Tilraunahagfræðingur tjáir sig

Það er nauðsynlegt að ígrunda vel hvert skref, sem stjórnvöld hyggjast taka og kalla má inngrip í atvinnulífið.  Þau geta hæglega komið niður á afkomu almennings í landinu. Ef slík skref eru í andstöðu við atvinnugreinina, jafnvel bæði vinnuveitendur og launþega í greininni, þá þurfa slíkum inngripum að fylgja pottþétt lagaleg rök og sannfærandi rökstuðningur um, að slík inngrip bæti almannahag frá því, sem núverandi fyrirkomulag er megnugt að veita. 

Málflutningur þeirra, sem kollvarpa vilja íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu, en þeirra á meðal eru a.m.k. 3 stjórnmálaflokkar, Samfylking, Viðreisn og Píratahreyfingin, nær ekki máli sem rökstuðningur fyrir kúvendingu, því að eina ástæðan, sem tilfærð hefur verið, er, að samfélaginu öllu, þ.e. ríkissjóði, beri stærri hluti af þeim verðmætum, sem útgerðirnar afla. Þar er ekkert hugað að jafnræði atvinnurekstrar í landinu gagnvart ríkisvaldinu.

Viðfangsefnið hér er m.a. að ákvarða, hvort tekjur ríkisins verði meiri með "uppboðsleið" en með núverandi aflahlutdeildarkerfi.  Þá dugar ekki að skoða ríkistekjur af útgerðunum einvörðungu, heldur verður að skoða skattspor alls sjávarútvegsklasans, enda er hann reistur á útgerðunum. Versnandi hagur útgerða hefur strax neikvæð áhrif á heildarskattsporið, því að fjárfestingar munu minnka. Þetta er verðugt hagfræðilegt verkefni, t.d. fyrir Hagfræðistofnun, HHÍ, eða eitthvert endurskoðunarfyrirtækið, en tilgáta blekbónda er, að skattsporið með hóflegu veiðigjaldi á bilinu 2 % - 5 % af verðmæti afla upp úr sjó sé stærra en búast má við, að skattsporið mundi verða með uppboði aflaheimilda.  

Fyrir þessu eru þau almennu rök, að vaxtarskilyrði skattstofnsins eru því betri, þeim mun minna sem rennur af ráðstöfunarfé fyrirtækja beint til ríkisins.  Þetta verður auðskilið, ef gert er ráð fyrir, að unnt sé að velja á milli þess, að drjúgur hluti hagnaðar renni til fjárfestinga eða skattgreiðslna.  

Það er þannig næsta víst, að ríkisvaldið væri að skjóta sig í tekjufótinn með því að fara inn á braut uppboða í stað núverandi aflahlutdeildarkerfis með hóflegum veiðigjöldum. 

Nú vill svo til, að sérfræðingur um mál af þessu tagi, Charles Plott, CP,tilraunahagfræðingur, tjáði sig um uppboð við Stefán Gunnar Sveinsson í Morgunblaðinu 15. september 2016.  Allt, sem CP segir þar, er sem snýtt út úr nös blekbónda, og verður nú vitnað í viðtalið:

"Charles Plott, prófessor í tilraunahagfræði við Tækniháskólann í Kaliforníu, segir, að uppboð, eins og í sjávarútvegi, geti verið til margra hluta nytsamleg, ef þeim er beitt rétt.  Glapræði sé hins vegar að ætla að nýta þau til þess að endurúthluta gæðum eða breyta kerfi, sem virki vel, og nánast sé öruggt, að eitthvað af verðmætum muni fara forgörðum, verði sú leið farin."

Þessi yfirlýsing hins virta fræðimanns við Caltech sýnir, að hérlendis hafa menn af vanþekkingu hent á lofti fiskveiðistjórnunaraðferð, sem engan veginn á við íslenzkar aðstæður.  Fræðimaður, sem gleggst má vita um virkun og afleiðingar "uppboðsleiðar", CP, telur hana mundu verða til meira tjóns en gagns í íslenzka hagkerfinu.  Þessi varnaðarorð ættu að vega þungt ekki sízt, þar sem eintómir fræðilegir liðléttingar, ef nokkrir fræðimenn, hafa mælt með "uppboðsleiðinni" fyrir veiðiheimildir í íslenzku lögsögunni.

Málflutningur CP felur í sér, að hagvöxtur mundi minnka og þar með drægjust skattstofnar saman, sem hefði í för með sér minni skatttekjur ríkisins en nú.  Þar með væri ver farið en heima setið.  Óráðshjalið um, að "ósanngirni" núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis þurfi að leiðrétta með "fyrningu" og uppboði á andlagi "fyrningarinnar", er helber þvættingur, enda mundi þessi leið skaða ríkissjóð ekki síður en hag almennings í landinu.  Hér er fullkomið fúsk á ferð. 

"Í krafti reynslu sinnar hefur Plott komið að gerð og hönnun ýmissa uppboða á auðlindum, þar á meðal í sjávarútvegi. 

"Ég nefni sem dæmi fiskeldi, þar sem stjórnvöld hafa opnað ný svæði til að koma fyrir fiskeldiskerum, og spurningin verður, hver eigi að fá réttinn. Þetta eru ný gæði, og uppboð verður þá betri leið til að útdeila þessum nýju gæðum en einhver skriffinnskufegurðarsamkeppni, þar sem embættismenn fá að ákveða, hvern þeim lízt bezt á, sem er mjög ósanngjörn leið.  Þú hefur enga leið til að fá að vita, hver rökin á bak við þá ákvörðun verða."" 

Á þessu vefsetri hafa verið færð rök fyrir því, að nauðsynlegt sé að markaðsvæða úthlutun hinnar takmörkuðu nýju auðlindar, sem er hafsvæði í fjörðum Íslands fyrir eldiskvíar, svo að enn er blekbóndi hér algerlega sama sinnis og tilraunahagfræðingurinn Charles Plott.  Sama máli gegnir um orkugeirann, þó að CP nefni hann ekki í þessu viðtali.  

"Hann segir, að svo virðist sem ákvörðunin [Færeyinga um tilraunauppboð] sé byggð á þeirri tilfinningu, að útgerðarmennirnir hafi ekki unnið sér það inn að fá arð af auðlindinni.  "Þetta er tilfinning, sem er reist á skyssu: að auðlindin hafi eitthvert verðgildi utan þess, sem byggt hefur verið upp af eigendum eða rétthöfum.  Þeir byggðu hana upp, hafa sérfræðiþekkinguna, og það að taka hana í burtu og bjóða upp til einhvers annars mun líklega eyðileggja sumt af grunninum að verðmætasköpuninni, sem hefur gert miðin sjálfbær.""

Það á enginn óveiddan fisk í sjónum,  enda miðin almenningur frá fornu fari, þó að ítala hafi verið sett þar árið 1984 af illri nauðsyn. Þessi auðlind hefur ekkert sjálfstætt gildi, frekar en flestar aðrar, heldur markast verðmæti hennar af tæknibúnaði, tækniþekkingu og viðskiptaviti til að sækja aflann, breyta honum í markaðsvöru og afla viðskiptavina. 

Það er þess vegna botnlaus forræðishyggja og virðingarleysi gagnvart útgerðarmönnum, sjómönnum, vinnslunni um borð og í landi og viðskiptavinunum, fólgin í því að rífa grundvöll lifibrauðs fjölda fólks af því og færa hann einhverjum öðrum einvörðungu á tilfinningalegum og hugmyndafræðilegum grunni, en alls engum hagfræðilegum grunni.  Þar er svo sannarlega engri sanngirni fyrir að fara, heldur er þetta ómengaður "sósíalismi andskotans".  Ástæða er til að halda, að sú hugmyndafræði njóti sáralítils stuðnings almennings (utan R-101), þó að þrír ólíkir stjórnmálaflokkar virðist hafa látið ginnast og gert hana að sinni.

"Hann segir, að uppboð á vel starfhæfu kvótakerfi væri  óskiljanlegt.

"Ég skil ekki hvatann á bak við að trufla iðnað, sem gengur upp.  Uppboð mundi vera mjög truflandi fyrir sjávarútveginn.  Það skemmir fyrir hvötum fólks til að sækja sjóinn, það skemmir fyrir stofnunum í útvegi.  Ef það er hægt að kaupa og selja kvóta á opnum markaði [eins og á Íslandi], verður á þeim markaði eðlileg þróun, þar sem kvótinn færist frá þeim óskilvirku til þeirra skilvirku.  Ef frjáls markaður er fyrir hendi, munu lögmál hagfræðinnar sjá um það.""

Umbylting á atvinnugrein með valdboði að ofan hefur alls staðar reynzt vera stórskaðleg, enda á slík hugmyndafræði rætur að rekja til Karls Marx og Friedrichs Engels, svo að það er skiljanlegt, að " botninn sé suður í Borgarfirði" og Bandaríkjamaðurinn Charles Plott skilji ekki, hvað að baki býr slíku fáránleikaleikhúsi á Íslandi 2016.

"Plott segir það því vera nánast einfeldningslegt að trúa því, að hægt sé að taka eignina og gera betur án þess, að eitthvað láti undan.  "Og það mun eitthvað láta undan í aðförunum.""

Plott gengur hér svo langt að gera lítið úr vitsmunum þeirra, sem fara vilja "uppboðsleið" á veiðiheimildum í íslenzkri lögsögu.  Hér skal ekki reyna að leggja mat á greindarvísitölu þeirra, enda með öllu óáhugavert viðfangsefni.  Hitt er annað, að málsvarar og fylgjendur "uppboðsleiðar" eru af manngerð, sem telur tilganginn helga meðalið, "Der Erfolg berechtigt den Mittel". 

Að varpa fyrir róða núverandi árangursríku fiskveiðistjórnunarkerfi með þjóðnýtingu veiðiheimildanna réttlætir í huga gösslara, lýðskrumara og öfundarmanna hins markaðsstýrða íslenzka sjávarútvegs að taka gríðarlega áhættu með hag fólks, sem beina afkomu hefur af sjónum, hag viðkomandi sveitarfélaga, ríkissjóðs og alls hagkerfisins.  Þetta er hið sanna byltingarhugarfar, sem nú gengur ljósum logum á Íslandi í heilu stjórnmálaflokkunum og er afturganga Karls Marx.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steindór Sigurðsson

Ég er sammála þér Bjarni minn að uppboðsleiðin er ófær. En af allt annari ástæðu en þú. Ég er á móti henni vegna það að það algerlega augljóst að afskriftakvótakóngarir myndu kaupa allar veiðiheimildirnar og aðrir ættu ekki séns. Það er svo auðvelt að kaupa fyrir þá sem þurfa ekki að borga. Það myndi ekkert breytast. En kvótakerfið er í dag miðaldarlénsskipulag. Og hvað viltu segja við alla toppskipsjórana sem þegar hafa misst vinnuna, eingöngu vegna þess að þeir höfðu skoðanir.

Þessi grein þín er þvílík dómadagsþvæla að mér dettur helst í hug að þú hljótir að hafa fengið alvarleg raflost oft í gegnum tíðina. Það er góð regla að vera ekkert að tjá sig um það sem maður hefur ekki hundsvit á. Ef það er rangt hjá mér þetta með raflostin, nú þá þarf alvarlega að fara að skoða hér kennslu á háskólastigi.

Steindór Sigurðsson, 21.9.2016 kl. 02:35

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er bara stuð á Steindóri, sem hér lætur að venju vaða á súðum með fordómum í garð þeirra, sem hann er ósammála.  Þessi skrif hans eru þó ekki annað en aulaleg tilraun til þöggunar, sem auðvitað mun verða hvati til enn frekari skrifa um sjávarútvegsmál, þó að þau valdi geðröskun hjá Steindóri, þesum.   

Bjarni Jónsson, 21.9.2016 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband