31.1.2017 | 11:11
Heilbrigði í háska
Að undanförnu hefur farið fram umræða á Íslandi um framkvæmd heilbrigðisþjónustu, sem vart gæti átt sér stað annars staðar í Evrópu, og það er svo sem gott og blessað. Er þar átt við aukna fjölbreytni rekstrarforma aðila, sem framkvæma tilteknar skurðaðgerðir með takmarkaðri sjúkrahúsvist í kjölfarið.
Aðallega mun þar um að ræða aðgerðir, þar sem óhóflegir biðlistar valda þjökuðum ómældum líkamlegum og andlegum kvölum, af því að Landsspítalinn annar ekki eftirspurninni. Þetta jafngildir auðvitað lífsgæðatapi og fjárhagstapi fyrir samfélagið, sérstaklega ef sjúklingurinn er frá vinnu.
Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og frumkvöðull, ritaði 20. maí 2015 góða grein í Morgunblaðið, "Heilbrigðiskerfi á villigötum".
Eftirfarandi upphaf greinarinnar var átakanleg lýsing vegna verkfalls á Landsspítalanum, en lýsingin getur líka átt við um langa biðlista, þar sem biðtíminn er í sumum tilvikum lengri en eitt ár, sem er alveg skelfilegt:
"Er það nokkurn tímann ásættanlegt, að líf og heilsa fólks sé óbeint notað sem skiptimynt í samningaviðræðum um kaup og kjör ? Nýlega frétti ég af sjúklingi, sem féll frá, eftir að aðgerð, sem hann átti að fara í, var frestað vegna verkfallsins. Ætli nokkur viti í raun, hversu mörg mannslíf þessi deila hefur þegar kostað ? Ástandið er í raun alveg siðlaust. Einkavætt heilbrigðiskerfi er eina skynsamlega lausnin, sem getur komið í veg fyrir, að svona ástand endurtaki sig."
Deiluefnið hérlendis, sem í upphafi var minnzt á, er reyndar ekki einkavæðing heilbrigðiskerfisins, heldur snýst það um einkarekið fyrirtæki, sem býðst til að bjóða Sjúkratryggingum Íslands samning um tiltekna, brýna þjónustu, sem Landlæknir hefur viðurkennt, að fyrirtækið geti veitt, og Landsspítalinn er um þessar mundir ekki í færum til að veita fyrr en eftir dúk og disk.
Sumpart stafar sú ömurlega staða sjálfsagt af því, að ný aðstaða spítalans hefði nú þegar þurft að vera komin í notkun, þegar litið er til ástands gömlu aðstöðunnar og hinnar brýnu þarfar, en staðreyndin er sú, að 6 ár eru þar til veruleg breyting verður á högum spítalans, og fram til ársins 2023 er ljóst, að grípa verður til óhefðbundinna ráða til úrlausnar á vandamálum, sem hrannast upp.
Eitt af slíkum ráðum er tvímælalaust að leyfa Sjúkratryggingum Íslands að ganga til samninga við einkafyrirtæki um tilteknar aðgerðir og tiltekinn fjölda þeirra gegn gjaldi, sem sé ekki hærra en sambærilegar aðgerðir kosta á Landsspítalanum, og heldur ekki með hærri kostnaðarþátttöku sjúklinganna. Hver getur tapað á þessu fyrirkomulagi ? Hvern er verið að vernda með því að berjast gegn þessu með kjafti og klóm ?
Sjúklingurinn græðir, því að hann fær fyrr úrbætur meina sinna; samfélagið græðir, því að líf sjúklingsins færist fyrr í venjulegra horf; álag á Landsspítalann minnkar, og kostnaður per sjúkling eykst ekki.
Óánægjuraddirnar heyrast frá þeim, sem eru óttaslegnir yfir, að þeir, sem mest græða á þessu fyrirkomulagi, kunni að vera eigendur einkafyrirtækisins. Hvers vegna ætti skattborgarinn að sýta það, ef kostnaður hans per sjúkling eykst ekki, heldur er hagnaður fyrirtækisins, ef einhver er, sóttur til aukinnar skilvirkni, meiri framleiðni en fyrir hendi er á stórri ríkisstofnun, sem starfar við óboðlegar aðstæður árið 2017, þótt ekki hvarfli að blekbónda eitt andartak að kasta með nokkrum hætti rýrð á starfsfólk spítalans.
Fái einkarekstur af þessu tagi að þrífast, eins og fordæmi eru um frá heilsugæzluþjónustunni, þá aukast líkur á, að fleiri íslenzkir sérfræðingar á heilbrigðissviði komi heim úr sérnámi og störfum. Kjör og vinnuaðstaða starfsfólks í einkarekstrinum verða væntanlega ekki lakari en hjá ríkisfyrirtækinu, og möguleikar á samnýtingu sérhæfðs mannskaps og tækja opnast. Að gera því skóna, að Landsspítalinn verði undir í slíkri samkeppni er að mála skrattann á vegginn. Hins vegar er líklegt, að lömun á þeim stóra vinnustað, Landsspítalanum, vegna verkfalls eða sýklafárs, verði ekki jafnafdrifarík, ef fleiri vinnustaðir geta veitt að takmörkuðu leyti sambærilega þjónustu.
Góðri grein sinni lýkur Jóhannes Loftsson, verkfræðingur, þannig:
"Eina langtímalausnin á vanda heilbrigðiskerfisins, sem er réttmæt og tryggir samkeppnishæfni, er að einkavæða það alveg, svo að einstaklingar fái vald yfir því, sem skiptir þá mestu máli. Slíkt fyrirkomulag mun jafnframt tryggja, að reyndir læknar og heilbrigðisstarfsfólk, sem hefur lagt mikið á sig til að sérhæfa sig í starfi, fái laun og starfsumhverfi, sem þau eiga skilið. Því að þegar þeir, sem nota heilbrigðiskerfið, fá að ráða eigin málum, þá verður miðstýrð yfirstjórn óþörf, og þjónustan verður sjálfkrafa mun betri og markvissari, enda mun hún taka mið af þörfum sjúklinga, en ekki af þörfum kerfisins."
Þessi pistill blekbónda er til að mæla með takmörkuðum einkarekstri í sjúkrahúsgeiranum, en ekki einkavæðingu sjúkrahúsgeirans. Það er þjóðfélagsleg nauðsyn að minnka þrýstinginn á Landsspítalann áður en sprenging verður. Sú sprenging getur orðið vegna feiknarlegs fjölda erlendra ferðamanna, sem veikjast og slasast, eins og aðrir, og vegna gríðarlegrar fjölgunar eldri borgara, hérlendra. Aldurssamsetning Íslendinga er um þessar mundir hagstæð, þ.e. meðalaldur þjóðarinnar er lágur, t.d. í samanburði við hin Norðurlöndin. Samkvæmt OECD var um 13,1 % íslenzku þjóðarinnar 65 ára eða eldri árið 2014, en í Noregi 15,8 %, í Danmörku 18,3 % og í Svíþjóð og Finnlandi 19,3 %. Það sígur þó hratt hér á ógæfuhlið, og megnið af kostnaðinum við lækningar, hjúkrun og umönnun hvers einstaklings myndast, eftir að 65 ára aldrinum er náð. Á Íslandi er þróun aldursdreifingar í þjóðfélaginu með sama hætti og á hinum Norðurlöndunum. Ástæðan er bæði minni viðkoma, fækkun fæðinga á hverja konu, og meira langlífi landsmanna. Þetta þýðir, að fjármögnun sjúkrahúsanna verður þyngri og kostnaðarhliðin þyngist gríðarlega.
Þessi ógæfulega þróun verður ljósari, þegar fjölgunin á aldarfjórðungsbilinu 2014-2040 er skoðuð. Þá mun 65 ára og eldri fjölga um 97 %, 15-64 ára um 16 %, og Hagstofan spáir jafnframt, að þjóðinni í heild fjölgi um 25 % á þessu tímabili.
Af þessu er ljóst, að framleiðniaukning í atvinnulífinu er ekki aðeins nauðsynleg til að bæta lífskjör almennings, heldur til að viðhalda þeim kjörum, sem nú hafa náðst. Framleiðni á hvern starfsmann er minni á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum í öllum greinum atvinnulífsins, nema fjármálastarfsemi, landbúnaði og sjávarútvegi. Mestu munar í iðnaði og upplýsinga- og fjarskiptafyrirtækjum. Framleiðsla á hverja vinnustund er minni á Íslandi en á öllum hinum Norðurlöndunum. Það er verðugt verkefni ungu kynslóðarinnar að laga þetta.
Bezta ráðið til að auka framleiðni er að efla samkeppni. Það á líka við í sjúkrahússrekstri. Stjórnvöld geta lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að greiða götu aukinnar fjölbreytni rekstrarforma, þar sem áhugi og rekstrarleg geta er á slíku og að uppfylltum sömu gæðakröfum og gerðar eru til þeirra stofnana, sem fyrir eru. Slíkt leyfi yrði tekið sem tákn um frjálslyndi og yrði vafalaust hvati til aukinnar framleiðni.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Heilbrigðismál, Kjaramál | Breytt s.d. kl. 13:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.