nokkur maður í sögu Íslands verið beittur öðrum eins þrýstingi í nokkru máli, eins og í Icesave-málinu."

Hann segir þessa daga í lok árs 2009 og ársbyrjun 2010 erfiðustu stundir, sem hann hafi þurft að fara í gegnum. 

"Ég vona, að enginn forseti og þjóðin eigi nokkurn tímann eftir að standa frammi fyrir því; ég veit manna bezt, hvað var í húfi og hvað þetta var erfitt."

Hvernig var þessum þrýstingi beitt

"Ef þið viljið dæmi, þá settust Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, og Mogens Lykketoft, fyrrverandi forseti danska þingsins og ráðherra til margra ára, í vikulegan umræðuþátt sinn í danska sjónvarpinu, sem allur gekk út á, hvers konar fífl þessi forseti á Íslandi væri.  Rökkuðu mig niður fyrir framan danska þjóð, því að ég vildi ekki klappa upp þennan samning. 

Ég gæti talið upp fjölmörg önnur dæmi, auk þess, eins og ég hef sagt áður, að kjarninn í þeirri stuðningsmannasveit, sem bar uppi sigur minn 1996, var æf út af þessari ákvörðun.  Það hefur kostað mig það, að ýmsir af gömlum vinum mínum og stuðningsmönnum til margra ára hafa ekki talað við mig síðan.  Þannig að fórnarkostnaður forseta Íslands í ákvörðunum af þessu tagi getur líka verið persónulegur.""

Þetta er hrollvekjandi lýsing á því, sem forseta lýðveldisins getur beðið, ef hann fer gegn miklum hagsmunum innanlands eða utan og fylgir einarður sannfæringu sinni um, hvað ber að gera til að verja sem bezt hagsmuni almennings á Íslandi. 

Það er alveg áreiðanlegt, að ekki hefðu allir sýnt jafnmikið þrek á örlagastundu og Ólafur Ragnar Grímsson.  Jafnvíst er, að ekki munu allir geta fetað í fótspor hans, ef/þegar svipuð aðstaða kemur upp, en það má telja meiri líkur en minni á, að svo verði einhvern tímann aftur á fyrri hluta þessarar aldar.  Til að kanna, hvort þjóðin gæti verið að kaupa köttinn í sekknum með því að velja Guðna Th. Jóhannesson í forsetaembættið, er rétt að grípa niður í Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins 6. maí 2016:

"En þetta smámál (sagnfræði frá lýðveldisárunum - innsk. BJo) skiptir að sjálfsögðu engu um það, hvort Guðni sé upplagður sem forseti Íslands eða ekki.  En það er jafnsérkennilegt, að þetta smáræði í "settinu" sé talið réttlæta framboð til forseta (þ.e. sagnfræðiþekkingin - innsk. BJo).

Annað segir meiri sögu og kannski hana alla.  Stærstu atvik í sögu forsetaembættisins snúa að Icesave-samningunum.  Hræðsluáróður stjórnar Jóhönnu og Steingríms við atkvæðagreiðslu þjóðarinnar var magnaður.  Margir kiknuðu.  Einn af þeim var sérfræðingur "RÚV" um forsetaembættið. 

Tímaritið Grapevine segir:

"I am glad, that I am not in the Icelandic government.  I would not know, what to do, I would not know, if I should accept this agreement or not.  Guðni Thorlacius Johannesson.".

Og um fyrsta Icesave-samninginn, sem almennt er viðurkennt, að hafi verið sá vitlausasti þeirra allra, segir hann:

"We might not like the Icesave deal, but the alternative is much worse, and maybe this is the best, we or anyone else could get. Take it or leave it; that is the message we got.  I think anyone criticizing the negotiations team for being weak, is ignoring, wilfully or not, the incredibly difficult position the Icelandic authorities find themselves in."

Þarna talar maður, sem hafði kokgleypt áróðurinn og skalf af hræðslu.  Dettur nokkrum manni, sem þetta les, í hug, að Guðni hefði sem forseti staðið með þjóðinni, þegar mest lá við ?  Nei.  Er eitthvað, sem bendir til þess, að hann hafi breytzt ?

Guðni segist þakklátur fyrir að vera ekki í ríkisstjórn, sem þarf að fást við þetta stórmál.  Mega ekki Íslendingar vera mun þakklátari fyrir það, að hann var ekki á Bessastöðum þá ?

Og í marz 2010 skrifar Guðni og nú í Fréttablaðið: "Niðurstaðan er þessi: Ætli menn að halda því fram, að Íslendingar séu að reyna að sýna umheiminum fram á óréttlætið í því, að ríkisvaldið þurfi að ábyrgjast innistæður í einkareknum bönkum, verða þeir að bæta við orðum, sem gætu hljómað eitthvað á þessa leið:"það er að segja í útlöndum, en á Íslandi hljóta aðrar reglur að gilda".

Hæstiréttur hafnaði sjónarmiðum af þessu tagi sem fráleitum með dómi sínum um Neyðarlögin."

Tilvitnuð orð Guðna Th. eru til vitnis um dómgreindarleysi hans. Blekbóndi var á þessum tíma eindregið þeirrar skoðunar, og um það vitna skrif hans, sem og ýmsir löglærðir menn, sem m.a rituðu lærðar og læsilegar greinar í Morgunblaðið á þessum tíma, að það væri enginn lagagrundvöllur fyrir því, að því væri allt í einu lýst yfir fyrir hönd íslenzkra skattborgara eftir bankagjaldþrot, að þeir skyldu taka að sér að vera greiðandi krafna í þrotabúin til þrautavara, þegar innistæður í tryggingasjóðinum hrykkju ekki lengur til. 

Þar að auki væri þetta siðferðislega kolrangt.  Meirihluti þjóðarinnar reyndist vera á sömu skoðun, en téður Guðni Thorlacius var greinilega öndverðrar skoðunar.  Hann barðist þá gegn hagsmunum íslenzku þjóðarinnar og fyrir hagsmunum erlendra kröfuhafa.  Hvaða siðferðislega rétt hefur maður af þessu tagi nú, 6 árum síðar, til að biðja þá sömu þjóð, sem hann vildi reyra í skuldafjötra, um að kjósa sig í æðsta embætti þjóðarinnar ?

Nú hefur þessi sami maður, Guðni Th. Jóhannesson, bitið höfuðið af skömminni með því að halda því fram, að í þorskastríðunum hafi engar hetjudáðir unnar verið - þorskastríðin hafi verið gerð að goðsögnum. 

Þetta er svívirðilegt og móðgun við minningu þeirra fjölmörgu, sjómanna og manna í landi, sem lögðu allt í sölurnar til að Ísland fengi full yfirráð, fullveldisrétt, til að stjórna fiskveiðum í áföngum innan 3 sjómílna frá strönd, 4 sjómílna frá annesjum, 12 sjómílna, 50 sjómílna og 200 sjómílna.  Sigur í þessari baráttu er hyrningarsteinn sjálfstæðs Íslands, hvorki meira né minna.  Maður, sem gerir sig sekan um annan eins málflutning og þann, að gera lítið úr þessari langvinnu baráttu þjóðarinnar og að lokum sigri, er ekki hæfur til að gegna starfi sögukennara í grunnskóla, hvað þá til að gegna embætti forseta Íslands.

Hvers konar manngerð er það, sem tekur afstöðu gegn hagsmunum íslenzku þjóðarinnar í deilu við útlendinga um miklar fjárskuldbindingar, og gerir sér svo far um að gera lítið úr mesta afreki þjóðarinnar á síðustu öld, þar sem grunnurinn var lagður að efnalegri velferð hennar til frambúðar og að einum merkasta alþjóðasamningi seinni tíma, Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna ?

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sannarlega góð samantekt, Bjarni.

Makalaust að Guðni telji sig kjörinn í það að gegna hæsta embætti þjóðarinnar, maður sem hefur, þrátt fyrir ýmsa hæfileika, gott viðmót og kjörþokka, svona margt afspyrnu-klaufalegt og alls óviðeigandi í sarpinum!

Jón Valur Jensson, 21.5.2016 kl. 21:28

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Valur;

Ég skil alls ekki, hvernig maður, sem virðist hafa óbeit á þjóðarstolti, og leggja sig hvað eftir annað í framkróka við að tala niður gildi sögulegrar þróunar, sem leitt hafa þjóðina þangað, sem hún er núna, hefur á annað borð geð í sér til að sækjast eftir þjóðhöfðingjatign á meðal þessarar sömu þjóðar.  Mér er fyrirmunað að skilja það sálarlíf, sem stjórnar því, sem ég get ekki annað en kallað tvöfeldni í þessu sambandi.  Ég þykist vita, að sálfræðingar hafi heiti á þessu hegðunarmynztri á takteinum. 

Það á eftir að koma betur í ljós, þegar frambjóðendur leiða saman hesta sína, hvort Guðni Thorlacius sker sig úr hópi frambjóðenda að þessu leyti.  Í einum frambjóðanda heyrði ég þó í á Útvarpi sögu síðdegis í gær, sem er þarna algerlega á öndverðum meiði, og var þar Davíð Oddsson í ítarlegu viðtali, og var málflutningur hans mér mjög að skapi. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 21.5.2016 kl. 21:55

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þakka góðan pistil. Bara milli mín og þín,: þjappaðu.

Halldór Egill Guðnason, 22.5.2016 kl. 04:25

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér, Halldór Egill, ráðleggingu þína.  Knappur texti hefur marga góða kosti, en það er vandasamara að koma boðskapnum skiljanlega á framfæri þannig.  Lengd pistilsins hér að ofan er aðallega vegna merkilegra  tilvitnana, sem eiga erindi í umræðuna um frambjóðendur til forsetakjörs 2016.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 22.5.2016 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband