Kúreki kveikir upp

45. forseti Bandaríkja Norður-Ameríku, BNA, er búinn að kveikja upp í "Oval Office", embættisskrifstofu sinni, hagar sér eins og villtur kúreki, ríður mikinn í kringum hjörðina og þyrlar upp stórum rykmekki.  Þar fer augljóslega óhefðbundinn forseti með slíka lyndiseinkunn, að öruggt má telja, að það á eftir að skerast í odda á milli hins sjálfumglaða húsbónda í Hvíta húsinu og bandaríska þingsins í Washington D.C.

Forsetinn hefur undirritað eina tilskipun á dag, fyrstu dagana í embætti, í kastljósi fjölmiðla, sem hann annars hefur sagt stríð á hendur.  Eru þessir stórkarlalegu tilburðir fremur broslegir, en það er ómögulegt að segja fyrir um, hvernig þessu leikriti "hins afburðasnjalla og víðfræga" sonar Fred Trumps, kaupsýslumanns, sem ættaður var frá hinu huggulega vínyrkjuhéraði Þýzkalands, Pfalz, lyktar. 

Fyrsta tilskipun Donalds Trumps mun hafa fjallað um að draga BNA út úr viðskiptasamkomulagi Kyrrahafsríkja.  Þetta er fyrsta skrefið í að stöðva flóð kínverskra vara og fjármagns til BNA og draga þannig úr samkeppni bandarísks vinnuafls við hið kínverska.  Á sama tíma er Donald hvassorður um útþenslu Kínverja á Kínahafi, þar sem þeir eru að koma sér upp flotastöðvum í óþökk allra nágrannanna.  Þá ögrar Donald valdhöfum kínverska kommúnistaflokksins í Peking með því að ræða við forseta Taiwan (Formósu).  Donald Trump ætlar að stöðva framsókn Kínverja sem alheimsstórveldis, er ógnað geti BNA. Þetta mun ekki ganga átakalaust. 

Donald Trump virðist vera upp sigað við Evrópusambandið, ESB, sem er alveg ný afstaða í Hvíta húsinu.  Virðist hann helzt vilja sundra Evrópu, e.t.v. svo að hún ógni ekki BNA á viðskiptasviðinu, og hann hefur skotið Evrópumönnum, utan Rússlands, skelk í bringu með þeim palladómi, að NATO sé úrelt þing.  Hefur hann gefið í skyn, að NATO þjóni ekki hagsmunum BNA á meðan hinar NATO-þjóðirnar dragi lappirnar í útgjöldum til hermála og taki sér far á vagni, sem Bandaríkjamenn dragi.  Krafan er 2,0 % af VLF til hermála, sem á Íslandi þýðir rúmlega miaISK 50 til varnar- og öryggismála.  Ætli fari ekki innan við 1/10 af þeirri upphæð í mál, sem má flokka sem slík hérlendis nú ?  Hvað gerir Donald, þegar honum verður sagt frá því og hinum sérstaka varnarsamningi á milli Íslands og BNA ?  Það er eins gott, að skrifstofan er ávöl, því að annars gæti komið hljóð úr horni. 

Donald rekur hornin í ESB úr vestri og virtist í kosningabaráttunni vilja vingast við Vladimir Putin,fyrrverandi KGB-foringja og núverandi Kremlarbónda, sem hefur heldur betur rekið hornin í ESB úr austri.  Það á sem sagt að þrengja að ESB úr tveimur áttum á sama tíma og fjandsamlegir vindar blása í átt að BNA úr austri, suðri (Mexíkó) og vestri.  Það er sem sagt allt upp í loft. 

Upp í loft er líka allt hér í Evrópu, þar sem Bretar eru á leið út úr ESB.  Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur nú í ræðu í Leicester House gert opinbera grein fyrir því, hvaða línu ríkisstjórnin í Lundúnum ætlar að taka í þessu ferli.  Það verður "hreinn" viðskilnaður, sagði hún, sem er rökrétt afstaða ríkisstjórnarinnar eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna og felur í sér, að Bretar munu ekki sækjast eftir veru á Innri markaði ESB/EFTA með "frelsunum fjórum", heldur losa sig algerlega undan tilskipanafargani búrókratanna í Brüssel og taka fulla stjórn á landamærum sínum. 

Með þessu móti hafa Bretar frjálsar hendur um viðskiptasamninga við ESB og alla aðra.  Það var alger hvalreki fyrir þá að fá yfirlýsingu frá Donald Trump  um, að hann mundi liðka fyrir yfirgripsmiklum viðskiptasamningi á milli Bretlands og BNA.  Bretar geta þannig orðið stjórnmálalegur og viðskiptalegur milliliður á milli BNA og ESB, sem er draumastaða fyrir þá. 

Eftir téða ræðu Theresu May í Leicester House hvein í tálknum í Edinborg.  Þjóðarflokkur Skota, sem Sturgeon, yfirráðherra Skota fer fyrir, virðist telja hag sínum betur borgið á Innri markaði ESB en með óheftan aðgang að Englandi, Norður-Írlandi og aðild að öllum viðskiptasamningum Englendinga.  Hefur hún hótað aðskilnaði við England, ef verður af "hardest of hard Brexits" og inngöngu í ESB.  Þetta er hins vegar kolrangt mat hjá henni, því að það síðasta, sem framkvæmdastjórninni og leiðtogaráðinu í Berlaymont kann að detta í hug er að veita klofningsríki í Evrópu aðild, því að þar með yrði fjandinn laus í fjölda aðildarríkja.  Nægir að nefna Katalóníu á Spáni. Skotar munu þess vegna ekki fá aðild að ESB í sinni núverandi mynd, og þar með minnkar hvatinn til að rjúfa sig frá Englandi.  Allt er þetta "skuespill for galleriet".

Hvaða áhrif hefur þessi hrærigrautur hérlendis ?  Í öryggismálum verðum við að reiða okkur á NATO nú sem endranær og vona, að Bandaríkjaþing slaki ekki á varnarskuldbindingum Bandaríkjastjórnar og bandaríska heraflans gagnvart NATO-ríkjum. 

Í viðskiptamálum þurfum við fríverzlunarsamning við Bretland, sem tryggir íslenzkum útflytjendum tollfrjálsan aðgang að Bretlandsmarkaði.  Ef Bretar ná hagstæðum fríverzlunarsamningi við ESB, þarf að athuga, hvort við getum fengið tollfrjálsan aðgang að ESB-löndunum, og getum þá gengið úr EES, ef okkur sýnist svo. 

Þriðja stoð utanríkisstefnunnar ætti að vera að rækta sambandið við Berlín, því að þar er frjór jarðvegur fyrir náið samstarf og þangað er nú komin valdamiðstöð meginlands Evrópu vestan Rússlands.  Ef þessar 3 stoðir eru í lagi, er öryggishagsmunum og viðskiptahagsmunum Íslands borgið.

Varðandi frjálsa fjármagnsflutninga á milli Bretlands og Íslands þarf að gæta að því, að Bretar hafa undir rós hótað ESB því, að ætli samningamenn ESB um viðskilnað Bretlands að verða erfiðir og leiðinlegir, þá geti Bretar breytt hagkerfi sínu í skattaparadís til að stríða ESB-mönnum og draga frá þeim fjármagn.  Bretar hafa sterk spil á hendi, af því að öflugasta fjármálamiðstöð Evrópu er í Lundúnum, og þar fara jafnvel mestu viðskiptin með evrur fram. 

Um þetta skrifar Wolfgang Münchau á Financial Times í Morgunblaðið 26. janúar 2017:

"Í þriðja lagi á Bretland sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, er meðlimur G-20 hópsins og einnig G-7 hópsins.  Ef aðildarríki ESB vilja stemma stigu við skattasniðgöngu alþjóðafyrirtækja, stuðla að sanngjarnari áhrifum hnattvæðingar, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eða finna lausnir til að berjast gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, þá munu þau þurfa á Bretlandi að halda."

Í framkvæmdastjórn ESB eru jaxlar, sem vilja hræða önnur ríki frá að feta í fótspor Breta með því að sýna þeim í tvo heimana, þegar tekið verður til við að semja um viðskilnaðinn.  Í leiðtogaráðinu er stemningin önnur.  Mikið mun velta á því, hvernig þingkosningar fara í Hollandi í vor, forsetakosningar í Frakklandi í sumar og síðast, en ekki sízt, hver niðurstaða kosninganna til Sambandsþingsins í Berlín verður.  Munu Þjóðverjar refsa Merkel ?  Þeir virðast vera í skapi til þess núna. 

Bretar hafa ýmislegt uppi í erminni.  Spenna eykst í Evrópu, en viðskilnaðarsamningar verða ekki leikur kattarins að músinni, heldur miklu líkari viðskiptum Tomma og Jenna.  Münchau skrifar:

"Ef til "harðrar útgöngu" kemur, myndi hún ýta Bretlandi í átt að annars konar viðskiptalíkani, eins og Philip Hammond, fjármálaráðherra, komst að orði.  Mætti líka orða þetta sem svo, að í stað þess að leiða hinn vestræna heim í baráttunni við skattasniðgöngu, gæti Bretland orðið enn eitt skattaskjólið.  Það væri ekki sniðugt fyrir land á stærð við Bretland að taka upp sama líkan og Singapúr, að mínu mati.  Síðar nefnda landið er í raun einungis fjármálamiðstöð, en hið fyrr nefnda býr að fjölbreyttu hagkerfi og þarf fyrir vikið að móta víðtækari stefnu.  Hyggilegra væri að leggja áherzlu á nýsköpun og marka stefnu til að auka framleiðni.  Þótt lágskattaleiðin væri sennilega ekki sú hagkvæmasta, þá skapar hún engu að síður ógn fyrir ESB." 

Ekki er ólíklegt, að vinsamleg stefna Trumps gagnvart Rússum og fjandsamleg afstaða hans gagnvart ESB, muni bráðlega leiða til þess, að viðskiptabann Vesturlanda á Rússa og innflutningsbann Rússa á matvörum, verði felld niður.  Eftir er að sjá, hvort Íslendingar verða þá fljótir að endurvekja viðskiptasambönd sín við Rússa.  Það yrði sjávarútveginum og þjóðarbúinu kærkomin búbót á tímum tekjusamdráttar af öðrum völdum, en árlegt sölutap vegna lokunar Rússlands hefur numið 20-30 miaISK/ár. 

Hjörleifi Guttormssyni, náttúrufræðingi, er ástand alþjóðamála hugleikið.  Hann varpar fram eftirfarandi útskýringu á óánægju vestrænna kjósenda, t.d. bandarískra, sem komu Trump til valda, í Morgunblaðsgrein, 26. janúar 2017,

"Vesturlönd á afdrifaríkum krossgötum":

"Hnattvæðing efnahags- og fjármálastarfsemi hefur á sama tíma gerbreytt leikreglum í alþjóða viðskiptum og leitt til gífurlegrar auðsöfnunar fárra.  Eignir 8 ríkustu manna heims eru nú metnar til jafns við samanlagðan hlut 3´500 milljóna manna eða um helmings mannkyns.  Inn í þetta fléttast örar tæknibreytingar, sem gera þorra mannkyns að þátttakendum í samfélagsumræðu óháð hefðbundnum fjölmiðlum."

Hér fellur Hjörleifur í gryfju Oxfam, sem tiltekur heildareignir manna, en ekki hreinar eignir.  Hinir auðugri skulda margfalt meira en hinir, eins og nýlega kom fram á Íslandi vegna "skuldaleiðréttingarinnar".  Þá ber að halda því til haga, að téð hnattvæðing hefur lyft a.m.k. einum milljarði manna úr fátækt í bjargálnir, og áttamenningarnir hafa sumir hverjir veitt gífurlegum upphæðum til fátækra og sumir ánafnað góðgerðarstofnunum öllum auði sínum.  Flestir í þessum átta manna hópi voru frumkvöðlar, m.a. Zuckerberg á Fésbók, sem ekki hafa tekið fé af neinum, heldur orðið auðugir, af því að fólk vildi gjarna kaupa nýjungar, sem þeir höfðu á boðstólum á undan öðrum mönnum. Er það gagnrýnivert ? Að stilla þessum áttmenningum upp sem óvinum almennings og vandamáli er í ætt við Marxisma, sem er algerlega gagnslaus sem þjóðfélagsgreining nú sem áður. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband