Að staldra við

Hljóðnað hefur í sæstrengsumræðunni frá útgáfu s.k. "Kvikuskýrslu" árið 2016 um sæstreng á milli Íslands og Skotlands, enda var slagsíða á henni, og hún var harðlega gagnrýnd.  Má þó segja, að hún hafi falið í sér nægilega röksemdafærslu fyrir stjórnvöld að leggja þessa vanburðugu hugdettu á ís, en tækifærið virðist ekki hafa verið notað, sem enn veldur óskiljanlegum draugagangi.  Síðast fréttist af einhverjum erlendum verktaka á tali við ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, um áhuga sinn á þessum sæstreng.  Vonandi hefur ráðherra gert honum skilmerkilega grein fyrir því, að íslenzka ríkið verður ekki með nokkrum hætti skuldbundið gagnvart tæknilegum og fjárhagslegum rekstri á téðum sæstreng.

Agnes Bragadóttir skrifaði frétt í Morgunblaðið 24. marz 2017 undir fyrirsögninni,

"Áhættan ekki hjá Íslendingum.  Þar vitnaði hún í Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, m.a. þannig:

"Hörður sagði, að Landsvirkjun hefði ávallt sagt, að ef til þess kæmi, að lagður yrði sæstrengur, þá yrði að útfæra verkefnið þannig, að áhættan, hvort sem væri rekstraráhætta, framkvæmdaáhættan eða markaðsáhættan, lægi hjá öðrum en Íslendingum."

Þetta eru reyndar hugarórar einir, nema Hörður ætli ekki að láta Íslendinga virkja og eignast virkjanirnar.  Hörður virðist ætla að leggja upp með það, að útlendingar, og þá áreiðanlega einkafyrirtæki, því að engin ríkissjóður verður þar bakhjarl, fjármagni, eigi og reki sæstrenginn, og þar verði þá öll áhættan.  Þetta er alveg með ólíkindum glámskyggn og barnaleg framsetning á viðskiptaumhverfi sæstrengs, og það er eiginlega alveg ótrúlegt, að forstjórinn skuli bjóða blaðamanni og lesendum Morgunblaðsins upp á aðra eins dómadags vitleysu. 

Um er að ræða lengsta sæstreng hingað til og á mesta meðaldýpinu, þar sem 500 km hans verða á meira en 500 m dýpi.  Mjög miklar kröfur þarf að gera til togþols og þrýstingsþols slíks sæstrengs.  Hættan á miklu fjárhagstapi vegna langs viðgerðartíma á Norður-Atlantshafi er mikil, þar sem kyrrt þarf að vera í sjóinn a.m.k. í eina viku, á meðan viðgerð fer fram. 

Það er hægt að hugsa sér fjölmargar sviðsmyndir, þar sem áhættan við lagningu og rekstur sæstrengsins getur komið eiganda hans í koll og riðið honum að fullu.  Hann getur líka orðið gjaldþrota vegna tækninýjunga við umhverfisvæna vinnslu á rafmagni, t.d. í þóríum-kjarnorkuverum, sem ræna hann viðskiptunum. 

Eigendur virkjana og flutningsmannvirkja á Íslandi, væntanlega Landsvirkjun og Landsnet, munu þá sitja uppi með ónýttar fjárfestingar, sem lán hafa verið tekin fyrir út á sæstrengsviðskiptin.  Þau munu samt væntanlega ekki falla í gjalddaga, nema greiðslufall verði.  Það er erfitt að komast hjá þeirri tilhugsun, að íslenzkir skattborgarar og raforkunotendur muni þá sitja uppi með tjón, sem vafalítið mundi hafa í för með sér hækkun á raforkuverði á Íslandi, og þannig getur tjón af glannalegum viðskiptum hæglega lent á almennum íslenzkum raforkunotendum.  Er þá skemmst að minnast, hvar tjón af völdum glannafenginna fjárfestinga OR á Hellisheiðinni lenti.  

Hvers vegna í ósköpunum þessa áhættusækni fyrir hönd íslenzkra skattborgara ?  Það eru næg viðskiptatækifæri fyrir Landsvirkjun hér innanlands, og það hefur verið sýnt fram á, að þessi viðskiptahugmynd um téðan sæstreng er andvana fædd og hún verður ekki bragglegri með tímanum.  Þess vegna er Landsvirkjun og öðrum opinberum aðilum hollast að láta af þessum hugmyndum, og án opinberrar tilstuðlunar og áhættutöku verður ekkert af svo stórkarlalegum hugmyndum.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband