26.7.2016 | 10:44
Hnignun Vesturlanda
Forysturíki Vesturlanda, Bandaríki Norður-Ameríku, BNA, er í úlfakreppu. Kynþættirnir eiga þar í stöðugum erjum, þar sem skotvopnum er beitt á báða bóga að hætti kúrekanna, og gríðarleg ólga er undir niðri, svo að ástandið er víða eldfimt, þó að sú sé ekki reglan. Tvímælalaust virðist vera friðsamlegra, þar sem íbúarnir eru einsleitir m.t.t. uppruna.
Þar sem meiri kynþáttaleg einsleitni ríkir, er miðstéttin hins vegar hundóánægð með sitt hlutskipti og sinn skerf af kökunni, en raunlaun miðstéttarinnar hafa litlum breytingum tekið í yfir 25 ár þrátt fyrir framleiðniaukningu og vöxt landsframleiðslu á mann. Tekju- og eignalegur ójöfnuður hefur þannig vaxið í BNA á þessu tímabili, og er það meginskýringin á vinsældum öldungsins, jafnaðarmannsins Bernie Sanders, í forkosningum demókrata og almennri þjóðfélagsóánægju í flestum ríkjum landsins, sem er ný af nálinni í "Guðs eigin landi", landi tækifæranna. Helzt að vaxandi olíu- og gasvinnsla með leirbroti ("fracking") hafi hresst upp á kjörin, þar sem hún hefur verið innleidd.
Þegar þegnarnir fá á tilfinninguna, að ekki séu allir jafnir fyrir lögunum, þá grefur um sig vantraust á yfirvöldum, og skrattinn getur losnað úr grindum. Eitt dæmi um, að ekki er sama Jón og séra Jón varð skömmu eftir þjóðhátíðardag Bandaríkjamanna 2016, er James Comey, yfirmaður alríkislögreglunnar, FBI, gerði grein fyrir rannsókn sinna manna á netþjónsmáli utanríkisráðherrans, þáverandi, Hillary Clinton, en hún lét beina öllum embættisnetpósti sínum um einkanetþjón sinn, sem þá var harðbannað af öryggisástæðum í utanríkisráðuneytinu og er enn, og jafnframt bannaði hún undirmönnum sínum að viðhafa þetta fyrirkomulag. Brot þeirra hefði framkallað tafarlausa brottvísun úr starfi og saksókn. Hvað hafði hún að fela fyrir hinum opinbera netþjóni ? Hér er einbeittur brotavilji á ferð, sem vitnar um meiri dómgreindarskort en svo, að þorandi sé að fela henni embætti forseta Bandaríkjanna, sem hún nú svo ákaft sækist eftir. Donald Trump er strigakjaftur, en hefur hann orðið uppvís að verknaði, sem vitnar um alvarlegan dómgreindarbrest ? Af tvennu illu virðist Donald vera skárri kostur í "sívölu skrifstofuna" (oval office), og líklega nær hann þangað, ef draga má ályktun af gengi beggja í kosningabaráttu.
Í 12 mínútur lýsti Comey miklum ávirðingum á hendur Hillary Clinton á blaðamannafundi, sem sannfærðu áheyrendur um, að FBI mundi kæra hana fyrir þjóðhættulegt hátterni. Comey sneri hins vegar við blaðinu, þegar 3 mínútur voru eftir af ræðunni, með þeirri haldlitlu skýringu, að hann væri ekki viss um, að gjörningurinn hefði verið "að yfirlögðu ráði". Vissi þá Hillary Clinton ekki, hvað hún var að aðhafast með þessu framferði ? Er það ekki sýnu verst, þegar meta á hæfni hennar til að gegna stöðu forseta Bandaríkjanna ?
Bandaríkjamenn hljóta nú að spyrja sig, hvort það hafi áður gerzt, að
"stórkostleg vanræksla samfara yfirgengilegu kæruleysi í umgengni við viðkvæmustu trúnaðarmál þjóðarinnar"
dygðu ekki til ákæru ? Það er augljóslega ekki sama, hver brýtur af sér í BNA, og það hlýtur að draga m.a. þann dilk á eftir sér, að almenningur snúist til varnar og kjósi andstæðinginn, þó að hann sé enginn engill sjálfur. Hætt er við, að pólitískur tilgangur Comeys snúist upp í mikinn og réttmætan æsing yfir því, að allir séu ekki jafnir fyrir lögunum. Gildir þá hið fornkveðna:
"Ef vér slítum í sundur lögin, þá munum vér og friðinn í sundur slíta".
Í Evrópu er fíll í stofunni, sem heitir Evrópusamband, ESB. Fyrirbrigðið verður sífellt óvinsælla í aðildarlöndunum, einkum í kjarnaríkjunum, sem tekið hafa upp evru, því að myntinni er kennt um efnahagslega stöðnun, skuldasöfnun og geigvænlegt atvinnuleysi, einkum á meðal fólks undir þrítugu. Almenningur hefur um hríð tortryggt búra í Brüssel á skattfríum háum launum, sem þurfa ekki að standa kjósendum reikningsskap gjörða sinna og unga út íþyngjandi tilskipunum og reglugerðum og virðast vinna umboðslaust að myndum Sambandsríkis Evrópu, sem á lítinn hljómgrunn á meðal aðildarþjóðanna. Evrópusambandið hefur þannig verið á lestarspori, sem almenningur samsamar ekki sínum hagsmunum. Þetta veldur einnig vaxandi tortryggni almennings í garð ráðandi afla í eigin löndum, sem vinna með Brüssel. Þann 23. júní 2016 fékk almenningur í Bretlandi útrás fyrir óánægju sína og sagði þinginu, þar sem meirihlutinn er samdauna ráðandi öflum í Brüssel, fyrir verkum um að draga Bretland út úr öngþveiti meginlandsins og að taka þess í stað stjórn landsins í eigin hendur, þ.á.m. stjórn á umferð um landamærin.
Mesti ótti forkólfa ESB stafar nú ekki af Rússum, sem þó stunda vopnaskak aðallega til innanhússbrúks, heldur af fordæminu, sem Brexit, útganga Bretlands úr ESB, gefur hinum aðildarþjóðunum. Frakkar og Hollendingar höfnuðu á sinni tíð stjórnarskrá ESB, sem kennd var við franska aðalsmanninn Giscard d´Estaing og átti að varða veginn til eins ríkis. Henni var þá lítillega hnikað til og skírð "Lissabon-sáttmálinn". Hálfkák af þessu tagi og sniðganga meirihlutaviljans mun á endanum verða ESB og sameiningarhugsjóninni dýrkeypt.
Það mun líklega verða krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu í þessum tveimur löndum og víðar um aðildina að ESB að fengnu fordæminu frá Bretlandi. Verði slík atkvæðagreiðsla haldin í þessum löndum, eru meiri líkur en minni á, að "Frexit" og "Nexit" verði samþykkt; svo mikið er vantraustið í garð "elítunnar" - hinna ríkjandi afla á stjórnmála- og fjármálasviði. Kann nú leið Marie le Pen til búsforráða í Elysée-höllinni í París að verða greiðari en verið hefur. Stjórnleysingjar og nýkommar Evrópu mega þá snapa gams.
Svipaða sögu má segja af norðurvængnum, Danmörku, Svíþjóð, og jafnvel Finnlandi, og af suðurvængnum, Kýpur, Grikklandi og Ítalíu. Á Ítalíu hefur enginn hagvöxtur verið í einn áratug, skuldastaða ríkisins er þung (130 % af VLF) og bankakreppa er þar yfirvofandi eftir álagspróf evrubankans í haust. Eina úrræði margra aðildarlandanna er að losa sig við helsið, sem fólgið er í evrunni, jafnvel þótt hún hafi fallið um 10 % gagnvart bandaríkjadal á 2 árum.
Á Íslandi á það einnig við, að almenningur ber takmarkað traust til löggjafarsamkomunnar og stjórnmálamanna og kaupsýslumanna almennt. Íslenzkir stjórnmálamenn voru þó ekki valdir að hruni fjármálakerfisins, heldur fylgdu framan af reglum EES, en þeir tóku þó þveröfugan pól í hæðina 2008, gegn vilja ESB, varðandi endurreisn fjármálastofnana miðað við erlenda stjórnmálamenn, því að í október 2008 samþykkti Alþingi s.k. Neyðarlög, sem björguðu þjóðinni undan þeirri kvöð að ábyrgjast skuldir bankanna, en ríkistryggðu hins vegar innlendar bankainnistæður. Má þakka þessum gjörningi hraðari viðsnúning hérlendis en erlendis eftir fjármálakreppuna 2007-2008, sem hefði verið óhugsandi með landið innan vébanda ESB.
Valdhafarnir í vinstri stjórninni 2009-2013 létu reyndar síðan brezka og hollenzka stjórnmálamenn svínbeygja sig og kúga til að semja samt sem áður um, að íslenzka ríkið gengist í ábyrgð fyrir skuldir íslenzkra banka í þessum löndum. Þetta var ófyrirgefanleg eftirgjöf óþjóðlegra afla til að þóknast lánadrottnum og búrum í Brüssel, en þjóðin hafnaði í tvígang, og eftir situr vantraust almennings. Vinstri stjórnin ætlaði með þessum risaskuldbindingum ríkisins að greiða leið landsins inn í ESB. Það var bæði óþjóðholl og heimskuleg ákvörðun, því að stækkunarstjóri ESB hefði ekki verið í neinum færum til að veita Íslandi afslátt af sáttmálum ESB. Allt, sem Alþingi hefði upp skorið með þessum gerningi, hefði verið stórfelld og langdregin kjaraskerðing almennings á Íslandi. Hrikalegt dómgreindarleysi fylgjenda forræðishyggju og sameignarstefnu í hnotskurn.
Nú síðast hafa uppljóstranir í s.k. Panamaskjölum um geymslu fjár í skattaskjólum orðið tilefni vantrausts almennings í garð stjórnmála- og kaupsýslustéttarinnar. Enn sýndi vinstri stjórnun þýlindi sitt í garð fésýsluaflanna með því að stytta verulega fyrningartíma fjármálaflutninga í skattaskjól fyrir gjaldþrot. Þá setti nú skrattinn upp á sér skottið, þegar Katrín Jakobsdóttir kvað sér og sínum pótintátum bezt treystandi til að fást við skattaskjólin. Það er nú líka betra að hafa eitthvert fjármálavit með í för, þegar leggja á til atlögu við skattaskjólin. Annars verður sú barátta hálfkák eitt, eins og allur hennar ráðherraferill reyndist. Stjórnleysingjum og nýkommum er í engu treystandi.
Hins vegar er allt annað uppi á teninginum í efnahagsmálum Íslendinga nú en allra annarra ríkja Evrópu og reyndar víðast hvar um heiminn. Stöðnun hefur ríkt í Evrópu og víðast hvar annars staðar síðan 2008, en síðan 2011 hefur verið hér þokkalegur hagvöxtur og rífandi gangur síðan 2013, eins og hér verður tíundað. Hið merkilega er, að þrátt fyrir 11 % kaupmáttaraukningu undanfarið ár hefur verðbólgu hérlendis verið haldið í skefjum, þó að Seðlabankinn hafi gert sitt til að auka verðbólguvæntingar með allt of háum verðbólguspám. Þjóðhagslíkön bankans eru meingölluð.
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) spáir því, að árið 2016 verði 4,9 % hagvöxtur hérlendis, sem yrði mesti hagvöxtur síðan 2007, er hann var 9,5 %. Í endurskoðaðri þjóðhagsspá hagdeildar ASÍ, sem birt var 3. maí 2016, segir, að ferðaþjónustan, aukin einkaneyzla og fjárfesting, muni drífa hagvöxtinn áfram næstu ár. Traustar undirstöður sjávarútvegs og iðnaðar, gríðarleg fjölgun erlendra ferðamanna og traust efnahagsstjórn hafa framkallað núverandi velmegun. Á að tefla þessu öllu í tvísýnu með því að kasta perlu fyrir svín og kjósa hér glópa til valda ?
Seðlabankinn hefur það lögbundna hlutverk m.a. að halda verðbólgunni undir 2,5 %/ár, og hefur það tekizt síðan í febrúar 2014, eða í 30 mánuði, þótt í fyrra hafi verið samið um almennar 30 % launahækkanir á vinnumarkaði. Í fyrra jókst líka einkaneyzlan um 4,8 %, og í ár spáir ASÍ 6,0 % vexti einkaneyzlu, sem þýðir að hún nær methæðum ársins 2007. Hagfræðingar ASÍ skrifa:
"Aukin neyzla heimilanna á rætur að rekja til jákvæðrar þróunar efnahgslífsins, þar sem m.a. aukinn kaupmáttur, meiri væntingar, efnahagslegur stöðugleiki og fjölgun starfa hafa gefið heimilum rými til að auka neyzlu sína. Þetta er ólíkt þróuninni fyrir hrun að því leyti, að skuldastaða heimilanna hefur hingað til farið batnandi m.a. vegna skuldalækkunar stjórnvalda og nýtingar séreignarsparnaðar til niðurgreiðslu húsnæðislána."
Samanburður á þessari lýsingu á efnahagsstöðu Íslendinga og t.d. efnahagsstöðunni í ESB-löndunum sýnir svart á hvítu, hvers virði sjálfstæði landsins er, og hversu hárrétt stefna það er hjá núverandi stjórnvöldum landsins að leita ekki inngöngu í ESB.
Þeim mun hlálegra er, að nýstofnaður stjórnmálaflokkur, Viðreisn, hefur það á sinni stefnuskrá að leita inngöngu í þennan klúbb fyrir landsins hönd og leiða "samningaviðræður" til lykta. Það mun koma í ljós nú á næstu mánuðum, hvernig þróun ESB verður eftir Brexit, og hvers konar aukaaðildarkjör, ef nokkur, Bretum munu bjóðast, en af ummælum forystumanna ESB hingað til má ráða, að aðeins sé hægt að vera í ESB og lúta sáttmálum þess í einu og öllu eða að vera utan við. Þetta er í samræmi við það, sem andstæðingar aðildarumsóknar hafa ætíð haldið fram.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjármál, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Sæll Bjarni,
Ég held það sé einhver misskilningur hérna. FBI fann enga ástæðu til að ákæra Hillary. Það var aftur á móti nefnd, sem var skipuð af Repúblikönum sem gerði "rannsóknina" á bæði póstþjóns málinu og Bengazi málinu. Hún komst, engum að óvörum, að Hillary væri sek um alla hluti. Eftir því sem fréttir hér herma, þá hefur þetta fyrirkomulag verið við lýði síðan Colin Powell var ráðherra.
Ég held að hvorki Hillary eða Trump hafi nokkurn skapaðann hlut að gera í Hvíta Húsið og margir Bandaríkjamenn eru sama sinnis. Trump er gersamlega óútreiknanlegur, hefur lítið vit á neinu fyrir utan Bandaríkin og hefur lítinn stuðning nema auðvitað frá gamla kommanum í Kreml, Vladimir Putin og svo frá kammertatinum í Norður Kóreu. Mér líst illa á þann félagsskap svo ekki sé meira sagt!
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 26.7.2016 kl. 22:56
Sæll.
Eru þetta ekki BA ? Bandaríki Ameríku ? United states of America kalla þau sig sjálf ? Er ástæða til að við bætum þessu við þegar þeir telja sig fullsæmda bandaríkjamenn sjálfir (ekki norðurbandaríkjamenn taktu eftir) af nafni sínu ?
Just saying......
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 27.7.2016 kl. 03:37
Sæll, Arnór;
Samkvæmt James Comey, yfirmanni FBI, kom fram í rannsókn FBI á netþjónsmáli Hillary Clinton, að hún hafði sýnt af sér stórfellda vanrækslu samfara yfirgengilegu kæruleysi í umgengni við trúnaðargögn alríkisins. Við venjulegar aðstæður dugar slíkt til ákæru að hálfu FBI, en Comey sneri við blaðinu á furðulegum forsendum, og það er þetta sem er gagnrýnisefnið á meðal almennings í Bandaríkjunum, því að nú blasir við, að ekki eru allir jafnir fyrir lögunum, heldur nýtur Hillary Rodham sérmeðhöndlunar að hálfu öryggisyfirvalda. Yfir þessu eru margir fokreiðir, og þetta verður vatn á myllu Donalds Trump og repúblikana í næstu kosningum.
Bjarni Jónsson, 27.7.2016 kl. 17:23
Predikari;
Þetta er rétt ábending. "Íslandsmann" hefur bætt norðureinkunninni við, kannski bara til að hafa 3 stafi til samræmis við USA, en væri þá ekki betra að skammstafa með BRA ?
Bjarni Jónsson, 27.7.2016 kl. 17:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.