Heilsustofnun og gelísk áhrif

Um páskana dvaldi blekbóndi í góðu yfirlæti á HNLFÍ-Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands í hressingarskyni.  Þar var viðamikil sameiginleg dagskrá, sem hver og einn gat spunnið við að vild.  Árangur af slíkri vist næst aðeins með góðum vilja til virkrar þátttöku í því, sem er á boðstólum.  Þá er þar sannarlega ekkert letilíf.

Mataræðið er reist á grænmetishráfæði og baunum, en fiski bregður þó einnig fyrir. Þá eru margs konar grænmetissúpur, grjónagrautur og jafnvel brauðsúpa með þeyttum rjóma á boðstólum.  Á morgnana er boðið upp á frábæran hafragraut ásamt ab-súrmjólk og ávöxtum og alls konar korni og kryddi. 

Ekki er félagslegi þátturinn minnsts virði, en dvalargestur getur kynnzt fjölda manns við matborðið, í dagskráratriðunum og á kvöldvökum, ef hann leggur sig eftir því.  Blekbóndi er þakklátur fyrir góð kynni við alls konar fólk á HNLFÍ, m.a. við samstúdent úr MR, sem hann hefur varla séð í tæpa hálfa öld. 

Fyrsta kvöldvakan, eftir að blekbóndi mætti á svæðið, fólst í átakamiklum sópransöng Bjargar Þórhallsdóttur við píanóundirleik Hilmars Arnar Agnarssonar og fyrirlestri Þorvaldar Friðrikssonar, fornleifafræðings og útvarpsmanns, um gelísk áhrif í íslenzku. 

Þar er fyrst til að taka, að af hálfu Íslenskrar erfðagreiningar hefur verið sýnt fram á, að rúmlega 60 % af kvenfólki í hópi landnámsmanna hefur verið af keltneskum (gelískum) uppruna.  Sagnir eru til um stórhöfðingja í hópi landnámsmanna frá Suðureyjum, og má þar nefna Auði, djúpúðgu, og fjölda höfðingja, sem með henni komu, dreifðust um landið og tóku sér mannaforráð, en hún settist að í Hvammi í Dölum og er ættmóðir Sturlunga. Þannig verður bókmenntaáhugi og snilldartök Sturlunga auðskilinn.   

Fólkið frá Suðureyjum og annars staðar frá Skotlandi var kristið að keltneskum hætti, en kristin trú Kelta var með öðru sniði en rómversk-katólska kristnin, og Keltar viðurkenndu ekki páfann í Róm.  Biskupar Kelta höfðu lítil völd, en valdamest voru ábótar og abbadísir, enda hámenning stunduð í klaustrum Kelta, t.d. á sviði ritlistar.  Fjölmenni frá Skotlandi og Írlandi á Íslandi er skýringin á því, að hérlendis varð ekki borgarastyrjöld við kristnitökuna, eins og á hinum Norðurlöndunum, þar sem lítill minnihluti tróð trú sinni upp á alla hina.  Hérlendis gæti meirihluti íbúanna hafa verið kristinnar trúar eða velviljaður þeim trúarbrögðum áður en kristnitakan var formlega samþykkt á Alþingi vegna offors, hótana og ofbeldis Ólafs, Noregskonungs, Tryggvasonar. 

Ríkur gelískur arfur hérlendis er skýringin á einstæðri bókmenningu, sem hér reis hæst á árunum 1100-1300. Hvers vegna hefði bókmenning átt að rísa hátt á Íslandi afkomenda Norðmanna, þótt engin bókmenntahefð væri þá í Noregi ?  Slíkt er óhugsandi, nema fólk hefði tekið með sér bókmenntaarf.  Það er hins vegar einkennandi fyrir sagnaritarana, t.d. Ara, fróða, að þeir draga fjöður yfir eða gera lítið úr hinum gelíska uppruna þjóðarinnar, þætti Vestmanna, en gera sem mest úr landnámi Austmanna (Norðmanna) og nánum tengslum við Noreg.  Þetta kann að hafa verið gert að undirlagi rómversk-katólsku kirkjunnar, sem stóð þá að því að brjóta fornkirkju Keltanna á bak aftur og innleiða rétttrúnaðinn frá Róm á gelískum áhrifasvæðum. 

Það eru auðvitað mörg spor gelísku í íslenzku og fjöldi orða, sem engar rætur eiga í hinum norrænu málunum, en finna má í gelísku. Þorvaldur Friðriksson gaf mörg dæmi í fyrirlestri sínum á HNLFÍ í dymbilviku 2017 um orð í íslenzku af gelískum uppruna og fjöldamörg örnefni eru af gelískum stofni. T.d. bæjarheitið Saurbær hefur verið reynt að kenna við mýri, en með gelískri skírskotun þýðir það "miklibær", og það er mun nærtækari skýring, því að flestir Saurbæir eru kostajarðir, en mýri einkennir þá ekki umfram aðrar jarðir. 

Þá eru fjöldamörg örnefni kennd við tröllkarla, skessur eða annars óþekkta landnámsmenn.  Mest er það tilbúningur sagnaritara, sem annaðhvort hafa ekki skilið merkingu orða af gelískum uppruna eða viljað breiða yfir hana með skáldskap. 

Verður mikill fengur að bók Þorvaldar um þessi efni, og er löngu tímabært að draga huluna af hinum gelíska þætti í uppruna og menningu Íslendinga. Frá hefðbundnum fræðimönnum á þessu sviði hefur hann ekki hlotið gegnrýni, þegar hann hefur kynnt kenningar sínar, enda eru þær studdar sterkari rökum en þeir sjálfir eru í færum til að styðja sitt mál. 

Í Íslendingabók skrifar Ari Þorgilsson, að hann hafi viljað varpa ljósi á uppruna Íslendinga til að kveða niður illmælgi útlendinga um, að Íslendingar væru af þrælum komnir, og er þá aðallega átt við fólk af gelískum uppruna.  Þetta er fásinna.  Í fyrsta lagi voru fjölmargir frjálsir menn í þeim hópi, sem kaus af pólitískum og öðrum ástæðum að flýja til Íslands eða leita þar betra lífs.  Í öðru lagi var vænn hópur, sem Austmenn hnepptu í þrældóm og höfðu með sér til Íslands sem nauðsynlegt vinnuafl og eru á engan hátt verri fyrir það.  Í þriðja lagi höfðu Austmenn búið á Skotlandi og á skozku eyjunum í eina öld og blandazt Keltunum, er Ísland byggðist.  Það var þannig mestmegnis blandað fólk, sem bjó við kraftmikla menningu, sem hingað kom frá gelískum áhrifasvæðum, og engin skömm að því. Einhvers staðar liggur hér fiskur undir steini. Það er líklegt, að trúarbragðadeilur og yfirgangur Rómarkirkjunnar gagnvart Keltakirkjunni hafi byrgt hérlendum mönnum sýn. 

Blekbóndi óskar lesendum gleðilegs sumars. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þorvald þekki ég að flestu góðu, og hann var einn þeirra sagnfræðinema í HÍ sem sótti kúrsus í guðfræðideild hjá Jónasi Gíslasyni (dósent, síðar prófessor, síðar vígslubiskupi í Skálholti) sem fjallaði um frumkristni á Íslandi, rætur hennar, írska menningu líka o.m.fl., og var Þorvaldur þar t.d. með umfjöllun um írska kúluhúsagerð á Íslandi, en meðal annarra sagnfræðinema var þar Bogi Ágústsson, nú yfirmaður á fréttastofu Rúv. Fullan þátt tókum við guðfræðinemar líka í þessum kúrsi, hver með sínu ritgerða/fyrirlestra-framlagi.

Langt þykir mér seilzt þegar eða ef Þorvaldur er farinn að halda því fram, að meintur "yfirgangur Rómarkirkjunnar gagnvart Keltakirkjunni" hafi birzt í því, sem ég get aðeins séð sem óstaðfesta og lítt eða ekki rökstudda samsæriskenningu (eða tilgátu?) Þorvaldar, þ.e. að Ari fróði hafi dregið "fjöður yfir eða ger[t] lítið úr hinum gelíska uppruna þjóðarinnar, þætti Vestmanna, [...] að undirlagi rómversk-katólsku kirkjunnar." Fyrr má nú vera sögufölsunar-samsærið!

Vitaskuld verður að lýsa eftir rökum fyrir þessu sem öðrum meintum samsærum.

Þakka þér annars frásögnina, Bjarni.

Jón Valur Jensson, 20.4.2017 kl. 02:55

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Valur;

Ég varð nokkuð upptendraður á téðum fyrirlestri Þorvaldar, og svo var um fleiri áheyrendur, sem töldu fyrirlesarann opna sér nýja vídd á skilningi á Íslandssögunni.  Mér þykir t.d. mun nærtækara að skýra ýmis örnefni á Íslandi út frá gelískri merkingu samstofna orða en að gleypa við þeim skýringum, sem sagnaritarar gáfu á þessum örnefnum, sem of langt mál yrði upp að telja hér, en Þorvaldur mun væntanlega gera skilmerkilega grein fyrir í bók sinni síðar á þessu ári.  Ef ég tek tilgátu Þorvaldar trúanlega, verð ég með sjálfum mér að leita skýringa á því, hvers vegna sagnaritarar höfðu ekki sannleikann að leiðarljósi við skrif sín.  Vitað er, að keltneska kirkjan viðurkenndi ekki boðvald páfans í Róm og að keltneska kirkjan, skipulag hennar og boðskapur, var með öðru sniði en rómversk-katólsku kirkjunnar.  Þetta leiddi til hugmyndafræðilegra árekstra og kannski átaka, sem ég kann ekki skil á, sem enduðu með því, að Keltar voru kúgaðir til að viðurkenna boðvald páfans og samræma kirkju sína Rómarkirkjunni.  Þessi átök kirkjunnar manna gizka ég á, að vera kunni ein skýringin á því, að gelískum áhrifum í tungu og menningu var á blómaskeiði ritlistarinnar á Íslandi gert lægra undir höfði en vert væri. 

Við skulum annars bíða bókarinnar frá Þorvaldi Friðrikssyni um þessi efni, og ég bið þig um að gagnrýna hann ekki á grundvelli skrifa minna hér að ofan um átök Rómarkirkju og Keltakirkju.  Þau eru vangaveltur leikmanns. 

Bjarni Jónsson, 20.4.2017 kl. 11:35

3 Smámynd: Hörður Þormar

Nú geta allir "innfæddir" Íslendingar nýtt sér aðstoð Odds Helgasonar ættfræðings og Íslendingabókar við að rekja ættir sínar til "frændsemi" við Donald Trump forseta Bandaríkjanna, en hann er ættaður frá Suðureyjum. Móðurafi hans var trillukarl frá Tungu í Ljóðhúsum.smile

Hörður Þormar, 20.4.2017 kl. 16:15

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sjálfstæðar konur voru eflaust fleiri í hópi landnámsmanna en sagan hampar.  Ein formóðir mín flúði td frá Noregi með 4 börn sín eftir að bóndi hennar hafði verið drepinn af þáverandi konungsmönnum þar, helgaði sér land og reisti sér bæ að Fjallabaki.  Sú eignaðist síðar annan mann "íslenskan", föður Njáls á Bergþórshvoli.  Reyndar er ég sjálf afkomandi eins norsku barnanna en ekki Njáls - eins og ég hef getað rakið í Íslendingabók.

Kolbrún Hilmars, 20.4.2017 kl. 17:18

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Hörður Þormar og Kolbrún Hilmars;

Já, ekki hefur það allt vakurt verið, sem frá Suðureyjum kom frekar en annars staðar frá.  Annars virðist Donaldi (Þorvaldi ?) Trump svipa meir til föður síns, skarfs frá Kallstadt í Pfalz en til móðurkynsins.

Það má nærri geta, að væringar hafa verið á milli landnámsmanna og afkomenda þeirra frá hinum Norðurlöndunum annars vegar og hins vegar landnámsmanna og afkomenda frá gelísku svæðunum vegna ólíks menningarheims þessa fólks.  Ég get mér þess til, að þetta sé aflvaki margra sögulegra atburða hérlendis, þegar úr þessum þjóðum var að verða ein þjóð. 

Þessi norska formóðir þín, Kolbrún Hilmars, hefur verið mikil afrekskona.  Driffjöður landnámsins voru einmitt miklar róstur í heimalöndum landnámsmanna, og þeir, sem ekki vildu beygja sig fyrir sigurvegurunum eða eiga líf sitt undir þeim, drifu sig í langferð til eyjarinnar í norð-vestri.

Samkvæmt Íslendingabók er ég kominn út af frægasta Sturlunginum, en hið sama hygg ég fjölmarga fá út úr Íslendingabók, ef þeir leita eftir. Það er athyglivert, að höfundur Egilssögu, sem talinn er vera Snorri Sturluson, eyðir miklu púðri í að útmála norskan uppruna forfeðra sinna, en ég minnist ekki, að miklu rými sé varið til að gera grein fyrir uppruna Sturlunga á Suðureyjum, en þaðan kom formóðir þeirra, Auður, djúpúðga.  Þetta getur vart verið tilviljun, og ég hygg pólitískar ástæður á ritunartíma sagnanna liggja til grundvallar því að beina sífellt athyglinni frá gelíska upprunanum og beina kastljósinu að norska upprunanum. 

Þetta breytir ekki því, að ritmenning Íslendinga og skáldskaparhefð á sér rætur á keltnesku menningarsvæði Skotlands og Írlands, þar sem sérútgáfa af kristni hafði verið við lýði í a.m.k. tvær aldir, þegar Ísland byggðist. 

Bjarni Jónsson, 20.4.2017 kl. 22:01

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessi áherzla á vestrænu áhrifin (keltnesku og af Bretlandseyjum) er skýrt og skemmtilega framsett hjá hinum ritsnjalla dr. Guðmundi Finnbogasyni landsbókaverði og heimspekingi í hans veglega riti Íslendingar.

Eitt er rétt: að nokkurt reiptog var milli írskrar og rómverskrar kristni (naumast þó um kristna trú sem slíka, heldur meira um hárskurð og hátíðar, skipulag o.fl.). Hitt tel ég nýja flugusmíð Þorvaldar: að Íslendingabók og önnur skrif Ara fróða hafi þjónað geopólitískri valdabaráttu Rómarkirkjunnar. Enga nauðsyn bar til slíks. En það er alltaf verið að eigna honum einhverja hagsmunagæzlu, blessuðum manninum, ef ekki fyrir kirkjuna, þá fyrir jarðeigendur!

Jón Valur Jensson, 23.4.2017 kl. 04:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband