28.3.2017 | 13:56
Hættuleg velgengni
Mannkynið hefur tekið stakkaskiptum frá upphafsskeiði iðnvæðingar til vorra daga, e.t.v. ekki í þroska, heldur í aðbúnaði öllum og lífsháttum. Framfarir í raunvísindum voru forsenda þess upphafs þeirra tækniframfæra, sem oft er kennt við smíði gufuvélar James Watt um 1750. Hún markaði mannkyninu braut orkunýtingar til að leysa af hólmi vöðvaafl manna og dýra lífsframfæris og verðmætasköpunar.
Aðalorkugjafinn til að knýja vélar og til upphitunar hvers konar frá þessum tíma og hingað til hefur verið jarðefnaeldsneyti, kol, olía og jarðgas. Við bruna þessara efna, eins og við bruna á viði fyrr og nú, myndast ýmis skaðleg efni, mengunarefni, slæm fyrir öndunarfæri og aðra líkamsstarfsemi manna og dýra, sót, rykagnir, þungmálmar o.fl., en líka gastegund, sem er ekki mengunarefni, heldur eðlileg og nauðsynleg í andrúmsloftinu fyrir viðgang lífsins, en styrkur hennar í andrúmslofti og uppleyst í vatni hefur margvísleg áhrif.
Gastegundin, CO2, koltvíildi, hefur safnazt upp í andrúmsloftinu, og styrkur þess hefur vaxið um tæplega 50 % eða um 130 ppm frá því fyrir iðnbyltingu. Styrkurinn er lítill, en aukningin er hlutfallslega mikil og matið áreiðanlegt. Efnagreining á ís úr jökli hefur leitt þetta í ljós. Eðlisfræðileg áhrif slíkrar uppsöfnunar eru þekkt. Gasið endurkastar og sýgur í sig hluta af varmaútgeislun jarðarinnar; mun meira en af varmaútgeislun sólar til jarðar (önnur bylgjulengd). Afleiðingarnar eru allt að 1,0°C hlýnun neðstu laga lofthjúps jarðar og hlýnun sjávar á 270 árum með vaxandi stigli.
Koltvíildið sést ekki, en afleiðingarnar af auknum styrk þess í andrúmsloftinu leyna sér ekki. Bráðnun jökla, bráðnun íshellunnar á pólunum, hækkandi yfirborð sjávar, auknar veðurfarsöfgar og hitamet víða á jörðunni nánast árlega. Alvarlegast er, að hækki meðalhitastig á jörðunni yfir 2°C (um aðra gráðu í viðbót), þá losna kraftar úr læðingi, sem geta gert hitastigshækkunina stjórnlausa og óafturkræfa. Framtíð lífs á jörðunni í sinni núverandi mynd er í húfi.
Í þessu ljósi ætti að vera mikið áhyggjuefni fyrir mannkyn allt, að forseti Bandaríkjanna, mesta stórveldis heims, ætlar að hafa Parísarsamkomulagið frá desember 2015 að engu. Þetta verður Bandaríkjamönnum til minnkunar. Það hlálega er, að Donald Trump segir mikilvægara að vernda bandarísk störf en að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þeir, sem þannig tala, skilja ekki, að arðsömum störfum mun óhjákvæmilega fækka mjög við stjórnlausa hlýnun á jörðunni og að kostnaðurinn við að verjast skaðlegum afleiðingum hennar mun kyrkja efnahagslífið.
Losun vegna starfsemi á landi á Íslandi er mikil á hvern íbúa eða 13,7 t/íb eða 85 % meiri en í Evrópusambandinu, ESB. Iðnaðurinn losar helminginn af þessu, svo að með því að leggja niður orkusækinn iðnað, kæmumst við undir ESB-meðaltalið. Það mundi hins vegar ekki leysa úr hinni hnattrænu hlýnun að fórna viðkomandi störfum og verðmætasköpun á Íslandi, því að það er eins víst og 2x2=4, að nýjar verksmiðjur yrðu reistar erlendis í staðinn eða afköstin aukin í eldri verksmiðjum til mótvægis við tapaða framleiðslu hér. Vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í raforkuverum erlendis mundi framleiðsla á sama magni málma erlendis og nú eru framleiddir á Íslandi hafa í för með sér losun á a.m.k. 10 Mt/ár af CO2 ígildi (Mt=milljón tonn), sem er meira en losun allrar landstarfsemi á Íslandi ásamt fiskveiðiflota og losun alls farþegaflugs til og frá Íslandi ásamt flutningum á sjó til samans.
Þetta vita þeir, sem um þessi mál fjalla innanlands og utan, og þess vegna þurfa Íslendingar ekki að bera kinnroða fyrir því, að losun iðnaðar á gróðurhúsalofttegundum sé mikil og vaxandi hérlendis eða sæti ámæli ábyrgra aðila erlendis. Þessi starfsemi fellur undir "Emission Trade System"-ETS hjá ESB, sem úthluta mun síminnkandi losunarheimildum, og þurfa losunarfyrirtækin að kaupa sér heimildir, sem umfram eru úthlutunina eða að jafna hana út með ræktun. Verð er núna innan við 10 EUR/t CO2, en líklegt verð er um 30 EUR/t CO2 að áratug liðnum. Hagkvæmast verður fyrir viðkomandi fyrirtæki að kaupa sér heimildir á kvótamarkaði á Íslandi, þar sem kvótinn kemur frá bindingu CO2 með ýmiss konar ræktun, t.d. skógrækt. Það væri klókt að gera nú þegar samninga við skógarbændur um slík viðskipti.
Ræktaður skógur er nú á 430 km2 hérlendis. Ef hann verður tífaldaður, mun heildarflatarmál skógar útjafna alla losun iðnaðarins á gróðurhúsalofttegundum (það er væntanlega aðeins skógur yngri en frá 1990, sem taka má með í reikninginn). Það er nægt landrými til þess, því að flatarmál framræsts lands og óræktaðs nemur 80 % af flatarmáli slíks skóglendis, og það ætti að vera talsvert af annars konar landi, söndum og melum, til ráðstöfunar fyrir landgræðslu af ýmsu tagi, t.d. repjuræktun.
Bleiki fíllinn í "gróðurhúsinu" er millilandaflugið. Losun gróðurhúsalofttegunda í háloftunum hefur þreföld gróðurhúsaáhrif fyrir hvert tonn útblásturs á við losun á jörðu niðri. Á árinu 2017 er búizt við 2,4 M ferðamönnum með flugi til landsins. Ef þeir fljúga að jafnaði 8´000 km alls hver um sig, þarf um 0,48 Mt af eldsneyti í þessa flutninga, og losun gróðurhúsalofttegunda við bruna á því nemur 4,3 Mt af koltvíildisígildum, og varlega áætlað verður þá losun af völdum þessara ferðamanna 4,4 Mt með losun hér innanlands. Þetta er 85 % af allri losun Íslendinga á sjó og landi, sem sýnir í hnotskurn, að umhverfinu stafar nú um stundir langmest hætta af ferðaþjónustunni, og svo mun verða allan næsta áratug, en eftir 2030 standa vonir til, að orkuskipti geti orðið í flugvélum, t.d. með rafknúnum hreyflum, fyrst í innanlandsflugi og síðan í tvinnflugvélum á lengri vegalengdum. Þegar ruðningsáhrif einnar atvinnugreinar í atvinnulífinu og umhverfisáhrif eru orðin jafngeigvænleg og ferðaþjónustunnar á Íslandi, þar sem í ár er búizt við 7,2 erlendum ferðamönnum á íbúa landsins, þá hefur vöxturinn verið allt of hraður og tímabært að spyrna við fótum. Ísland er reyndar nú þegar orðið dýrasta land í heimi, en það toppsæti er mjög óþægilegt að verma.
Losun Íslendinga og farþegaflugs til og frá Íslandi á gróðurhúsalofttegundum á árinu 2017 verður líklega eftirfarandi í milljónum tonna og sem hlutfall af heild í svigum:
- Iðnaður 2,3 Mt (24 %)
- Landumferð 0,9 Mt ( 9 %)
- Landbúnaður 0,7 Mt ( 7 %)
- Sjávarútvegur 0,5 Mt ( 5 %)
- Millilandaskip 0,3 Mt ( 3 %)
- Úrgangur 0,3 Mt ( 3 %)
- Virkjanir 0,2 Mt ( 2 %)
- Ferðaþjónusta 4,4 Mt (47 %)
Engum blöðum er um það að fletta, að sjávarútvegurinn er sú grein, sem er til fyrirmyndar á Íslandi um tækniþróun og hagnýtingu tækninnar til bættrar nýtingar hráefnisins og bættrar orkunýtingar, reiknað í orkunotkun á hvert framleitt afurðatonn. Þannig hefur olíunotkun flotans minnkað úr 207 kt árið 1990 í um 130 kt árið 2016 eða um 77 kt, sem eru 37 %. Ef tekinn er með olíusparnaður fiskvinnslunnar, hafði sjávarútvegurinn í heild árið 2014 dregið úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum um 43 % samkvæmt nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands fyrir Umhverfisráðuneytið, 16 árum fyrr en markmið Parísarsamkomulagsins tilgreindi 40 % minnkun. Þar munar um, að árið 2014 höfðu fiskimjölsverksmiðjurnar minnkað losun sína um 95 % frá 1990. Það er alveg áreiðanlegt, að sjávarútvegurinn mun ekki láta þar við standa, en það stendur upp á yfirvöldin að ryðja burt nokkrum hindrunum. Þar er t.d. um að ræða að efla flutningskerfi raforku, svo að það hefti ekki orkuskiptin, eins og það gerir nú, og að efla rafdreifikerfi hafnanna, svo að það anni þörfum skipaflotans fyrir orkunotkun við bryggju og til að hlaða stóra rafgeyma um borð í framtíðinni.
Hallveig Ólafsdóttir, hagfræðingur hjá SFS, segir í viðtali við sjávarútvegsútgáfu Morgunblaðsins, 2. marz 2017:
"Þegar tæknin um borð í þessum 12 nýju skipum, sem eru ýmist komin til landsins eða væntanleg, er skoðuð, þá sést, að olíunotkun þeirra er oftast á bilinu 30 % - 40 % minni en hjá gömlu skipunum. Ekki nóg með það, heldur er oft verið að skipta út tveimur eldri skipum fyrir eitt nýtt."
Þetta þýðir, að m.v. óbreyttan afla verður olíunotkun nýju skipanna aðeins 33 % á hvert tonn fiskjar af olíunotkun skipanna, sem þau leysa af hólmi, sem er frábær árangur.
Annað svið, þar sem olían verður leyst af hólmi með umhverfisvænum hætti, eru farartæki og vinnuvélar á landi. Þar sýna nú frændur vorir, Norðmenn, fagurt fordæmi. Í janúar 2017 var helmingur innfluttra bíla til Noregs rafknúinn, alraf- eða tengiltvinnbílar. Hérlendis er sambærilegt hlutfall aðeins 14 %. Hver er skýringin á þessari forystu Norðmanna ?
Þeir hafa fellt niður opinber gjöld á rafbíla, sem eru jafnvel hærri en hér. Eldsneytisverðið þar er hærra en hér, og raforkuverðið er yfirleitt lágt (hækkar þó við lágstöðu í miðlunarlónum), svo að hinn fjárhagslegi hvati bílkaupenda er meiri þar en hér. Þar að auki hafa norsk yfirvöld verið í fararbroddi við innviðauppbyggingu fyrir rafbílana, og þar eru ekki viðlíka flöskuhálsar í flutningskerfi raforku og hér. Því hefur heyrzt fleygt, að Norðmenn ætli að banna innflutning dísil- og jafnvel benzínknúinna fólksbíla árið 2025. Miklir opinberir hvatar og hreinar orkulindir raforkuvinnslunnar eru meginskýringin á forystu Norðmanna, og er þó ekki gert lítið úr umhverfisvitund Norðmanna.
Stefán E. Stefánsson skrifar eftirfarandi í ViðskiptaMoggann 23. marz 2017:
"Í nýju mati Alþjóða orkustofnunarinnar kemur fram, að ef takast á að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C fram til ársins 2050, sé nauðsynlegt að auka hlutdeild rafbíla í heiminum þannig, að 70 % allra bíla verði einungis knúin raforku um miðja öldina. Í dag er hlutfallið hins vegar 1 %. Því er ljóst, að mikið verk er að vinna."
Erlendis eru a.m.k. 3/4 raforkunnar unnin úr jarðefnaeldsneyti, að hluta til frá Norðmönnum, en Norðmenn hyggjast hins vegar útvega næga raforku fyrir rafbíla sína með gríðarlegum vindmyllulundum, sem spara munu vatn í miðlunarlónunum, en sennilega hækka raforkuverðið.
Hérlendis hefur verið haldið á lofti villandi sjónarmiðum um, að nóg sé að spara og að ekkert þurfi að virkja til að rafvæða bílaflotann. Til að leysa alla jarðefnaeldsneytisnotkun í landinu af hólmi, þarf að virkja 6,0 TWh/ár á næstu 50 árum, og það er yfir 30 % aukning á núverandi raforkuvinnslu í landinu.
Við eigum aðra hagkvæmari og umhverfisvænni virkjunarkosti hérlendis en vindmyllulundi, og það er mikilvægt að loka ekki dyrunum á þá með skammsýnum og þröngsýnum aðgerðum á borð við stofnsetningu þjóðgarðs á öllu miðhálendinu, eins og þingflokkur vinstri-grænna hefur gert að tillögu sinni á Alþingi. Slíkt er alls ekki í þágu umhverfisverndar, enda hafa helztu talsmenn þessarar hugmyndar lofað prísað ferðaþjónustuna sem umhverfisvænan valkost í atvinnumálum landsmanna. Slíkt vitnar um dómgreindar- og þekkingarleysi, og með tillögu um samfelldan þjóðgarð á öllu miðhálendinu gætir ofurtrúar á miðstýringu og forræði ríkisvaldsins, sem oftast snýst til verri vegar í höndum valdsmanna og leiðir til ófarnaðar áður en upp er staðið. Fjölbreytileg notkun og skýr ábyrgð sveitarfélaganna er gæfulegri. Landsvirkjun hefur t.d. í umsögn sinni bent á tylft virkjunarkosta, sem fórnað yrði á altari slíks þjóðgarðs, og segir þar ennfremur:
"Landsvirkjun hefur ekki aðra skoðun á því, hvort myndaður verði þjóðgarður, sem kenndur er við miðhálendið, en hann verði afmarkaður með langtíma hagsmuni þjóðarinnar í huga, þ.á.m. þörf okkar fyrir raforku til brýnna eigin þarfa, svo sem samgangna, og til að efla og viðhalda fjölbreytni í atvinnulífi landsmanna, m.a. með því að taka að okkur verkefni, sem annars mundu unnin með aðstoð ósjálfbærrar orkuvinnslu."
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Samgöngur, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.