22.4.2017 | 14:01
Orkustefna í smíðum
Íslendingar nota allra manna mest af orku, þegar lögð eru saman jarðhiti, vatnsorka, olíuvörur og kol. Sumpart stafar þetta af tiltölulega mikilli upphitunarþörf húsnæðis vegna veðurfarsins og sumpart af því, að bifreiðaeign er hvergi meiri að tiltölu, en aðallega stafar mikil orkunotkun þó af miklum orkusæknum iðnaði. Staðsetning hans á Íslandi hlífir andrúmsloftinu við meira af gróðurhúsagösum árlega en nemur allri losun Íslendinga að fluginu meðtöldu vegna annars eðlis orkulinda hérlendis en í líklegum staðsetningarlöndum stóriðju.
Nú er hins vegar spurningin, hvert við viljum halda á orkunotkunarsviðinu, og um það hlýtur orkustefna sú, sem nú er í smíðum hjá ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, að snúast. Ekki er úr vegi, að almenningur leggi þar eitthvað "í púkkið".
Eftirfarandi tilvitnun í ráðherrann birtist í Fréttablaðinu 5. apríl 2017 undir fyrirsögninni:
"Orkustefnan upp úr skúffunni":
""Staðreyndin er sú, að í raun er ekki til formleg orkustefna fyrir Ísland. Ég tel það bagalegt, og mér finnst mikilvægt, að stjórnvöld taki af skarið og marki formlega orkustefnu til lengri tíma. Sú vinna er raunar þegar hafin innan míns ráðuneytis", sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á ársfundi Landsnets í gær."
Spyrja má, hvaða gagn sé að orkuáætlun ríkisins. Á móti má segja, að það jaðri við ósvinnu, að land, sem státar af mestu orkunotkun á mann í heiminum, hafi enga formlega orkustefnu að fara eftir. Það er nánast ósvinna, en um gagnsemina gildir, að veldur hver á heldur.
Orkustefna felur í sér leiðbeiningar til allra hagsmunaaðila á sviði orkumála um, hvert ríkisvaldið hyggst stefna í þessum þjóðhagslega mikilvæga og víðfeðma málaflokki, og hvers vegna, og þá eru meiri líkur á en nú, að aðalleikendur á sviðinu muni ganga í takti. Orkumál eru alls staðar umdeild, ekki sízt á Íslandi orkugnægtar, enda miklir hagsmunir í húfi. Það er vandasamt og e.t.v. ekki hægt að móta orkustefnu, sem ólíkar ríkisstjórnir og Alþingi geta unnið eftir. Nú eru 5 ára áætlanir í tízku í Stjórnarráðinu, en Orkuáætlun fyrir Ísland þarf að spanna ferfalt lengri tíma.
Stefna á ekki að vera nákvæmlega útfærð áætlun með nákvæmum magnsetningum og tímasetningum, því að á grundvelli stefnunnar eru síðan sett markmið, og þar eru verkefni magnsett og tímasett. Til að ná markmiðunum þarf ennfremur verkáætlun, þar sem fram kemur, hvernig markmiðum á að ná. Orkustefna mun þannig hafa stefnumótandi áhrif fyrir ákvarðanatöku alls athafnalífs og mun hafa áhrif á flest svið þjóðlífsins, er fram í sækir.
Árið 2016 varð stórmerkileg þróun í íslenzka hagkerfinu. Hagvöxtur varð 7,2 %, sem er með því mesta, sem þekkist um þessar mundir, en raforkuvinnslan minnkaði á sama tíma um 1,3 %; hjá stórnotendum dróst raforkunotkun saman um 0,5 % og hjá almenningi um 4,2 %. Þetta er merki um sveigju hagkerfisins frá framleiðslu til þjónustu. Sem dæmi má nefna til samanburðar, að á Indlandi varð hagvöxtur svipaður eða um 7 %, en hann var orkudrifinn, því að raforkunotkun jókst um 5 %.
Yfirleitt hefur hagvöxtur á Íslandi og annars staðar verið orkudrifinn. Var hann það kannski, þótt hann væri ekki knúinn rafmagni á Íslandi 2016 ? Jarðhitanotkun minnkaði um 4,5 % m.v. 2015, sem má skýra með hærra meðalhitastigi utanhúss og bættri hitastýringu, og fallið gefur til kynna, að rúmtak húsnæðis hafi aukizt sáralítið, enda áherzla á þéttingu byggðar í Reykjavík, þar sem gamalt húsnæði (illa einangrað) var iðulega rifið til að rýma fyrir öðru með minni varmatöpum.
Aftur á móti kemur í ljós við tölurýni, að notkun á eldsneyti úr jarðolíu jókst um 8,8 %, og kolanotkun jókst um 14,2 %. Þetta er hroðaleg tilhneiging í landi endurnýjanlegra orkugjafa að mestu, þar sem ríkisvaldið hefur skuldbundið landsmenn til 40 % minni eldsneytisnotkunar árið 2030 en 1990. Þjónustuhagkerfið verður að söðla um í vali á orkugjöfum eða hefja meiriháttar mótvægisaðgerðir með fjármögnun ræktunar, sem bindur mikið koltvíildi á hvern hektara. Forysta Landverndar á ekki að komast upp með að reka hornin í öll vatsaflsvirkjunaráform í landinu, nú síðast á Vestfjörðum, og reka samtímis áróður fyrir stofnun þjóðgarðs og aukinni ferðamennsku á sömu landsvæðum, sem er sú starfsemi, sem mestri mengun veldur á láði, legi og í lofti.
Hagvöxturinn var sem sagt eldsneytisdrifinn, þegar betur er að gáð. Sú þróun hefur átt sér stað síðan 2012, þegar hlutdeild endurnýjanlegrar orku náði hámarki sínu, 86,8 %, en árið 2016 féll sú hlutdeild niður í 82,4 %. Sú óheillaþróun heldst í hendur við stækkun þjónustugeirans umfram aðrar greinar. Hér skal varpa fram þeirri fullyrðingu, að fyrir hverja krónu í tekjur í erlendum gjaldeyri er sóðaskapur og mengun náttúrunnar mest af völdum ferðaþjónustu af öllum greinum íslenzks atvinnulífs.
Það blasir nú við, að meginhlutverk orkustefnu verður að snúa þessari öfugþróun við hið snarasta. Sökudólgurinn er þekktur. Hann heitir ferðaþjónusta. Ríkið getur beitt hvötum til að draga úr eldsneytisnotkun á hvern farþegakílómeter með eldsneytissköttum eða kolefnisgjaldi. Norðmenn leggja t.d. eldsneytisskatt á allar flugvélar, sem fara frá Noregi. Eigum við ekki að fylgja fordæmi þeirra ? Það er bara tímaspurning, hvenær ESB o.fl. munu halda á sömu braut. Ívilnanir við kaup bílaleiga á bílum ættu ennfremur að verða bundnar við "umhverfisvæna" bíla. Þetta mun flýta rafvæðingu bílaflotans, þegar innviðauppbygging leyfir, en kolefnisgjaldinu ætti hiklaust að verja til að styrkja og að búa í haginn fyrir orkuskiptin.
Orkustefnan verður að styðja við markmið Íslands í loftslagsmálum. Hvernig gerir hún það bezt ?
Í fyrsta lagi með því að stuðla að nægu kolefnisfríu orkuframboði á samkeppnishæfu verði, og í öðru lagi með því að stuðla að afnámi allra flöskuhálsa í flutningskerfi og dreifikerfum raforku. Í þessu skyni þarf blöndu af hvötum og hrísvöndum í stefnuna.
Með auknum rannsóknum á hagkvæmum virkjunarkostum skal leitast við að fækka virkjunarkostum í biðflokki, svo að virkjunarfyrirtækin hafi um fleiri virkjunarkosti að velja í nýtingarflokkinum, þar sem þau geta virkjað og framleitt raforku án þess að hækka raforkuverðið umfram neyzluverðsvísitölu. Slíkt er nauðsynlegt til að tryggja snurðulaus orkuskipti, sem samfélagið allt hagnast á.
Til að tryggja nægt framboð raforku í landinu, einnig þegar óvæntir atburðir verða, bilanir eða náttúruhamfarir, skal með lagasetningu skylda virkjanafyrirtæki með starfsleyfi yfir 10 MW, sem selja orku inn á stofnkerfið, til að vera með framleiðslugetugetu í venjulegu árferði, t.d. meðalvatnsári, sem er að lágmarki 3 % umfram umsamda forgangsorkusölu hvers fyrirtækis á ári og aflgetan skal aldrei fara undir 5 % umfram umsamið forgangsafl. Orkustofnun skal fylgjast með þessu og hafi heimild til stjórnvaldssekta samkvæmt reglugerð iðnaðarráðuneytis, ef út af bregður, nema um óviðráðanlega atburði (force majeure) sé að ræða. Þetta knýr fyrirtækin til að virkja í tæka tíð áður en stórtjón verður af völdum orku- og aflskorts.
Öllum almennum notendum skal standa til boða sú orka, sem hann kýs. Þannig er það ekki nú. Til þess þarf að styrkja flutningskerfið og dreifikerfin. Ef Landsneti verður ekki ágengt gagnvart viðkomandi sveitarfélögum og landeigendum með línulagnir í lofti eða jörðu, skal fyrirtækið leggja alla valkosti fyrir ráðherra iðnaðar, sem úrskurðar eða leggur málið fyrir Alþingi til ákvörðunar.
Dreifingarfyrirtækjum ber að hanna og setja upp dreifikerfi, sem fullnægja þörfum allra íbúa og fyrirtækja, sem fá rafmagn á málspennu undir 72 kV. Allir íbúar landsins og lögaðilar skulu eiga rétt á þriggja fasa rafmagni, enda er snurðulaust aðgengi að þriggja fasa rafmagni forsenda orkuskipta. Samhliða þrífösun sveitanna skal leggja stofn og heimtaugar í jörðu og taka niður loftlínur. RARIK og aðrir dreifingaraðilar skulu þess vegna flýta áætlunum sínum, eins og tæknilegur kostur er, með fjárhagslegu fulltingi ríkisins. Þetta er hagkvæmt, og þetta er jafnréttismál.
Á heimsvísu er staðan mjög slæm m.t.t. gríðarmikillar notkunar á jarðefnaeldsneyti sem orkulind. Orka jarðefnaeldsneytisins er leyst úr læðingi við bruna, sem myndar heilsuskaðleg efni og gróðurhúsalofttegundina CO2. Árið 2014 nam hlutdeild jarðefnaeldsneytis 81,6 % af heildarorkunotkun heimsins, og endurnýjanlegir orkugjafar voru aðeins 14,0 % af heild. Þar að auki komu 4,4 % frá kjarnorku.
Yfirlit orkunotkunar á heimsvísu eftir orkulindum leit þannig út 2014 samkvæmt IEA-International Energy Agency:
- Olía: 31,6 %
- Kol: 28,7 %
- Gas: 21,3 %
- Lífmassi: 10,3 %
- Kjarnorka: 4,4 %
- Fossorka: 2,2 %
- Vindur, sól: 1,5 %
Árið 2014 voru notaðir 4,3 milljarðar (mia) tonna af olíu, og með núverandi þróun verður notkunin 4,8 mia t árið 2040, sem jafngildir 12 % aukningu eða tæplega 0,5 % á ári. Þetta er feigðarbraut, því að fræðimenn á vegum IEA telja, að til að halda hækkun hitastigs andrúmslofts jarðar í skefjum, þannig að árið 2040 hafi heildarhitastigshækkun frá 1750 orðið innan við 2°C, þá verði árleg olíunotkun manna að minnka um 1,1 mia t fram til 2040, þ.e. niður í 3,2 mia t eða um ríflega fjórðung. Það eina, sem getur snúið þessari óheillaþróun við, er tæknibylting á sviði kolefnisfrírrar raforkuvinnslu. Hún gæti orðið snemma á næsta áratugi á formi umhverfisvænna kjarnorkuhvarfa, sem kljúfa t.d. frumefnið þóríum.
Þjóðir standa misvel að vígi við að minnka olíunotkun. Íslendingar standa þar vel að vígi, af því að þeir hafa bolmagn til fjárfestinga í nýrri tækni, sem leysa mun olíuþörfina af hólmi, og þeir búa yfir orkulindum, hverra nýting leiðir til tiltölulega lítillar losunar gróðurhúsalofttegunda. Í miðlunarlónum á sér stað rotnun jurtaleifa, sem leiðir til myndunar metangass, og koltvíildi losnar úr jarðgufunni. Þetta er þó hverfandi á hverja orkueiningu í samanburði við bruna jarðefnaeldsneytis. Þess vegna ber að fjölga vatnsvirkjunarkostum í nýtingarflokki Rammaáætlunar með því að gefa eldsneytissparnaði vatnsaflsvirkjana og almennum hreinleika við vinnsluna meira vægi við val á milli nýtingar- og verndarflokks.
Orkustefna stjórnvalda á hiklaust að marka leiðina að uppfyllingu skuldbindinga Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu í desember 2015 og að Íslandi án nettó losunar gróðurhúsalofttegunda um miðja þessa öld. Hvort tveggja útheimtir fjölþætta markmiðasetningu og verkáætlanir um allt þjóðfélagið, því að þjóðarátak þarf til. Lítið bólar á slíku.
Við skulum ekki fara í grafgötur með, að öll starfsemi Íslendinga á láði, legi og í lofti hefur sáralítil hækkunaráhrif á hitastig jarðar, því losunin nemur lægra hlutfalli en 0,03 % á ári af áætlaðri heildarlosun vegna eldsneytisbruna. Engu að síður ber okkur að taka fullan þátt í þessari baráttu, því að allt er undir. Þjóðhagslega munum við hagnast strax á orkuskiptunum, því að ríflega 10 % af gjaldeyrisútlátum vegna vöruinnflutnings munu sparast við að losna við benzín, dísilolíu, flotaolíu og svartolíu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.