Seinlæti hjá Landsneti

Landsnet hefur enn ekki tekið neitt róttækt skref í átt að raunhæfri tillögugerð um að leysa brýn flutningsvandamál rafmagns á Norðurlandi.  Það er enn hjakkað í gamla farinu með 220 kV loftlínu í Skagafirði og Eyjafirði. Blekbóndi hefur ekkert á móti slíkri línu, ef valin er skársta línuleið m.t.t. minnstu truflunar á útsýni, en heimamenn sætta sig ekki við slíkt mannvirki við túnfótinn, þótt gamla 132 kV loftlínan hverfi, og þess vegna er það ekki til annars en að tefja brýnt mál að halda þessum valkosti til streitu.

Í frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu þann 27. marz 2017, "Tæknin takmarkar notkun jarðstrengja", kemur fram, að aðeins sé hægt að leggja 12 % fyrirhugaðrar styrkingar Byggðalínu á Norðurlandi í jörðu, þ.e. 37 km af 310 km leið 220 kV línu frá Blönduvirkjun til Fljótsdalsvirkjunar vegna veiks kerfis og hættu á miklum spennuhækkunum og ódeyfðum aflsveiflum á milli virkjana. 

Þessi viðbára orkar tvímælis, því að rýmdaráhrif jarðstrengsins má vega upp með spanspólum á leiðinni.  Sú lausn er þó dýr og óttalegt neyðarbrauð vegna þess og flækjustigs. 

Af fréttinni að dæma eru Landsnetsmenn nú fyrst að rumska eftir harða andstöðu við háspennulínur í byggð, sem íbúunum eru þyrnir í augum, og sveitarfélögin hafa litlar eða engar beinar tekjur af. 

Rumskið hefur leitt til þess, að Landsnetsmenn eru nú að skoða "mótvægisaðgerðir", sem þeir nefna svo, en ganga líklega ekki nógu langt:

"Í kjölfar þessarar vinnu er Landsnet að skoða mótvægisaðgerðir við Byggðalínuna.  Nefnir Magni [Þór Pálsson, verkefnastjóri rannsókna hjá Landsneti] sem dæmi, að kannað verði, hvort hægt sé að setja stóran hluta núverandi Byggðalínu, sem er á 132 kV spennu, í jarðstreng samhliða uppbyggingu nýju línunnar á 220 kV spennu. 

Gamla Byggðalínan mundi þá fá nýtt hlutverk; nýtast meira til að þjóna byggðarlögunum.  Þá gætu minni virkjanir og vindorkuver tengst inn á hana."

Það er gleðiefni, að Landsnetsmenn hafa loksins áttað sig á því, að tímabært er að endurnýja Byggðalínuna með 132 kV jarðstreng.  Það er hins vegar miður, að þeir skuli enn berja hausnum við steininn og telja raunhæft að leggja 220 kV loftlínu um sveitir Norðurlands til orkuflutninga á milli landshluta. 

Nú þarf að huga að nýrri leið til að tengja saman virkjanirnar Blöndu og Kröflu með því að fara "ofan byggða", þ.e. á heiðum sunnan dala Norðurlands.  Framtíðar jafnstraumsjarðstrengur af Sprengisandi mundi þá tengjast inn á þessa samtengilínu helztu virkjana Norðurlands, en styrking samtengingar þessara kerfa er nauðsynleg stöðugleikaumbót í truflanatilvikum. 

Jarðstrengur Byggðalínu með loftlínubútum, 132 kV, mundi tengja saman Hrútatungu í Hrútafirði, Laxárvatn við Blönduós, Blönduvirkjun, Varmahlíð í Skagafirði, Rangárvelli við Akureyri og Kröflu, en tenging Kröflu og Fljótsdals þarf að vera 220 kV og loftlína af fjárhagsástæðum.  Sprengisandsjarðstreng mætti þá fresta um a.m.k. einn áratug, og mun hann þá verða fjárhagslega viðráðanlegri en nú, og ekki vanþörf á þessari styrkingu tengingar raforkukerfa Norður- og Suðurlands, einnig vegna aukinnar flutningsþarfar með auknu álagi raforkukerfis landsins. Þar mun væntanlega verða um jafnstraumsstreng að ræða með flutningsgetu í sitt hvora áttina. 

Forstjóri OR gerði í kvöldfréttatíma RÚV sjónvarps 3. apríl 2017 lítið úr orku- og aflþörf vegna rafbílavæðingar og nefndi Sprengisandslínu í því sambandi.  Hann er greinilega í gufumekki Hellisheiðarvirkjunar, því að hann virðist ekki hafa heyrt af því vandamáli Landsnets og landsmanna allra, að Byggðalínan er fulllestuð, og það er brýnt að ráðast í aðgerðir til að auka flutningsgetu hennar og/eða draga úr flutningsþörfinni eftir henni.  Hið síðar nefnda er hægt að gera með virkjunum fyrir norðan eða nýrri tengingu Norður- og Suðurlands. 

Þá gerir forstjórinn sig sekan um alvarlegt vanmat á orkuþörf rafmagnsbíla, sem gæti stafað af því, að hann leggi orkunýtnitölur bílaframleiðendanna til grundvallar.  Það er algerlega óraunhæft á Íslandi, þar sem bæta þarf við orku til upphitunar, afísingar og lýsingar.  Það er ekki óhætt að reikna með betri orkunýtni en 0,35 kWh/km, og vægt áætlað verður meðalakstur 100´000 rafbíla árið 2030 (þennan fjölda nefndi Bjarni Bjarnason í téðu viðtali) 15´000 km á bíl.  Þessi bílafloti þarf þá a.m.k. 550 GWh orkuvinnslu í virkjunum eða um 65 MW að jafnaði. Þetta er um 15 % viðbót við almenna raforkumarkaðinn í landinu, og að halda því blákalt fram opinberlega, að engin þörf sé á að virkja vegna þessarar viðbótar, er villandi og í raun ábyrgðarleysi. 

Ef tekið yrði mark á slíku, mundi það hafa alvarlegan og rándýran orkuskort í för með sér.  Er forstjórinn "að taka skortstöðu" á markaðnum til að búa í haginn fyrir enn meiri raforkuverðshækkanir ?  Þær hafa orðið tugum prósenta yfir vísitöluhækkunum neyzluverðs síðan 2010 hjá dótturfélögum OR, og það er tímabært að snúa þeirri öfugþróun við. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband