Að hafa asklok (ESB) fyrir himin

Vinstri stjórnin 2009-2013 starfaði eftir hugmyndafræði. Hér verður meginhugmyndafræði hennar gerð að umfjöllunarefni í tilefni af drögum að skýrslu meirihluta fjárlaganefndar Alþingis um einkavæðingu tveggja banka 2009-2010, sem er að finna sem viðhengi á þessari vefsíðu. 

Hugmyndafræði Stjórnarinnar yfirskyggði heilbrigða skynsemi og lá að baki atburðarás við umsóknarferli að Evrópusambandinu (ESB), sem hófst með "kattasmölun" á Alþingi í júlí 2009, réði hreinni uppgjöf Svavars Gestssonar gagnvart harðsvíruðum kröfum Breta og Hollendinga um ríkisábyrgð á greiðslum innistæðutrygginga í föllnum íslenzkum bönkum erlendis, og hún stjórnaði undarlegu og óvæntu einkavæðingarferli tveggja nýju bankanna þriggja, sem átti ekki eftir að hafa heillavænleg áhrif á hag skuldugra viðskiptavina gömlu bankanna, sem voru fluttir yfir í nýju bankana með um 50 % afskriftum, sem innheimtust í miklu hærra hlutfalli.

Einkavæðingu þessa bar brátt að, enda var hvorki gert ráð fyrir henni í Neyðarlögunum né í áætlunum FME (Fjármálaeftirlitsins) haustið 2008. Hvers vegna voru tveir nýir ríkisbankar skyndilega afhentir kröfuhöfum föllnu bankanna á silfurfati ?  Svarið er að finna með því að skoða meginhugmyndafræði Stjórnarinnar, sem var þessi að mati blekbónda:

  • Neyðarlögin, sem Alþingi samþykkti haustið 2008 að tillögu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, munu hvorki halda fyrir íslenzkum né alþjóðlegum dómstólum, enda sat Vinstri hreyfingin-grænt framboð hjá við afgreiðslu þessararar lagasetningar. 
  • Við (Íslendingar) verðum að friðþægja fyrir þessi lög með því að færa kröfuhöfum föllnu bankanna fórnir í þeirri von, að þeir láti hvorki reyna á gildi Neyðarlaganna hérlendis né erlendis.
  • Með þessari friðþægingu mun sérstaða íslenzku leiðarinnar ("við greiðum ekki skuldir óreiðumanna") minnka, en hún var Evrópusambandinu (ESB) mikill þyrnir í augum.  ESB hafði mótað þá stefnu, að ríkissjóðir í Evrópu skyldu hlaupa undir bagga með bönkunum, og tóku ríkissjóðir margra landa stórlán í þessu skyni, sem þeir eru enn að bíta úr nálinni með.  ESB óttaðist áhlaup á bankana og fall bankakerfis Evrópu, ef þetta yrði ekki gert.  Þess vegna voru yfirvöld á Íslandi, bæði ríkisstjórn Geirs Haarde og Jóhönnu Sigurðardóttur, undir miklum þrýstingi frá leiðtogum ESB og Evrópulandanna.  ESB ætlaði að brjóta Íslendinga á bak aftur, svo að þeir ógnuðu ekki fjármálastöðugleika Evrópu. Jafnvel forseti íslenzka lýðveldisins mátti þola aðför að hálfu forsætisráðherra Dana í tilraun Danans til að knýja fram stefnubreytingu, sem dr Ólafur Ragnar Grímsson lagðist harðlega gegn, eins og enn er mönnum í fersku minni.
  • Með friðþægingunni átti að greiða fyrir hraðferð Íslands inn í ESB, en handjárnaðir þingmenn vinstri stjórnarinnar samþykktu umsókn um aðild 16. júlí 2009 og höfnuðu skömmu áður þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina. Til að kóróna skrípaleikinn vilja þeir núna þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna, sem sigldu í strand 2011.  

Þessi hugmyndafræði er heildstæð og rúmast öll undir askloki Evrópusambandsins, þangað sem vanmáttug vinstri öflin ætluðu að leita skjóls fyrir Ísland í hörðum heimi. Öll var þessi hugmyndafræði afsprengi algers metnaðarleysis fyrir Íslands hönd, enda reist á sandi þekkingarleysis, reynsluleysis, getuleysis, dómgreindarleysis og þjóðhættulegra viðhorfa til fullveldis landsins.   

Þetta er ítarlega rakið í tímabærri skýrslu,

"Einkavæðing bankanna hin síðari",

sem er að finna undir hlekk "skyrsla-12_september_2016.pdf" hér á síðunni, þannig að lesendur geta þar sannreynt, hvort sparðatíningur þeirra, sem nú hafa verið afhjúpaðir, um framsetningu og frágang eigi við rök að styðjast. 

E.t.v. má þó segja, að um drög að skýrslu hafi verið að ræða, þegar hún var upphaflega birt, því að boðuð hefur verið rýni á henni, og hún var síðar kynnt á fundi Fjárlaganefndar.  Hún er samin og gefin út af meirihluta Fjárveitingarnefndar Alþingis, Vigdísi Hauksdóttur, formanni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, varaformanni, Valgerði Gunnarsdóttur, Páli Jóhanni Pálssyni, Ásmundi Einari Daðasyni og Haraldi Benediktssyni, sem þannig hafa sinnt eftirlitshlutverki sínu, sem oft hefur þó verið vanrækt af nefndum þingsins. 

Meirihlutinn hefur átt á brattann að sækja við efnisöflun, en hefur samt tekizt að leiða fram mikið af nýjum gögnum, svo að nú mun koma til kasta Ríkisendurskoðunar að varpa enn betra fjárhagslegu ljósi á málið, Umboðsmanns Alþingis að kanna lagalegu hliðina á gjörningum vinstri stjórnarinnar og jafnvel Ríkislögmanns. Landsdómur hefur og verið nefndur að gefnu tilefni, en það er ótímabært. 

Líta má á þessa skýrslu sem mikilvæga upplýsingaöflun Alþingis fyrir íbúa þessa lands að mynda sér skoðun um þá dularfullu og að mörgu leyti illskiljanlegu atburði, sem hér urðu í boði ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. 

Reynt hefur verið eftir föngum að þagga þetta mál niður, af því að það varpar ljósi á, hversu vinstri flokkunum á Íslandi eru hroðalega mislagðar hendur við stjórnarathafnir, og að þeim er um megn að gæta hagsmuna Íslands. 

Þrátt fyrir gríðarlega fjárhagslega áhættu, sem þáverandi ríkisstjórn tók í sambandi við nýju bankana, hefur samt á endanum tekizt að sigla fleyinu (ríkissjóði) klakklaust í höfn á þessu kjörtímabili.  Það er þó ekki vinstri stjórninni að þakka, heldur endurreisn efnahagslífsins, sem knúin var áfram af útflutningsatvinnuvegunum í krafti gengisfalls krónunnar og gosi í Eyjafjallajökli 2010, sem vakti heimsathygli á Íslandi sem spennandi orlofsáfangastað í viðsjárverðum heimi. 

Með skattlagningu bankanna og samningum við þrotabú gömlu bankanna um stöðugleikaframlög þeirra til ríkissjóðs Íslands sem forsendu afnáms gjaldeyrishafta, hefur blaðinu algerlega verið snúið við í samskiptum íslenzka ríkisvaldsins við fjármálaöfl heimsins og kröfuhafa föllnu bankanna. 

Í stað fúsks, undirlægjuháttar og annarlegra forgangssjónarmiða um innlimun Íslands í ríkjasamband er nú komin fagmennska, þekking, yfirvegun og metnaður fyrir hönd fullvalda íslenzkrar þjóðar, svo að ríkissjóður ber ekki lengur skarðan hlut frá borði Hrunsins.  Þennan gríðarlega mun á vinnubrögðum og viðhorfum má persónugera í samanburði á tveimur fjármála- og efnahagsráðherrum, hinum tækifærissinnaða, vinstri sinnaða þingmanni, Steingrími Jóhanni Sigfússyni, og hinum trausta, borgaralega sinnaða formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni.

Grípum nú niður í téðri skýrslu:

"Eigendur þessara banka (Aríonbanka og Íslandsbanka) fengu því í hendurnar áhættulausa fjárfestingu, sem skilaði þeim 132,4 miökr á árunum 2009-2012 og 216,0 miökr, sé Landsbankinn tekinn með.  Hagnaður bankanna síðast liðin 7 ár er 468,7 miakr." 

Þetta sýnir svart á hvítu, hvað það var, sem vinstri stjórn J & S færði kröfuhöfum föllnu bankanna, hvað friðþæging ríkisstjórnarinnar kostaði íslenzka ríkissjóðinn í glötuðum tekjum. Þetta hefur ekki verið hrakið. 

"Samtals var ríkissjóður settur í áhættu fyrir 296 miökr við endurreisn bankanna.  Þetta er sama fjárhæð og í upprunalegu áætlunum neyðarlaganna, en þar var miðað við, að ríkið eignaðist alla bankana.  Með því að taka fram fyrir hendurnar á Fjármálaeftirlitinu (FME), glopraði fjármálaráðherra niður gríðarlegum ávinningi. 

Skýrslan sýnir, að samningagerðin gekk alfarið út á að friðþægja kröfuhafana með því að afhenda þeim eignarhaldið á bönkunum, varpa allri ábyrgð á íslenzka skattgreiðendur og falla frá tugmilljarða króna arðgreiðslum, endurgreiðslum og vaxtagreiðslum.  Samningamenn fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans afhentu kröfuhöfunum eignir á silfurfati og afsöluðu meira og minna öllum ávinningi ríkisins af þeirri ábyrgð, sem það tók á sig frá hruni bankanna."

Þetta er lýsing á því, hvernig þáverandi ábyrgðarmaður ríkissjóðs "afsalaði honum tekjum", svo að notað sé orðalag vinstri manna sjálfra, þegar skattalækkun er til umræðu, eða öllu heldur, hvernig þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra hlunnfór ríkissjóð með stórfelldri vanrækslu, þegar honum bar að gæta hagsmuna ríkissjóðs á viðsjárverðum tímum. Var ekki von, að hann þyrfti að skerða kjör öryrkja og aldraðra stórlega 1. júlí 2009 og þyrfti að láta fara fram hvern flata niðurskurðinn á fætur öðrum á Landsspítalanum, sællar minningar ?

Við sjáum af skýrslu meirihluta fjárlaganefndar, sem birt var 12. september 2016 og sem er sem viðhengi með þessum pistli, að vinstri stjórnin með Steingrím J. Sigfússon í broddi fylkingar framdi afglöp.  Þessi afglöp voru engin tilviljun stundarmistaka í hita leiksins, heldur bein afleiðing þjóðníðingslegrar stefnumörkunar á grundvelli hugmyndafræði, sem rakin er í upphafi þessa pistils. Í skýrslunni segir:

"Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem tók við 1. febrúar 2009, kaus að fara þá leið að byggja endurreisn bankanna ekki á neyðarlögunum, heldur ganga til samninga við kröfuhafa." 

Í þessum pistli er gerð tilraun til að útskýra á grundvelli skýrslunnar, hvers vegna atburðarásin tók þessa óvæntu stefnu. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Undrast nokkur reiðilestur okkar um allt blog á þessum tíma,svo gróflega sem vinsti stjórnin hlunnfór almenning.

     Takk fyrir afar greinargóðar skýringar í þessum pistli Bjarni. 

Helga Kristjánsdóttir, 18.9.2016 kl. 16:19

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Mín er ánægjan, Helga.  Vonandi bera kjósendur nú gæfu til að draga réttar ályktanir af þeim ósköpum, sem þarna áttu sér stað, og kjósa ekki yfir sig og okkur fólk á Alþing, hverra hjarta slær í útlöndum. 

Bjarni Jónsson, 18.9.2016 kl. 17:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband