Að afloknum kosningum 2016

Kosningaúrslitin eru skýr, hvað sem tautar og raular í ranni hlutdrægra og óáheyrilegra stjórnmálafræðinga.  Borgaraleg öfl hlutu meirihluta greiddra atkvæða eða a.m.k. 51 % og 36 þingmenn. Lýðræðisleg ályktun af kosningaúrslitunum er þess vegna, að ótvíræður sigurvegari kosninganna, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, myndi ríkisstjórn í kjölfarið og leiði hana "á rétta leið". Í anda hvatningar um þverpólitíska samstöðu gæti hann  t.d. myndað ríkisstjórnina A, B, C, D.  

Athyglisverðustu úrslitin eru þó höfnun kjósenda á Samfylkingunni, sem nú hefur leitt til afsagnar formanns flokksins og óttablandinna viðbragða á vinstri væng, enda var honum hafnað í kosningunum.  Ámáttlegt er að heyra forystumenn þar á bæ andvarpa og segjast ekkert botna í niðurstöðunni, og að stefnunni geti ekki verið um að kenna. Sé það rétt, hlýtur að mega kenna frambjóðendunum um hrakfarirnar, þegar Samfylkingin hlýtur aðeins 5,7 % greiddra atkvæða og einn kjördæmakjörinn mann á landinu.  Fráfarandi formaður, sem reyndar er í daufara lagi, hlaut ekki kosningu, en flaut á fjörur Alþingis sem skipsbrak (uppbótarmaður).  Kjaftaskarnir, Össur Skarphéðinsson, Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar og Sigríður Ingibjörg, voru allir felldir, og hefur farið fé betra.  Verður nú vonandi friðvænlegra á Alþingi, því að af þessu liði er landhreinsun.

Þrátt fyrir óframbærilega frambjóðendur og málþófsmenn á þingi, er ekki líklegt, að persónuleg andúð á frambjóðendum Samfylkingar hafi verið ráðandi þáttur í afhroði hennar.  Áherzlumál Samfylkingarinnar og stefna hennar eru meginskýringin á falli hennar og nánast útþurrkun.  Kjósendur höfnuðu þeim á grundvelli málefna þeirra, og það ættu þingmenn allra flokka að hugleiða vandlega m.t.t. til vinnunnar, sem fram undan er á nýkjörnu löggjafarþingi. Jafnaðarstefnan er sem úrelt góss alls staðar í heiminum. Hér verða einkennismál Samfylkingarinnar talin upp og fjallað um þau í stuttu máli:

  1. Hefja á ný aðildarviðræður við Evrópusambandið, ESB, með það að markmiði, að Ísland verði þar aðildarland á kjörtímabilinu.  Þetta markmið Samfylkingarinnar er algerlega úr takti við stjórnmálaþróunina núna í Evrópu, þegar Bretland, helzta viðskiptaland Íslands, er á leið úr ESB, og gamla gulrótin, evran, er svo morkin orðin og ókræsileg, að aðalhöfundur hennar, þýzki hagfræðingurinn Otmar Issing, lýsir því yfir opinberlega, að hún sé dauðvona í sinni núverandi mynd,enda svindla flestar aðildarþjóðirnar á Maastricht skilyrðunum, sem eru grundvöllurinn að stöðugleika myntarinnar.  Hún hefur hrapað að verðgildi á þessu ári m.v. bandaríkjadal, og evru-bankanum í Frankfurt, sem er stjórnað af Ítala í andstöðu við ríkjandi þýzkar hagfræðikenningar, sem m.a. Otmar Issing aðhyllist, hefur algerlega mistekizt að blása lífi í efnahag Suður-Evrópu.  Evran er ekki lengur "borg á bjargi traustu", eins og DEM var, og mun varla standa af sér næstu fjármálakreppu.  Samfylkingin boðaði fyrir kosningar inngöngu "í brennandi hús" af því bara, og hún hefur ekki getað útskýrt, hvers vegna Íslendingar eiga að ganga þar inn, þó að Nestor jafnaðarmanna, Jón Baldvin Hannibalsson, sé orðinn því fráhverfur.
  2. Samfylkingin hefur lengst af frá stofnun sinni boðað "fyrningu aflaheimilda", og hún hefur á þessu kosningaári, 2016, þar að auki rekið harðan áróður fyrir "uppboðsleið", þ.e. uppboði á fyrntum aflaheimildum.  Oddný Harðardóttir skrifaði í kosningabaráttunni nokkrar blaðagreinar þessu til stuðnings og var hörð á því, að ríkisvaldið ætti að láta greipar sópa í hirzlum útgerðarinnar, sem nú eru óðum að tæmast vegna veiðigjalda, sem miðuð eru við betri afkomu en nú er reyndin, og vegna mikillar gengishækkunar ISK og falls sterlingspundsins og þar með minnkandi tekna í ISK.  Að athuguðu máli eru sjómannasamtökin og fulltrúar landverkafólks algerlega á móti slíkri rússneskri rúllettu með afkomu fyrirtækjanna og starfsfólks þess, og almenningur hefur verið upplýstur um hörmulega reynslu Eista og Rússa af innleiðingu "uppboðsleiðar" hjá sér.  Færeyingar standa nú á vegamótum með sitt fiskveiðistjórnunarkerfi.  Þeir hafa notazt við sóknardagakerfi og gefizt upp á því og eru að bræða með sér, hvort "uppboðsleið" eða aflahlutdeildarkerfi verði fyrir valinu.  Málflutningur Samfylkingarinnar um stórfé beint í ríkissjóð, tugi milljarða ISK, frá sjávarútveginum með "uppboðsleið" er mjög illa rökstuddur, ótrúverðugur og sýnir algert ábyrgðarleysi flokksins gagnvart hefðbundnum höfuðatvinnuvegi landsins.  Líklega hefur "uppboðsleið" ekki í för með sér stækkað skattspor sjávarútvegsins, þegar upp verður staðið, heldur þvert á móti. Óöryggið, sem af þessu stafar í hinum dreifðu byggðum landsins, hefur fólk skynjað og engan veginn kunnað að meta. Fólk vill ekki vera haft að tilraunadýrum í þjóðfélagstilraunum sósíalista.
  3. Ný Stjórnarskrá hefur verið baráttumál Samfylkingarinnar frá kjörtímabilinu 2009-2013. Hún lét kjósa Stjórnlagaþing, og Hæstiréttur dæmdi þá kosningu ólögmæta.  Sama fólk var þá af ríkisstjórn Samfylkingarinnar skipað í Stjórnlagaráð.  Þekkingarlega var það ekki í stakk búið til að semja lögfræðilega traust plagg og skorinort, eins og Stjórnarskrá þarf að vera. Samt voru lagðar fyrir þjóðina afspyrnu loðmullulegar spurningar varðandi nýja Stjórnarskrá, sem eru grundvallarmistök við framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu.  Þjóðin virðist engan áhuga hafa á að kollvarpa sinni Stjórnarskrá frá lýðveldistökunni, enda standa engir brýnir hagsmunir til þess og margt annað brýnna í samfélaginu en stjórnskipulegt heljarstökk.  Takmarkaðar Stjórnarskrárbreytingar á síðasta kjörtímabili voru ekki nógu lögfræðilega einhlítar og beinskeyttar, og var meðferð þeirra stöðvuð á Alþingi.  Ef breytingar á að gera til bóta, er bezt, að Alþingi feli þær, að tillögu ríkisstjórnar, nokkrum valinkunnum stjórnlagafræðingum, sem skili tillögum til Alþingis. Loðmulla í þessum efnum er síðasta sort.
  4. Gegndarlaus yfirboð Samfylkingar um að ausa úr ríkissjóði voru ávísun á ófarir.  Sem betur fer komst Samfylkingin ekki í aðstöðu til að efna glórulaust gaspur sitt um yfir 100 milljarða ISK útgjaldaaukningu ríkissjóðs á kjörtímabilinu, heldur hitti ábyrgðarleysið hana strax fyrir sem bjúgverpill í kosningaúrslitunum. Þjóðin vill ekki fórna efnahagslegum stöðugleika með því að þenja út ríkisbáknið.  Slagorð, eins og "ókeypis heilbrigðisþjónusta" var ávísun á svarthol, sem soga mundi stjórnlaust til sín æ stærri hluta ríkisútgjaldanna, og útgjöldin mundu við slíkar aðstæður verða óstöðvandi og ekki stöðvast við 11 % af vergri landsframleiðslu, VLF, eins og einhver vinstri "vitringur" vildi miða við. Kjósendur eru betur að sér en svo, að þeir láti hafa sig að ginnungarfíflum.  Það á við unga sem aldna kjósendur.
  5. Í Reykjavík og reyndar í SV-kjördæmi virðist stuðningur við Samfylkinguna hafa gufað upp, því að hún fékk þar hvorki kjörinn þingmann né uppbótarmann.  Það leikur vart á tveimur tungum, að forysta Samfylkingar fyrir borgarstjórnarmeirihlutanum hefur átt þátt í þessum ótrúlega lélega árangri.  Vinstra skítamixið í borgarstjórn hefur gengið sér til húðar, enda fer því fjarri, að það valdi stjórnunarhlutverki sínu með sóma.  Þetta mynztur ætlaði Samfylkingin að endurvekja í landsstjórninni, en íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa nú í þingkosningum óbeint lýst yfir vantrausti á óstjórninni, sem ríkir í Reykjavík með skuldasöfnun, svelti á leikskólum, þrengingu gatna, sporvagnagælum, lóðaokri, glórulausri þéttingu byggðar, afnámi Neyðarbrautar Reykjavíkurflugvallar og væntanlegri lokun hans 2024 samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur. Þjóðin vill ekki óreiðustjórnmál villta vinstrisins við landsstjórnina.  Reykjavíkurtilraunin verður vonandi blásin af í borgarstjórnarkosningum 2018, sérstaklega í ljósi góðs rekstrarárangurs nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er alls staðar stefnumótandi.  Heilbrigð skynsemi og mörkun skýrs valkosts við óreiðustjórnmálin er allt, sem þarf. 

Forseti lýðveldisins lýsti því yfir við embættistöku sína í ágústbyrjun 2016, að hann teldi eðlilegast að veita þeim formanni stjórnarmyndunarumboðið, sem líklegastur væri að hans mati til að geta myndað ríkisstjórn.  Sjálfstæðisflokkurinn er tvöfalt stærri en næsti flokkur, og hann nýtur mests trausts þjóðarinnar í öllum kjördæmum landsins.  Formaður Sjálfstæðisflokksins ber höfuð og herðar yfir alla hina formennina, eins og nú standa sakir.  Sjálfstæðisflokkurinn myndar stjórnarmeirihluta í flestum sveitarfélögum landsins.  Það væri ankannalegt og mundi útheimta ítarlegar útskýringar að hálfu forseta lýðveldisins, ef hann í fyrstu atrennu mundi taka á sig krókaleið.

Alþingishúsið  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Pistillinn hitti beint í mark, Bjarni.  Og ekki síst þetta með kjaftaskana og landhreinsunina.  Það er í alvöru landhreinsun að losna við svona blekkjara og skemmdarvarga úr stjórnmálum.  Það var skrýtnast hvað þau fengu lengi að blekkja og ljúga opinberlega og vantar viðurlög við þeirri hegðun af stjórnmálamönnum.

Elle_, 2.11.2016 kl. 21:50

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Elle;

Þegar vel er miðað, stillingar í lagi og búnaður viðeigandi, þá er hitt í mark.  Þetta voru sögulegar kosningar fyrir ýmissa hluta sakir.  T.d. var endir bundinn á stjórnmálaferil nokkurra skaðvalda með því að kasta þeim út af þingi.  Niðurlæging þeirra verður vonandi öðrum víti til varnaðar. 

Bjarni Jónsson, 3.11.2016 kl. 13:17

3 Smámynd: Elle_

Já búnaður viðeigandi og stillingar í lagi.  Nokkuð auðlesið að ég var að ræða við verkfræðing.

Elle_, 3.11.2016 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband