12.2.2017 | 10:56
Lömun sjávarútvegs með verkfalli
Verkfall nokkurra sjómannafélaga er eldra en ríkisstjórnin. Tjónið af því er svo mikið, að það hefur neikvæð áhrif á þjóðhagsstærðir á borð við hagvöxtinn í ár. Þúsundir saklausra borgara líða fyrir þessi kjaraátök sumra sjómanna og útgerða, og fjárhagur skuldsettra einstaklinga og minni fyrirtækja mun ekki bera sitt barr. Markaðir og traust viðskiptavina íslenzkra birgja glatast, og það mun kosta fjárhagslegar fórnir að ná mörkuðum aftur, nú þegar mikill fiskneyzlutími fer í hönd á föstunni. Þessu stríðsástandi verður að linna, því að allir hérlandsmenn tapa. Vinnumarkaðsráðherrann getur varla verið stikkfrí. Liggur hann undir feldi ?
Við þessar aðstæður er hlutur sjávarútvegsráðherrans einnig einstaklega rýr, og hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar, að sjávarútvegsráðherra væri á flótta frá stærsta vandamáli þjóðfélagsins í einu lengsta verkfalli sögunnar hérlendis. Kostnaðarlappinn á þessu verkfalli er nú kominn í miaISK 100, þegar tekið er tillit til viðtekins stuðuls óbeinnar verðmætasköpunar sjávarútvegsins, 2,5.
"Rannsóknir hafa sýnt, að að framlag sjávarútvegsins til landsframleiðslunnar sé minnst 2,5 sinnum meira en tekjur greinarinnar sjálfrar gefa til kynna",
stendur í Fiskifréttum hjá Guðjóni Einarssyni 9. febrúar 2017. Hver getur staðið undir þeirri byrði að fá á sig hengdan þennan verðmiða ?
Tjónið, sem hlýzt af þessu sjómannaverkfalli, er geigvænlegt, hvað sem merkimiðum líður, og það er alveg með ólíkindum langlundargeð landsstjórnenda að láta þessa dæmalausu tortímingaráráttu viðgangast. Um það skrifar hinn knái fyrrverandi utanríkisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, í Morgunblaðið 3. febrúar 2017,
"Kæruleysi stjórnvalda":
"Erlendir markaðir eru að glatast, þar sem afhendingaröryggi ferskra sjávarafurða er ekki lengur tryggt. Samkvæmt greiningu sjávarklasans tapast á hverjum degi MISK 640 í útflutningstekjum [tjónið nemur þá nú tæplega miaISK 40-innsk. BJo], og daglegt heildartap er nærri milljarði króna, ef deilan leysist ekki von bráðar. Miklir þjóðhagslegir hagsmunir eru í húfi, og tjónið mikið, á meðan fiskveiðiflotinn liggur óhreyfður við bryggju."
Það er hneyksli, sem um munar, að sjávarútvegsráðherra hefur lýst því yfir, að hún muni ekki koma nálægt lausn þessarar deilu, þótt öllum öðrum en henni sé ljóst, að ríkisvaldið heldur á lyklinum að lausn þessarar deilu sem handhafi skattlagningarvaldsins. Er sjávarútvegsráðherra búin að stimpla sig út ? Lilja skrifaði ennfremur:
"Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í vikunni kom fram, að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki látið meta, hve mikið þjóðhagslegt tjón hlýzt af deilunni [sjávarklasinn gerði það-innsk. BJo]. Það er heldur ekki búið að kanna, hvort þörf sé á mótvægisaðgerðum fyrir þau sveitarfélög, sem koma verst út [kassinn er þegar tómur víða-innsk. BJo].
Raunar er engu líkara en sjómannaverkfallið komi ráðherra sjávarútvegsmála ekkert við, því að þótt málið hafi ekki verið krufið til mergjar, hefur ráðherra útilokað allar sértækar aðgerðir, sem gætu liðkað fyrir lausn deilunnar. Slíkt kæruleysi er varasamt og getur valdið meiri þjóðhagslegum skaða af hinu langvinna verkfalli."
Ráðherrann er fallinn á prófi í aðalfaginu sínu. Upptökupróf verður ekki haldið. Með fjarveru sinni og áhugaleysi er hún orðin meðábyrg fyrir líklega dýrasta verkfalli Íslandssögunnar.
Þann 9. febrúar 2017 birtist forystugrein í Morgunblaðinu,
"Svigrúm til lausnar",
þar sem bent var á og það rökstutt, að ríkisvaldið getur hjálpað til við lausn deilu, þar sem herzlumuninn vantar. Vilji er allt, sem þarf.:
"Annað, sem skiptir máli í samanburði á starfsumhverfi sjávarútvegs hér á landi og erlendis, er, að íslenzkur sjávarútvegur er einn í þeirri stöðu að greiða sérstakan auðlindaskatt, svo kallað veiðigjald. Aðrar þjóðir fara ekki þá leið að skattleggja sjávarútveg sinn sérstaklega; þvert á móti hafa sumar þeirra veitt sjávarútvegi sínum, sem á í beinni samkeppni við okkar sjávarútveg, myndarlega ríkisstyrki.
Í samanburði við aðrar greinar innanlands, sem nýta náttúruauðlindir, er staðan einnig skökk, sjávarútveginum í óhag. Hann þarf einn að þola það að vera skattlagður sérstaklega með auðlindaskatti. Óskiljanlegt er, að þeir, sem í ýmsum öðrum málum segjast andvígir allri mismunun, skuli sætta sig við, að undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar sé mismunað svo gróflega.
Það er ekki að ástæðulausu, að þetta er fært í tal nú, þegar verkfall sjómanna hefur staðið í nær tvo mánuði. Það skattaumhverfi, sem greininni er búið, á stóran þátt í þeirri óánægju, sem ríkir innan sjómannastéttarinnar. Þar vegur afnám sjómannaafsláttarins þungt, en fleira hefur verið nefnt, svo sem mismunun gagnvart sjómönnum á meðferð dagpeninga."
Mál er, að linni og að sjávarútvegsráðherra í samráði við flokksbróður sinn, fjármála- og efnahagsráðherra, blandi sér í slaginn með innlegg í málið, sem stillt geti til friðar, svo að ríkissáttasemjari geti síðan hamrað járnið á meðan heitt er, eða, ef enn gengur ekki saman, teflt fram miðlunartillögu, sem ríkisstjórnin er þá tilbúin að lögfesta, ef annar aðilinn, eða báðir, hafna henni. Við svo búið má ekki standa. Að sitja með hendur í skauti og bíða eftir, að staðir asnar drattist að samningaborðinu og þori að semja, er enginn raunverulegur valkostur nú, þegar loðnuvertíð gæti verið innan seilingar og kaþólikkar ætla að belgja sig út af fiski og meðlæti á í hönd farandi föstu.
Hitt er það, sem forsætisráðherra hefur ýjað að, að þessi deila sýnir, það sem löngu var vitað, að vinnumarkaðskerfi okkar er veikur hlekkur í þjóðaröryggiskeðjunni, þar sem minnihluti félagsmanna í fáeinum verkalýðsfélögum getur hafið stríðsrekstur gegn byggðarlögum hringinn í kringum landið og valdið þjóðarbúinu tapi, sem nemur meira en 3 % af vergri landsframleiðslu án þess, að ríkissáttasemjari eða aðrir fái rönd við reist.
Ríkisstjórnin ætti að gangsetja vinnu, sem miðar að endurskoðun kreppulaga um stéttarfélög og vinnudeilur eða a.m.k. að vinna að lagasetningu um vinnudeilur, sem eflir mjög valdsvið og úrræði ríkissáttasemjara í anda hinna Norðurlandanna. Það er ótækt, að embætti ríkissáttasemjara sé í lamasessi, þegar tilteknar stéttir í vinnudeilum lama starfsemi sjúkrahúsa, skóla eða annarrar stærstu vöruútflutningsgreinarinnar, svo að dæmi sé nefnt. Þjóðarnauðsyn krefst úrræða ríkisvaldsins til varnar gegn slíkum stóráföllum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Kjaramál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
1961 sömdu sjómenn um lækkun á skiptaprósentu úr 38-40% niður í 28-30% gegn því að hætta þátttöku í ýmsum útgerðarkostnaði, olíu,og ímsum öðrum útgerðarkostnaði.
1986 er svo ,,samið" um að 30% yrði tekið utan skipta í olíugjald, en á árunum 1981-85 hafði olíukostnaður verið að meðaltali um 27% af aflaverðmæti. Á þessum árum heyrðist aldrei talað um arðgreiðslur til útgerðarmanna. Núna síðustu 4-5 ár hefur olíukostnaður verið að meðaltali 11.7%. Kröfur sjómanna um að setja viðmiðið upp í 73% úr 70% hefur verið þverneitað af hálfu útgerðarinnar, Miðað við sömu forsendur og 1985 ætti skiptaprósentan að vera 85-87%.
Þessi 15-17% sem dregið er af sjómönnum umfram olíukostnaðar greiðir trúlega ríflega arðgreiðslur útgerðarinnar.
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 13.2.2017 kl. 10:34
Það er ljóslega fallvalt að treysta Íslendingum fyrir auðlindum, svo rík sem sjálfseyðinga hvöt þeirra er.
Hrólfur Þ Hraundal, 13.2.2017 kl. 10:59
Sæll, Hallgrímur Hrafn;
Í tímans rás hefur verið hrært í grundvallartölum í samningum útgerða og áhafna eftir því, hvernig vindar blésu, eins og þú bendir á, stundum til að forða útgerðunum frá þroti. Það þarf að binda enda á þetta verkfall og gefa sér síðan góðan tíma til að ræða, hvort menn vilja halda þessu hlutaskiptakerfi, og þá, hvernig haglíkan útgerðarinnar er, og hvernig réttast er að haga skiptingu á milli áhafnar og útgerðar. 30 % til útgerðar á að spanna miklu meira en olíukostnað; það á að spanna fjárfestingar, afskriftir, fjármagnskostnað og arðgreiðslur til hluthafanna ásamt veiðigjöldunum, svo að eitthvað sé nefnt. Í fljótu bragði virðist það ekki vera óeðlilega hátt hlutfall.
Bjarni Jónsson, 13.2.2017 kl. 14:20
Sæll, Hrólfur Þ.;
Hvað segir þú þá um orðaskakið og vopnaglamrið annars staðar á vinnumarkaðinum ? Þröngsýni, sem leitt getur til öngþveitis, dettur manni í hug.
Bjarni Jónsson, 13.2.2017 kl. 14:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.