4.1.2017 | 17:50
Þrændalög og Vestfirðir
Vestfirðir hafa að mörgu leyti sérstöðu í sögulegu og nútímalegu samhengi. Þar var frá fornu fari matarkista á miðum skammt undan, og þar var jafnan hægt að sækja björg í bú á vorin í fuglabjörg, þegar matarbirgðir voru að verða upp urnar. Vestfirðir eru utan jarðskjálfta- og eldgosasvæða. Hungursneyð heyrði til algerra undantekninga á Vestfjörðum, en sú var ekki reyndin í öðrum landshlutum á erfiðum skeiðum Íslandsbyggðar.
Drottinn gaf og Drottinn tók, eins og átakanlegir og allt of tíðir sjóskaðar eru dæmi um á öllum öldum Íslandsbyggðar. Í seinni tíð, eftir myndun þéttbýlis, minnast menn einnig hræðilegra afleiðinga af snjóflóðum á Vestfjörðum. Allt stendur þetta þó til bóta á okkar tímum með margháttuðum varnaraðgerðum.
Vestfirðingar hafa jafnan verið taldir miklir og góðir sæfarendur, og fornt dæmi um það er Flóabardagi á 13. öld, er mun fámennara lið Vestfirðinga hafði í fullu tré við vel útbúna Skagfirðinga í sjóorrustu á Húnaflóa.
Vestfirðingar voru líka harðsnúnir í hernaði á landi og jafnan hallir undir Sturlunga í átökum á 13. öld, og ætíð verður í minnum haft, er mesti herforingi Íslandssögunnar, Sturlungurinn Þórður, kakali, fór með einvalalið 50 knárra Vestfirðinga um landið og lagði það undir sig í leifturstríði gegn andsnúnum höfðingjum þess tíma.
Saga Vestfjarða í efnalegu tilliti er einnig glæst, og þar voru öflugir kaupmenn með alþjóðleg sambönd, eftir að helsi einokunarverzlunar Danakóngs var aflétt. Á 19. öldinni voru norskir hvalveiðimenn og hvalverkendur aðsópsmiklir, og hvalstöðvarnar urðu fyrsta stóriðja Íslands, og þar fengu íslenzkir verkamenn í fyrsta skiptið greitt með alþjóðlega gildri mynt í seinni tíma sögu landsins.
Ef litið er á þróun fiskvinnslu á Vestfjörðum, kemur í ljós, hún hefur orðið mjög neikvæð á tveimur áratugum í kringum síðustu aldamót. Er kvótakerfinu, sem sett var á 1983 og frjálsu framsali, innleiddu 1991, gjarna kennt um. Í upphafi fengu Vestfirðingar þó ríkulega úthlutaðan kvóta árið 1984 samkvæmt veiðireynslu vestfirzkra fiskiskipa, en þeir frömdu það glappaskot að selja fljótlega frá sér megnið af veiðiheimildum sínum, eftir að heimild var gefin til slíks með löggjöf 1990. Sagt er, að vestfirzkir útgerðarmenn hafi ekki reiknað með langæi kvótakerfisins. Það var rangt stjórnmálalegt og efnahagslegt mat.
Árið 1993 voru 17 kt af uppsjávarfiski verkuð á Bolungarvík, ekkert árið 2013.
Árið 1993 voru 37 kt af botnfiski verkuð á Vestfjörðum, en árið 2013 aðeins 14 kt, og var það allt verkað á Ísafirði og í Hnífsdal. Minnkunin nam 23 kt eða 62 %, og nam minnkunin á Suðurfjörðunum 10 kt. Þetta hefur að sjálfsögðu dregið byggðalegan mátt úr Vestfjörðum, og íbúunum hefur fækkað, en nú hefur orðið gleðilegur viðsnúningur í málefnum Vestfjarða, svo að hillir undir nýja stórveldistíð með drjúgri fólksfjölgun, gjaldeyrisöflun og tekjum á mann yfir meðaltali tekna á landinu.
Þetta er í raun umfjöllunarefni fyrrverandi forseta Alþingis og núverandi formanns stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva, Einars Kristins Guðfinnssonar, EKG, í grein í Fiskifréttum, 15. desember 2016:
"Lítil dæmisaga um byggðamál frá Noregi":
Einar Kristinn hefur frásögnina af ferð sinni til eyjarinnar Freyju í Noregi þannig:
"Fröya er sjálfstætt sveitarfélag, vestasti hluti Syðri-Þrændalaga í Noregi, ekki langt frá Þrándheimi; Niðarósi, sem kemur mjög við sögu í fornsögunum. Ólíklegt er, að margir Íslendingar þekki þar staðhætti."
Blekbóndi verður þó að gera athugasemd við síðustu málsgreinina vegna þess, að Þrándheimur eða Niðarós, sbr Nidarosdomen á norsku fyrir Niðarósdómkirkju, er mikið menntasetur og skólabær. Þar var t.d. lengi rekinn eini Tækniháskóli Noregs, NTH-Norges Tekniske Högskole, nú NTNU eftir sameiningu skóla í Þrándheimi, og þar hafa allmargir íslenzkir námsmenn numið alls konar verkfræði við afar góðar kennsluaðstæður, í góðum tengslum við norskan iðnað, og þar er t.d. Rannsóknarstofnun norskra rafveitna (Elektrisitetsforyningens Forskningsinstitutt-EFI), við búsældarlegt atlæti í fögru umhverfi, og er blekbóndi á meðal fyrrverandi stúdenta þar.
Ljúka þeir flestir upp einum rómi um gæði þessa náms og góð kynni af norskum frændum, sem eiga vilja hvert bein í Íslendingum, ef svo ber undir. Af þessum ástæðum hafa allmargir Íslendingar gengið um Niðarós allt frá dögum Kjartans Ólafssonar frá Hjarðarholti, er hann var þar með fríðu föruneyti ofan af Íslandi og þreytti sundiðkan við knáan Noregskonung kristnitökunnar, Ólaf Tryggvason.
"En hin norræna skírskotun er kannski ekki í dag það, sem fyrst kemur upp í hugann, hvorki í Noregi né á Íslandi. Heldur miklu fremur hitt, að þarna fer fram gríðarlega öflugt laxeldi, sem hefur haft mikil og jákvæð áhrif á byggðina á eyjabyggðinni (sic.). Það blasti við mér, eins og öðrum, þegar ég heimsótti Fröya fyrir skemmstu.
Líkt og margar sjávarbyggðir háði Fröya sína varnarbaráttu. En fyrir um áratug snerist dæmið við, svo að um munaði, með uppbyggingu laxeldisins. Beinum störfum fjölgaði. Mikil fjárfesting átti sér stað með öllum þeim umsvifum, sem því fylgja. Upp spruttu nýjar og áður óþekktar atvinnugreinar, sem leiddu af uppbyggingu í eldinu. Ungt fólk tók að streyma til eyjarinnar. Fólkinu fjölgaði, og sveitarfélagið varð æ eftirsóttara til búsetu."
Síðan lýsir EKG því, að á einum áratugi, eftir að þessi mikla atvinnuuppbygging hófst, hafi fólksfjölgun orðið 20 % - 25 %, sem er tiltölulega mikil fjölgun, en þó ekki meiri en svo, að hún getur farið fram með skipulegum hætti, og sveitarfélagið getur á sama tíma reist nauðsynlega innviði. Markaðsrannsóknir sýna, að markaðurinn getur tekið við enn meira magni af eldislaxi á næstu áratugum og að verðþróun verði framleiðendum hagstæð, eða með orðum EKG:
"Laxeldi í Noregi nemur um 1,4 milljónum tonna, hefur tvöfaldazt á síðustu 8 árum, fer vaxandi og spáð, að svo verði áfram."
Þessi sama þróun er nú nýhafin á Vestfjörðum. Norsk laxeldisfyrirtæki eru að hasla sér þar völl með töluverðum fjárfestingum og færa hinni ungu grein á Vestfjörðum dýrmæta reynslu, þekkingu, öguð vinnubrögð, gæðastjórnun og öryggisstjórnun.
Ótti ýmissa hérlandsmanna er um erfðablöndun norska eldislaxins við villta íslenzka laxastofna. Til þess mega fæstir Íslendinga hugsa, en sjávarútvegsfræðingurinn og framkvæmdastjóri Eldis og umhverfis ehf, Jón Örn Pálsson, hefur í grein í Viðskiptablaðinu, 6. október 2016, fært gild rök fyrir því, að hætta á þessari erfðablöndun þurfi alls ekki að standa þróun greinarinnar fyrir þrifum á Íslandi.
Í Noregi er nú unnið samkvæmt norska staðlinum NS9415 í laxeldisstöðvum, og eru slysasleppingar í svo litlum mæli eftir innleiðingu hans, að villtum stofnum getur ekki stafað erfðafræðileg hætta af. Árin 2014-2015 er talið, að 6000 eldislaxar, eða 0,002 % (20 ppm) af fjölda laxa í kvíunum, hafi sloppið í norskar ár, sem mundi þýða 400 eldislaxa á ári í íslenzkar ár m.v. 100 kt/ár framleiðslu. Jón Örn endar grein sína þannig:
"Af því, sem hér hefur verið dregið fram, má ljóst vera, að ekki þarf að fórna einum einasta villtum laxastofni til að byggja upp mikilvæg störf við fiskeldi á landsbyggðinni."
Leiðin virðist greið fyrir Vestfirðinga að finna fjölina sína á ný með því, að laxeldi og afleiddar greinar þess verði í flestum eða öllum fjörðum Vestfjarða sem kjarnastarfsemi, og ferðaþjónustan sem stuðningsstarfsemi. Með þessu móti skapast skilyrði fyrir ágætis tekjuþróun og innviðauppbyggingu á Vestfjörðum, sem vantað hefur, frá því að vægi fiskveiða og fiskvinnslu minnkaði með þeirri samþjöppun, sem tækniþróun o.fl. hefur knúið áfram. Svo kölluðum "brothættum byggðum", 10-12 talsins, samkvæmt skilgreiningu Byggðastofnunar fækkar nú að sama skapi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.