Hagkerfi í örum vexti og vaxtarbroddur

Vöxtur þjóðarútgjalda 2016 nam 8,7 % að raungildi, en vergrar landsframleiðslu (VLF) um 7,2 %, og var sú aukning hin mesta innan OECD á árinu og meiri en í Kína. 

Það eru stórtíðindi, að eitt Vesturlanda skuli skjóta "asísku tígrisdýrunum" aftur fyrir sig, en Indland gefur að vísu upp meiri hagvöxt, 7,5 %. 

Einkaneyzla jókst um 6,9 %, en var samt í hlutfallslegu sögulegu lágmarki eða aðeins 49 % af VLF.  Þetta vitnar um framleiðsludrifið hagkerfi, enda var niðurstaða utanríkisviðskiptanna jákvæð um tæplega miaISK 160 eða rúmlega 6 % af VLF.  Aðeins Þjóðverjar geta státað af álíka miklum viðskiptaafgangi (hlutfallslegum) og eru öfundaðir af innan ESB og víðar.

Fjárfestingar eru nú í sögulegu hámarki, og eftir 23 % aukningu þeirra í fyrra frá 2015 eru þær nú í sögulegu meðaltali sem hlutfall af VLF, eða 21 % (rúmlega miaISK 500). 

Ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar hafa í heildina séð á sama tíma lækkað skuldir sínar, og nú er svo komið, að segja má, að Íslendingar séu orðnir lánveitendur í heiminum fremur en skuldarar, því að erlendar eignir þjóðarbúsins námu í árslok 2016 miaISK 3´837, en erlendar skuldir miaISK 3´811. Markverður vendipunktur, sem vafalaust hafði áhrif á lánshæfismatsfyrirtækin, sem hækkuðu eða eru að íhuga hækkun á lánshæfismati ríkissjóðs.  Slíkt verður í askana látið. 

Þessi jákvæða þróun þjóðarbúsins er auðvitað borin uppi af öflugum útflutningsatvinnuvegum, iðnaði með hækkandi afurðaverði, sjávarútvegi með hærra afurðaverði en keppinautanna og feiknarlegum flaumi erlendra ferðamanna, sem þó kann að verða eitthvert lát á vegna kostnaðar.  Norðmenn hafa t.d. mátt horfa upp á yfir 40 % lækkun NOK gagnvart ISK á 3 árum.  Það er merkilegt, að "stöðugleikasjóður" upp á miaUSD 900 hefur ekki dugað til að hamla meira en þetta gegn lækkun gengis norsku krónunnar.  Að baki því er sorgarsaga, sem vert væri að gera góð skil.

Vöruskiptajöfnuður Íslands var hins vegar óhagstæður, og það er hægt að bæta úr því með því að leysa dísilolíu, flotaolíu og benzín af hólmi með innlendum orkugjöfum fyrir 2050 og með því að skjóta varanlegum stoðum undir mesta vaxtarbrodd vöruútflutnings núna, fiskeldið.  Ef útflutningur laxeldisfyrirtækjanna á Vestfjörðum og Austfjörðum verður aukinn í 100 kt/ár, sem talið er raunhæft upp úr 2030, þá mundu útflutningstekjur af því aukast um a.m.k. 100 miaISK/ár að núvirði. 

Dregið hefur verið dám af orðinu landbúnaður og af því myndað nýyrðið strandbúnaður, sem Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri hjá Matís, skilgreinir þannig í greininni "Strandbúnaður 2017" í Morgunblaðinu 13. marz 2017:

"Strandbúnaður er samheiti yfir atvinnugreinar, sem tengjast nýtingu land- og/eða sjávargæða í og við strandlengju landsins, hvort sem um ræktun eða eldi er að ræða."

Það er engum blöðum um það að fletta, þegar litið er til nágrannalandanna, Noregs, Færeyja og Skotlands,  að strandbúnaði á eftir að vaxa fiskur um hrygg við Íslandsstrendur og að þar er víða við Ísland um vannýtta auðlind að ræða.  Markaðurinn er tvímælalaust fyrir hendi, og um það skrifar Arnljótur Bjarki í umræddri grein:

"Um alllangt skeið hafa innan við 5 % af heildar matvælaframleiðslu heimsins komið úr höfum og vötnum, þó svo að þau þeki um 70 % af yfirborði jarðarinnar.  Æ fleiri beina nú sjónum sínum að þessari staðreynd, því að líklegt er, að nokkur hluti fyrirsjáanlegrar aukningar matvælaframleiðslu heimsins fari fram við strendur og úti fyrir ströndum meginlanda sem og eyríkja.  Landbúnaður er fyrirferðarmikill í matvælaframleiðslu heimsins og margfalt umfangsmeiri en veiðar eða nytjar villtra fiskistofna."

Við þetta má bæta, að eldisfiskur mun í tonnum talinn vera svipaður og sjávarafli, en arðsemin er margföld í eldinu á við sjávarútveg.  Ein efnilegasta grein strandbúnaðar á Íslandi er laxeldi.  Ætla má, að framlegð þess hérlendis sé um 50 % af söluandvirði afurðanna.  Þetta er um tvöföld framlegð sjávarútvegs hérlendis.  Á rekstrarhlið stafar mismunurinn að mestu af orkukostnaði, veiðarfærakostnaði og launakostnaði útgerðanna, sem eðlilega er mun hærri en orku- og launakostnaður við strandeldið, en á móti kemur auðvitað fóðurkostnaðurinn.  Fóðrið verður sennilega hægt að framleiða allt hérlendis, t.d. sem repjumjöl, svo að gjaldeyrisútlát vegna fóðurs verða lítil. 

Á tekjuhlið er enn meiri munur á laxeldi og sjávarútvegi, sem sýnir auðvitað mikla framtíðarmöguleika við markaðssetningu villtra sjávarafurða.  Laxeldisfyrirtækin hérlendis eru að fá um 1000 ISK/kg og þar á bæ er talið, að framtíðin lofi góðu um raunverðhækkanir á umhverfisvottaðri vöru frá Íslandi vegna vaxandi eftirspurnar.

Í Morgunblaðinu 9. marz 2017 er viðtal Þórodds Bjarnasonar við Kjartan Ólafsson, stjórnarformann laxeldisfyrirtækisins Arnarlax, undir fyrirsögninni:

"Skattspor Arnarlax um 616 milljónir króna":

 "Skattspor Arnarlax skiptist þannig, að skattar starfsmanna, sem voru að meðaltali 118 á síðasta ári (2016), voru MISK 377, framlög í lífeyrissjóði námu MISK 124, aðflutningsgjöld voru MISK 18, gjald í umhverfissjóð var MISK 30, afla- og hafnargjöld voru MISK 48, og önnur gjöld voru MISK 19."

Hér ræðir um arðbæra starfsemi, sem framleiddi um 6 kt af sláturlaxi 2016 og stefnir á tvöföldun 2017.  Veltan var líklega um miaISK 6,0, svo að skattsporið var rúmlega 10 % af söluandvirðinu.  Þetta er ekki ýkja hátt í samanburði við t.d. sjávarútveginn, og ástæðan er há framlegð. 

Með því að leggja þessa framlegð, sem blekbóndi áætlar um 50 % af söluandvirði afurðanna, til grundvallar, má leggja mat á verðmæti strandaðstöðunnar, sem er náttúruauðlind.

Fyrir hvert tonn er þá árleg framlegð MISK 0,5. Sé hún lögð saman fyrir næstu 25 ár og núvirt með 9,0 %/ár vöxtum, fást núvirt verðmæti aðstöðunnar:

C = 0,5 x 9,8 MISK = 4,9 MISK/t

Eðlilegt er, að handhafar starfsleyfis til að nýta þessa auðlind greiði sambærilegt árlegt gjald og handhafar vatnsréttinda vegna virkjunar munu að öllum líkindum greiða sem fasteignagjald til viðkomandi sveitarfélaga, 0,5 % af metnum verðmætum:

FG = 0,5 %/ár x 4,9 MISK/t = 0,025 MISK/ár per tonn

Þetta er 5,0 % af árlegri framlegð, sem ekki er unnt að telja íþyngjandi auðlindargjald og er mun lægra hlutfall en sjávarútvegurinn hefur mátt sæta undanfarið.  Mál er, að allir með nýtingarrétt á náttúruauðlindum sitji við sama borð.  Til þess þarf atbeina löggjafans.

Nú virðist þjónustugjald vegna leyfisveitinga í greininni vera G=30 MISK/6000 t= 0,005 MISK/t, sem er aðeins 1/5 af því, sem eðlilegt getur talizt.  Það er þess vegna brýnt að setja samræmdar reglur um auðlindagjaldið, sem þá skiptist á milli sveitarfélaganna og þjónustu- og eftirlitsstofnananna og komi í stað gjalds í umhverfissjóð og leyfisgjalda.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú ert alveg merkilegur, gagnfróði Bjarni!

Svo taka menn varla eftir blogginu þínu!

Ætla að vísa á þetta á Facebók.

Jón Valur Jensson, 21.3.2017 kl. 01:03

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir innlitið og lesturinn, Jón Valur.  Ég vona, að þú hafir jafnan nokkurn fróðleik og ánægju af lestrinum, sem kann þó að þykja tyrfinn á köflum, og er ekki alltaf "við alþýðuskap".  Þó eru þar jafnan fróðleiksmolar, sem hver getur tekið með sér. 

"Bjarnis samlede verker" verður sjón í sólskini, þegar sú bók verður gefin út. 

Með góðri kveðju /  

Bjarni Jónsson, 21.3.2017 kl. 10:26

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, takk fyrir þetta, og sú bókin gæti sannarlega orðið áhugaverð. smile

Einn góður kollega þinn, Friðrik Daníelsson, gaf út mjög fínt safn DV-greina sinna og erinda: Ísland er land þitt. Þá bók mættu margir lesa, ég læt ekki af að mæla með henni.

Og áfram Bjarni, þú ert svo sannarlega hér til nokkurs.

Jón Valur Jensson, 22.3.2017 kl. 23:27

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Valur. 

Friðrik Daníelsson, efnaverkfræðing, kannast ég vel við.  Hann heimsótti mig til Straumsvíkur 1996-1997, þegar kerskáli 3 var í byggingu, og ég sýndi honum mannvirkin. 

Þakka þér hvatninguna, Jón Valur, og ég óska þér sömuleiðis andagiftar.   Það er nauðsynlegt að hafa gaman af því, sem maður tekur sér fyrir hendur, og nokkur metnaður verður jafnan að fylgja með, svo að bitastætt geti orðið fyrir mann sjálfan og aðra.

Bjarni Jónsson, 23.3.2017 kl. 11:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband