Misheppnuð uppboðshugmynd

Hér er frétt frá Færeyjum, en Færeyingar hafa staðið í dýrkeyptri tilraunastarfsemi með fiskveiðistjórnunarkerfi sitt.  Þeir reyndu sóknarmarkskerfi um hríð, en það leiddi til ofveiði og mikils útgerðarkostnaðar, auk þess sem viðskiptavinir sátu alloft á hakanum vegna ójafns frálags útgerðanna.

Nú hafa Færeyingar farið inn á nýja braut í þessum efnum að sögn Torheðins J. Jensens á www.vp.fo.  Öll varnaðarorð hérlendra manna og gagnrýni á hugmyndir um s.k. "uppboðsleið" fyrir aflaheimildir hafa rætzt samkvæmt frásögn Torheðins. 

Fjársterkir aðilar hirtu aflaheimildirnar á uppboðunum, og þau reyndust "hraðbraut" fyrir erlent auðvald inn í færeyska sjávarútveginn.  Engin nýliðun átti sér stað, því að þeir, sem hrepptu aflaheimildirnar, stunda allir fiskveiðar nú þegar á grundvelli eigin aflaheimilda. 

Hér er tilvitnun í Torheðin:

"Það, að þetta mikla söluandvirði [3,65 DKK/kg af makríl - innsk. BJo] endi allt í ríkiskassanum, verður aðeins staðreynd í skamman tíma, því að þegar þeir fjársterkustu hafa sigrazt á veikari félögunum, hverfur uppboðsverðið aftur niður í lægri fjárhæðir, því að enginn verður til að bjóða á móti."

Þetta er ógeðslegt kerfi spákaupmennsku, og færeyska ríkið mun ekki ríða feitu hrossi frá þessum viðskiptum, því að það fær ekki tekjuskatt af þeim erlendu fyrirtækjum, sem hrepptu hnossið, og vinnan við aflann kann að flytjast frá Færeyjum í einhverjum mæli.  Frá sjónarmiði fjölbreytilegs og sjálfbærs sjávarútvegs og frá langtímasjónarmiðum um tekjur hins opinbera af auðlindinni, sem koma víða að, ef allt er með felldu, þá er þetta dauðadæmt fyrirkomulag.

Uppgjör útgerðar, sem keypti aflahlutdeild á téðu makrílsuppboði, lítur þannig út, samkvæmt Torheðni:

  • Sölutekjur skips:   6,50 DKK/kg (116 ISK/kg)
  • Kvótakaup:          3,65 DKK/kg = 56 % af söluverði
  • Laun:               1,95 DKK/kg = 30 %
  • Olía:               0,25 DKK/kg =  4 %
  • Rek.,afsk.,o.a.     0,65 DKK/kg = 10 %

Síðasti liðurinn í þessu tekju- og kostnaðaryfirliti gefur til kynna mikið tap á rekstrinum, sem helgast af því, að til kvótakaupanna fer a.m.k. tíföld sú upphæð, sem nokkur glóra er í.  Lítil útgerð, sem þannig mundi haga sér, færi strax á hausinn.  Eins og Torheðinn segir, munu hákarlarnir strax lækka sig, þegar þeir hafa drepið af sér samkeppnina.  Þess konar hugmyndafræði á engan rétt á sér í íslenzkan sjávarútveg né annars staðar.  Þessi tilraunastarfsemi var óþörf og skaðleg, en fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu. 

 


mbl.is Vonir landsstjórnar brugðust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þetta er allt gott hjá þér.

Fjárfestarnir á Íslandi náðu til dæmis einhverjum sölufélögum í sjávarútvegi,

og seldu til hæstbjóðanda í útlandinu.

Þú segir, "þetta er ógeðslegt kerfi spákaupmennsku."

Það er rétt.

Fjárfestirinn selur allt.

Naglfestum allt á Íslandi og tryggjum það fyrir fjárfestum.

Fjármagn, er aðeins bókhald.

Við erum alls ekki á móti hugkvæmni og nýjungum, frá einstaklingum.

Við ætlum áfram að fá raforkuna, hitaveituna, íbúðarhúsin og allt sem við þurfum, á kostnaðarverði,

og alls ekki greiða fjárfestum eitt eða neitt fyrir svindl búkhald.

Bið þig vel að lifa,.

Þetta eru góð skrif.

 

Egilsstaðir, 03.08.2016  Jónas Gunnlaugsson

 

Jónas Gunnlaugsson, 3.8.2016 kl. 12:33

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónas;

Heyrt hef ég, að a.m.k. ein íslenzk útgerð hafi verið í hópi bjóðenda, sem aflahlutdeildir hrepptu, en hverju eru Færeyingar bættari með það ?

Stjórnmálamenn á Íslandi ættu að hafa nóg annað fyrir stafni en að eyða fé og orku í tilraunir til að krukka í atvinnustarfsemi, sem vel gengur og skilar meiru í þjóðarbúið en aðrar greinar, ferðamennskan meðtalin, þótt þar sé hærri heildarvelta að farmiðunum meðtöldum. 

Góð kveðja austur á Héraðið, þar sem oft hefur viðrað betur en nú.

Bjarni Jónsson, 3.8.2016 kl. 13:28

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Að sjálfsögðu sást þú, Bjarni, fljótt í gegnum þetta fráleita fyrirkomulag.

Svo gildir þetta ekki nema um mjög takmarkaðar veiðar Færeyinga.

Það heldur samt ekki aftur af Rúvurum að slá þessu upp sem guðspjalli sínu!

Jón Valur Jensson, 3.8.2016 kl. 13:38

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, Jón Valur, ég geri ráð fyrir, að samkeppnisreglur ESB ákvarði, að slíkt uppboð verði að vera opið á öllu EES svæðinu, og þá munu fjársterkir aðilar þar, jafnvel spákaupmenn, bjóða hæst og sanka að sér veiðiheimildum eða leigja út.  Þetta er mjög óheilbrigt kerfi út frá sjónarmiðum beztu umgengni við sjávarauðlindarnar, langtíma viðskiptasamböndum og hámörkun afurðaverðs, sem útheimta stöðugleika.  Það er hægt að sjá fyrir sér mikinn tilflutning á vinnslu aflans, sem eyðileggur atvinnuöryggið.  Nú fara hagsmunir veiða, vinnslu og launafólks í hérlendis saman að því leyti, að stöðugleikinn er allra hagur.  Ég fæ ekki betur séð en þessi "uppboðsleið" sé eins ómannúðleg og hugsazt getur.  Hún girðir fyrir nýliðun, útgerðir, sem missa kvóta, fara á hausinn, vinna í landi verður ófyrirsjáanleg.  Hækkun ríkistekna, sem af þessu leiðir, verður aðeins tímabundin, eins og Torheðinn bendir á, og stjórnmálamenn gætu "setið með skeggið í póstkassanum" með hækkun atvinnuleysisbóta og áköll um aukningu byggðakvóta.  Tilraunir af þessu tagi eru glapræði. 

Bjarni Jónsson, 3.8.2016 kl. 17:27

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

En þetta voru líka mjög litlir kvótar og þorsktonnin öll í Barentshafinu, ekki satt?

Jón Valur Jensson, 3.8.2016 kl. 18:46

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta voru nokkur þúsund tonn, sem Færeyingar höfðu aflað sér með skiptisamningum; já, gott ef þeir voru ekki við Rússa, sem þeir eiga í ótrufluðum viðskiptum við, ólíkt okkur Íslendingum og Norðmönnum.  Það var að mínu mati á misskilningi byggt, að Íslendingar voru aðilar að viðskiptabanni á Rússa á vörum, sem við framleiðum ekki og seljum ekki.  Við gátum lýst andstöðu við útþenslustefnu Rússa án þess að setja á þá viðskiptabann, sem enga þýðingu hafði. 

Þú minntist á RÚV-ara.  Aðall blaðamanns er að segja lipurlega frá og gæta hlutlægni í hvívetna.  Lesandi eða hlustandi á ekki að geta greint skoðanir blaðamanns á viðfangsefninu.  Höfundar fornsagna okkar kunnu þetta, en of oft glittir í skoðun RÚV-ara.  Vonandi færist faglegur metnaður þeirra til betri vegar.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 3.8.2016 kl. 21:40

7 Smámynd: Rauða Ljónið

http://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2177545/

Rauða Ljónið, 3.8.2016 kl. 23:46

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Afhverju er verður það ,,hraðbraut fyrir erlent auðvald"?  Er þá verið að hugsa um að Samherjamenn kaupi upp allan kvotann í Færeyjum eða?

Ómar Bjarki Kristjánsson, 4.8.2016 kl. 09:13

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ómar Bjarki;

Í fréttinni frá Færeyjum, sem er tilefni bloggsins, er haft eftir Torheðni J. Jensen um niðurstöðu uppboðs á nokkur þúsund tonnum af veiðiheimildum makríls: "Þetta ber boð um það, sem áður hefur verið sagt, að í uppboðinu felast aðeins opnar dyr, ein hraðbraut, fyrir erlenda fjárfesta inn í sjávarútveginn".  Þetta eru varnaðarorð hans um, hvaða örlög geta beðið færeyskra útgerða, þegar afnotaréttur þeirra af fiskveiðiauðlindinni hverfur til Landsstjórnarinnar innan skamms, samkvæmt reglum þar í landi, ef Landsstjórnin mun þá fara "uppboðsleiðina".  Samherji er í raun fjölþjóðlegt fyrirtæki með starfsemi á ýmsum erlendum miðum og "opnu hafi", en með höfuðstöðvar á Íslandi.  Samsteypan fellur vafalaust undir "erlenda fjárfesta" í huga Torheðins.

Bjarni Jónsson, 4.8.2016 kl. 10:28

10 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þú ert þarfur þínum húsbændum Bjarni eins og fyrri daginn.
En hefur þér aldrei dottið í hug að fella út úr sjálfslýsingunni þetta sem snýr að einstaklingsfrelsinu?
Það er ekki einstaklingsfrelsinu fyrir að fara hjá sjálfstæðismönnum þegar kemur að útgerð.

Árni Gunnarsson, 4.8.2016 kl. 12:22

11 Smámynd: Bjarni Jónsson

Árni, þú gengst nú óþarflega upp í þinni sjálfslýsingu, þar sem "fer aldraður öryrki, fúll í skapi og sjaldan umtalsfrómur".  Samkvæmt þessu mætti ætla, að þú lítir aldrei glaðan dag.  Ef ég væri jafnfullyrðingasamur og þú hér að ofan, mundi ég fullyrða, að svo sé.  Dylgjur um skrif fyrir húsbændur eða hjú eru ósmekkleg, en hæfa þér og þinni sjálfslýsingu einkar vel.  Það er hverju mannsbarni ljóst, að kaupa þarf eða leigja kvóta til að geta farið að gera út.  Það er eðli markaðsstýrðrar sóknar í takmarkaða auðlind, en það er hins vegar engin rentusækni í íslenzkum sjávarútvegi, eins og víðast hvar annars staðar, og þú gerir þér vonandi grein fyrir, hvað það merkir.

Bjarni Jónsson, 4.8.2016 kl. 18:16

12 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Bjarni, það er margbúið að koma fram, að Torheðinn J. Jensen er fjármálastjóri stærsta sjávarútvegsfyrirtækis  í Færeyjum, sem eingöngu er í eigu Færeyinga, er því með öllu hlutdrægur í sínum málflutningi. Síðan er kerfið í Færeyjum miklu opnara fyrir erlendri eigu í sjávarútvegi en á Íslandi, sem skiptir höfuðmáli. Á Íslandi er leikur einn að bjóða út kvótann á 3ja mánaða eða hámark 6 mánaða fresti, og allann fisk á markað þar sem leigugjald er greitt við sölu.Þannig losnar fólk við áþján bankana, tekur tíma en borgar sig margfallt á endanum fyrir allt land og þjóð.

Jónas Ómar Snorrason, 4.8.2016 kl. 21:26

13 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónas Ómar Snorrason;

Það er ómálefnalegt af þér að reyna að gera málflutning Torheðins tortryggilegan á grundvelli þess starfs, sem hann gegnir.  Þér væri nær að setja fram haldbær mótrök gegn málflutningi hans.  Þú virðist telja, að útlendingar megi ekki taka þátt í uppboðum á veiðiheimildum hérlendis.  Þá virðist þú gleyma því, að Ísland er í EES, og þar með gilda reglur og tilskipanir ESB um frjálsa samkeppni, og að óheimilt er að mismuna í útboðum eftir þjóðerni.  Ef einhverri þjóðanna á Innri markaði EES dytti í hug að kæra slíka mismunun fyrir ESA og málið fer fyrir EFTA-dómstólinn, þá sé ég ekki, að landslög hér séu nein viðspyrna í þessum efnum.  Það er barnalegt að ætla að fækka skavönkum uppboðsleiðarinnar með því að stytta gildistíma veiðiheimildanna.  Eins og Torheðinn segir, er eftir sem áður ekkert, sem hindrar hina fjársterkustu í að bjóða hæst á meðan þeir eru að bíta af sér samkeppnina, og þá munu tilboðin lækka í verði.  Hverju erum við þá nær ?  Til lengdar mun enginn útgerðarmaður nenna að gera út upp á þau býti að vera "leiguliði ríkisins", enda mun fjármagn í greininni þurrkast upp, ef engin arðsemi er af starfseminni eða mun lægri en annars staðar.  Allar eru þessar bollaleggingar um að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu hérlendis og "fara uppboðsleið" bara skrifborðsæfingar án tengsla við raunveruleikann.  Það hefur ekki verið sýnt fram á, að "uppboðsleið" sé þjóðhagslega hagkvæmari en afnotaréttur aflahlutdeilda, sem sé óheftur að hálfu hins opinbera af öðru en ákvörðun ráðherra á grundvelli vísindalegu beztu ráðgjafar um aflamark í hverri tegund. 

Bjarni Jónsson, 5.8.2016 kl. 13:30

14 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ekki bætirðu við hæð þína með því að snúa orðum mínum upp á mig Bjarni minn góður.Þetta gera börnin á leikskólunum en ég er viss um að þú ert búinn mað þinn kvóta þar.
Þú hefur ekkert til þessara mála að leggja annað en blaður frá útgerðardindlunum og svo auðvitað snúningaliðinu sem þeir hafa komið sér upp inni á Alþingi og í Háskólanum.
Þú talar um sóknarmarkskerfið sem Færeyingar hafi "reynt um hríð" en það hafi leitt til ofveiði og mikils úthaldskostnaðar.

Hvað ætli þú vitir um ofveiði í Færeyjum eða ofveiði yfirleitt?

Nú geri ég ráð fyrir því að innan ekki margra vikna verði reynt að boða enn einu sinni til opins rökræðufundar um stjórn fiskveiða.

Það hlýtur að verða þér mikið fagnaðarefni svo bólginn af þekkingu á fiskveiðum og ekki síst ofveiðinni ægilegu - að fá þá tækifæri til að reka okkur á gat sem höfum haft aðrar skoðanir. 
En það er eitt helsta einkenni þeirra sem EKKERT vita um jafnvægi lífríkis og viðgang fiskistofna í sjó að hrópa OFVEIÐI ef minna fiskast í dag en í gær.
Færeyingar prófuðu íslenska aflamarkskerfið í tvö ár og voru þá búnir að fá nóg.

Árni Gunnarsson, 5.8.2016 kl. 22:59

15 Smámynd: Steindór Sigurðsson

Bjarni það þarf ekki á hafa áhyggjur af litlu útgrðunum á Íslandi, núverandi kvótakerfi er búið að ganga endanlega frá henni. Hún er ekki til í dag. Þannig að í dag er þetta bara spurning um hvort arðurinn af auðlindinni renni í örfáa einkavasa eins og nú er eða hvort ríkið fái smávegis líka. Annað var það nú ekki.

Steindór Sigurðsson, 6.8.2016 kl. 00:00

16 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Steindór;

Mér þykir gæta ábyrgðarleysis í þeim orðum þínum, að ekki þurfi að "hafa áhyggjur af litlu útgerðunum á Íslandi", því að "núverandi kvótakerfi er búið að ganga endanlega frá henni".  Það var ætlunin með kvótakerfinu á sinni tíð að fækka veiðiskipum og útgerðum, því að öðru vísi var ekki unnt að koma fjárhag sjávarútvegsins á réttan kjöl.  Samt var fjöldi fyrirtækja, sem fékk úthlutað aflahlutdeild í þorski á fiskveiðiárinu 2014/2015 408.  Þeim hafði þá fækkað um 371 eða 48 % frá fiskveiðiárinu 2003/2004.   Hins vegar greiddu 1128 fyrirtæki á 83 stöðum á landinu 9,2 miakr í veiðigjöld fiskveiðiárið 2013/2014.  Þetta er dálaglegur fjöldi, sem rík ástæða er til að hafa áhyggjur af, verði uppboðsleið aflahlutdeilda farin.  Verði uppboðið eitthvað annað en sýndarmennska, er ég hræddur um, að fækkun þessara fyrirtækja gæti numið 90 %.  Þú hefur hins vegar áhyggjur af arðinum.  Ef ríkið ætlar að hirða arðinn úr þessari grein, eins og dæmið frá Færeyjum sýnir, a.m.k. tímabundið, þá mun strax verða fjármagnsflótti úr greininni og hún grotna niður.  Hver nennir að gera út sem leiguliði ríkisins ?

Bjarni Jónsson, 6.8.2016 kl. 13:17

17 Smámynd: Bjarni Jónsson

Árni Gunnarsson: það er ömurleg árátta hjá þér að reyna stöðugt að gera lítið úr öllum, sem eru á öndverðum meiði við þínar skoðanir.  Nú velur þú leikskólana sem einhvors konar viðmiðun um lítinn þroska.  Ég mótmæli þessum ömurlega málflutningi þínum harðlega.  Framtíð Íslands er á leikskólunum, og þar fer fram merkilegt starf, sem þú gætir kannski lært eitthvað af.  Þú ættir að geta bætt við þekkingu í sarpinn, því að af skrifum þínum að dæma ert þú, frómt frá sagt, það sem kalla má þekkingarlega eyðimörk, og ég skil ekki, hvaða erindi þú telur þig hafa á opinberan umræðuvettvang með þennan málflutning.  Segja má um þig, það sem frægur menntaskólakennari sagði við einn nemanda sinn, sem var einstaklega illa að sér og svaraði ekki spurningum kennarans: "G, þú hefur einstaklega mikið til að vera hlédrægur út af".   

Bjarni Jónsson, 6.8.2016 kl. 13:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband