Ófullnægjandi mengunarvarnir

Þegar ófullnægjandi mengunarvarnir ber á góma, er yfirleitt mest gert úr meintri vanrækslu einkafyrirtækja.  Yfirvöldin eru þá oftast með svipuna á lofti, þó að eftirlitinu sé oftar en ekki ábótavant. 

Þegar opinber fyrirtæki eða sveitarfélög eiga í hlut, virðist tekið á þeim með silkihönzkum.  Undanfarið hafa frárennslismál, t.d. við Mývatn, verið í brennidepli.  Lengi hefur verið vitað, að fráveitumálum vítt og breitt um landið væri ekki skipap sem skyldi, og síubúnaður í stórum dælustöðvum væri allt of grófgerður. 

Þann 29.ágúst 2016 birtist skelfileg frétt Jóns Birgis Eiríkssonar í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Engar hömlur á losun örplasts:

Það hefur lengi verið vitað, að skólphreinsistöðvar á Íslandi standa ekki undir nafni.  Seyran er að vísu skilin frá víðast hvar, en annars eru s.k. "skólphreinsistöðvar" nánast einvörðungu dælustöðvar til að dæla skólpinu út fyrir stórstraumsfjöru.  Þetta er nauðsynlegt, en fjarri því að vera nægjanlegt.  Borizt hafa tíðindi af gríðarlegri mengun hafsins með plastefnum.  Plastið brotnar niður með tímanum og getur þá endað í lífkeðjunni, þar sem maðurinn trónir efstur.  Hér er um afar óeðlileg aðskotaefni í frumum lífvera að ræða, sem haft geta alvarleg áhrif á lífshlaup þeirra og lífsgæði.  Íslenzk matvælaframleiðsla gerir út á hreinleika afurðanna, og þess vegna sætir furðu, að íslenzk mengunarvarnayfirvöld skuli hafa sofið á verðinum með þeim afleiðingum, að "skólphreinsun" hérlendis er undirmálsgrein, hvað gæði varðar, eins og hér verður rakið. 

Hryllilegt er, að síun hérlendis er aðeins um 2 % af því, sem tíðkast á Norðurlöndunum. Þetta er reginhneyksli. Eftirlitsaðilinn hagar sér eins og jólasveinn, sem er að koma til byggða.  Hrönn Jörundsdóttir, verkefnastjóri hjá MATÍS, upplýsti í téðu viðtali við Jón Birgi Eiríksson:

"Við skoðuðum skólphreinsistöðvar, og tókum annars vegar [fyrir] Klettagarðsstöðina og [hins vegar] skólphreinsistöðina í Hafnarfirði [í Straumsvík].  Það, sem við sáum og kom okkur raunar ekki á óvart, var, að eina hreinsunin, sem er framkvæmd á þessum stöðum, er grófsíun.  Þegar maður er að skoða agnir, sem eru minni en millimetri og niður í hundrað míkrómetra [hvað þá 10 míkrómetra, sem þyrfti að vera, ef vel á að vera - innsk. BJo], sjáum við, að stöðvarnar eru ekki að stöðva þessar agnir.  Þær fara í gegnum stöðina og út í umhverfið."

Eftirlitið tiplar á tánum, eins og köttur í kringum heitan graut.  Það kemur ekki fram, hvort íslenzkar reglur eru þarna brotnar, eða hvort þetta væri aðeins "nice to have".  Þetta sleifarleg yfirvalda, veitufyrirtækja og eftirlitsaðila, er með öllu óviðunandi, af því að öragnirnar smjúga í gegnum þarmaveggina, fara út í blóðrásina, og geta hafnað, hvar sem er í líkamanum og valdið heilsuleysi og fjörtjóni.

Þess vegna hafa frændur okkar á Norðurlöndunum staðið mun fagmannlegar að skólphreinsun en hérlendis tíðkast, enn sem komið er.   Að sögn Hrannar geta stærstu skólphreinsistöðvarnar í Svíþjóð fangað yfir 99 % af téðum ögnum, og sleppir stærsta stöðin aðeins út um 120 þúsund ögnum á klukkustund, og sú stærsta í Finnlandi sleppir út tæplega 500 þúsund ögnum á klst. 

Til samanburðar sleppir skólpdælustöðin í Klettagörðum yfir 6 milljón ögnum á klst.  Þarna munur "faktor 50" í hreinsivirkni íslenzku stöðinni í óhag, og við svo búið má ekki standa. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum í hug að láta þetta mál bara dankast ?

Ef Reykjavík væri stjórnað af myndarbrag með hagsmuni almennings að leiðarljósi, þá væri borgin fyrir löngu búin að gefa fyrirtæki sínu, OR, fyrirmæli um að hreinsa af sér þennan smánarblett.  Vinstra moðverkið í borgarstjórn snýst hins vegar aðeins í kringum allt of margar silkihúfur, sem hver hefur sitt gæluverkefni, og öll orkan fer í rifrildi um forgangsröðun þessara skrýtnu gæluverkefna. 

Hvers vegna gera eftirlitsaðilar mengunarmála jafnlítið úr sér og þessi lýsing gefur til kynna í stað þess að setja Veitum og öllum öðrum, sem undir þessa sök eru seldir, stólinn fyrir dyrnar með kröfu um tímasettar úrbætur að viðlögðum dagsektum. 

Er það þannig, að opinberum fyrirtækjum er liðið að þverbrjóta reglur, eða eru kröfur yfirvalda hérlendis ósambærilegar við það, sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum ?  Hvort tveggja er grafalvarlegt


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Það er margt til í þessu en er ekki lausnin fólgin í því að koma í veg fyrir að fólk eti plast. Án gríns, hvernig kemst þetta plast í skólpið? Skólp á að vera aðskilið öðru frárennsli.

Hitt er síðan kannski aðal málið; er ekki þá réttast að banna neytendaumbúðir úr plasti og láta plastnotkunina eingöngu fara fram hjá þeim sem flokkast sem framleiðslufyrirtæki eða "bulk processor". Engin leið að stjórna milljörðum, einfaldara að stjórna fáum og miklu ódýrara.

Sindri Karl Sigurðsson, 7.9.2016 kl. 17:51

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta eru áhugaverðar spurningar, Sindri Karl;

Það er gríðarmagn af plastefnum í umferð á öllum sviðum þjóðfélagsins, og mikið af því er meðhöndlað með mismunandi uppleysandi efnum í þvottum, og þannig komast öragnir 0-100 míkrómetrar, út í skólpið. 

Heldur þú virkilega, að hægt sé í einu vetfangi að banna plast í neytendaumbúðum ?  Það tæki mörg ár að innleiða slíkt bann á meðan staðkvæmdarumbúðir yrðu þróaðar, t.d. úr áli.

Bjarni Jónsson, 8.9.2016 kl. 11:09

3 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Það má kannski snúa þessu á hvolf og velta fyrir sér hvaða umbúðir og efni voru notuð í föt fyrir hálfri öld síðan eða svo. Danir þverskölluðust við að taka upp plast undir drykkjavörur og áldósir undir bjór. Það var ekki fyrr en EB skikkaði þá til þess vegna þeirra hafta sem það hafði á innfluttar drykkjarvörur á danska markaðinum, frá Þýskalandi (m.a.).

Það er samt alveg kristaltært að vandamálið er ekki leyst með því að hreinsa frárennsli frá milljörðum manna. Þar er verið að byrja á öfugum enda.

Sindri Karl Sigurðsson, 8.9.2016 kl. 21:16

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þegar plastið var að koma á markaðinn, var því almennt tekið fegins hendi, enda sáu menn ekki fyrir hina gríðarlegu notkun neyzlusamfélagsins á þessu fjölhæfa og reyndar margvíslega efni. 

Það eru "ofneyzlusamfélögin", sem þurfa að glíma við vandamálið; síunartæknin er þekkt, og þessi sömu samfélög verða að standa undir kostnaðinum við að hreinsa þessa mengun.  Sá kostur er ekki í boði að kippa þessum efnum úr umferð í einu vetfangi, enda yrði það líklega mun dýrara en hreinsunin.

Bjarni Jónsson, 9.9.2016 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband