Er bankahrun í vændum ?

Það er engum blöðum um það að fletta, að ástand fjármálamarkaða heimsins er óeðlilegt.  Í tæplega 6 ár hafa stýrivextir stórra seðlabanka verið niðri við núllið eða jafnvel undir því.  Þrátt fyrir þetta og peningaprentun í þokkabót með miklum kaupum seðlabanka á misjöfnum skuldabréfum, hefur ekki tekizt að koma hjólum efnahagslífsins í gang, og það hillir ekki undir það, nema síður sé. 

Suður-Evrópuþjóðirnar taka við þessar aðstæður hagstæð lán og bæta þar með á ódýran hátt við skuldasúpu sína, en hvað gerist, er vextir hækka á ný ?  Gríska ríkið er í raun nú þegar í greiðsluþroti, og ítalska bankakerfið er mikið áhyggjuefni og talið standa tæpt.  Það er svo stórt, að björgun þess verður stöðugleikasjóði evru-landanna um megn. 

Fórnarlömb lágvaxtaskeiðs eru innlánseigendurnir.  Þeir eru æfir yfir að fá ekki umbun fyrir sparnað sinn, eins og þeir eru vanir.  Þarna skilur algerlega á milli Evrópu sunnan og norðan Alpafjalla.  Af þessum sökum magnast nú  spenna og ágreiningur um peningamálastefnuna á milli Norður-og Suður-Evrópu.

Pieter Omtziegt, hollenzkur þingmaður í Kristilega demókrataflokkinum, hefur kallað ECB-evrubankann Miðjarðarhafs-seðlabanka, sem nú reki þá stefnu að dreifa auði frá norrænum sparendum til suðrænna spreðara. 

Í þýzka dagblaðinu, Die Welt, hefur íhaldssamur hagfræðingur, Hans-Werner Sinn, fullyrt, að lágir vextir hafi nú kostað Þýzkaland 327 milljarða evra.  Þetta eru 12 % af VLF/ár Þýzkalands, og þess vegna ljóst, að verulega svíður undan, þótt ekki komizt þessi fjármagnsflutningur í hálfkvisti við stríðsskaðabætur Versalasamninganna, enda má nú fyrr rota en dauðrota. Það á ekki af Þjóðverjum að ganga. 

Í annarri grein um þetta efni vitnaði Die Welt í áætlun DZ bankans í Þýzkalandi um, að eftir að hafa búið í 6 ár við lága vexti muni "meðal-Þjóðverjinn" hafa tapað 2450 evrum í árslok 2016, eða u.þ.b. 320 þúsund ISK á lágvaxtastefnu evrubankans.  Á þýzka meðalfjölskyldu nemur þetta um MISK 1,0, svo að það er tekið að svíða undan.   

Þjóðverjar leggja fyrir 17 % af ráðstöfunartekjum sínum. Hollendingar leggja fyrir 14 % ofan á iðgjöld til lífeyrissjóða, þar sem nú eru 1300 milljarðar evra, sem er tvöföld landsframleiðsla þeirra.  Á Íslandi nema eignir lífeyrissjóða um 1,5-faldri VLF. Hollendingar og Íslendingar eru líklega einu þjóðirnar í Evrópu, og þótt víðar væri leitað, sem búa nú við fullfjármagnað lífeyrissjóðakerfi. Íslendingar búa svo vel eftir síðasta frumkvæði og átak ríkisstjórnarinnar við fjármögnun lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins.   

Í Þýzkalandi eru um 80 % af eignum heimilanna á sparnaðarreikningum, í réttindum í líftryggingafélögum eða í lífeyrissjóðum.  Ávöxtun þessara eigna er eðlilega mjög háð vaxtastiginu í landinu, og langvinnt lágvaxtaskeið skapar þess vegna eldfimt þjóðfélagsástand í Þýzkalandi, eins og nú þegar er orðin raunin.  Formaður AfD hefur sagt, að Angela Merkel muni þurfa að flýja land, þegar hún hrekst frá völdum.  Það er þó allt of langt gengið og algerlega óviðeigandi að bera ástandið saman við árið 1945, eins og heyrzt hefur.   

Í Þýzkalandi búa flestir í leiguhúsnæði. Í Suður-Evrópu nema eignir íbúanna í fjármálakerfinu aðeins um 20 % af heildareignum þeirra, af því að þar er mun algengara, að fólk búi í eigin húsnæði. 

Nýlega bárust hollenzkum félögum í lífeyrissjóðum slæm tíðindi, sem rekja má til lélegrar ávöxtunar lífeyrissjóðanna.  Lífeyrisgreiðslur munu að líkindum verða skertar árið 2017, og iðgjöldin verða hækkuð. Við þessar aðstæður er skiljanlegt, að íbúarnir, margir hverjir, gjaldi varhug við flóðbylgju flóttamanna, sem verða munu þungir á fóðrum sameiginlegra sjóða, því að þeir eiga mjög langt í land aðlögunar til að verða nýtir þjóðfélagsþegnar. Lágvaxtastefnan kemur hart niður á lífeyrissjóðunum.  Fjármögnun ellilífeyris er verða að stórfelldu þjóðfélagslegu vandamáli víðast í Evrópu utan Íslands.

Annað umræðuefni í þessu sambandi er efnahagslegt ójafnræði íbúanna.  Í nýrri bók eftir hagfræðinginn Marcel Fratzscher fullyrðir hann,  að 40 % íbúa Þýzkalands, þeir sem minnstar eignir eiga, eigi minna en nokkurs staðar þekkist annars staðar á evrusvæðinu. Þetta er m.a. vegna þess, hvernig húsnæðismálum er háttað í Þýzkalandi og áður er á drepið. Sannast hér enn og aftur, hversu skynsamleg ráðstöfun það er að hálfu yfirvalda, t.d. á Íslandi, að hvetja með raunhæfum aðgerðum til einkaeignar á húsnæði.  Skilur hér greinilega á milli hægri og vinstri manna. 

Af þessum sökum hefur grafið um sig djúpstæð óánægja í Þýzkalandi með núverandi vaxtastig í landinu, því að það mun fyrirsjáanlega enn auka á fjárhagslegt og þar af leiðandi félagslegt ójafnræði þegnanna.  Fjármálageirinn hefur þess vegna stjórnmálalegan bakhjarl, þegar hann nú þrýstir á ríkisstjórnina í Berlín, sérstaklega á fjármálaráðherrann, Wolfgang Schäuble, að taka sér nú á raunhæfan hátt stöðu með sparendum, sem eru reyndar taldir siðferðisleg og fjárhagsleg kjölfesta Þýzkalands frá fornu fari. 

"Þetta er í fyrsta skipti, sem fólk og fyrirtæki í Norðrinu verða fyrir skakkaföllum af völdum evru-vandræðanna",

segir Guntram Wolff hjá Brügel, ráðgjafarstofnun (Think Tank) í Brüssel. 

Hérlendis hefur yfirvofandi hætta á fjármálamörkuðunum ekki farið framhjá mönnum, og þess mátti sjá stað í forystugrein Morgunblaðsins, 27. september 2016:

"Aðvörunarmerki hræða"

"Evrusvæðið er í ógöngum.  Við bætist stjórnmálalegt uppnám álfunnar.  Það eykur vandann, að staða kanzlara Þýzkalands og forseta Frakklands hefur veikzt síðustu misseri. Þessi tvö, Merkel og Hollande, hafa verið raunverulegir stjórnendur álfunnar. ["Wir schaffen das"-innsk. BJo.] Bakland þeirra heima brast hins vegar hjá báðum og þar með myndugleikinn gagnvart öðrum ESB-ríkjum.  Stórmál hrannast upp, og vottar ekki fyrir lausnum. Efnahagur Ítalíu er við þolmörk." ....

"Það sýnir, hve ástandið er kvikt, að vandamál eins banka í Þýzkalandi veikti alla markaði álfunnar.  Hlutabréf í Deutsche Bank hafa fallið mjög að undanförnu og tóku enn nýja dýfu í gær.  Þau eru nú þriðjungi lægri en þau lögðust lægst í bankakreppunni 2007-2009.  Síðasta ógæfa þýzka bankans var sú, að bandarísk dómsmálayfirvöld gerðu honum að greiða miaUSD 14 í sekt fyrir vafasama viðskiptahætti.  Verð bréfa í bankanum hafa lækkað um meira en helming, það sem af er ári."

Þessi lýsing á ástandinu í kjölfestulandi evrunnar, Þýzkalandi, sýnir verra efnahagsástand á evrusvæðinu en þar hefur orðið áður í hennar sögu. Fjármálakerfið þar nálgast nú hengiflugið, og evran mun ekki standa af sér bankahrun í Þýzkalandi, því að þýzka útflutningsvélin hefur hindrað enn hraðari lækkun evrunnar en reyndin hefur orðið.

Hælisleitendur hafa í þokkabót grafið undan stjórnmálalegum stöðugleika í landinu, og forsetakosningar í Frakklandi 2017 gera að verkum, að ekki er að vænta róttækra aðgerða til lausnar á efnahags- og þjóðfélagsvanda.  Það verður flotið sofandi að feigðarósi, enda Bretar á förum úr ESB, og þegar þangað er komið, verður neyðarástand á meginlandinu. 

Þá er nú betra, og reyndar bráðnauðsynlegt, ef forðast á öngþveiti á Íslandi, að við stjórnvölinn  í Stjórnarráðinu sé hæft fólk, sem hefur vit á fjármálum, er með tengsl erlendis og með getu til að stjórna þjóðfélagi í háska.

Um þetta ritaði "Innherji" í Viðskipta-Moggann, 29. september 2016 með vísun í íslenzkt forystufé:

"En það er fleira en fé, sem er til forystu fallið, að eigin mati í það minnsta.  Nú fer í hönd sú tíð, að forystufólk íslenzkra stjórnmála lítur yfir hjörð sína og hristir sig, svo að hátt lætur í bjöllum þess, í yfirfærðri merkingu.  Þótt stillt sé, að því er virðist, geta veður skipast fljótt í lofti, og hjörðin öll verður að geta treyst á að verða leidd til byggða af viti og styrk. Það er því mikilvægara en oft áður, að val á þeim, sem forystan verður falin, sé yfirvegað og byggt á reynslu og getu þeirra, sem koma til greina."

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Árnason

Þetta er allt að hrynja, og Brexit og Sigmundi Davíð verpur kennt um.

Haukur Árnason, 3.10.2016 kl. 10:48

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Fjármálakerfi heimsins stendur mjög veikt, þar sem árangur seðlabankanna með ofurlágum vöxtum og peningaprentun til að örva hagvöxt lætur á sér standa.  Eins og fyrri daginn, mun fall fyrsta bankans hafa gríðarlega keðjuverkun í för með sér, sem sennilega mun leiða til lausafjárþurrðar.  Þó að íslenzka hagkerfið standi eins vel og hugsazt getur m.v., að aðeins eru 8 ár frá allsherjar hruni íslenzka bankakerfisins, þá mun heimskreppa að sjálfsögðu hafa neikvæð áhrif hér, þar sem viðskiptakjörin munu versna, og afbókanir ferðamanna gætu orðið í svo miklum mæli, að nýlegar fjárfestingar í ferðageiranum verði í uppnámi. 

Brexit hefur lítil áhrif á þessa framvindu, og SDG enn þá minni.  

Bjarni Jónsson, 3.10.2016 kl. 17:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband