"Brexit" og áhrifin hérlendis

Bretar gáfu ríkisstjórn sinni bein fyrirmæli, framhjá þinginu, um að draga Bretland út úr Evrópusambandinu, ESB.  Þetta er söguleg niðurstaða harðrar kosningabaráttu, þar sem hin ráðandi öfl innan og utan Bretaveldis ráku skefjalausan áróður fyrir áframhaldandi veru Breta í ESB.  Moldviðri fáránlegs hræðsluáróðurs var beitt, þar sem reynt var að halda barnalegum þvættingi að fólki í þá veru, að viðskipti Breta, lífsafkoma og jafnvel lífshamingja mundi bíða hnekki við úrsögn, svo að ekki sé nú minnzt á stríðshættuna, sem ætti að skapast með Bretland utan ESB ! 

Ekkert slíkt mun gerast, enda hverjum væri slíkt eiginlega í hag ?  Flaggskip þýzks athafnalífs, bílaiðnaðurinn, flytur árlega út 1-2 milljónir farartækja til Bretlands.  Hann mun ekki þola Brüssel-búkrötum (embættismönnum) að setja sand í tannhjól viðskipta Þýzkalands og Bretlands, sem hafa oftast verið mikil og góð, ef undan eru skilin stríðsárin 1914-1918 og 1940-1945.  Enginn óskar nú eftir tollamúrum innan Evrópu, og þess vegna verða þeir ekki reistir.  Hins vegar gætu þeir lækkað út á við í ríkjum, sem segja sig úr Evrópusambandinu, og þau munu verða fleiri.

Búkratarnir aftur á móti munu nú reyna að skjóta öðrum aðildarþjóðum skelk í bringu, svo að enginn dirfist að fara sömu leið og Bretar.  Búkratar munu þess vegna reyna að tala við Breta með tveimur hrútshornum, en það mun allt snúast í höndunum á þeim áður en yfir lýkur, svo að Bretar munu standa eftir með pálmann í höndunum, eins og þeir hafa alltaf gert. Það er sjálfsögð lýðræðisleg krafa eftir það, sem á undan er gengið, að allar aðildarþjóðirnar geri nú stöðumat hjá sér um það, eins og Bretar, hvort þær vilja áfram halda afætunum í Brüssel uppi á skattfrjálsum ofurlaunum. 

Evrópusambandið mun líða undir lok.  Það gegnir engu hlutverki lengur, en er þjóðunum aðeins til byrði, nema þjóðum Austur-Evrópu, sem fá mikla þróunarstyrki úr sjóðum ESB.  Gömlu ríkin eru í raun ekki lengur aflögufær, og sum rekin með of miklum ríkissjóðshalla m.v. Maastrichtskilyrðin, og nýju aðildarríkin þurfa ekki lengur á þessum ölmusum að halda, enda fylgir þeim mikil spilling.  Evran í sinni núverandi mynd mun að sjálfsögðu líða undir lok, enda skortir hana hagfræðilega undirstöðu.  Undirstaðan er stjórnmálalegs eðlis.  Frakkar þvinguðu Þjóðverja til að gefa sitt sterka mark (DEM) upp á bátinn gegn því, að Frakkar féllust á endursameiningu Þýzkalands. 

Samskipti Bretlands og Íslands hófust að ráði á "ensku öldinni", 1415-1475, á Íslandi, og síðan þá hefur Ísland í raun verið á áhrifasvæði Breta í Norður-Atlantshafi og er enn, þar sem Þýzkalandi tókst ekki að knýja þá til uppgjafar árið 1940 þrátt fyrir afkróun brezka landhersins í Dunquirke og harðvítugar loftárásir á borgir Bretlands, þegar þeir brezka ríkisstjórnin með stuðningi þingsins neitaði að semja um framtíð Evrópu við sigursæla valdhafa Þriðja ríkisins. 

Nú hafa Bretar enn tekið ákvörðun, sem valda mun vatnaskilum í Evrópu, en í þetta sinn er auðvitað engin hætta á vopnuðum átökum á milli Breta og Þjóðverja´, og í raun eru það fjarstæðukenndar grillur, að Evrópusambandið varðveiti friðinn í Evrópu.  Skýringar á því, að ekki er hætta á endurtekningu stríðsupphafs 1914 og 1939, eru a.m.k. þrjár:

  1. Nú stendur lýðræði traustum fótum í Þýzkalandi, eins og í Bretlandi.  Annað ríkjanna er lýðveldi og hitt konungsveldi, "United Kingdom", stjórnskipan ríkjanna er ólík, en lýðræðið virkar í báðum löndunum.  Bæði hafa þessi lönd ætíð haft á að skipa dugandi fólki með mikla menningarhefð
  2. Brezka ríkisstjórnin hefur á að skipa kjarnorkuherafla, en sú þýzka ekki.  Bæði ríkin eru í NATO.
  3. Þýzka þjóðin eldist nú svo hratt, að hún getur ekki lengur mannað Bundeswehr, arftaka Wehrmacht og Reichswehr, heldur reiðir ríkisstjórnin í Berlín sig á NATO.  Þjóðverjum fækkar, en Bretum fjölgar, og munu þeir um miðja 21. öldina verða fleiri en Þjóðverjar, ef svo fer fram sem horfir.  Bretar munu fyrirsjáanlega taka við forystuhlutverki í Evrópu og deila þar og drottna, eins og þeir gerðu fyrir sameiningu Þýzkalands 1871 með járni og blóði að frumkvæði Prússakanzlara, Ottos von Bismarcks. 

Á Íslandi tók þýzka öldin við af hinni ensku, og börðust Þjóðverjar og Englendingar á banaspjótum á Reykjanesi syðra, Englendingar með bækistöð í Grindavík og Þjóðverjar í Hafnarfirði. Fyrsta mótmælendakirkjan var reist í Hafnarfirði af Hansakaupmönnum, og þeir kynntu siðbótina fyrstir manna fyrir Íslendingum.  Frá þessum tíma hafa viðskipti og menningarleg samskipti Íslendinga við báðar þessar merku þjóðir oftast verið góð, og þannig verður það áfram. 

Íslendingar hafa þó tekizt á við þessar þjóðir, t.d. um fiskimiðin við Ísland, einkum Breta.  Sorgarkafli kom svo í samskiptum Breta og Íslendinga 2008-2012 vegna íslenzkra banka í Lundúnum, en honum lauk með dómi EFTA-dómstólsins í janúar 2012.  Enn á þó eftir að svipta hulunni af því, hvers vegna brezka ríkisstjórnin felldi leifarnar af íslenzka bankakerfinu í október 2008 og gerði tilraun til að hrinda íslenzka ríkinu í greiðsluþrot. Þar kunna innanlandsdeilur á Bretlandi að hafa fléttazt inn, og hafi átt að kenna Skotum lexíu um það, hvernig færi fyrir fámennum sjálfstæðum þjóðum í ölduróti fjármálaheimsins. Of seint er að krefjast bóta, en afsökunarbeiðni væri við hæfi. 

Bretar eru helzta viðskiptaþjóð Íslendinga, og mikilvægi þessara viðskiptatengsla mun ekki minnka við útgöngu þeirra úr ESB; þvert á móti er líklegt, að þessi viðskipti vaxi enn, t.d. ef Bretar ganga nú í EFTA.  Mikilvægi þessa viðskiptasambands gæti orðið svo mikið, að ráðlegt þyki einhvern tímann að fasttengja ISK við GBP, eins og gert var um 1930. Spurning er nú, hvort tímabært sé fyrir Íslendinga að endurskoða aðild sína að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, ef öflugra EFTA tekst að gera öflugan viðskiptasamband við ESB.   

Fráfarandi forseti hefur tjáð sig um líklegar afleiðingar útgöngu Breta úr ESB.  Allt er þar skynsamlega mælt.  Hann telur aðildarsinna á Íslandi nú hljóta að átta sig á því, að aðildarviðræður verða ekki teknar upp að Íslands hálfu næstu 10-15 árin.  Með því að setja á þjóðaratkvæðagreiðslu um það við þessar aðstæður, eins og m.a. Samfylkingin, Viðreisn og Píratahreyfingin hafa viljað, yrðum við að athlægi um alla Evrópu að mati blekbónda.  Þess vegna er nú rökrétt að draga umsóknina formlega til baka, eins og Svisslendingar gerðu nýlega, því að hraðfara hnignunarskeið er nú hafið í Evrópusambandinu.  Það er við hæfi, að formaður Viðreisnar líki "Brexit" nánast við heimsendi.  Hann er þá einn af þeim, sem trúðu bölvaðri lygaþvælunni, sem haldið var fram fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna til að hræða Breta til fylgilags við ESB.  Messerschmitt sprengjuvélar dugðu ekki til að hræða forfeður og formæður flestra atkvæðisværra Breta nú árið 1940 til uppgjafar.  Það þarf meira en fjarstæðukenndan lygavef árið 2016.  

 EU

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband