Lýðveldinu brugguð launráð

Tilburðir stjórnarandstöðu til að stilla saman strengi um ríkisstjórnarmyndun eru skrýtnar út frá lýðræðislegu sjónarmiði.  Í löndum, þar sem slík blokkamyndun á sér stað, fer hún fram á þingum landanna, en hér var blásið til lokaðs fundar flokksbroddanna að viðstöddu fjölmiðlafólki utan dyra, en ekkert bitastætt upplýst um efni fundanna. Upphaflega hugmynd Pírataklíkunnar mun hafa verið að skrifa stjórnarsáttmála og kynna hann þjóðinni fyrir kosningar, en ekkert kom.  Um þessa uppákomu skyni skroppinnar stjórnarandstöðu má hafa þau orð, að fjallið tók jóðsótt, en út kom lítil mús. 

Óhjákvæmilega virðast þessir flokksbroddar gera lítið úr vilja kjósenda og gefa sér eitthvað fyrirfram í þeim efnum, sem engri átt nær.  Það eru t.d. áhöld um, hvort tvær þessara flokksnefna fá yfirleitt kjörna fulltrúa á þing 29. október 2016.  Fylgi þeirra er svo lítið, að þeir eiga ekki nokkurt erindi í ríkisstjórn.  Loddararnir ætla greinilega ekki að taka nokkurt tillit til vilja kjósenda frekar en fyrri daginn, t.d. höfnun óskar þingflokks Sjálfstæðisflokksins sumarið 2009 um þjóðaratkvæðagreiðslu um það, hvort sækja ætti um aðild Íslands að ESB. 

Maður er nefndur Hjörleifur Guttormsson, er náttúrufræðingur og fyrrverandi Alþingismaður Alþýðubandalagsins og iðnaðarráðherra á vegum flokksins.  Hann er m.a. þekktur fyrir skarplegar greiningar á stjórnmálaástandinu hérlendis og erlendis, og grein hans í Morgunblaðinu, 25. október 2016,

"Á að farga fullveldi Íslands á aldarafmælinu 2018 ?",

sýnir, að samloðun Pírataklíkunnar, fallhættuflokkanna Bjartrar framtíðar og Samfylkingar, fullveldissvikaranna í Vinstri hreyfingunni grænu framboði og varadekksins Viðreisnar, felst í þráhyggjunni um stjórnarskrárbreytingar til að opna fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið, ESB, og að knýja síðan á um endanlega aðlögun Íslands að ESB eftir að hafa kollvarpað íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu, sem allir téðir stjórnmálaflokkar, að varadekkinu meðtöldu, virðast sammála um, þó að vöflur séu á VG í þeim efnum. Ætlunin er að brjóta miskunnarlaust niður bólvirki fullveldisins, þar á meðal grunnstoðir atvinnulífsins, til að ryðja braut örvæntingarfullra Íslendinga inn í "hið brennandi hús". 

Nú verður vitnað ótæpilega í téða grein Hjörleifs:

"Átökin um aðild [að ESB - innsk. BJo] héldu hins vegar áfram hérlendis og voru fyrir alþingiskosningarnar 1999 bakgrunnurinn í uppstokkun flokka á vinstri væng, þegar til urðu Samfylkingin og Vinstri grænir. Allar götur síðan hefur Samfylkingin gert ESB-aðild að þungamiðju sinnar stefnu, en VG hafnaði aðild frá upphafi. Við það var staðið til vors 2009, en þá var merkið fellt með sögulegum svikum af hálfu forustu VG við myndun ríkisstjórnar að afstöðnum kosningum.  Um þau efni og framhaldið í kjölfar aðildarumsóknar að ESB í júlí 2009 geta menn lesið í nýútkominni bók Jóns Torfasonar, skjalavarðar, Villikettirnir og vegferð VG."

Það gekk ekki hnífurinn á milli Steingríms J. Sigfússonar og Katrínar Jakobsdóttur, formanns og varaformanns VG, vorið 2009, þegar þau ráku rýtinginn í bak fjölda stuðningsmanna VG með því að svíkja eiðstafinn um að verja fullveldi Íslands með kjafti og klóm.  Þau fórnuðu þessari fornu kjölfestu VG fyrir ráðherrastólana um leið og þau lugu að kjósendum fyrir kosningar 2009, því að þessu var handsalað á milli flokkanna fyrir þær. 

Eftir þennan viðbjóðslega valdastreitugjörning má segja, að Katrín hljóti að hafa teflon-húð, því að hún er að skora nokkuð hátt í vinsældakönnunum enn þá.  Hún bítur þó höfuðið af skömminni með því að gera út á traust í þessari kosningabaráttu, haustið 2016, því að hún er ekki traustsins verð fyrir 5 aura. Eftir aðdraganda kosninga 2009 og gjörninga Teflon-Kötu í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms 2009-2013, ætti hún réttu lagi að vera rúin trausti. 

"Aðvörunum um framtíð ESB hefur rignt yfir undanfarið; síðasti skellurinn yfirlýsingar þýzka hagfræðingsins Otmar Issing (f.1936), eins helzta hugmyndafræðingsins að baki evrunnar og frá 2006 forseti Centre for Financial Studies (CFS) við Göthe-háskólann í Frankfurt.  Viðtal við hann undir fyrirsögninni: "Spilaborg evrunnar mun óhjákvæmilega hrynja", (sjá Viðskiptablaðið, 20. október 2016) hefur farið sem eldur í sinu um fréttaheiminn.  Hann segir þar framkvæmdastjórn ESB í Brüssel vera "pólitíska ókind" og Seðlabanka evrunnar "á hálli leið til Heljar".  Evran segir hann, að hafi verið misheppnuð frá fyrsta degi, og raunar áður en hún varð til."

Það sætir pólitískum jarðskjálfta, þegar virtasti hagfræðingur Þýzkalands kveður upp dauðadóm yfir evrunni.  Skilningssljóir á Íslandi á hina stjórnmálalegu þróun eru í afneitun, þegar þeir boða landsmönnum enn fagnaðareindið um inngöngu Íslands í ESB til að geta kastað ISK fyrir róða og tekið upp mynt Evrópusambandsins, evruna.  Þessa pólitísku afneitun er aðeins hægt að skýra með heimsku, og dómgreindarleysi er ein birtingarmynd heimskunnar.  Sumir fulltrúar þessarar heimsku hafa setið á svikráðum við þjóð sína á Litlu-Brekku í Bakarabrekkunni í 101-Reykjavík undanfarið til að leggja á ráðin um að smygla henni í faðm kommissaranna í Brüssel, ef hún glepst á fagurgala lygamarðanna.

"Það er þetta Evrópusamband, sem núverandi stjórnarandstaða og Viðreisn vilja leiða Ísland inn í á fullveldisafmælingu 2018.  Þetta hefur verið staðfest með lítils háttar blæbrigðum af talsmönnum flokkanna í kosningasjónvarpi RÚV undanfarið, og helzta bindiefnið á milli þeirra er að fá þjóðina til að samþykkja að taka á ný upp aðildarviðræður við ESB og knýja jafnframt fram stjórnarskrárbreytingar, sem heimili slíka aðild. 

Enginn hefur kveðið fastar á um þetta en Össur Skarphéðinsson, sem sagði 18. október 2016, að í utanríkismálum legði Samfylkingin mesta áherzlu á, "að við höldum áfram aðildarumsókninni, ekki sízt vegna þess, að við viljum taka upp nýjan gjaldmiðil; við teljum krónuna hafa gengið sér til húðar.  Í sama þætti sagði Ari Trausti frá VG, "að ef það kemur upp ósk um að taka upp aðildarsamningana eða starta nýjum, þá auðvitað tökum við þátt í því."

Hér vekur Hjörleifur máls á samsæri, sem ESB-flokkarnir vildu gera fyrir kosningarnar 29. október 2016 um að ryðja brautina fyrir inngöngu Íslands í ESB.  Við fengum ekkert að vita eftir Litlu-Brekku-fundinn 27. október 2016, eins og forsætisráðherraefnið og falsstærðfræðingurinn Smári McCarthy þó hafði lofað tveimur dögum áður, en það gæti verið vegna þess, að umræðuefnið þolir ekki dagsljósið, eins og nú standa sakir. 

Hvað skyldi Otmar Issing segja um þann fíflagang fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, hins digra Össurar, sem enginn hefur þó borið brigður á, að er doktor í kynlífi laxfiska, að Íslandi ríði nú á að kasta ISK og innleiða EUR ?  "Wahnsinn" mundi líklega hrökkva af vörum hans. 

"Hvernig sem því máli er háttað [örlögum aðildarumsóknar, sem Alþingi samþykkti 16.07.2009], er ljóst, að hugsanleg vinstri stjórn með aðild Pírata hyggst knýja á um aðild Íslands að Evrópusambandinu, sem drjúgur meirihluti Íslendinga, sem afstöðu taka samkvæmt skoðanakönnunum, hefur verið andvígur um langt árabil."

Hjörleifur Guttormsson þekkir flárátt eðli vinstri manna.  Þeir munu ríða gandreið á Pírataeinfeldingunum og hafa þá sem gólftusku sína í hugsanlegu stjórnarsamstarfi.  Hjörleifur á þakkir skildar fyrir að vekja athygli kjósenda á hinni raunverulegu og yfirvofandi hættu ("clear and imminent danger"), sem landinu stafar af þeim, sem sitja á svikráðum við alþýðu manna, eins og á kjörtímabilinu 2009-2013.

Nú kemur rúsínan í pylsuendanum hjá Hjörleifi Guttormssyni:

"Fráhvarf forystu Vinstri grænna frá upphaflegri andstöðu við ESB-aðild er annað og djúpstæðara en almenningur gerir sér grein fyrir. Eftir að einarðir ESB-andstæðingar höfðu einn af öðrum hrakizt úr þingflokki VG, hljóðnuðu andstöðuraddir forystumanna, sem eftir sátu, við ESB-aðild.  Eftir að Ísland lagði inn aðildarumsókn að ESB sumarið 2009, minnist ég þess ekki, að Steingrímur J., sem formaður, eða arftakinn, Katrín Jakobsdóttir, hafi í blaðagreinum eða á öðrum vettvangi rökstutt og útskýrt þá formlegu afstöðu flokksins að vera á móti aðild.  Klisjunni virðist eingöngu hafa verið viðhaldið til að villa á sér heimildir og til að missa sem fæsta eindregna andstæðinga ESB-aðildar út úr röðunum.  Öðru vísi verður ekki útskýrð þögn þessa fólks í örlagaríkasta máli Íslendinga um langt skeið.-

Það sama er uppi á teninginum nú í aðdraganda kosninga.  Í kosningaáherzlum VG, eins og þær birtast á heimasíðu flokksins, er ekki að finna stakt orð um Evrópusambandið, af eða á.  Þurfum við frekari vitnana við ?"

Hér höfum við það "directly from the horse´s mouth", að Vinstri hreyfingin grænt framboð siglir undir fölsku flaggi "í örlagaríkasta máli Íslendinga um langt skeið", og formaður flokksins, Teflon-Kata, ber kápuna á báðum öxlum.  Hún bítur svo höfuðið af skömminni með því að fara nú fram undir merkjum "trausts".  Þetta er eitt versta fláræðið í nafni valdasýki, sem sézt hefur á Íslandi í háa herrans tíð. 

Kröfuhafar og aflandskrónueigendur fara ekki í grafgötur um, hvað í uppsiglingu er hér á Íslandi nú og hafa fengið "blod på tanden" við tilhugsunina um, að Teflon-Kata stefni nú hraðbyri í stól forsætisráðherra með eintómar liðleskjur og afturúrkreistinga í hirðinni.  Um þetta segir m.a. í forystugrein Morgunblaðsins 26. október 2016, "Aprígöbb í október og ein alvörufrétt":

"Önnur frétt, sem hefur enn meiri þunga, var birt í gær í Financial Times.  Hún hefur ekki náð sömu athygli og allt fyrrnefnt sprikl.  Þar má lesa, að hinir frægu kröfuhafar, sem haft hafa fjölmörg handbendi hér á sínum snærum, bindi vonir við kosningarnar.  Þeir telja, að núverandi stjórnarflokkar hafi haft óþægilegt sjálfstraust í samningum við kröfuhafa síðustu misserin.  Þeir spá upplausn í landstjórninni eftir kosningarnar, og að veik ríkisstjórn sé í burðarliðnum, og binda raunir vonir við það.  Helzt mundu þeir sjálfsagt vilja, að slík ríkisstjórn skartaði Steingrími J. Sigfússyni innanborðs.  Þá gætu kröfuhafar á ný farið að tala um "silfurfatsstjórn" á Íslandi."

Bezti varnarleikur íslenzkra kjósenda laugardaginn 29. október 2016 gegn því, að kröfuhafar föllnu bankanna og aflandskrónueigendur fái hér ríkisstjórn á silfurfati er að styðja Sjálfstæðisflokkinn til að berjast í fremstu víglínu fyrir hagsmunum Íslands.

Skjaldarmerki lýðveldisinsListakjörh_my_pictures_falkinn 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband